Sveitarstjórn - 1.september 2009
Ár 2009 þriðjudaginn 1. september var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 7 töluliðum, sem var eftirfarandi:
- 1. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 5. ágúst 2009.
- 2. Umsókn um leik- og grunnskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags.
- 3. Tillögur um hækkun þjónustugjalda fyrir Grunn- og Tónskóla Hólmavíkur.
- 4. Erindi frá Kirkjuráði um þinglýsingu kirkna.
- 5. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar 27. ágúst 2009.
- 6. Umsókn um styrk frá Sauðfjársetri ses.
- 7. Fjallskilaseðill 2009.
Þá var gengið til dagskrár.
- 1. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 5. ágúst 2009. Borist hefur fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 5. ágúst 2009. Lagt fram til kynningar.
- 2. Umsókn um leik- og grunnskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags. Borist hefur umsókn frá Magnúsi Sveinssyni um leikskóladvöl við leikskólann á Borðeyri fyrir Einar I. Magnússon og grunnskóladvöl við grunnskólann á Borðeyri fyrir Atla R. Magnússon. Umsóknirnar voru samþykktar samhljóða.
- 3. Tillögur um hækkun þjónustugjalda fyrir Grunn- og Tónskóla Hólmavíkur. Lagðar eru fram tillögur um hækkun þjónustugjalda fyrir Grunnskóla Hólmavíkur þar sem gert er ráð fyrir 9-10% hækkun á mötuneytisgjaldi og gjaldi vegna heimanáms og Skólaskjóls. Gjald fyrir barn sem væri í fullu fæði og fengi vistun í Skólaskjóli ásamt aðstoð við heimanám myndi hækka úr 17.765 kr. í 19.380 kr. eða um rúm 9%. Þá er lögð fram tillaga um hækkun tónskólagjalds úr 14.700 kr. í 16.200 kr. og systkynaafslætti breytt í þá veru að 25% afsláttur yrði fyrir annað barn, 50% afsláttur fyrir þriðja barn, 75% afsláttur fyrir fjórða barn og 100% afsláttur fyrir fimmta barn eða fleiri. Samþykkt var að hækka þjónustugjöld við Grunnskólann strax en hækkun tónskólagjalda komi til framkvæmda um áramót.
- 4. Erindi frá Kirkjuráði um þinglýsingu kirkna. Borist hefur erindi frá Kirkjuráði dags. 14. júlí 2009 þar sem greint er frá því að fara eigi í það verkefni að koma þinglýsingum kirkjulegra eigna í viðunandi horf. Hefur Kirkjuráð ákveðið að taka út nokkrar kirkjur í dreif- og þéttbýli til að fá reynslu af verkferlinu sem þessu fylgir og var Hólmavíkurkirkja m.a. fyrir valinu. Samþykkt var samhljóða að taka þátt í þessu verkferli.
- 5. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar 27. ágúst 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 27. ágúst 2009. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
- 6. Umsókn um styrk frá Sauðfjársetri ses. Borist hefur umsókn dags. 27. ágúst 2009 um styrk að fjárhæð kr. 1.500.000 frá Sauðfjársetri ses. til uppbyggingar og reksturs Sauðfjárseturs á Ströndum. Hefur erindið áður verið sent til héraðsnefndar Strandasýslu, fyrst í nóvember 2008 og svo aftur 22. maí 2009 þar sem þess var krafist að erindið yrði tekið fyrir hið fyrsta. Samþykkt var að vísa erindinu aftur til héraðsnefndar og krefjast þess að nefndin sjái sóma sinn í að sinna sínu starfi.
- 7. Fjallskilaseðill 2009. Lagður er fram til samþykktar fjallskilaseðill ársins 2009. Engar athugasemdir eru gerðar við seðilinn og hann samþykktur samhljóða.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:10.