Sveitastjórn Strandabyggðar 1279 - 14.ágúst 2018
Fundur nr. 1279 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. ágúst 2018 í Hnyðju, Höfðagötu 3. Fundurinn hófst kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn:
Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir, Eiríkur Valdimarsson, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Gísli Jónsson. Fundarritari Þorgeir Pálsson.
Fundardagskrá var svo hljóðandi:
- Fundargerð Atvinnu- dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 9.08.2018
- Fundargerð Fræðslunefndar frá 10.08.2018
- Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 13.08.2018
- Staða hafnarsjóð, bréf frá greiningardeild Vegagerðarinnar dagsett 19.07.2108
- Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um drög að Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027
- Námskeið fyrir nýkjörna sveitarstjórnarfulltrúa í Heydal á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
- Bréf sent sveitarstjórn þann 17.7.2018 frá Magnúsi Hanssyni um ásýnd Hólmavíkur.
- Skipan fulltrúa í svæðisráð strandsvæðaskipulag Vestfjarða
- Styrkir til byggðaþróunar.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Fundargerð Atvinnu- dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 9.08.2018
Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir fundinum og tiltók aðgerðir og ábendingar nefndarmanna. Umræða spannst um Fjallskilaseðil, leitir og staðsetningu skilaréttar. Nefndin mun funda 21. ágúst á sérstökum vinnufundi vegna sameiginlegrar stefnu/starfsáætlunar sveitarstjórnar. Nefndin áréttar mikilvægi merkinga á hafnarsvæði í ljósi aukinnar umferðar ferðamanna. Mikilvægt að ferðaþjónusta og sjávarútvegur við höfnina geti farið saman. Rætt um mikilvægi eftirlitsmyndavéla við höfnina og hugsanlega víðar, auk þeirrar lagaskyldu sem þjónustueiningar eins og íþróttamiðstöðin lúta hvað svona eftirlit varðar. Beðið er eftir tilboði í upptökukerfi.
Sveitarstjórn vísar kaupum á eftirlitsmyndavélum til fjárhagsáætlunar næsta árs.
Sveitarstjórn samþykkir einróma fundargerð nefndarinnar.
2. Fundargerð Fræðslunefndar frá 10.08.2018
Starfsdagar allra skólastiga á sama tíma. Umræða var um fyrirhugaða innleiðingu nýrra persónuverndarlaga. Fram kom mikilvægi þess að innleiðingin nái til allra eininga.
Sveitarstjórn samþykkir einróma fundargerð nefndarinnar.
3. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 13.08.2018
Nefndin fundaði ásamt byggingarfulltrúa. Gáma-/geymslusvæði: Nefndin ræddi ábendingar um slæma umgengni. Sveitarstjórn telur mikilvægt að fara í vinnu við tiltekt og endurskipulagningu þessara svæða og leggur áherslu á aukið eftirlit með svæðunum, samkvæmt þeim reglum sem svæðið heyrir undir.
Varðandi lið 3 í fundargerð, felur sveitarstjórn formanni nefndarinnar og sveitarstjóra að undirbúa þessa vinnu með starfsmönnum sveitarfélagsins og afla nauðsynlegra upplýsinga í því sambandi.
Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að hefja umhverfisátak í haust. Sveitarstjórn fagnar þeim ábendingum og telur rétt að skilgreina viðráðanleg svæði strax í upphafi í samráði við hlutaðeigandi. Vill sveitarstjórn styðjast við tillögur nefndarinnar að verklagi.
Varðandi lið 5 í fundargerð felur sveitarstjórn formanni nefndarinnar og sveitarstjóra að hefja undirbúning þessarar vinnu strax í haust, með starfsmönnum sveitarfélagsins.
Varðandi lið 6 er sveitarstjórn sammála nefndinni um endurskoðun aðalskipulags.
Sveitarstjórn samþykkir einróma fundargerð nefndarinnar.
4. Staða hafnarsjóðs, bréf frá greiningardeild Vegagerðarinnar dagsett 19.07.2108
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að leita leiða til að bæta afkomu hafnarinnar og leita til viðeigandi aðila í því sambandi.
5. Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um drög að Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027
Lagt fram til kynningar.
6. Námskeið fyrir nýkjörna sveitarstjórnarfulltrúa í Heydal á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga
Lagt fram til kynningar.
7. Bréf sent sveitarstjórn þann 17.7.2018 frá Magnúsi Hanssyni um ásýnd Hólmavíkur
Sveitarstjórn þakkar Magnúsi Hanssyni kærlega fyrir bréfið og áhuga hans á ásýnd Hólmavíkur og áréttar að þetta mál fer í ferli hjá sveitarfélaginu.
8. Skipan fulltrúa í svæðisráð strandsvæðaskipulag Vestfjarða
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að taka sæti Strandabyggðar í svæðisráðinu.
9. Styrkir til byggðaþróunar.
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þess að sækja um styrki af þeim toga sem þarna eru og hvetur forstöðumenn sveitarfélagsins til að vera vakandi fyrir slíkum tækifærum. Jafnframt mun sveitarstjórn framvegis kynna á heimasíðu sveitarfélagsins allar ábendingar sem berast um mögulega styrki.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17.33.
Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir
Eiríkur Valdimarsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ingibjörg Benediktsdóttir
Jón Gísli Jónsson.