A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 26. ágúst 2019

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd – 26.ágúst 2019

 

Fundur var haldinn í Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 26. ágúst 2019, kl. 17:00 í Hnyðju að Höfðagötu 3. Fundinn sátu: Jón Jónsson formaður, Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir og Matthías Lýðsson sem eru aðalmenn í nefndinni og Esther Ösp Valdimarsdóttir og Júlíus Freyr Jónsson sem eru varamenn. Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir tómstundafulltrúi sat einnig fundinn. Jón Jónsson stýrði fundinum og ritaði fundargerð.

 

Dagskrá fundar var eftirfarandi:

 

1.     Erindisbréf TÍM-nefndar

2.     Minnisblað um sumarnámskeið 2019

3.     Minnisblað um vinnuskóla og Strandir í verki 2019

4.     Minnisblað um Hamingjudaga 2019

5.     Umræða um starfsemi félaga í Strandabyggð

6.     Umræða um vetrarstarfið framundan: Frístund, félagsmiðstöð, ungmennahús

7.     Staða á söfnun fyrir Ærslabelg

8.     Nafnasamkeppni fyrir íþróttahús og félagsheimili

9.     Önnur mál

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

1. Erindisbréf TÍM-nefndar

Erindisbréf hefur þegar verið samþykkt af nefndinni á fundi á síðasta ári, en hefur ekki fengið formlega staðfestingu af sveitarstjórn. Óskað er eftir að sveitarstjórn afgreiði erindisbréfið og staðfesti það.

 
2. Minnisblað um sumarnámskeið 2019

Aðalbjörg gerði grein fyrir sumarnámskeiðum 2019 og kynnti minnisblað þar um. Námskeiðin gengu vel að þessu sinni, boðið var upp á útinámskeið, hamingjunámskeið, náttúrubarnaskóla og sundnámskeið. Rætt var almennt um mikilvægi þess að viðburðir og námskeið í sveitarfélaginu væru kynnt með góðum fyrirvara, þannig að íbúar og forsjáraðilar geti skipulagt sína dagskrá. Nefndin var sammála um að sumarnámskeið séu í senn skemmtileg og mikilvæg þjónusta sem þurfi að halda áfram að bjóða upp á.

 
3. Minnisblað um vinnuskólann og Strandir í verki 2019

Aðalbjörg tómstundafulltrúi kynnti minnisblað um vinnuskólann og Strandir í verki. Vinnuskólinn gekk upp og ofan og erfiðlega gekk að fá umsjón og verkstjóra. Alls voru 17 í vinnuskólanum en aðeins 2 tóku þátt í verkefninu Strandir í verki í samstarfi við Leikfélag Hólmavíkur og eiga hrós skilið fyrir góðan árangur í sínu starfi. Gera þarf góða lýsingu á starfi Vinnuskólans og vandaðan verkefnalista fyrir hópinn með góðum fyrirvara. Lagt er til að leita til íbúa eftir hugmyndum um verkefni. Áhaldahús, TÍM-nefndin og starfsfólk sveitarfélagsins þarf að taka höndum saman um að undirbúa Vinnuskólann sem best og ráða þarf sérstakan verkstjóra fyrir starfið með góðum fyrirvara. Nefndin leggur til að haldið verði áfram af fullum krafti með bæði Vinnuskólann og verkefnið Strandir í verki.

 

4. Minnisblað um Hamingjudaga 2019

Aðalbjörg gerði grein fyrir minnisblaði um Hamingjudaga sem haldnir voru sumarið 2019 í frekar köldu veðri. Þátttaka var ágæt miðað við veður. Talsvert var af aðkomufólki á viðburðum. Nefndin telur að vel hafi tekist til og er sammála um að leggja til við sveitarstjórn að bæjarhátíðin Hamingjudagar á Hólmavík verði haldin að ári, dagana 26.-28. júní 2020. 

 

5. Umræða um starfsemi félaga í Strandabyggð

Rætt var almennt um starfsemi félaga í sveitarfélaginu. Nefndarmenn veltu fyrir sér leiðum til að efla starfsemina, ekki síst í ljósi fækkunar íbúa í sveitarfélaginu. Stungið var upp á hugmyndum eins og opnum félagadegi þar sem félögin kynna starfsemi sína, formannafundi með TÍM-nefnd, félagsmálanámskeiði og fleiru. Nefndin samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að hafa opinn félagadag, að höfðu samráði við félögin, og felur tómstundafulltrúa að hafa umsjón með því. Einnig telur nefndin mikilvægt að íbúahandbók sem sveitarstjórn hefur samþykkt að gera verði að veruleika sem allra fyrst á að minnsta kosti 2 tungumálum til að byrja með.

 

Í samhengi við þetta var rætt um stuðningsfjölskyldur fyrir nýtt fólk sem flytur í sveitarfélagið, til að miðla fróðleik og kynna fyrir því hvernig hlutir ganga fyrir sig í samfélaginu.

 

6. Umræða um vetrarstarfið framundan

Aðalbjörg segir frá hugmyndum um frístund fyrir komandi vetur. Alls eru 22 nemendur á þeim aldri sem getur nýtt sér frístundina í 1.-4. bekk. Búið er að ráða starfsfólk fyrir þennan aldurhóp. Fyrir 5.-10. bekk yrði boðið upp á opnun í Félagsmiðstöðinni Ozon frá og með september. Þetta á við um tímann frá því að skóla lýkur til 16:00.

Geislaæfingar, kórastarf og tónlist er einnig í boði á þessum tíma. Einnig verði Ozon opið eitt kvöld í viku fyrir 5.-10. bekk saman og einnig opnun einu sinni í mánuði fyrir 5.-7. bekk sér og 8.-10. bekk sér. Eftir er að reikna út hvort ráða þurfi viðbótarmanneskju við tómstundafulltrúa fyrir eldri hópinn. Tómstundafulltrúi leiðir starfið í Ozon. Nefndin leggur áherslu á að allir sem taka þátt í starfinu séu með verkaskiptingu, starfssvið og ábyrgð ólíkra aðila á hreinu.  

 

Ungmennaráð kemur saman í byrjun september og skipuleggur starfsemi þess á þingi. Tómstundafulltrúi hefur einnig umsjón með Ungmennahúsi. Umræður urðu um starfsemina og lögð áhersla á að unga fólkinu okkar sé treystandi fyrir að ganga vel um þá aðstöðu sem í boði er hverju sinni.

    

 7. Staða á söfnun fyrir ærslabelg

Rætt var um söfnun fyrir ærslabelg sem hefur gengið nokkuð vel og vilyrði hafa fengist fyrir viðbótarframlögum. Nefndin ræddi um hugsanlega staðsetningu og voru nokkrir staðir nefndir. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að ráðist verði sem allra fyrst í kaup og uppsetningu á ærslabelgnum og vinnu að skipulagsmálum tengdum því.

 

8. Nafnasamkeppni um nafn á íþróttamiðstöð og félagsheimili

Sveitarstjórn hefur ákveðið að framlengja frest í nafnasamkeppni á íþróttamiðstöð og félagsheimili. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að óskað verði eftir nöfnum frá íbúum í gegnum vefform og í hugmyndakassa á vel völdum stöðum með ákveðnum skilafresti sem verði vandlega auglýstur og reynt að fá sem almennasta þátttöku. Vegleg verðlaun þurfa að vera í boði. 

 

9. Önnur mál

 

a)     Smáverkefnastyrkir sveitarfélagsins

Nefndin vill vekja athygli á styrkveitingum sveitarfélagins með öflugri hætti og leggur til að næsti umsóknarfrestur um þessa minni styrki verði framlengdur til 6. september. Einnig að gert verði átak í að kynna þessar minni styrkveitingar fyrir íbúum og félagasamtökum.

 

b)     Heilsueflandi samfélag

Nefndin styður að lögð verði áhersla á úrbætur göngustíga sem nýtist einnig hlaupandi og hjólandi fólki í grennd við Hólmavík, til að minnka slysahættu. Einnig að skoðað verði að lækka hámarkshraða á Djúpvegi framhjá vegamótunum að Hólmavík.

 

c)     Höfðingleg gjöf frá Lions

Nefndin vill koma á framfæri kæru þakklæti til Lions fyrir þá bekki sem félagið hefur gefið sveitarfélaginu síðustu tvö ár. Nefndin hvetur til að bekkjunum sem Lions gaf íbúum sveitarfélagsins á Hamingjudögum fyrr í sumar, verði komið fyrir á góðum stöðum sem allra fyrst, þar sem þeir koma göngulúnum að góðu gagni.

 

Ekki voru lögð fram fleiri mál. Fundargerðin lesin yfir og samþykkt einróma. Fundi slitið kl. 19:24.

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón