A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1368, 10.09.2024

Sveitarstjórnarfundur 1368 í Strandabyggð 

Fundur nr. 1368 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 10. september kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Óskar Hafsteinn Halldórsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2024
  2. Lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga
  3. Orkustofnun, samningur um styrk til orkuskipta
  4. Erindi frá Halldóru Halldórsdóttur 2. september 2024 v. launa í námslotum
  5. Erindi til sveitarstjórnar – Kvennaathvarfið: umsókn um rekstrarstyrk fyrir árið 2025 3. September 2024
  6. Erindi sveitarstjóra vegna niðurskurðar á lottótekjum ÍSÍ/UMFÍ ásamt Áskorun HSS til sveitarfélaga 6. September 2024
  7. Fundargerð aðalfundar Sorpsamlags Strandasýslu frá 30. ágúst sl. ásamt ársreikningi 2023
  8. Fundargerð TÍM nefndar nr. 83  frá 2. september 2024
  9. Fundargerð FRÆ nefndar frá 4. september 2024
  10. Fundargerð US nefndar frá 5. september 2024
  11. Verkefni sveitarstjóra í ágúst
  12. Forstöðumannaskýrslur í ágúst
  13. Umræða um tillögur Strandanefndarinnar
  14. Umræða um stöðu mála í framkvæmdum við Grunnskólann og áfallinn kostnað
  15. Umræða um stöðu mála varðandi Íþróttamiðstöð og kostnaður við framkvæmdir
  16. Kollafjarðarrétt og samningar þar um
  17. Aðrir samningar vegna rétta
  18. Vestfjarðarstofa erindi um samstarfsnet um farsæld barna
  19. Forgangsröðun vegaframkvæmda og fjarskiptamála í Dalabyggð
  20. Tillaga Svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs
  21. Fundargerð 464. Fundar Hafnasambands Íslands frá 15. ágúst 2024
  22. Fundargerð 6. fundar Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða frá 13.8.24
  23. Fundargerð 61. fundar og 62. fundar Stjórnarfundar Vestfjarðarstofu frá 12. júní og 28. ágúst 2024

Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.

Þá var gengið til umræðu.


1. Viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2024

Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið sem útskýrði framlagðan viðauka III.


Lagður er fram svohljóðandi viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins
2024 á fundi sveitarstjórnar þann 10. september 2024.


Framkvæmdir:
a.Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2024
ásamt Viðauka II var gert ráð fyrir framkvæmdakostnaði allt að 190.000.000 en ljóst er
að sú tala er of lág. Framkvæmdir við grunnskólann, þ.e þessi verkhluti, er mjög langt
kominn og lokakaflinn og frágangur eftir. Erfitt hefur reynst að áætla suma
kostnaðarliði en heilt yfir má segja að framkvæmdir hafi gengið vel og engin alvarleg
frávik komið upp. Lagt er til að framkvæmdakostnaður 2024 hækki úr 190.000.000 í kr.
214.150.000 eða hækkun um 24.150.000.


b. Hækkun framkvæmdakostnaðar vegna réttarsmíði í Kollafirði. Í upphaflegri
fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir kostnaði kr. 4.500.000 en ljóst er að sú upphæð dugar
ekki til. Lagt er til að fjárhagsáætlun hækki um 3.000.000 kr. og verði 7.500.000 kr.


c. Frestun framkvæmda við þjónustustöð. Lagt var til við gerð fjárhagsáætlunar 2024 að
malbikað yrði við þjónustustöð og loft hússins klætt. Í upphaflegri áætlun var gert
ráð fyrir framkvæmdafé kr. 2.150.000. Ekki hefur náðst að vinna þessa framkvæmd á
árinu og því er lagt til hér að fjármunir verði færðir til annara framkvæmda.


d. Frestun framkvæmda við Félagsheimili. Lagt var til við gerð fjárhagsáætlunar 2024 að
gert yrði við innihurðir, þak og þak málað sem og lagfært aðgengi fatlaðra fyrir kr.
4.500.000. Ljóst er að ekki næst að framkvæma nema hluta af þeim viðgerðum og er
lagt til að kr. 3.000.000 verði færðar til annara framkvæmda.


e. Frestun framkvæmda við tjaldsvæði. Lagt var til við gerð fjárhagsáætlunar 2024 að
keypt yrði sjálfsafgreiðslukerfi f. þvottavélar og þurrkara, keypt yrðu leiktæki og svæðið
hannað. Einnig yrði rafmagnstenglamál bætt. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á kr.
2.000.000 og framkvæmt hefur verið fyrir helming þess fjár en lagt er til að 1.000.000
færist til annara framkvæmda.

Samtals hljóðar þessi tilfærsla og viðauki III upp á 19.000.000.


Ljóst er að frekari fjármögnunar er þörf þar sem heildarframkvæmdir ársins við fara úr tæpum 230 milljónum í tæpar 400 milljónir. Kemur þar til að nokkrum verkþáttum í grunnskóla eins og loftræstikerfi, varmadælu og “sprinkler” kerfi var flýtt í stað þess að vinnast á næstu 2-3árum. Einnig reyndist erfitt að áætla tímaramma verkþátta í grunnskóla, eins og t.d. allri raflagnavinnu. Á sama tíma hafa framlög Jöfnunarsjóðs dregist saman en á móti hefur Strandabyggð selt hlut sinn í Fiskmarkaði og hlotið styrk frá sjóðum. Ekki náðist þó að draga saman raunþörf frekari lántöku fyrir útsendingu fundargagna og verður það unnið frekar fram að næsta fundi sveitarstjórnar.

      
A listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

“Í þeim viðauka sem hér er lagður fram kemur fram að útgjöld vegna endurgerðar Grunnskólans eru mun meiri en gert var ráð fyrir. En eins og segir í textanum með viðauka III „Ljóst er að frekari fjármögunar er þörf þar sem heildarframkvæmdir ársins fara úr tæpum 230 milljónum í tæpar 400 milljónir.“ Gera verður ráð fyrir að heildarframkvæmdakostnaður ársins verði enn hærri, framkvæmdum ársins er ekki lokið. Eins kemur fram að: „Ekki náðist þó að draga saman raunþörf á frekari lántöku fyrir útsendingu fundargagna og verður það unnið frekar fram að næsta fundi sveitarstjórnar.“

 

Það er umhugsunarvert og áhyggjuefni að sveitarstjórn og sveitarstjóri fylgist ekki betur með fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, að vegna „fjárflæðisvanda“ þurfti að sækja yfirdráttarheimild fyrir Strandabyggð á síðasta virka degi ágústmánaðar.

Sveitarstjórnarmenn A-lista óska eftir að á næsta fundi sveitarstjórnar geri endurskoðandi sveitarfélagsins grein fyrir áhrifum af auknum lántökum og útgjaldaauka á fjárhagsstöðu, skuldahlutfalli og möguleikum á framkvæmdum á næstu árum.   

 

Oddviti tók til máls og tók undir með A-lista fólki og útskýrði nánar ýmsa verkþætti, fjölgun þeirra og viðbótarkostnað við framkvæmdir í grunnskóla. Kostnaðaraðhald þurfi auðvitað að vera til staðar en erfitt hafi verið að sjá alla þessa verkþætti fyrir.


Aðrir tóku ekki til máls. Viðaukinn er lagður fram til samþykktar sveitarstjórnar og er hann samþykktur samhljóða.


2. Lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga

Oddviti gaf orðið laust til skrifstofustjóra sem kynnti lántökuna.

 

Ákvörðun um að taka lán nr. 2409_45 hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:


Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá
Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 40.000.000,- , með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.

Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta,
dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr.
sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til
sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.


Er lánið tekið til endurfjármögnunar afborgana eldri lána sveitarfélagsins hjá Lánasjóðnum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni, sveitarstjóra, kt. 100463-5989 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

 

Oddviti gaf orðið laust.

 

Matthías Lýðsson óskaði eftir upplýsingum um upphæð vaxta af lánaafborgunum Strandabyggðar. Því verður svarað á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

Oddviti bar afgreiðslu lánsins upp til samþykktar sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkir lántökuna samhljóða.


3. Orkustofnun, samningur um styrk til orkuskipta

Oddviti rakti forsögu máls. Oddviti segir það verulegt gleðiefni að sveitarfélagið hafi fengið þennan styrk, því það sýni að þau verkefni sem sveitarfélagið ræðst í, eru metin nauðsynleg og raunhæf. Því næst gaf oddviti orðið laust.


Matthías Lýðsson tók til máls og vakti athygli á 3. gr. samningsins um styrkhlutfallið.


Lagt fram til kynningar.


4. Erindi frá Halldóru Halldórsdóttur 2. september 2024 v. launa í námslotum

Óskar Hafsteinn Halldórsson taldi sig vanhæfan við þennan málslið og vék af fundi. Grettir Örn Ásmundsson tekur hans sæti á fundinum undir þessum lið.

 

Oddviti rakti efni máls. Halldóra Halldórsdóttir hefur hafið nám í þroskaþjálfafræðum sem mun standa til 2027 og óskar hún eftir að fá greidd laun í námslotum og eftir tilvikum fjartímum.

 

Oddviti leggur til að erindið verði samþykkt gegn því að tilhlýðandi gögnum skv. reglum um námsleyfi verði skilað.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og skrifstofustjóra er falið að kalla eftir gögnum sem vantar.

 

Grettir Örn Ásmundsson víkur af fundi og Óskar Hafsteinn Halldórsson tekur sæti aftur á fundinum.


5. Erindi til sveitarstjórnar – Kvennaathvarfið: umsókn um rekstrarstyrk fyrir árið 2025, 3. september 2024

Oddviti rakti erindi máls og sagði ljóst að þarna væri mikil þörf fyrir stuðning.

 

Óskar Halldórsson tók til máls og taldi í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins ætti þetta að bíða til næsta árs.

 

Hlíf Hrólfsdóttir á erfitt með að neita þessu erindi og Matthías Lýðsson tók undir það. Matthías leggur til að styrkupphæð verði 100.000.

Oddviti tekur undir með Óskari og telur erfitt að setja fjármagn í þetta góða starf sem stendur og leggur til að bíða með stuðning til næsta árs.

Tillaga Óskars Halldórssonar er samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en A-lista fólk situr hjá við atkvæðagreiðslu.


6. Erindi sveitarstjóra vegna niðurskurðar á lottótekjum ÍSÍ/UMFÍ ásamt áskorun HSS til sveitarfélaga 6. september 2024

Oddviti rakti erindi máls og sagði frá fundi sveitarstjórnar með svæðisfulltrúum ÍSÍ/UMFÍ á Vestfjörðum. Einnig sagði oddviti frá bréfi formanns HSS. Það er alveg ljóst að þessi breyting á skiptingu lottótekna er ekkert annað en aðför að íþrótta- og lýðheilsustarfi á landsbyggðinni og hjá litlum félögum og mun einungis leiða til fækkunar iðkenda. HSS verður t.d. ekki í stakk búið eftir þessa breytingu til að halda úti framkvæmdastjóra. Lagði oddviti til að sveitarstjórn bókaði um málið og vísaði þar í texta í minnisblaði sínu, sem er fundargagn undir þessum lið. Einnig lagði oddviti til að óskað verði eftir fundi með ÍSÍ og UMFÍ vegna þessa.

 

„Nú nýverið bárust sveitarstjórn Strandabyggðar þær upplýsingar að vegna breytinga á
fyrirkomulagi á skiptingu lottótekna milli íþróttafélaga, væri grundvelli kippt undan
starfsemi Héraðssambands Strandamanna (HSS). Niðurskurðurinn er úr 5 milljónum í um 500 þúsund, ef rétt er, segir allt sem setja þarf. Það má öllum vera ljóst að slík skerðing er rothögg við alla starfsemi HSS og verður þess valdandi að ekki verður hægt að halda úti stöðu framkvæmdastjóra. Eftirfarandi textabútur, sem kemur frá formanni HSS, lýsir stöðunni vel:

HSS á undir högg að sækja fjárhagslega vegna skerðinga á lottótekjum. Þegar fjármagn er skert um 90% er erfitt að efla og halda úti góðu starfi. Einnig hefur fámennið mikil áhrif og nú þegar eru aðildarfélög að verða óvirk og eitt félag er hætt.
Koma svæðisstöðvanna væri aldeilis frábær ef þær hefðu verið viðbótarstuðningur til
héraðssambandanna til að virkja tengilið héraðssambanda en svo er því miður ekki því hjá fámennum héraðssamböndum er allt fjármagn tekið af þeim og yfirfært á
svæðisstöðvarnar“.

Hver sá sem mótaði þessar tillögur getur varla hafa séð fyrir þau áhrif sem þessi breyting hefur í för með sér fyrir HSS og mörg minni íþróttafélög og héraðssambönd. Hafi viðkomandi séð þetta fyrir, er erfitt að skilja að slíkar tillögur hafi verið lagðar fram.

Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega þeirri aðför sem hér er gerð að íþróttastarfi í Strandabyggð og um land allt og varar við afleiðingum þess á forvarnarstarf, lýðheilsu og andlega heilsu ungmenna og allra þeirra sem stunda íþróttir og eiga mikið undir öflugu starfi félaga og samtaka.”


Sveitarstjóra Strandabyggðar er falið að óska eftir fundi með fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ og koma þar mótmælum sínum á framfæri og auk þess að senda bókunina á viðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu málsins.


7. Fundargerð aðalfundar Sorpsamlags Strandasýslu frá 30. ágúst sl. ásamt ársreikningi 2023

Oddviti sagði frá fundinum og helstu niðurstöðu hans. Orðið gefið laust.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og spurði hvar aðalfundurinn hafi verið auglýstur og hverjir hafi fengið fundarboð.

 

Oddviti sagði frá að fundarboð hefði verið sent á stjórnarmenn. Það var handvömm að fundurinn var ekki auglýstur opinberlega.

 

Matthías Lýðsson nefndi að aðildarsveitarstjórnir hefðu átt að fá fundarboð um aðalfundinn. Ennfremur tók Matthías fram nokkur atriði sem hann óskaði útskýringar á, meðal annars kostnað við kaup á vinnufatnaði og umfang aukinna umsvifa.

 

Oddviti útskýrði fyrir sveitarstjórn ýmis atriði og vangaveltur.

 

Að öðru leiti er fundargerð og ársreikningur lögð fram til kynningar

8. Fundargerð TÍM nefndar nr. 83 frá 2. september 2024

Oddviti gaf Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, formanni TÍM nefndar orðið. Sigríður fór yfir fundargerðina og útskýrði umræður fundarins.

 

Oddviti fagnar umræðu í lið nr. 10 sem og umræðu undir liðum 7 og 8.

 

Varðandi lið nr. 12 og fyrsta atriði í þeirri umræðu um auglýsingu á stöðu tómstundafulltrúa, staðfestir sveitarstjórn umræðu sína frá vinnufundi 2. september 2024 um að auglýsa eftir tómstundafulltrúa í 70% stöðu til eins árs. Sveitarstjórn staðfestir ákvörðun sína frá vinnufundinum.

                    
Fundargerðin lögð fram til kynningar að öðru leiti.


9. Fundargerð FRÆ nefndar frá 4. september 2024

Oddviti, sem er formaður FRÆ nefndar, sagði frá fundinum.

 

Varðandi lið nr. 5 sem er erindisbréf fræðslunefndar er það lagt fram til staðfestingar sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkir erindisbréfið samhljóða.

 

Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

10. Fundargerð US nefndar frá 5. september 2024

Oddviti gaf Matthíasi Sævari Lýðssyni, formanni US nefndar, orðið.

 

Varðandi lið nr. 1 sem er afgreiðsla Aðalskipulags Strandabyggðar 2021-2033 leggur nefndin til að sveitarstjórn samþykki tillöguna. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 2 sem er tillaga á vinnslustigi að deiliskipulagi Kvíslatunguvirkjunar, leggur nefndin til að sveitarstjórn samþykki að leggja tillöguna fram til kynningar. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 3  sem er er erindi frá Hólmadrangi um breytt staðfang, leggur nefndin til að sveitarstjórn samþykki erindið. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 4 sem er erindi frá Hólmadrangi um breytt lóðarmörk, leggur nefndin til að erindinu verði hafnað. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum. Matthías Lýðsson situr hjá.

 

Varðandi lið nr. 5 sem er erindi frá Hólmadrangi um færslu á matshluta, leggur nefndin til að erindið verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 6 sem er umsókn frá Ísaki Lárussyni v. framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt, leggur nefndin til að umsóknin verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 7 sem er umsókn frá Naomi Desirée Bos um skógrækt í landi Fells þá leggur nefndin til að erindinu verði frestað. Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 8, sem er umsókn um framkvæmdarleyfi frá Hraðfrystihúsinu Gunnvör hf um lagningu nýrrar hitaveitulagnar á Nauteyri, leggur nefndin til að umsóknin verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 9, sem er umsókn um stækkun lóða að Borgabraut 25, 27 og 29, leggur nefndin til að sveitarstjórn samþykki stækkun lóðanna. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum, Þorgeir Pálsson situr hjá.


Varðandi lið nr. 10 sem fjallar um deiliskipulag í Skeljavík, leggur nefndin til breytingu á vegtengingu skv. tillögu. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.


Fundargerðin lögð fram til kynningar að öðru leiti.


11. Verkefni sveitarstjóra í ágúst

Orðið gefið laust.

 

Matthías Lýðsson kveður sér hljóðs og veltir fyrir sér samningi við verktaka sem tók að sér flísalögn á pottum í Íþróttamiðstöð og hvers vegna þeim framkvæmdum sé ekki lokið. Oddviti útskýrir tafir málsins. Ennfremur spyr Matthías út í hótelbyggingu og stöðuna. Oddviti segir að næsta mál sé að leggja til deiliskipulagslýsingu af svæðinu og verði hún lögð fram í október. Unnið sé að henni í samráði við Landmótun og Fasteignaumsýsluna.


12. Forstöðumannaskýrslur í ágúst

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls.


13. Umræða um tillögur Strandanefndarinnar

Oddviti sagði frá stöðu máls, og að tillögurnar verði lagðar fyrir ríkisstjórn í september eða október. Orðið gefið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls og telur að taka þurfi sérstaklega fyrir tillögur nefndarinnar þegar yfirferð ríkisstjórnar liggi fyrir. Sveitarstjórn tekur undir orð Matthíasar.


14. Umræða um stöðu mála í framkvæmdum við Grunnskólann og áfallinn kostnað

Oddviti rakti stöðuna. Ljóst er að framkvæmdir eru á lokastigi. Það er líka ljóst, að ráðist var í fleiri verkþætti í ár en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur aukið kostnað verulega, auk þess sem mjög erfitt var að áætla marga verkþætti. Að öðru leyti sagðist oddviti ekki tilbúinn að leggja fram endanlega samantekt og mat á kostnaði og var hann búinn að tilkynna sveitarstjórn um það. Gert er ráð fyrir vinnufundi með fulltrúa VERKÍS um kostnað við framkvæmdir á næstu dögum. Endanlegt minnisblað verður lagt fram síðar. 

Orðið gefið laust.


Matthías Lýðsson tekur til máls og segir að auðvitað séu einhverjir hnökrar á framkvæmd og frágangi en hann vill gjarnan sjá samning við Verkís um byggingarstjórn.


15. Umræða um stöðu mála varðandi Íþróttamiðstöð og kostnaður við framkvæmdir

Oddviti sagði frá því að nú er komin af stað vinna við að flísaleggja pottana tvo sem hafa verið bilaðir í áraraðir. Hefur ekki verið veitt tilskyldu fjármagni í viðhald á þeim, fyrr en nú.

 

Matthías Lýðsson tekur fram að ljóst sé að einhverjir hnökrar hafi komið fram þá sé ekki við sveitarfélagið að sakast en hann harmar að ekki hafi tekist að klára framkvæmdina í sumar.

 

Oddviti tekur fram að því beri að fagna að loksins sjái fyrir endan á viðgerðum á pottunum eftir áralanga bið og að nú muni vera hægt að bjóða upp á nuddpott á staðnum.


16. Kollafjarðarrétt og samningar þar um

Oddviti rakti forsögu þessa máls, þar sem búið var að auglýsa eftir tillögum að réttarstæði og umfangi, auk þess sem auglýst var tvisvar eftir verktökum í réttarsmíðina.  Í bæði skiptin barst óraunhæft tilboð frá sama aðila. Eftir að sú staða blasti við að líklega yrði ekkert af réttarsmíði í ár, buðust hjónin í Steinadal til að taka að sér verkið. Náðist samkomulag þar um og er nú komin sterkleg og góð rétt á fínum stað í landi Litla-Fjarðarhorns. Oddviti fagnar áhuga bænda á svæðinu hvað þessa réttarsmíði varðar.  Með þessari rétt, ætti réttarsmíði í Strandabyggð að vera lokið og aðeins hefðbundið viðhald framundan.

Orðið gefið laust.


Matthías tók til máls og fagnar því að fá tölu í verksamning vegna smíði Kollafjarðarréttar.

17. Aðrir samningar vegna rétta

Í sveitarfélaginu eru fjórar aðrar réttir; Staðardalsrétt í Staðardal og Krossárrétt við Krossárdal í Bitrufirði, en það var núverandi sveitarstjórn sem stóð fyrir smíði á þeim tveimur. Skeljavíkurrétt og Kirkjubólsrétt, voru reistar í tíð fyrrverandi sveitarstjórnar.  Stefnt er að ganga frá lóðaleigusamningum við alla hlutaðeigandi.


18. Vestfjarðarstofa erindi um samstarfsnet um farsæld barna

Oddviti gaf Hlíf Hrólfsdóttur, nýráðnum félagsmálastjóra orðið og bað hana að segja frá málinu. Hlíf er jafnframt óskað til hamingju með nýtt starf.

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og tók jafnframt fram að erindi þetta sem er frá júní sl. sé varðandi svæðisbundið farsældarráð og aðgerðaráætlun fyrir Menntastefnu Vestfjarða, inn í það má tengja samstarfsnet lögreglu, barnaverndar og félagsþjónustu. Hlíf mun óska eftir fundi Vestfjarðarstofu með sveitarstjórn.


Að öðru leiti lagt fram til kynningar.


19. Forgangsröðun vegaframkvæmda og fjarskiptamála í Dalabyggð

 

Orðið gefið laust.

 

Sveitarstjórn þakkar fyrir vel unna skýrslu og góða framsetningu.


20. Tillaga Svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs

Formaður rakti tilurð þessa máls og gaf síðan orðið laust. Enginn tók til máls.


Lagt fram til kynningar.


21. Fundargerð 464. fundar Hafnasambands Íslands frá 15. ágúst 2024

 Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lögð fram til kynningar.


22. Fundargerð 6. fundar Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða frá 13. ágúst 2024

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lögð fram til kynningar.


23. Fundargerð 61. fundar og 62. fundar stjórnar Vestfjarðarstofu frá 12. júní og 28. ágúst 2024

Orðið gefið laust. Enginn tók til máls. Lögð fram til kynningar.

 

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 19:21

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón