A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1335 í Strandabyggð 9. ágúst 2022

Sveitarstjórnarfundur nr. 1335 var haldinn þriðjudaginn 9. ágúst 2022 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Prókúra fyrir Strandabyggð og áreiðanleikakönnun sveitarstjórnarmanna
2. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga bréf v. ársreiknings 2021
3. Ráðningarsamningur sveitarstjóra m.undirritun og verkefnaskýrsla
4. Skipun í nefndir á vegum Strandabyggðar
a. Fulltrúar í undirbúningsnefnd vegna aðalskipulags
b. Varamaður í Svæðisskipulag Dalabyggðar, Strandabyggðar- og Reykhóla
c. Fulltrúi og varamaður í fulltrúaráð umhverfisvottunar Vestfjarða
d. Varamenn í kjörstjórn Strandabyggðar
e. Fulltrúi og varamaður í Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda
f. Fulltrúi og varamaður í stjórn Fiskmarkaðs Hólmavíkur
g. Fulltrúi og varamaður í stjórn Hornsteina
5. Samfélagssáttmáli um styrkveitingar
6. Réttarsmíði í Staðardal, í landi Hrófbergs, samningur við landeigendur
7. Fjallskilaseðill 2022
8. Erindi frá Galdur brugghús ehf. varðandi tímabundinn stuðning við nýja starfsemi
9. Umsókn um vilyrði fyrir lóð undir hótelstarfsemi, erindi Friðjóns Sigurðarsonar frá 1. júlí 2022
10. Skipulagsstofnun, beiðni um umsögn Strandabyggðar v. strandsvæðisskipulags Vestfjarða
11. Minjastofnun stefnuskjal um verndun og rannsóknir á fornleifum ásamt minnisblaði um bátaarfinn
12. Samþykkt vegna stöðu sauðfjárræktar
13. Erindi frá Náttúrustofu Vestfjarða vegna endurútreiknings v. 2021
14. Tillaga að aðalskipulagi Reykhólahrepps, 2022-2034, til umsagnar
15. Tillaga að aðalskipulagi Dalabyggðar, 2020-2032, til umsagnar
16. Breyting á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030, til umsagnar
17. Fundargerð Brunavarna Dala, Reykhóla- og Stranda frá 20. júní 2022
18. Ársfundur Starfsendurhæfingar Vestfjarða 1. júní 2022 ásamt ársreikningi
19. Ársreikningur BS vest 2021 ásamt tillögu að breytingu á samþykktum
20. Vestfjarðastofa, fundargerðir 45 og 46, frá 27.apríl 2022 og 1.júní 2022
21. Vestfjarðastofa, framhaldsársfundur 27. apríl 2022
22. Vestfjarðastofa, fundargerð ársfundar 14. júní 2022
23. Fulltrúaráð Vestfjarðarstofu fundargerð 14. júní 2022
24. Bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um um stöðu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni, til kynningar
25. Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórnarfundir 910 frá 20. maí 2022 og 911 frá 23. júní, til kynningar
26. Landsþing Sambands sveitarfélaga 28.-30. september 2022
27. Hafnarsamband Íslands stjórnarfundur nr. 444 frá 14. júní 2022
28. Hafnarsamband Íslands boðun á hafnasambandsþing í Ólafsvík 27.-28. október 2022


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og Matthías er með athugasemd varðandi mál sem A-listi óskaði eftir að tekið yrði fyrir á fundinum í dag en oddviti hafnaði því að taka það inn á dagskrá þessa fundar þar sem það hefði verið tekið fyrir á fundi nr. 1333. A-listinn óskar eftir að 2 erindi verði tekin fyrir sem afbrigði á fundinum. Oddviti hafnar beiðni um afbrigði með þeim rökum sem lögð voru fram á fundi nr. 1333. Jafnframt vill oddviti taka fram að í síðasta bréfi frá fyrrum sveitarstjórn séu meiningar til annara í núverandi sveitarstjórn sem eiga ekki aðild að þessum deilum og mun oddviti leita til lögfræðings sveitarfélagsins varðandi bréf þessi, jafnframt verður fundur næstkomandi fimmtudag með lögfræðingi sveitarfélagsins og í framhaldinu verður erindinu svarað hafi forsendur breyst. Þorgeir spyr Matthías jafnframt hverra erinda hann sé að ganga. Matthías segir að hann sé að ganga erinda íbúa sveitarfélagsins.


A-listinn óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


“Í bréfi frá íbúum og fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum Strandabyggðar sem dagsett er 2. ágúst 2022 er ítrekuð krafa þeirra um svör við bréfi sínu frá 31. maí og benda þau á að nú sé oddviti settur undir stjórnsýslu-og upplýsingalög og beri skylda til að svara erindum sem honum berast. A-listinn krefst þess að meirihluti sveitarstjórnar svari þessu bréfi, einkum í því ljósi að þeim er skylt að svara erindum íbúa. A-listinn harmar þá afstöðu meirihluta sveitarstjórnar að ekki þurfi að svara erindum formlega.”

Jafnframt óskar A-listinn eftir að leggja fram eftirfarandi bókun um bréf frá 4. Ágúst 2022.


„Í bréfi sem sveitarstjórn barst 4. ágúst 2022 frá íbúum og fyrrverandi sveitarstjórnamönnum Strandabyggðar er bent á rangfærslu í fundargerð sveitarstjórnar frá 14. júní 2022. Í fundargerðinni stendur: „Þorgeir segir að stjórnsýsluskoðun sé mjög öflugt tæki til skoðunar og nefnir að í stjórnsýsluskoðun v. 2020 hafi komið fram athugasemd varðandi gjöf sveitarstjórnar á hlut Hvatar í Sævangi. Við sveitarstjórnarmenn A-lista biðjum íbúa afsökunar á okkar mistökum á fundinum, að benda ekki strax á þessa rangfærslu, enda eins og stendur í bréfinu „Í stjórnsýsluúttektinni vegna 2020 er ekkert minnst á Sævang. Því er þessi yfirlýsing Þorgeirs Pálssonar oddvita í besta falli villandi og jafnvel má líta á hana sem hrein ósannindi. Við hvetjum núverandi sveitarstjórnarfulltrúa til að fullvissa sig um þetta, með því að skoða sjálf skýrslu dagsetta 28. apríl 2021 frá KPMG með Stjórnsýsluskoðun Strandabyggðar 2020, svo þau geti sjálf séð hið rétta í málinu. Jafnframt leggjum við til að sveitarstjórn birti þetta skjal opinberlega samhliða leiðréttingu, að fengnu leyfi KPMG, til að íbúar geti einnig glöggvað sig á málinu, enda er ekkert í úttektinni sem ekki þolir dagsljósið.“

Við sveitarstjórnarfólk A-lista munum því, að fegnu leyfi KPMG, birta stjórnsýsluúttektir síðustu fjögurra ára opinberlega, til að auka gagnsæi og miðla réttum upplýsingum til íbúa sveitarfélagsins.

Jafnframt óskar A-listinn eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


„A-listinn mótmælir harðlega að oddviti hafi hafnað því að taka tvö mál á dagskrá 1335 fundar sveitarstjórnar Strandabyggðar sem sveitarstjórnarmenn listans lögðu fram.
Í sveitarstjórnarlögum 138/2011 segir „27. gr. Réttur til að bera upp mál. Sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.“ og einnig samþykktir Strandabyggðar „10. gr. Sveitarstjórnarmaður sem óskar að fá mál tekið á dagskrá sveitarstjórnarfundar skal tilkynna framkvæmdarstjóra það skriflega með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund“. Í Siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð segir: 2. gr. Kjörnir fulltrúar skuli í störfum sínum fylgja lögum, sem og reglum og samþykktum Strandabyggðar. Þeim ber að gæta almannahagsmuna í störfum sínum og hagsmuna sveitarfélagsins og hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu.“
Óskað var eftir því með 5 sólarhringa fyrirvara að þessi tvö mál yrðu sett á dagskrá sveitarstjórnarfundar nr. 1335, en oddviti hafnaði því og skrifar orðrétt í tölvupósti: „Ef minnihlutinn er enn ósáttur við þessa málameðferð, er honum frjálst að senda inn formlega kvörtun til innviðaráðuneytisins.“
Það er ólíðandi að oddviti Strandabyggðar brjóti ítrekað sveitarstjórnarlög, samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar og sniðgangi Siðareglur Strandabyggðar.“


Oddviti fagnar því að stjórnsýsluúttektir verði birtar til upplýsingar en hafnar afbrigðinu. Oddviti hvetur hlutaðeigendur til að kynna sér umræðu á sveitarstjórnarfundi þann 14. Júní 2022 þar sem skýrt kom fram að ýmsar ábendingar og athugasemdir rata ekki alltaf í stjórnsýsluúttektina sjálfa. Oddviti tiltók líka sérstaklega að þar sem talað er um breyttar lagalegar forsendur, kýs oddviti að bera þær undir lögfræðing sveitarfélagsins. Matthías Sævar Lýðsson þakkar oddvita Þorgeiri Pálssyni fyrir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Prókúra fyrir Strandabyggð og áreiðanleikakönnun sveitarstjórnarmanna. Lögð er fram til undirritunar tilkynning um breytingu á stjórn sveitarfélagsins til skráningar hjá Fyrirtækjaskrá. Sveitarstjórn skipa Þorgeir Pálsson sem jafnframt er prókúruhafi sveitarfélagsins, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir sem er fjarverandi á fundi þessum. Einnig er Salbjörgu Engilbertsdóttur skrifstofustjóra veitt prókúra fyrir hönd sveitarfélagsins. Allir viðstaddir aðalmenn undirrita skráninguna í fyrirtækjaskrá. Einnig munu fimm aðalmenn í sveitarstjórn og prókúruhafar skila inn áreiðanleikakönnun til viðskiptabanka sveitarfélagsins og lánastofnana. Samþykkt samhljóða.


2. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga bréf v. ársreiknings 2021. Lagt er fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga frá 22. Júní 2022 varðandi niðurstöðu úr ársreikningi sveitarfélagsins 2021 en ekki náðist að uppfylla lágmarksviðmið nefndarinnar varðandi jafnvægis-og skuldareglu. Oddviti tekur fram að um ábendingu sé að ræða og í umræðu um fjárhagsáætlun þurfi að vinna vel að tekjuaukningu og aðhaldi í rekstri.

Þorgeir Pálsson víkur af fundi og Jón Sigmundsson tekur við stjórn fundarins.

3. Ráðningarsamningur sveitarstjóra m.undirritun og verkefnaskýrsla.Lagður fram undirritaður ráðningarsamningur sveitarstjóra frá 24. Júní 2022 en gerðar voru breytingar á samningnum skv. umræðum fundar nr. 1334. A-listi gerir engar athugasemdir við undirritaðan samning.


Þorgeir Pálsson kemur aftur á fundinn og tekur við fundarstjórn.


Einnig er lögð fram til kynningar, verkefnaskýrsla sveitarstjóra vegna vinnu í júní og júlí.
Rædd voru ýmis atriði sem fram komu í skýrslunni m.a. réttarvinna og fjárgirðingar, mötuneyti leik- og grunnskóla, ýmsar framkvæmdir og fleira. Verður ábendingum fylgt eftir á næstunni.


4. Skipun í nefndir á vegum Strandabyggðar
a. Fulltrúar í undirbúningsnefnd vegna aðalskipulags. Lagt er til að Grettir Örn Ásmundsson byggingarfulltrúi, Arwa Alfadhli skipulagsfulltrúi, Matthías Sævar Lýðsson formaður US nefndar, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Þorgeir Pálsson sveitarstjóri verði aðalfulltrúar. Samþykkt samhljóða.

b. Varamaður í Svæðisskipulag Dala, Reykhóla- og Stranda. Lagt er til að Guðfinna Lára Hávarðardóttir verði varamaður. Samþykkt samhljóða.

c. Fulltrúi og varamaður í fulltrúaráð umhverfisvottunar Vestfjarða. Lagt er til að Óskar Hafsteinn Halldórsson verði aðalfulltrúi og Ragnheiður Ingimundardóttir verði til vara. Samþykkt samhljóða.

d. Varamenn í kjörstjórn Strandabyggðar. Lagt er til að Þorsteinn Sigfússon og Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir verði varamenn. Samþykkt samhljóða.

e. Fulltrúi og varamaður í Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda. Lagt er til að Þorgeir Pálsson verði aðalfulltrúi og Gunnar Númi Hjartarson til vara. Samþykkt samhljóða.

f. Fulltrúi og varamaður í stjórn Fiskmarkaðs Hólmavíkur. Lagt er til að aðalfulltrúi verði Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Guðfinna Lára Hávarðardóttir til vara. Samþykkt samhljóða.

g. Fulltrúi og varamaður í stjórn Hornsteina. Lagt er til að Grettir Örn Ásmundsson verði aðalfulltrúi og Hlíf Hrólfsdóttir til vara. Samþykkt samhljóða.


5. Samfélagssáttmáli um styrkveitingar. Lögð eru fram drög að Samfélagssáttmála um styrkveitingar í Strandabyggð. Strandabyggð hefur lengi stutt við ýmis konar grasrótarstarf með beinum og óbeinum styrkveitingum og með því eflt mannlíf í Strandabyggð. Styrkveitingar eru hins vegar ekki sjálfgefnar og því mikilvægt að vandað sé til verka, í sátt við íbúa og aðra hlutaðeigandi. Rétt er að hafa í huga að styrkveitingar eru í raun meðvituð ráðstöfun á fjármunum sveitarfélagsins og þar með íbúa.

Þorgeir Pálsson leggur fram eftirfarandi tillögu: Lagt er til að sveitarstjórn Strandabyggðar geri og samþykki svokallaðan samfélagssáttmála, sem hefði þann tilgang að efla skilning og þekkingu á eðli styrkveitinga og að skapa aukna sátt um ráðstöfun þess fjármagns sem þá fara í styrkveitingar. Lögð eru fram drög að samfélagssáttmála. Einnig er lagt til, að íbúum verði gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við drögin, fram að næsta sveitarstjórnarfundi.


Drög að samfélagssáttmála lögð fram og kynnt. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu áfram og leggja fram drögin og búa til farveg fyrir aðkomu íbúa að sáttmálanum. Samþykkt samhljóða.


6. Réttarsmíði í Staðardal, í landi Hrófbergs, samningur við landeigendur. Lagður fram lóðaleigusamningur við Einar Gottskálksson landeiganda á Hrófbergi um lóð nr. 141881 undir fjárrétt. Um er að ræða ótímabundinn samning sem er uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara og er ársleiga kr. 50.000 og bundin vísitölu neysluverðs 547,1. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða og felur sveitarstjóra að ganga frá undirritun samnings.


7. Fjallskilaseðill 2022. Lagður fram fjallskilaseðill 2022 til samþykktar. Fjallskilaseðillinn ræddur og nokkrar athugasemdir gerðar. Sveitarstjóra falið að fullvinna seðilinn í ljósi ábendinga og leiðréttinga og senda á sveitarstjórn til yfirlestrar. Að því loknu er seðillinn kynntur sem fyrst og staðfestur á fundi í september.


8. Erindi frá Galdur brugghús ehf. varðandi tímabundinn stuðning við nýja starfsemi. Lagt fram erindi frá Galdri brugghúsi ehf. varðandi niðurfellingu vatnsgjalda sem tímabundinn stuðning á fyrsta rekstrarári fyrirtækisins. Tekið er vel í erindið og er sveitarstjóra falið að kalla eftir frekari gögnum fyrir næsta fund. Vísað til afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar.


9. Umsókn um vilyrði fyrir lóð undir hótelstarfsemi, erindi Friðjóns Sigurðarsonar frá 1. júlí 2022. Lagt fram erindi frá Friðjóni Sigurðssyni fh. Fasteignaumsýslunnar ehf. varðandi lóðarvilyrði fyrir lóð nr. 1 við Jakobínutún sem skipulögð hefur verið undir gisti- og hótelstarfsemi. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og óskar eftir viðræðum og er sveitarstjóra falið að halda áfram samskiptum við hlutaðeigandi.


10. Skipulagsstofnun, beiðni um umsögn Strandabyggðar v. strandsvæðisskipulags Vestfjarða. Lögð fram tillaga að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða og óskað ábendinga frá sveitarstjórn fyrir 15. september 2022. Um er að ræða vinnugagn og handbók sem lítur að hluta Ísafjarðardjúps sem tilheyrir Strandabyggð. Íbúar og aðrir áhugasamir geta kynnt sér skipulagið á vef Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn hefur engar beinar athugasemdir og fagnar þessari vinnu.


11. Minjastofnun stefnuskjal um verndun og rannsóknir á fornleifum ásamt minnisblaði um bátaarfinn. Lögð fram drög að stefnuskjali og minnisblaði og óskað athugasemda frá Strandabyggð. Engar athugsemdir gerðar. Lagt fram til kynningar.


12. Samþykkt vegna stöðu sauðfjárræktar. Byggðastofnun vann nýlega skýrslu fyrir innviðaráðuneytið, en í henni er dregin upp dökk mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Rekstrarafkoman hefur verið neikvæð undanfarin ár og engar breytingar fyrirséðar, vegna hækkana á aðföngum. Verð afurða hefur ekki náð að halda í við þróun verðlags, sem ekki gengur til lengri tíma. Verði ekkert að gert er viðbúið að hrun verði í greininni með tilheyrandi byggðaröskun. Þetta væri þungt högg fyrir atvinnulíf í Strandabyggð, þar sem sauðfjárrækt er undirstaða í dreifbýli sveitarfélagsins. Landbúnaður er byggðafestugrein á svæðinu sem og hjá nágrannasveitarfélögum og því ljóst að landshlutinn í heild sinni á mikið undir. Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á stjórnvöld og hagaðila að taka höndum saman án tafar og vinna að viðsnúningi þessarar þróunar með fjölþættum aðgerðum. Samþykkt samhljóða.


13. Erindi frá Náttúrustofu Vestfjarða vegna endurútreiknings v. 2021. Lagður fram endurútreikningur á framlagi sveitarfélaganna vegna áranna 2020 og 2021 og farið fram á framlag vegna verðlagshækkana á þessum árum. Hlutur Strandabyggðar er kr. 534.507. Samþykkt samhljóða að verða við erindinu.


14. Tillaga að aðalskipulagi Reykhólahrepps, 2022-2034, til umsagnar. Sveitarstjórn leggur fram nokkrar athugasemdir varðandi sveitarfélagamörk og er sveitarstjóra falið að senda þær inn til skipulagsfulltrúa. Sveitarfélagið gerir að öðru leiti ekki athugasemdir við aðalskipulagið.


15. Tillaga að aðalskipulagi Dalabyggðar, 2020-2032, til umsagnar. Sveitarfélagið gerir engar athugasemdir við skipulagið.


16. Breyting á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030, til umsagnar. Sveitarfélagið gerir engar athugasemdir við skipulagið.


17. Fundargerð Brunavarna Dala, Reykhóla- og Stranda frá 20. júní 2022. Umræða varð um ástand slökkvibíls Strandabyggðar og ráðstafanir hafa verið gerðar varðandi viðgerð. Lögð fram til kynningar.


18. Ársfundur Starfsendurhæfingar Vestfjarða 1. júní 2022 ásamt ársreikningi. Lagt fram til kynningar.


19. Ársreikningur BS vest 2021 ásamt tillögu að breytingu á samþykktum. Lagt fram til kynningar.


20. Vestfjarðastofa, fundargerðir 45 og 46, frá 27.apríl 2022 og 1.júní 2022. Lagt fram til kynningar.


21. Vestfjarðastofa, framhaldsársfundur 27. apríl 2022. Lagt fram til kynningar.


22. Vestfjarðastofa, fundargerð ársfundar 14. júní 2022. Lagt fram til kynningar.


23. Fulltrúaráð Vestfjarðarstofu fundargerð 14. júní 2022. Lagt fram til kynningar.


24. Bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um stöðu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni, til kynningar. Sveitarstjórn tekur heilshugar undir bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Lagt fram til kynningar.


25. Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórnarfundir 910 frá 20. maí 2022 og 911 frá 23. júní, til kynningar. Lagt fram til kynningar.


26. Landsþing Sambands sveitarfélaga 28.-30. september 2022. Hlíf Hrólfsdóttir sækir Landsþingið sem kjörinn fulltrúi og Þorgeir Pálsson sem sveitarstjóri.


27. Hafnasamband Íslands stjórnarfundur nr. 444 frá 14. júní 2022. Lagt fram til kynningar


28. Hafnasamband Íslands boðun á hafnasambandsþing í Ólafsvík 27.-28. október 2022. Sigurður Marinó Þorvaldsson hafnarvörður mun sækja þingið.


Fundargerð lesin upp og fundi er slitið kl. 18.23

 

 

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón