Sveitarstjórn - 16. sept. 2008
Ár 2008 þriðjudaginn 16. september var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Eysteinn Gunnarsson varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 9 töluliðum, sem var eftirfarandi:
1. Erindi til fjárlaganefndar Alþingis ásamt greinargerð.
2. Yfirlýsing og bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
3. Erindi frá Þórði Skúlasyni fráfarandi framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.
4. Ályktun fundar leigjenda Þróunarseturs á Hólmavík.
5. Erindi frá Sólstöfum, systurfélagi Stígamóta, um ósk um samstarf um fræðslu og forvarnir gegn ofbeldi.
6. Upplýsingar frá Felli í Strandabyggð um starfsemi sumarsins.
7. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum ásamt drögum að lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum.
8. Umsókn um leiguíbúð að Austurtúni 8.
9. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 4. september 2008.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Erindi til fjárlaganefndar Alþingis ásamt greinargerð.
Greint var frá fundi með fjárlaganefnd Alþingis þann 15. september sl. ásamt greinagerð um erindi til nefndarinnar. Helstu mál sem rædd voru við fjárlaganefnd og leitað eftir stuðningi við voru; endurnýjun stálþils og þekju á aðalbryggju Hólmavíkurhafnar, stofnun framhaldsdeildar í Strandabyggð, unglingalandsmót UMFÍ 2010 á Hólmavík, menningarhús á Hólmavík, snjómokstur og viðhald vega m.t.t. skólaaksturs.
2. Yfirlýsing og bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Borist hefur erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 27. ágúst 2008 ásamt yfirlýsingu og bókun frá 22. ágúst. Í yfirlýsingunni er skorað á ríkisstjórnina að ganga strax til samningaviðræðna við sambandið um sérstakt aukaframlag að fjárhæð 1.400 millj. kr. til jöfnunarsjóðs, framlengingu laga um stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, tryggingu fjármuna til Varasjóðs húsnæðismála, tryggingu fjármuna til stuðnings sameiningu sveitarfélaga, tryggingu fjármuna til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á slökkvibúnaði, hærri endurgreiðslur ríkisins vegna refa- og minkaveiða og endurskoðun á tekju- og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
Sveitarstjórn Strandabyggðar tekur heils hugar undir yfirlýsingu stjórnar Sambandsins og hvetur ríkisstjórnina til að ganga sem fyrst til samninga svo tryggja megi rekstrarafkomu sveitarfélaga.
3. Erindi frá Þórði Skúlasyni fráfarandi framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Borist hefur erindi frá Þórði Skúlasyni dags. 1. september 2008 þar sem hann þakkar sveitarstjórnarmönnum, framkvæmdastjórum sveitarfélaga og öðrum starfsmönnum bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum en Þórður lét af starfi framkvæmdastjóra eftir 18 ára starf. Sveitarstjórn og sveitarstjóri þakka Þórði fyrir gott og farsælt samstarf. Lagt fram til kynningar.
4. Ályktun fundar leigjenda Þróunarseturs á Hólmavík.
Borist hefur ályktun fundar leigjenda Þróunarseturs á Hólmavík dags. 10. september 2008 þar sem farið er fram á nokkrar úrbætur á húsnæðinu s.s. að lokið verði við klæðningu hússins, gert verði við stétt og settur þröskuldur og hurð á einni skrifstofunni. Verið er að vinna að þessum málum og stefnt að því að ljúka þeim sem fyrst.
5. Erindi frá Sólstöfum, systurfélagi Stígamóta, um ósk um samstarf um fræðslu og forvarnir gegn ofbeldi.
Borist hefur erindi frá Sólstöfum dags. 19. ágúst 2008 þar sem óskað er eftir þátttöku sveitarfélagsins í að senda alla starfsmenn sem vinna með börnum á námskeið sem fyrirbyggja, greina og bregðast á við kynferðislegu ofbeldi. Er gert ráð fyrir að sveitarfélagið styrki hvern starfsmann um 3.000 kr. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
6. Upplýsingar frá Felli í Strandabyggð um starfsemi sumarsins.
Borist hefur greinagerð frá stjórn F.G.J. Hafurs ehf. um starfsemi félagsins sumarið 2008. Lagt fram til kynningar.
7. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum ásamt drögum að lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum.
Borist hefur erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum dags. 20. ágúst 2008 ásamt drögum að lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum. Samþykkt var að vísa erindinu til Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar.
8. Umsókn um leiguíbúð að Austurtúni 8.
Borist hefur ein umsókn vegna Austurtúns 8 frá Guðbjörgu Á. Guðbrandsdóttur. Var samþykkt samhljóða að leigja Guðbjörgu Austurtún 8 frá og með 1. október 2008.
9. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 4. september 2008.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 4. september 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:05.