A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1349 í Strandabyggð 8.8.2023

Sveitarstjórnarfundur nr. 1349 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 8. ágúst kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Viðauki II við fjárhagsáætlun 2023 – til afgreiðslu
2. Tónlistarskólinn á Akureyri, erindi 15.júní 2023 v. umsókna tveggja nemenda með lögheimili í Strandabyggð og beiðni um milligöngu v.kostnaðar – til afgreiðslu
3. Breytingar á nefndarskipan – til afgreiðslu
4. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 3. Ágúst 2023 – til afgreiðslu
5. Grunnskólinn á Hólmavík, staða framkvæmda – til kynningar
6. Innviðaráðuneyti bréf frá 24. Júlí 2023 v. athugasemdar við stjórnsýslu Strandabyggðar - til kynningar
7. Bændasamtök Íslands, bréf 6. júlí 2023 v. lausagöngu búfjár – til kynningar
8. Forstöðumannaskýrslur – til kynningar
9. Samantekt sveitarstjóra v. stöðu verkefna í júní – til kynningar
10. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir nr. 929 frá 9. júní 2023, 930 frá 15. júní 2023 og nr. 931 frá 22. júní 2023 – Til kynningar
11. Stjórn Hafnasambands Íslands fundargerð nr. 454 frá 13. júní 2023 –til kynningar


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Báðir listar gerðu athugasemd við fundarboðið og að auglýsing á heimasíðu og fundarboð til sveitarstjórnarmanna væri ekki í samræmi.

Sameiginleg tillaga beggja lista er að leggja til að tekið verði fyrir eftirfarandi afbrigði:


Lagt er til að tekið verði fyrir afbrigði á fundinum sem er Vinnslutillaga aðalskipulagsbreytinga á Hólmavík - Afgreiðsla aðalskipulagsbreytinga til auglýsingar skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga og verði 12. dagskrárliður.


Samþykkt samhljóða.


Þá var gengið til dagskrár:

1. Viðauki II við fjárhagsáætlun 2023 – til afgreiðslu

Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið, sem fór yfir viðaukann


Lagður er fram viðauki II við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2023


Tekjur:
a. Vegna endurútreiknings framlaga Jöfnunarsjóðs í júní er hækkun framlaga sem hér segir
Framlag vegna fasteignaskatts, kr. 18.437.000
Framlag vegna útgjaldajöfnunar kr. 74.806.000
Almennt grunnskólaframlag kr. 6.521.000
Framlag v. farsældar barna kr. 1.142.000

Samtals hækkun framlaga og hækkun rekstartekna af þessum sökum kr. 100.906.000.


Gjöld:
a. Hækkun v. Sorpsamlags Strandasýslu, greiðsla á hlut Strandabyggðar v. taprekstrar 2020-2022 kr. 7.413.976, samþykkt á fundi í júní 2023
b. Kaup á færanlegum skólastofum ásamt áætluðum flutningskostnaði og tengigjöldum kr. 16.492.000 + 8.000.000. Samtals kr. 24.400.000.

Hækkun rekstrarkostnaðar af þessum sökum er kr. 7.413.976.-
Hækkun fjárfestingakostnaðar kr. 24.400.000

Lögð er fram eftirfarandi bókun A-lista:

“Sveitarstjórnarmenn A-lista lýsa yfir ánægju með endurútreikning á framlögum Jöfnunarsjóðs til Strandabyggðar. Þegar tekjurnar hækka um kr. 100.906.000.- ætti að vera hægt að lækka skuldir eða álögur á íbúa sveitarfélagsins, sér í lagi í vegna þeirrar stöðu sem er nú í atvinnumálum. Það er óviðunandi að Strandabyggð sé til lengdar með hæstu útsvarsprósentu landsins, há fasteignagjöld og þungar álögur á barnafólk.


Með viðauka við fjárhagsáætlun er ekki lögð fram formleg beiðni stjórnar Sorpsamlags Strandasýslu um að sveitarfélögin sem eiga aðild að því greiði taprekstur síðustu þriggja ára. Tapið er ekki sundurliðað eftir árum, heldur einungis greint frá að hluti Strandabyggðar í heildartapinu 2020 til 2022 sé 7.413.976 kr. Aðgengi að aðalfundargerð, reikningum eða stjórnarfundargerðum eru ekki aðgengilegar á vefsvæði Sorpsamlagsins né heldur reglur um núverandi framkvæmd sorphirðu.”


Þorgeir útskýrði að aðalfundargerðin hefði verið samþykkt á fundi í júní. Salbjörg útskýrði að ársreikningar Sorpsamlagsins séu teknir inn í ársreikninga Strandabyggðar og þar er hluti sveitarfélagsins tekinn fram. Jón tók til máls og sagði að framundan væru kostnaðarsamar breytingar og innleiðing á nýju regluverki tæki vissan tíma.


Viðaukinn borinn undir atkvæði og er samþykktur samhljóða.


2. Tónlistarskólinn á Akureyri, erindi 15. júní 2023 v. umsókna tveggja nemenda með lögheimili í Strandabyggð og beiðni um milligöngu v.kostnaðar – til afgreiðslu


Oddviti rakti erindið og lagði til að sveitarstjórn samþykkti beiðnirnar. Samþykkt samhljóða.


3. Breytingar á nefndarskipan – til afgreiðslu


Oddviti sagði frá því, að í undirbúningi væru breytingar á formennsku í fræðslunefnd og atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd, sem væru þær að formenn skiptu um nefndir. Þorgeir tæki við FRÆ nefnd og Jón við ADH nefnd.
Einnig eru í umræðunni breytingar meðal einstakra nefndarmanna í öðrum nefndum. Þórdís Karlsdóttir kemur nú aftur inn í TÍM nefnd. Þá eru aðrar breytingar hugsanlegar.

Oddviti gaf síðan fulltrúum A lista færi á að segja frá breytingum þeirra nefnda þar sem A-listinn hefur formennsku.

Hlíf tók til máls og biðst lausnar á formennsku í Velferðarnefnd frá 1. ágúst 2023 til 31. Júlí 2024 og leggur til að Matthías Lýðsson taki við formennsku nefndarinnar og Guðfinna Lára Hávarðardóttir taki sæti varamanns í Velferðarnefnd. Matthías tók einnig fram að með þessum breytingum jafnist kynjahlutfallið innan nefndarinnar.

Beiðni Hlífar um tímabundna lausn frá setu í Velferðarnefnd er samþykkt með fjórum atkvæðum og Hlíf situr hjá.

Tillaga A-lista um breytingu á formennsku í Velferðarnefnd er samþykkt með fjórum atkvæðum en Hlíf situr hjá.


4. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 3. Ágúst 2023 – til afgreiðslu


Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið. Matthías fór yfir fundargerðina og útskýrði umræður fundarins.

Varðandi lið nr. 8. Þorgeir tekur til máls og spyr formann hverjum sé falið að senda svör eftir fundargerðina.

Varðandi lið nr. 2. Formaður US nefndar vill taka fram að hann sé ósáttur við að grenndarkynning hafi farið fram án vitundar nefndarinnar.

Oddviti telur að byggingarfulltrúi hafi unnið þessa grenndarkynningu í samráði við skipulagsfulltrúa.


Varðandi umræðu um grenndarkynningu í Víkurtúni 19-25 leggur Strandabandalagið fram eftirfarandi bókun með fyrirvara um staðfestingu skipulagsfulltrúa:


„Með vísan í fundargerð US nefndar frá 3.8. s.l., og í ljósi álits fulltrúa Landmótunar, telur sveitarstjórn ekki þörf á nýrri grenndarkynningu, þrátt fyrir að afstöðu hússins verði breytt. Byggingarfulltrúi grenndarkynnti framkvæmdina í júní, sem og var hún auglýst á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Engar formlegar athugasemdir bárust fyrir auglýstan lokafrest sem var 20. júlí, en gagnleg umræða varð á samfélagsmiðlum um staðsetningu og afstöðu hússins. Ljóst var að gera þyrfti breytingu á þann veg, að snúa húsinu þannig að stofur snéru í suður en ekki norður. Þar sem engar formlegar athugasemdir bárust fyrir tilskilinn tíma og þar sem umfang byggingar er hið sama, er ekki talin þörf á nýrri grendarkynningu. Gerð verður ný afstöðumynd, hún auglýst, sem og þessi niðurstaða sveitarstjórnar. Endurbætt gögn verða send sérstaklega til íbúa við Austurtún 2-12. Málið heldur þannig áfram í sínum farvegi, og væri næsta skref því að gefa út byggingarleyfi, þannig að framkvæmdir geti hafist“.


Varðandi lið 1. Um staðsetningu hleðslustöðva, er lagt til að sveitarstjórn fresti afgreiðslu byggingarleyfis og kalli eftir hönnunargögnum og nánari útfærslu. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið 2. Afgreiðslu málsins er frestað þar til afstaða skipulagsfulltrúa liggur fyrir. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið 6. Lagt er til að sveitarstjórn veiti framkvæmdaleyfi með skilyrðum sem tekin eru fram í fundargerðinni. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið 7. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nauteyrar og verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samþykkt samhljóða.


5. Grunnskólinn á Hólmavík, staða framkvæmda – til kynningar


Lagt fram til kynningar. Matthías óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum og útskýrði Þorgeir og svaraði spurningum Matthíasar og fór jafnframt yfir ýmis mál í skipulagi skólastarfs komandi vetrar. Fram kom í máli Þorgeirs að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að kennsla hefjist í grunnskólahúsnæðinu fyrr en líður á haustið. Gert er ráð fyrir að yngsta stiginu verði kennt í færanlegri skólastofu á skólalóð.


6. Innviðaráðuneyti bréf frá 24. júlí 2023 v. athugasemdar við stjórnsýslu Strandabyggðar - til kynningar


Lagt fram til kynningar.


A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


„Á fundi sveitarstjórnar þann 29.12.2022 stóð til að hækka útsvarsprósentu sveitarfélagsins úr 14,95% í 15,17% til að koma til móts við aukin útgjöld vegna fjármögnunar á framlagi í málaflokk málefna fatlaðs fólks. Bókun sveitarstjórnarfundar var „Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki 0,22% viðbótarálagningu á núverandi álagsprósentu. Samþykkt samhljóma.“ Það er grundvallarmunur á að 0,22% viðbótarálagningu á núverandi útsvarsprósentu og 0,22% - stiga viðbótarálagningu á núverandi útsvarsprósentu. Þannig að í stað þess að hækka útsvarsprósentu í 15,17% varð hækkunin aðeins um 0,03% - stig eða í 14,98%. Þrátt fyrir þessi mistök er Strandabyggð samt með hæstu útsvarsprósentu sveitarfélaga í landinu eða 0,24% - stiga hærri en næstu sveitarfélög.

Það sem samþykkt er á sveitarstjórnarfundum er ákvörðun sem verður ekki breytt nema á öðrum lögmætum sveitarstjórnarfundi. A-listi telur að mistök í framsetningu og bókun um málið hafi valdið því að hækkunin varð ekki eins og til stóð. Sveitarstjórnarmönnum A-lista sást yfir þessi mistök á þessum stutta fundi sem haldinn var. Við teljum því að Strandabyggð verði að standa við þessa ákvörðun sína eins og hún er bókuð í fundargerð og útsvarsprósenta Strandabyggðar verði því 14,98%.”


Strandabandalagið leggur fram eftirfarandi bókun:


“Þar sem Innviðaráðuneytið er með málið til umfjöllunar og hefur ekki fengið greinargerð Strandabyggðar í hendur telur Strandabandalagið ekki tímabært að lögð sé fram bókun sem mætti túlka sem niðurstöðu málsins. Strandabandalagið fellst hins vegar á að A-listinn leggi fram sína bókun en bendir á að hún sé í engu niðurstaða málsins og er alfarið á ábyrgð A-lista.”


Jón tekur fram að hann vilji bíða niðurstöðu ráðuneytisins. Sigríður er á sama máli. Oddviti samþykkir framlagðar bókanir.


7. Bændasamtök Íslands, bréf 6. júlí 2023 v. lausagöngu búfjár – til kynningar


Lagt fram til kynningar.


8. Forstöðumannaskýrslur – til kynningar


Lagðar fram til kynningar.


9. Samantekt sveitarstjóra v. stöðu verkefna í júní – til kynningar


Lagt fram til kynningar. Matthías óskaði eftir að leggja fram spurningar um einstök atriði í samantekt sveitarstjóra sem sveitarstjóri svaraði eins og efni stóðu til.


10. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir nr. 929 frá 9. júní 2023, 930 frá 15. júní 2023 og nr. 931 frá 22. júní 2023 –
Til kynningar


Lagðar fram til kynningar


11. Stjórn Hafnasambands Íslands fundargerð nr. 454 frá 13. júní 2023 –til kynningar


Lagðar fram til kynningar.


12. Vinnslutillaga aðalskipulagsbreytinga á Hólmavík - Afgreiðsla aðalskipulagsbreytinga til auglýsingar skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga


Oddviti rakti tilurð málsins og tiltók að kynningu á vinnslutillögu aðalskipulagsbreytinga á Hólmavík er lokið í Skipulagsgátt. Næstu skref í aðalskipulagsmálinu eru að sveitarstjórn tekur málið fyrir og því næst ber að senda breytingartillögu til Skipulagsstofnunar til athugunar fyrir auglýsingu skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga, eða eins og segir: Að lokinni kynningu skv. 2. mgr. skal aðalskipulagstillagan lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Sveitarstjórn skal að lokinni umfjöllun sinni senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar. Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst henni skal tillagan auglýst óbreytt skv. 31. gr.

Oddviti lagði til að tillagan yrði samþykkt með fyrirvara um staðfestingu skipulagsfulltrúa. Samþykkt samhljóða.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18.18

Þorgeir Pálsson (sign)
Jón Sigmundsson (sign)
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir (sign)
Matthías Sævar Lýðsson (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign)

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón