Fræðslunefnd - 6. desember 2017
Fundur var haldin í fræðslunefnd miðvikudaginn 6. desember kl. 17:00 í Hnyðju.
Eftirtaldir nefndarmenn eru mættir: Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Egill Victorsson, Ester Sigfúsdóttir varamaður en Sólrún Jónsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir boðuðu forföll.
Fullrúar leikskólans Lækjarbrekku mættu kl 17:00 og það eru Ingibjörg Alma Benjamínsdóttir leikskólastjóri og Berglind Maríusdóttir fyrir hönd starfsmanna og Esther Ösp Valdimarsdóttir er mætt fyrir hönd foreldra.
Fulltrúar Grunnskólans eru boðaðir kl 17:40 en það eru Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri, fulltrúi starfsmanna Hrafnhildur Þorsteinsdóttir og fulltrúi foreldra Björk Ingvarsdóttir.
Fulltrúi ungmennaráðs Guðrún Júlíana Sigurðardóttir situr einnig fundinn.
Dagskrá er svohljóðandi:
Málefni Leikskóla:
- Breyting á aldursviðmiði barna við inntöku í leikskólann.
Leikskólinn Lækjarbrekka hefur undanfarin ár tekið inn börn við eins árs aldur. Til að auka þjónustustig Strandabyggðar við barnafjölskyldur leggjum við til að inntökualdur barna inn á leikskóla Strandabyggðar verði lækkaður úr tólf mánuðum í níu mánuði. Leikskólinn býr yfir nægu húsrými og ágætis aðstöðu og því telur leikskólastjóri að hægt sé að stíga þetta skref án mikils tilkostnaðar.
Fræðslunefnd samþykkir þessa tillögu.
- Opnunar- og afmælishátíð.
Búið er að skipa í hátíðarnefnd sem hefur ákveðið að 6. febrúar, dagur leikskólans sé tilvalinn. Nefndin vinnur í að safna myndum og sögum um leikskólastarf á Hólmavík.
- Önnur mál Leikskólans
Engin önnur mál rædd og fulltrúar leikskólans víkja af fundi kl 17:42
Fulltrúar Grunnskólans mæta til fundar
Málefni Grunnskólans: - Starfið framundan og starfsmannamál.
Innleiðing aðalnámskrár er í fullum gangi og gengur mjög vel. Stefnt er á að notað verði Google classroom vefsvæði og forrit sem er sér hannað fyrir skólaumhverfi sem á að auðvelda starf og samskipti. Flestir nemendur eru vel á veg komnir með þetta og fulltrúi ungmennaráðs segir þetta mjög þægilegt og gott.
Auglýsa þarf eftir starfsmönnum eftir áramót. Svanur Kristjánsson hefur sótt um leyfi næstu önn og þá þarf að ráða bókavörð , húsvörð og bílstjóra. Ingibjörg Emilsdóttir hverfur til annarra starfa og þarf að auglýsa eftir kennara.
- Önnur mál Grunnskólans
Húsnæði bókasafnsins er orðið allt of lítið. Nú eru bækur í geymslu um bæinn og mjög mikilvægt er að fara að huga að stækkun. Fræðslunefnd hvetur sveitarstjórn til að finna lausn á þessu vandamáli.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl: 18:39