A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 11. nóv. 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 11. nóvember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:


Oddviti bar upp afbrigði við boðaða dagskrá um að 10. liðurinn um tilboð Árna Kópssonar að bora eftir vatni yrði tekinn á dagskrá og var það samþykkt samhljóða. Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 10 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Erindi frá Reykhólaskóla ásamt kynningu á vinnuferli vegna nýrra nemenda.
3. Kynning frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða um námskeiðið „Aftur í nám".
4. Fundargerðir samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga.
5. Erindi frá Ungmennafélagi Íslands.
6. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 29. október 2008.
7. Erindi frá Samgönguráðuneytinu um upplýsingaöflun vegna fjármálakreppu.
8. Erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður 13. og 14. nóvember 2008.
9. Fyrirspurn frá Viðari Guðmundssyni um hvernig staðið sé að vatnsmálum í dreifbýli Strandabyggðar.
10. Tilboð frá Árna Kópssyni um borun 100 metra vatnsholu fyrir vatnsveitu Strandabyggðar.


Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá fundi sem haldinn var á Þróunarsetrinu á Hólmavík og voru þar mætt Sigurður Atlason, Óskar Torfason, Benedikt Pétursson, Haukur Vagnsson, Valdemar Guðmundsson ásamt undirritaðri. Tilgangurinn með fundinum var að kanna möguleika á að koma upp aðstöðu fyrir sjóstangaveiði hér á Hólmavík í samvinnu við Kjarnabúð. 
   Samkvæmt upplýsingum frá Hauki er krafa um að stutt sé frá húsi að bát eða ca. 300 metrar og góð skilyrði fyrir sjósókn. Benedikt sýndi sjókort sem búið var að merkja inn á góð svæði til veiða í Steingrímsfirði og voru fundarmenn sammála um að aðstaðan væri mjög góð frá náttúrunnar hendi þar sem oft logn er yfirleitt á Steingrímsfirði. Drangur gæti gert að aflanum sem gæti orðið umtalsverður. Afleidd störf myndu skapast á því svæði þar sem byggð væru hús fyrir starfsemina en bæði þarf þrif og þvotta auk þess að verslun, veitingahús og söfn gætu nýtt sér starfsemina. Talið var að hægt væri að gera út frá byrjun apríl mánaðar til loka september eða í sex mánuði alls. 
   Þá hefur Northern Periphery Programme sent eftirfarandi til kynningar sem tengist þessu verkefni með beinum hætti en veita á styrk að fjárhæð 13 þús. evrur til forverkefnis um "fjölbreyttari störf í sjávarbyggðum á norðurslóðum" og er Háskóli Íslands fulltrúi Íslands í verkefninu. Er ætlunin að einbeita sér að Vestfjörðum sérstaklega og m.a. verður einkum litið til tvenns konar starfsemi á sviði ferðaþjónustu, sjóstangveiðiferðamennsku og hvers konar upplifunarferðamennsku sem tengist neyslu sjávarafurða. Er ætlunin að kynna verkefnið á Ísafirði í lok mánaðarins. 
   Í ljósi þessa er lagt til að óskað verði eftir formlegum viðræðum við Kjarnabúð um möguleika á að koma á fót aðstöðu fyrir sjóstangaveiði á Hólmavík í samvinnu við heimamenn. Er sú tillaga samþykkt samhljóða.

Þá er greint frá fyrirhugaðri fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður 13. og 14. nóvember og er vonast eftir að fjárhagsleg staða sveitarfélaga skýrist á þeirri ráðstefnu.  Því sé betra að bíða með tillögur um sparnað, frestun framkvæmda og aðhaldi í rekstri fram yfir ráðstefnuna.


2. Erindi frá Reykhólaskóla ásamt kynningu á vinnuferli vegna nýrra nemenda. 
Borist hefur erindi frá Reykhólaskóla dags. 28. október ásamt kynningu á vinnuferli vegna nýrra nemenda. Er þar verið að leita til sveitarfélaga um þátttökukostnað vegna nemenda úr viðkomandi sveitarfélögum og kynna nýjar reglur um vinnuferli skólans vegna nýrra nemenda. Sveitarstjóra er falið að svara erindinu í samræmi við umræður.


3. Kynning frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða um námskeiðið „Aftur í nám". 
Borist hefur erindi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem kynnt er námskeiðið „Aftur í nám" sem einkum er ætlað fólki með lestrarörðugleika. Um er að ræða 95 stunda nám þar sem 55 tímar fara í íslensku, tölvunotkun og sjálfstyrkingu en 40 tímar notaðir í Davis-leiðréttingu sem byggir á því að leiðrétta skynvillur sem valda lesblindu. Lagt fram til kynningar.


4. Fundargerðir samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga. 
Borist hafa fundargerðir samráðsnefndar sem sett var á laggirnar í kjölfar efnahagskreppunnar og í eiga sæti fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, lánasjóði sveitarfélaga og aðilum úr röðum verkalýðsfélaga og samtaka atvinnulífsins. Lagt fram til kynningar.


5. Erindi frá Ungmennafélagi Íslands. 
Borist hefur tillaga frá 36. sambandsráðsfundi Ungmennafélags Íslands sem haldinn var 11. október s.l. og er tillagan eftirfarandi: „36. sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn á Hótel Stykkishólmi 11. október 2008 hvetur sveitarstjórnir til þess að standa vörð um íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu nú á viðsjárverðum tímum. Starf sambandsaðila UMFÍ er ein af grunnstoðum hvers samfélags og nú sem aldrei fyrr þurfa sveitarstjórnir að koma með myndarlegum hætti að rekstri þeirra til að tryggja hið mikilvæga starf sem unnið er innan þeirra raða."  Lagt fram til kynningar.


6. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 29. október 2008. 
Borist hefur fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 29. október 2008. Lagt fram til kynningar.


7. Erindi frá Samgönguráðuneytinu um upplýsingaöflun vegna fjármálakreppu. 
Lagt er fram erindi frá Samgönguráðuneytinu og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um upplýsingaöflun vegna fjármálakreppu. Lagt fram til kynningar.


8. Erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður 13. og 14. nóvember 2008.  
Borist hefur erindi og dagskrá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður 13. og 14. nóvember 2008. Lagt fram til kynningar.


9. Fyrirspurn frá Viðari Guðmundssyni um hvernig staðið sé að vatnsmálum í dreifbýli Strandabyggðar.
Borist hefur fyrirspurn frá Viðari Guðmundssyni dags. 6. nóvember 2008 þar sem hann biður um skýrt svar frá sveitarstjórn um hvernig staðið sé að vatnsmálum í sveitarfélaginu en leggja þarf nýja vatnslögn að Miðhúsum. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 og reglugerð 973/2000 kemur skýrt fram að það sé á ábyrgð ábúanda að leggja vatnsleiðslu í dreifbýli en ekki á ábyrgð sveitarstjórnar.


10. Tilboð frá Árna Kópssyni um borun 100 metra vatnsholu fyrir vatnsveitu Strandabyggðar. 
Borist hefur tilboð frá Árna Kópssyni um að bora 100 metra vatnsholu fyrir vatnsveitu Strandabyggðar til að auka vatnsmagn en sú hola sem nú er nýtt er einungis 15 metra djúp og þornar yfirleitt í tvo mánuði yfir sumarið. Taldi Árni miklar líkur fyrir því að nægjanlegt vatnsmagn myndi finnast og er tilbúinn að árangurstengja borunina en tilboðið hljóðar upp á 2.700.000 kr. sem myndi þá lækka ef ekki finnst vatn í nægjanlegu magni. Samþykkt var samhljóða að ganga til samninga við Árna Kópsson.


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:15.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón