Ungmennaráð Strandabyggðar - Fundargerð 19. apríl 2013
Fundur Ungmennaráðs Strandabyggðar nr. 1 var haldinn í Hnyðju föstudaginn 19. apríl kl. 17:00. Mætt voru Þorbjörg Matthíasdóttir, Laufey Heiða Reynisdóttir, Guðfinnur Ragnar Jóhannsson, Jóhanna Rósmundsdóttir og Valdimar Friðjón Jónsson. Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúi stjórnaði fundargerð og ritaði fundargerð.
- Kynning á Ungmennaráði
Arnar fór yfir helstu skyldur, markmið og samþykktir Ungmennaráðs í stuttu máli. - Kosning formanns og varaformanns
Gengið var til leynilegra kosninga um embætti formanns og varaformanns. Þorbjörg Matthíasdóttir var kjörin formaður. Jóhanna Rósmundsdóttir var kjörin varaformaður. - Umræður
Formaður felur tómstundafulltrúa að annast stjórn fundarins. Tómstundafullt´rui lagði til að þar sem þetta væri fyrsti fundur ráðsins væri mikilvægt að ganga beint í að ræða um málefni innan stjórnsýslunnar sem á einhvern hátt snerta ungt fólk. Hann nefndi fimm flokka sem væru Tómstundir og afþreying, Húsnæði og aðstaða, Menning og mannlíf, Umhverfi og Menntun. Gott væri að hefja umræðu um tvo af þessum málaflokkum og e.t.v. bæta einhverjum í sarpinn á seinni fundum ráðsins.
Teknir voru niður eftirfarandi punktar úr umræðunum sem allir tóku mjög virkan þátt í.
Tómstundir og afþreying
Ungmennaráð telur að það vanti stað fyrir ungt fólk til að hittast á. Þarna er verið að ræða um allan aldur ungmenna. Mikilvægt að fólk geti haft möguleika á því að hittast og eiga notalega stund saman.
Bætt internetaðgengi í öllu sveitarfélaginu, líka í dreifbýli - VODið, sjónvarp símans og önnur þjónusta sem kemur í gegnum nettengingu er ekki fyrir hendi eða alls ekki nógu góð. Við erum að borga fullt verð fyrir lélega þjónustu. Úr þessu þarf að bæta.
Ekkert skipulagt félagsstarf er á vegum sveitarfélagsins fyrir 16 ára og eldri. Fáir krakkar sem eru eftir 16 ára - það verður að vera eitthvað fyrir þessa krakka til að gera. Það er nauðsynlegt að hitta fleiri heldur en nánasta vinahópinn.
Það vantar að bæta leiksvæði. Aparóla ætti að vera í forgangi, líka fyrir ferðamenn. Á öll opin leiksvæði í Strandabyggð vantar leiktæki fyrir börn sem eru á leikskólaaldri. Þemagarður af einhverju tagi væri mjög skemmtilegur.
Félagsstarf dettur niður á sumrin. Það er ekki nógu gott. Á sumrin er aðallega um að ræða íþróttastarf sem oft og tíðum er frekar einhæft.
Rætt var um að mikilvægt og gaman væri að koma á tengingu milli ungs fólk og eldra fólks, t.d. á Heilbrigðisstofnuninni. Í tómstundastarfi þarf að brúa kynslóðabil.
Það vantar betri aðstöðu fyrir félagsmiðstöðina Ozon og félagsmiðstöðin ætti að vera opin tvisvar í viku. Heppilegast væri ef hún myndi flytja í annað húsnæði. Ekki nógu mikið pláss fyrir tæki og fleira. Ungmennastarf fyrir eldri aðila ætti að vera í sama húsnæði.
Meira af námskeiðum sem miðast að ungu fólki vantar á svæðið. Leikjanámskeið, matreiðslunámskeið, graffitinámskeið voru nefnd. Dansnámskeið eru einu sinni á ári og mætti vera tvisvar.
Rætt var um nauðsyn þess að leyft verði að ungmenni frá 14 ára aldri geti farið í Flosaból til æfinga. Mikill áhugi er hjá þessum aldurshóp til að æfa í ræktinni og sumir hafa fengið líkamsrækt að læknisráði en ekki mátt æfa.
Húsnæði og aðstaða
Það vantar húsnæði fyrir félagsmiðstöð eða ungmennahús. Poolborð, pókerborð, þythokkí og borðtennisborð þyrfti að vera í svoleiðis rými. Það vantar líka rými til að hægt sé að lana - það eru eldri strákar á svæðinu sem hafa mikinn áhuga á svoleiði.
Mikið var rætt um aðstöðu í Íþróttamiðstöð. Aðstaða í Flosabóli þykir ekki nógu góð og aðgangur að ræktinni þykir of dýr miðað við tæki og tól sem eru sum í lélegu ástandi eða ekki viðhaldið sem skyldi. Salurinn þykir of lítill og það mætti taka út tæki sem eru mjög lítið notuð. Ungmennaráð leggur eindregið til að gerð verði úttekt á því hvaða tæki eru í lagi og hvort ekki sé hægt að endurnýja tækjakost.
Þá vantar meiri tækjabúnað í salinn í íþróttamiðstöðinni, t.d. mætti þar vera trampólín, grjónapúðar, fótboltamörk, upphýfingarstöng, kalksteinn o.fl. Laga þarf leka í salnum sem er búinn að vera viðvarandi í nokkur ár og skoða hvort ekki sé hægt að laga burðarbita í stóra salnum sem hættulegt sé að hlaupa á. Einnig telja fulltrúar ungmennaráðs að endurnýja þurfi búnað í sundlauginni; fá stærri rennibraut og endurnýja korkdót og uppblásna hluti. Hugmynd kom um að setja upp landslagsmyndir á viðarklæðningarnar í sundlauginni til að gera meira aðlaðandi. Einnig telur ungmennaráð að skoða þurfi opnunartíma á föstudegi mjög vel.
Í félagsheimili er slæmur hljómburður í húsinu sem þyrfti að kíkja á. Eldhúsið mætti vera betur nýtt, t.d. undir námskeið.
Göngustígur út að Skeiði er góður en það þarf nauðsynlega að laga hann í átt að Skeljavíkurgrundum til að hægt sé að komast þangað vandræðalaust. Miklir möguleikar eru til að nýta fjöru fyrir neðan hesthúsið til útivistar.
Gaman væri að hafa bíó einu sinni í mánuði - fyrir allan aldur.
- Önnur mál
Í ljósi mikillar umræðu Ungmennaráðs um málefni Íþróttamiðstöðvar var ákveðið að setja saman eftirfarandi áskorun til sveitarstjórnar:
Ungmennaráð Strandabyggðar skorar á sveitarstjórn að taka málefni líkamsræktaraðstöðu í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík til alvarlegrar skoðunar. Mjög brýnt er að endurnýja allan tækjakost. Einnig er lagt til að aldurstakmark í ræktina verði lækkað í 14 ár.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:12.
Þorbjörg Matthíasdóttir (sign)
Jóhanna Rósmundsdóttir (sign)
Guðfinnur Ragnar Jóhannsson (sign)
Laufey Heiða Reynisdóttir (sign)
Valdimar Friðjón Jónsson (sign)