A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1327 í Strandabyggð 11. janúar 2022

Sveitarstjórnarfundur nr.  1327 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 11. janúar 2022 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:02. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar
  2. Viðmiðunarreglur um snjómokstur og hálkuvarnir í Strandabyggð
  3. Byggðakvóti fiskveiðiársins 2022-2023
  4. Endurskoðun samnings um embætti skipulags- og byggingarfulltrúa
  5. Erindi frá slökkviliðsstjóra varðandi drög að brunavarnaráætlun og framkvæmdaáætlun næstu 5 ára
  6. Vinnslutillaga Aðalskipulags Dalabyggðar 2020-2032, óskað umsagnar
  7. Styrkbeiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu vegna flugeldasýningar 31.12.2021
  8. Fræðslunefndarfundur 20.12.2021
  9. Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 904 frá 10.12.2021
  10. Fundargerð stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga nr. 64 frá 13.12.2021
  11. Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands nr. 440 frá 3.12.2021

 

Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna, spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og óskaði eftir að tekið verði fyrir eitt mál sem afbrigði á fundinum. Var samþykkt að tekið yrði fyrir mál nr. 12. Viðræður um sameiningu Reykhólahrepps og Strandabyggðar.

 

Þá var gengið til dagskrár:

 
1. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar

Lögð fram tillaga að Húsnæðisáætlun Strandabyggðar 2022. Umræða varð um húsnæðisþörf á svæðinu. Oddviti lagði til að tillagan yrði samþykkt, en einnig var rætt um að áætlunin þyrfti að vera í stöðugri endurskoðun og lagt til að hún verði endurskoðuð að ári liðnu. Húsnæðisáætlunin samþykkt samhljóða og oddvita falið að senda hana til Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar.  

 
2. Viðmiðunarreglur um snjómokstur og hálkuvarnir í Strandabyggð

Lögð fram tillaga um Viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs og hálkuvarna í Strandabyggð. Breytingar frá fyrri reglum eru minniháttar, en þó er sú breyting gerð að reglurnar eru ekki tímasettar, heldur gilda þar til önnur ákvörðun er tekin. Reglurnar samþykktar samhljóða.


3. 
Byggðakvóti fiskveiðiársins 2022-2023

Pétur Matthíasson víkur af fundi. Borist hefur erindi frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dags. 21. des. 2021, þar sem fram kemur úthlutað hefur verið 140 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Hólmavíkur vegna fiskveiðiársins 2021/2022. Sveitarfélög hafa frest til 21. janúar að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur.

 

Oddviti leggur fram tillögu um að gerðar verði breytingar á 6. grein reglugerðarinnar hvað varðar að ákvæði um vinnsluskyldu sé fellt niður, en sett inn ákvæði um löndunarskyldu á þeim afla sem telst til byggðakvóta í byggðarlaginu. Einnig að 4. grein reglugerðarinnar verði breytt með þeim hætti að úthlutun byggðakvótans verði á þá leið að 25% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt jafnt milli þeirra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar og 75% verði skipt hlutfallslega, til sömu skipa, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan byggðarlagsins á síðasta fiskveiðiári. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða. Oddvita er falið að senda tillögur um sérreglur fyrir Strandabyggð til ráðuneytisins. Pétur tekur aftur sæti á fundinum.

 
4. Endurskoðun samnings um embætti skipulags- og byggingarfulltrúa

Lögð fram drög að samningi um embætti skipulags- og byggingarfulltrúa milli Dalabyggðar, Strandabyggðar, Reykhólahrepps, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps. Samningurinn ræddur, en breytingar á samningi er gerðar í samræmi við reynslu síðustu ára og fyrirmæli frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að samningi og gefur oddvita umboð til að ganga frá samningnum eftir fund með samstarfssveitarfélögum.


5. 
Erindi frá slökkviliðsstjóra varðandi drög að brunavarnaráætlun og framkvæmdaáætlun næstu 5 ára

Lögð fram drög að Brunavarnaáætlun Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda 2022-2026 og Framkvæmdaáætlun 2022-2026 fyrir Slökkvilið Strandabyggðar. Brunavarnaáætlun hefur verið lögð fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Varðandi framkvæmdaáætlun fyrir Slökkvilið Strandabyggðar er gert ráð fyrir kostnaði að upphæð 4,3 milljónir á árinu 2022, en sveitarstjórn hefur ráðstafað 1,5 milljón til verkefnisins á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Sveitarstjórn leggur til að slökkviliðsstjóra og varðstjórum á svæðinu verði falið að forgangsraða framkvæmdum í samræmi við fjárhagsáætlun Strandabyggðar.


6. 
Vinnslutillaga Aðalskipulags Dalabyggðar 2020-2032, óskað umsagnar

Lögð fram vinnslutillaga að Aðalskipulagi Dalabyggðar 2020-2032 ásamt bréfi skipulagsfulltrúa dags. 16. des. 2021 og óskað eftir umsögn. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við tillöguna og hyggst ekki skila inn umsögn.

 
7. Styrkbeiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu vegna flugeldasýningar 31.12.2021

Pétur Matthíasson víkur af fundi. Lögð fram styrkbeiðni dags. 15. des. 2021 frá Björgunarsveitinni Dagrenningu vegna flugeldasýningar á gamlársdag. Sveitarstjórn samþykkir styrk vegna flugeldasýningarinnar að upphæð kr. 20.000.-, en jafnframt að skoða hvort að styrkur til árlegrar flugeldasýningar geti orðið hluti af samstarfssamningi milli sveitarfélagsins og björgunarsveitarinnar í framtíðinni. Pétur kemur aftur á fundinn.


8. 
Fræðslunefndarfundur 20.12.2021

Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 20. desember 2021. Varðandi lið 5 samþykkir sveitarstjórn að senda erindi til HVE. Varðandi lið 6 er samþykkt að senda foreldrum kynningarpóst til að útskýra nánar fyrirkomulag á tónlistarkennslunni, auk þess sem sveitarstjórn hyggst skoða málið út frá skilgreiningu og reglum um tónlistarskóla. Samþykkt að kanna hvort möguleiki sé að efla tónlistarkennslu í takt við þarfir og í samstarfi við nágrannasveitarfélög. Fundargerðin er samþykkt að öðru leyti.


9. 
Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 904 frá 10.12.2021

Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. des. 2021 lögð fram til kynningar.


10. 
Fundargerð stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga nr. 64 frá 13.12.2021

Fundargerð stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga dags. 13. des. 2021 lögð fram til kynningar.


11. 
Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands nr. 440 frá 3.12.2021

Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands frá 3. des. 2021 lögð fram til kynningar.


12. Viðræður um sameiningu Reykhólahrepps og Strandabyggðar

Sveitarstjórn Strandabyggðar þakkar Reykhólahreppi fyrir jákvætt svar við erindi um viðræður sveitarfélaganna. Samþykkt samhljóða að leggja til að sveitarstjórnirnar fundi hið fyrsta og hefji óformlegar viðræður.

 

Fundargerðin yfirfarin og samþykkt.

 

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:59.

 

Jón Gísli Jónsson

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

Ásta Þórisdóttir

Pétur Matthíasson

Jón Jónsson

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón