Menningarmálanefnd - 19. okt. 2009
Fundur var haldinn í Menningarmálanefnd, mánudag 19. okt. 2009, á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann klukkan 17:10. Mætt voru: Arnar S. Jónsson formaður, Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Halldórsson, Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Guðrún Guðfinnsdóttir varamaður. Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða mætti á fundinn kl. 18:00. Arnar S. Jónsson ritaði fundargerð. Formaður setti fundinn og gengið var til dagskrár:
- Skýrsla um Hamingjudaga 2009
- Spjall við Menningarfulltrúa Vestfjarða
- Önnur mál
- Skýrsla um Hamingjudaga 2009
Kristín lagði fram til kynningar lokaskýrslu um bæjarhátíðina Hamingjudaga 2009. Hún fór yfir skýrsluna sem inniheldur heildstætt yfirlit yfir verkefnið og hvernig til tókst. Meðal þess sem Kristín kom inn á í yfirferð sinni yfir skýrsluna var eftirfarandi:
- 1) Heimamenn og sjálfboðaliðar stóðu sig afar vel í hinum ýmsu málum sem snéru að hátíðinni, m.a. áhaldahús sveitarfélagsins, gæsluaðilar, einstaklingar, listamenn, félög og fyrirtæki og margir fleiri aðilar.
- 2) Upplifun gesta af hátíðinni var almennt góð og ánægja ríkti með dagskráratriði og almennan gang Hamingjudaga.
- 3) Samstarf framkvæmdastjóra við Menningarmálanefnd og alla aðra aðila gekk vel.
- 4) Fjárframlag sveitarfélagsins minnkaði til hátíðarinnar árið 2009 og fjárhagsáætlun hátíðarinnar stóðst ekki nógu vel. Gjöld umfram kostnað voru ríflega 900 þúsund krónur, en ekki er búið að gera fjármál endanlega upp. Meðal þátta sem brugðust í áætlun innkoma vegna dansleiks sem var helmingi minni en gert var ráð fyrir. Áætlun um gjöld vegna hátíðarinnar stóðst svo til, en talsvert vantaði upp á tekjurnar. Erfitt var að nálgast styrki fyrir hátíðina.
Margt fleira kom fram í skýrslunni sem rætt var um, m.a. tillögur um framtíð hátíðarinnar og hvernig staðið skuli að ýmsum verkþáttum hennar. Lagt var til að nefndarmenn læsu skýrsluna yfir og fjölluðu um brýnustu mál sem hún fjallar um á komandi fundum nefndarinnar.
Nefndin þakkar Kristínu kærlega fyrir vel unnið starf við hátíðina sem og samstarf í aðdraganda hennar. Kristín þakkaði nefndinni jafnframt fyrir samstarfið.
- Spjall við Menningarfulltrúa Vestfjarða
Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða, mætti á fundinn til skrafs og ráðagerða um menningarmál í Strandabyggð og á Vestfjörðum. Jón skýrði frá starfsemi Menningarráðsins og uppbyggingu þess. Ráðið auglýsir eftir styrkjum tvisvar sinnum á ári og mikið magn berst af umsóknum. Samningur um menningarsamning ríkis og sveitarfélaga verður endurnýjaður um áramótin ef að líkum lætur.
Aðspurður sagði Jón að bæjarhátíðir sem slíkar fengju ekki styrk frá Menningarráði, en einstök verkefni innan slíkra hátíða gætu fengið styrk. Rætt var um að skoða hvort hægt væri að nýta þennan möguleika á styrk vegna t.d. listsýninga á Hamingjudögum - þá þyrfti að ráða framkvæmdastjóra fyrr á árinu.
Jón var spurður að því hvort hann teldi að nefndin hefði einhver tækifæri til verkefna á komandi misserum. Hann taldi að með opnun vegarins um Arnkötludal hefði opnast möguleiki á að gera Hólmavík að miðstöð funda og ráðstefna í NV-kjördæmi, vegna þess hve bærinn er miðsvæðis. Menningarmálanefnd hefði e.t.v. möguleika á því að stuðla að því að svo geti orðið. Rætt var um þetta vítt og breitt.
Jón nefndi einnig að menningarmálanefnd gæti stuðlað að aukinni samvinnu milli sveitarfélagsins og listamanna og vert væri að skoða möguleika á því að stuðla að uppsetningu listaverka eða minnisvarða í sveitarfélaginu. Þá var rætt um að staða Strandabyggðar á menningarsviðinu væri afar sterk, mikið framboð væri á atburðum og ýmis konar starfsemi í gangi. Jón taldi að möguleiki væri á að auka framboð á listgreinum í grunnskóla- og tónskólastarfi.
Jón hvatti að lokum nefndina til að sækja um í Menningarsjóðinn í komandi úthlutunum.
- Önnur mál
- a) Menningarmálanefnd Strandabyggðar óskar Tónlistarskólanum á Hólmavík innilega til hamingju með kaup á nýjum flygli. Nefndin vonar að hljóðfærið verði til þess að efla starfsemi skólans og gera hana enn öflugri en hún er nú þegar. Í tengslum við þetta lýsti Kristín yfir ánægju sinni með að formaður Menningarmálanefndar hefði tekið til máls við afhendingu flygils í tónskólanum.
- b) Rúna Stína, sem situr í stjórn Steinshúss fyrir hönd Strandabyggðar, skýrði frá því að vel gangi að gera húsið upp. Það mun vera frágengið að utan og verið er að ganga frá fræðimannaíbúð innandyra. Vonast er til að hægt verði að taka íbúðina í notkun næsta vor og rífandi gangur er í framkvæmdum og uppbyggingu. Nefndin fagnar þessu góða gengi og hvetur stofnunina til dáða.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl 19:19.
Guðrún Guðfinnsdóttir (sign) Jón Halldórsson (sign)
Arnar Snæberg Jónsson (sign) Rúna Stína Ásgrímsdóttir (sign)
Kristín Sigurrós Einarsdóttir (sign)