A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1358 í Strandabyggð, 12. mars 2024

Sveitarstjórnarfundur nr. 1358 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 12. mars kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir varaoddviti, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 21.febrúar 2024 – til staðfestingar

a. Beiðni um fjárhagslegan stuðning til Innviðaráðuneytis
b. Staðsetning Lillaróló

2. Samningar við verktaka lagðir fyrir til samþykktar
a. Málval vegna endurbóta í grunnskóla
b. Raflux vegna endurbóta í grunnskóla

3. Óbyggðanefnd erindi frá 12. febrúar 2024, varðandi kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“

4. Matvælaráðuneytið erindi varðandi regluverk um búfjárbeit

5. Land og skógur, erindi frá 27. febrúar 2024 varðandi endurskoðun fyrirkomulags stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt

6. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar

7. Samgöngusáttmáli Vestfjarða

8. Fundargerð Ungmennaráðs frá 17. febrúar 2024

9. Fundargerð Sterkra Stranda frá 1. febrúar 2024

10. Fundargerð Velferðarnefndar frá 6. mars 2024

11. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. mars 2024

12. Fundargerð Sorpsamlags Strandasýslu frá 9. febrúar 2024

13. Forstöðumannaskýrslur

14. Vinnuskýrsla sveitarstjóra

15. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerð nr. 145 frá 19. janúar 2024

16. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 146 frá 15. febrúar 2024 ásamt ársreikningi 2023

17. Vestfjarðarstofa fundargerðir nr. 58 frá 10. janúar 2024 og nr. 59 frá 14. febrúar 2024

18. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 943 frá 9. febrúar 2024 og nr. 944 frá 23. febrúar 2024

19. Hafnasamband Íslands fundargerð nr. 461 frá 16. febrúar 2024

Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd er gerð við fundarboðið.

Matthías Sævar Lýðsson leggur til að tekið verði inn afbrigði á fundinn sem er bréf frá Sambandi sveitarfélaga um áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar 2024.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka inn afbrigðið sem verður númer 20 á dagskránni og heitir liðurinn: Erindi frá Sambandi sveitarfélaga varðandi áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og vegna kjarasamninga 2024.


Þá var gengið til umræðu.


1. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 21.febrúar 2024 – til staðfestingar

Oddviti rakti efni vinnufundarins. Tvö mál á fundinum voru afgreidd með samþykki sveitarstjórnar, sem nú er staðfest formlega af sveitarstjórn á þessum fundi. Þar er um að ræða eftirtalin mál:

a. Beiðni um fjárhagslegan stuðning til Innviðaráðuneytis.

Oddviti sagði frá því að hann hefði rætt við fulltrúa ráðuneytisins sem ráðlagði sveitarstjórn að sækja um fjármagn vegna innviðauppbyggingar. Kom fram að þar sem endurbygging grunnskólans er íþyngjandi fyrir fjárhag sveitarfélagsins og setur ýmis önnur verkefni á frest, sé rökrétt að sækja um fjárhagslegan stuðning vegna íþyngjandi innviðauppbyggingar.


Oddviti leggur því til að sveitarstjórn staðfesti ákvörðun sína frá vinnufundinum, og feli sveitarstjóra að gera drög að bréfi til ráðuneytisins. Samþykkt samhljóða.


b. Staðsetning Lillaróló.

Oddviti rakti tilurð þessarar umræðu og lagði til að sveitarstjórn staðfesti samþykkt sína frá vinnufundi, um að; a) færa Lillaróló á túnið við ærslabelginn og b) setja upp annan leikvöll á Galdratúninu.

Oddviti leggur því til að sveitarstjórn staðfesti ákvörðun sína frá vinnufundinum Samþykkt samhljóða.


2. Samningar við verktaka lagðir fyrir til samþykktar

a. Málval vegna endurbóta í grunnskóla
b. Raflux vegna endurbóta í grunnskóla

Oddviti sagði frá vinnu verktakanna og gaf orðið laust.

A-listinn óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


“Samningar um veruleg útgjöld, sem gerðir eru á vegum sveitarfélagsins, þarf að bera undir sveitarstjórn áður en skrifað er undir þá. Það var ekki gert í þessu tilfelli.

Í samningi við Málval teljum við ástæðulaust að gera ráð fyrir lengri akstursvegalengd en þörf er á. Samningurinn við Raflux er óskýr og gallaður. Í honum eru tvítekningar, engin ákvæði um verklok og upphæðir án eininga.”


Oddviti þakkar fínar ábendingar. Ferlið var í höndum verkefnisstjóra og var allt borið undir sveitarstjórn á sínum tíma. Framvegis munu allir samningar verða rýndir af sveitarstjórn fyrir samþykki samnings með tilliti til forms og orðalags.


Oddviti leggur til að í samingurinn við Málval verður staðfestur. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


Oddviti leggur til að samingurinn við Raflux með endurskoðuðu orðalagi verður staðfestur. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


3. Óbyggðanefnd erindi frá 12. febrúar 2024, varðandi kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“

Oddviti sagði frá því að rætt hefur verið við lögmann sveitarfélagsins, Björn Jóhannesson, sem er reiðubúinn að koma á íbúafund um þetta málefni, ef þurfa þykir. Þessar kröfur Óbyggðanefndar ná til nokkurra landeigenda í Strandabyggð og er rétt að hvetja þá til að leita sér sérfræðiaðstoðar vegna þessa.

A-listinn leggur fram eftirfarandi tillögu:

“Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á Fjármála-og efnahagsráðherra að draga til baka kröfur um Þjóðlendur á svæði 12 sem bárust Óbyggðanefnd 2. febrúar síðastliðinn. Kröfulýsing fjármála og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins er illa unnin og óskýr. Ástæða er til að ætla að málarekstur fyrir óbyggðanefnd verði mjög kostnaðarsamur og tímafrekur, þar sem um er að ræða mörg lögfræði- og landfræðileg álitamál og afar margir eigendur að þeim eyjum og skerjum sem gerð er krafa í.
Sveitarstjórn Strandabyggðar tekur undir með Fjármála- og efnahagsráðherra um nauðsyn þess að fara vel með almannafé og að í ljósi aðstæðna í samfélaginu þurfi að forgangsraða verkefnum. Sveitarstjórn telur að þetta verkefni eigi ekki heima í forgangsröðinni og því sé hægt að fresta.”


Jón Sigmundsson tekur til máls og tekur undir tillögur A-lista, hann telur einnig að þessar tillögur ætti að útfæra betur og að kröfur Óbyggðanefndar yrðu afar kostnaðarsamar. Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir tekur undir með Jóni.


Oddviti ber tillöguna undir atkvæði og er tillagan samþykkt samhljóða. Sveitarstjóra er falið að tilkynna til ráðherra og kynna bókunina á heimasíðu sveitarfélagsins. Að auki er sveitarstjóra falið að hvetja landeigendur til að leita sér sérfræðiaðstoðar.


4. Matvælaráðuneytið erindi varðandi regluverk um búfjárbeit

Oddviti bað Matthías Sævar Lýðsson að taka til máls og segja frá þessu erindi. Matthías rakti útskýringar ráðuneytisins og afstöðu þess.

Oddviti þakkar Matthíasi fyrir yfirferðina. Sveitarstjórn felur Matthíasi að taka saman yfirlit um breytingar sem sveitarfélagið þarf að skoða, þar með talið fjallskilareglur og samþykkt um búfjárhald í Strandabyggð.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

5. Land og skógur, erindi frá 27. febrúar 2024 varðandi endurskoðun fyrirkomulags stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt
Oddviti bað Matthías Sævar Lýðsson að taka til máls og segja frá þessu erindi.

Matthías Sævar Lýðsson lagði til að Landi og skógi verði þakkað fyrir erindið og efnislegri umræðu vísað til næsta fundar. Sveitarstjóra er falið að koma þessu í farveg.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

6. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar

Oddviti sagði frá vinnu við áætlunina og gaf síðan orðið laust. Oddviti óskaði eftir því að sveitarstjórn samþykkti áætlunina með handauppréttingu.

Jón Sigmundsson tekur til máls og fagnar því að meiri bjartsýni ríki í nýrri húsnæðisáætlun en áður.

Hlíf Hrólfsdóttir tekur til máls og tekur fram að húsnæðisáætluninin hafi ekki borist til fundarmanna fyrr en í gær þá telji hún sig ekki geta samþykkt áætlunina.

Oddviti leggur til, að þar sem fundarmenn hafi ekki getað kynnt sér áætlunina í tíma fyrir fundinn, verði umræðu frestað til næsta sveitarstjórnarfundar. Samþykkt samhljóða.

7. Samgöngusáttmáli Vestfjarða

Oddviti rakti tilurð þessa máls, allt frá umræðu á Fjórðungsþingi sl. haust í Bolungarvík. Lagði oddviti síðan fram eftirfarandi tillögu að bókun sveitarstjórnar:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar þeim hugmyndum sem settar eru fram í samgöngusáttmálanum og tekur undir með Guðmundi Fetram Sigurjónssyni að samgöngumál á Vestfjörðum séu komin í öngstræti. Nægir þar að nefna langa sögu umræðu um Álftafjarðargöng, lagfæringu á Innstrandarvegi, vegasamgöngur í Árneshreppi og umræðu um Suðurfjarðagöng um Mikladal og Hálfdán, svo nokkur brýn verkefni séu tilgreind. Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir sig reiðubúna til samstarfs og mun tilnefna fulltrúa sinn í þessa vinnu, þegar þess verður óskað. Þakkar sveitarstjórn Guðmundi fyrir að vekja máls á þessari stöðu en ekki síður fyrir að benda á nýjar leiðir til fjármögnunar þessara framkvæmda“.

Orðið gefið laust. Oddviti óskaði samþykkis sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma bókuninni á framfæri.


8. Fundargerð Ungmennaráðs frá 17. febrúar 2024

Sveitarstjórn áréttar að Ungmennaráð leggi fram fundaáætlun og leiti aðstoðar við skipulag og framkvæmd funda. Sveitarstjóra falið að ræða við Ungmennaráð þannig að áherslur þeirra samræmist stjórnsýslu og verkefnum sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.


9. Fundargerð Sterkra Stranda frá 1. febrúar 2024

Oddviti gaf fulltrúa sveitarfélagsins í verkefnastjórn Sterkra Stranda, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, orðið og hún rakti efni fundarins. Fram kom í máli Sigríðar að hún sitji ekki lengur í úthlutunarnefnd Sterkra Stranda.

Oddviti tekur fram að honum þyki umhugsunarvert að fulltrúi sveitarfélagsins sé ekki lengur í úthlutunarnefndinni. Hyggst oddviti taka þetta upp við formann verkefnastjórnar Sterkra Stranda.

Matthías Sævar Lýðsson tekur undir með oddvita þar sem formaður verkefnastjórnar hafi lagt ríka áherslu á gott samstarf við sveitarfélagið.


10. Fundargerð Velferðarnefndar frá 6. mars 2024

Oddviti gaf formanni nefndarinnar, Matthíasi Sævari Lýðssyni, orðið.

Fram kom í máli formanns að Strandabyggð hafi ekki skipað fulltrúa í fulltrúaráð Velferðarþjónustu Vestfjarða.

Oddviti telur að ástæðan sé sú að samningurinn sé á borði ráðuneytisins og því ekki formgerður enn.

Fram kom að skipa þurfi bakvaktaraðila í barnaverndarmálum í heimabyggð.

Fundargerðin að öðru leiti lögð fram til kynningar.


11. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. mars 2024

Oddviti gaf formanni nefndarinnar, Matthíasi Sævari Lýðssyni, orðið.

Varðandi lið nr. 1 sem er umsókn um stofnun tveggja lóða að Miðhúsum. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki umsóknirnar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið nr. 2 sem er umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu fjárhúsa að Miðhúsum. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki umsóknina. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið nr. 3 sem er umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við fjárhús í Steinadal. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki umsóknina. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


12. Fundargerð Sorpsamlags Strandasýslu frá 9. febrúar 2024

Oddviti, sem formaður stjórnar Sorpsamlagsins, rakti efni fundarins. Orðið gefið laust. Góð umræða spannst um möguleika Sorpsamlagsins til frekari vaxtar og þær lausnir sem eru í sjónmáli. Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar


13. Forstöðumannaskýrslur

Orðið gefið laust. Lagðar fram til kynningar.


14. Vinnuskýrsla sveitarstjóra

Orðið gefið laust. Sveitarstjóri fór meðal annars yfir umræður í Strandanefndinni, verkefni sem tengjast mögulegum varmadælukerfum og innleiðingu farsældarlaga og barnvæns samfélags.


15. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerð nr. 145 frá 19. janúar 2024

Oddviti sagði frá því að nú væri kallað eftir samþykki sveitarstjórna á Vestfjörðum varðandi viðauka við samninga um rekstur náttúrustofa. Sagðist oddviti efins um að Strandabyggð ætti lengur heima í þeim hópi, þar sem áform NAVE um stöðugildi í Strandabyggð, virkuðu ósannfærandi og ekki líkleg til að verða að veruleika. Oddviti gaf síðan fulltrúa Strandabyggðar í stjórn NAVE, Matthíasi Sævari Lýðssyni, orðið.

Matthías leggur til að við nýtum Strandanefndina og sækjum til baka eitt stöðugildi til Strandabyggðar ella verði aðild að Náttúrustofu Vestfjarða sjálfhætt. Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.


16. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 146 frá 15. febrúar 2024 ásamt ársreikningi 2023

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lagt fram til kynningar.


17. Vestfjarðarstofa fundargerðir nr. 58 frá 10. janúar 2024 og nr. 59 frá 14. febrúar 2024

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lagt fram til kynningar.


18. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 943 frá 9. febrúar 2024 og nr. 944 frá 23. febrúar 2024

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lagt fram til kynningar.


19. Hafnasamband Íslands fundargerð nr. 461 frá 16. febrúar 2024

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lagt fram til kynningar.


20. Erindi frá Sambandi sveitarfélaga varðandi áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og vegna
kjarasamninga 2024


Sveitarstjórn Strandabyggðar tekur jákvætt í erindið með það til hliðsjónar að samkomulagið stuðli að langtímakjarasamningum og stöðugleika. Sveitarstjórn stillti sínum gjaldskrárhækkunum í hóf vegna ársins 2024 og telur þar með að sveitarfélagið sé innan marka áskorunarinnar sem eru 3,5% hækkanir. Unnið verður úr áskorunum um gjaldfrjálsan hádegisverð grunnskólabarna með skólastjóra. Að auki bendir sveitarstjórn á, að í aðalskipulagstillögum verði blönduð byggð í Brandsskjólum með allt að 20 íbúðum, sem mætir áskorunum um aukið húsnæðisframboð.


Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 18.52

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón