A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 8. apríl 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 8. apríl var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:


Oddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um að 7. liðurinn yrði tekinn inn á dagskrá og var það samþykkt. Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 7 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Erindi frá Gunnlaugi Sighvatssyni um afsögn nefndarstarfa vegna búferlaflutninga.
3. Beiðni frá Mótorkross félagi Geislans um styrk við gerð mótorkrossbrautar.
4. Beiðni frá Icefitness ehf. um styrk að fjárhæð 50.000 kr. fyrir verkefnið "Skólahreysti".
5. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um fyrirhugað fjórðungsþing 5. og 6. september á Reykhólum.
6. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 1. apríl 2008.
7. Fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar frá 5. mars 2008.


Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er gerð grein fyrir fundi sem haldinn var með stjórn Golfklúbbs Hólmavíkur þar sem farið var yfir fyrirhuguð verkefni klúbbsins við uppbyggingu á íþróttasvæðinu út á Grundum. Búið er að gera samning við Geislann um samnýtingu á fyrirhuguðu aðstöðuhúsi sem staðsett yrði á Grundum. Mikilvægt er talið að hægt verði að koma upp húsinu fyrir sumarið og er nú verið að athuga hvaða fyrirkomulag henti best til að halda kostnaði niðri. 

Þá er greint frá fyrirhugaðri opnun hússins að Höfðagötu 3 þann 24. apríl n.k. og verður formlega athöfn í því sambandi. Mun Menningarráð Vestfjarða vera með úthlutun styrkja í Félagsheimilinu á Hólmavík fyrr um daginn en að því loknu verður opið hús að Höfðagötu 3 þar sem gestum og heimamönnum gefst kostur á að skoða húsnæðið og munu þeir, sem aðstöðu hafa í húsinu, vera á staðnum til að kynna starfsemi sína.


2. Erindi frá Gunnlaugi Sighvatssyni um afsögn nefndarstarfa vegna búferlaflutninga
Borist hefur erindi frá Gunnlaugi Sighvatssyni dags. 14. mars 2008 þar sem hann segir af sér nefndarstörfum í Atvinnumálanefnd og Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd vegna búferlaflutnings. Sveitarstjórn þakkar Gunnlaugi Sighvatssyni fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar honum velfarnaðar á nýjum stað. 


3. Beiðni frá Mótorkross félagi Geislans um styrk við gerð mótorkrossbrautar. 
Borist hefur erindi frá Mótorkross félagi Geislans þar sem kynntar eru fyrirhugaðar framkvæmdir við gerð keppnisbrautar fyrir starfsemina. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og samþykkir að boða forráðamenn félagsins til viðræðna við sveitarstjórn um framkvæmd og kostnað við gerð brautarinnar.


4. Beiðni frá Icefitness ehf. um styrk að fjárhæð 50.000 kr. fyrir verkefnið "Skólahreysti". 
Borist hefur erindi frá Icefitness ehf. þar sem farið er þess á leit að sveitarstjórn styrki verkefnið "Skólahreysti" um 50.000 kr. en kostnaður vegna keppninnar er talin verða 22 milljónir. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hafna erindinu þar sem ekki hefur verið nein þátttaka í verkefninu hér í grunnskólanum á Hólmavík.


5. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um fyrirhugað fjórðungsþing 5. og 6. september á Reykhólum. 
Borist hefur erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags. 26. mars 2008 þar sem samþykkt var á fundi stjórnar að boða til 53. Fjórðungsþings Vestfirðinga þann 5. og 6. september nk. Lagt fram til kynningar.


6. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 1. apríl 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 1. apríl 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.


7. Fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar frá 5. mars 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar frá 5. mars 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.


Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 18:15.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón