A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1352 í Strandabyggð 14.nóvember 2023

Sveitarstjórnarfundur nr. 1352 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. nóvember kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Ragnheiður Ingimundardóttir varamaður í fjarveru Hlífar Hrólfsdóttur. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Fjárhagsáætlun 2024-2027, fyrri umræða – Til afgreiðslu
2. Viðauki IV – frestun framkvæmda og tilfærslur – Til afgreiðslu
3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga sbr. fjárhagsáætlun 2023 - Til afgreiðslu
4. Velferðarþjónusta Vestfjarða, samningur til seinni umræðu – Til afgreiðslu
5. Velferðarþjónusta Vestfjarða viðauki II, fyrri umræða – Til afgreiðslu
6. Umsókn um milligöngu sveitarfélags vegna skólagöngu nemenda við Tónlistarskólann á Akureyri – Til afgreiðslu
7. Breyting kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn – Til afgreiðslu
8. Erindi frá Innviðaráðuneyti, álitsgerð vegna kvörtunar um ólögmæta stjórnsýslu Strandabyggðar – Til kynningar
9. Erindi frá foreldrafélagi grunn, tón- og leikskóla vegna stöðu á þjónustu – Til kynningar
10. Erindi frá foreldrafélagi grunn, tón- og leikskóla vegna umferðaröryggis – Til kynningar
11. Fundargerðir Ungmennaráðs frá 22. Október og fundargerð frá Ungmennaþingi 4. Nóvember 2023 – Til kynningar
12. Tómstunda, íþrótta-og menningarnefnd fundargerð frá 7. nóvember 2023 – Til kynningar
13. Fræðslunefnd, fundargerð frá 8. nóvember 2023 – Til afgreiðslu
14. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 9. nóvember 2023 – Til afgreiðslu
15. Sterkar Strandir, fundargerð frá 28.september 2023 – Til kynningar
16. Forstöðumannaskýrslur október – Til kynningar
17. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í október – Til kynningar
18. Aflið styrkbeiðni – Til afgreiðslu
19. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða greinargerð með áætlun 2024 – Til kynningar
20. Fjórðungssamband Vestfjarða staðfest þinggerð 68. Fjórðungsþings ásamt ályktunum þingsins – Til kynningar
21. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 934 frá 29. september og 935 frá 18. september og 936 frá 27. október–Til kynningar
22. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 457 frá 19. október 2023 – Til kynningar


Þorgeir Pálsson oddviti býður fundarmenn velkomna og spyr hvort athugasemdir séu við fundarboðið. Matthías tekur til máls og tekur fram að mál sem kynnt séu í dagskrá fundarins eigi að vera lögð fram án greiningar hvort þær séu til kynningar eða afgreiðslu.

Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi afbrigði:


1. Bréf Jóns Jónssonar til sveitarstjórnar frá 8. nóvember verði tekið fyrir á þessum fundi.

2. Tillaga A:Íþrótta og tómstundastyrki verði tekin á dagskrá þessa sveitarstjórnarfundar.
B; Öll börn 17 ár og yngri með lögheimili í Strandabyggð fái árskort í sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar.

3. Umræða um yfirlýsingu fulltrúa stofnana í verkefninu Sterkar Strandir

4. Að tillaga um „Siðareglur starfsmanna Strandabyggðar“ verði tekin á dagskrá þessa sveitarstjórnarfundar


5. Umsókn Kristínar Önnu Oddsdóttur um námsleyfi


Oddviti gefur varaoddvita orðið. Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir tók til máls varðandi afbrigði nr 1.og telur að um trúnaðarmál sé að ræða og það verði ekki tekið til umræðu. Gengið var til atkvæða og kaus T listi með því að hafna því að taka erindið inn sem afbrigði gegn 2 atkvæðum A-lista.


Afbrigði númer 2 var samþykkt samhljóða og verður númer 23 í dagskrá.

Afbrigði númer 3 var samþykkt samhljóða og fer inn sem liður númer 24.

Afbrigði númer 4 var samþykkt samhljóða og verður liður númer 25.

Afbrigði númer 5 var samþykkt samhljóða og verður liður númer 26 í dagskrá.


Oddviti bar fram tillögu um afbrigði sem er beiðni ISAVIA um uppsetningu jarðstöðvar við flugvöllinn, á öðru landsvæði en áður. Oddviti óskaði eftir að fundurinn tæki afstöðu með handauppréttingu.

Afbrigðið samþykkt samhljóða og verður liður númer 27 á dagskrá.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Fjárhagsáætlun 2024-2027, fyrri umræða – Til afgreiðslu


Oddviti ræddi forsendur og nefndi þar sérstaklega útsvarshlutfallið, sem nú verður lækkað í 14,52% og fasteignaskattshlutfallið, sem lækkar einnig. Fasteignaskattur A: lækkar í 0,5% úr 0,625% og C: lækkar í 1,51% úr 1,65%. Þessi lækkun er tilkomin þar sem fjárhagsstaða sveitarfélagsins er betri en hún var þegar gengið var til samninga við innviðaráðuneytið um fjárhagslegan stuðning. Þá var þessi hækkun sett á tímabundið, til að auka tekjur sveitarfélagsins.
Aðrar forsendur, eins og vaxtastaða í samfélaginu, verðbólga, atvinnuleysi og annað, taka mið af gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Matthías tók til máls og tók undir að samstaða væri í sveitarstjórn um lækkun álagningaprósentna, eins í ýmsum verkefnum við endurbætur umhverfis og eigna. Meginlínur eru skýrar þótt einverjir lausir endar séu enn, sem skýrast betur milli umræðna.

Þorgeir minnir á umræður á vinnufundum þar sem rætt hefur verið um að gjaldskrárhækkanir verði einhverjar til að mæta verðlagsþróun

Oddviti lagði til að frekari umræðu væri vísað til síðari umræðu, á sveitarstjórnarfundi í desember og kallaði eftir samþykki með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


2. Viðauki IV – frestun framkvæmda og tilfærslur – Til afgreiðslu


Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið sem útskýrði framlagðan viðauka

Lagður er fram svohljóðandi viðauki IV við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2023 á fundi sveitarstjórnar þann 14. nóvember 2023.

Framkvæmdir:
a. Framkvæmdir við grunnskólann verða hærri en áætlað var vegna verðlagsþróunar, umfangs og þar sem næst að framkvæma fleiri liði á árinu 2023 en gert var ráð fyrir í upphafi árs.
b. Framkvæmdir við leikskólalóð, annað en hönnunarkostnaður færast til næsta árs og framlag því fært til.
c. Framkvæmdir við Íþróttamiðstöð, hækkun vegna umfangs og verðlagsþróunar. Tilfærsla.
d. Framlag til Brákar v. byggingar við Víkurtún,frestast til næsta árs vegna aðkomu nýs verktaka.
e. Framkvæmdir við gatnagerð og malbikun er lægri en áætlað var vegna áherslu á framkvæmdir í grunnskóla miðað við upphaflega áætlun og fjármagn því fært til.
f. Framkvæmdir við tjaldsvæði frestast til næsta árs vegna vinnu við skipulag og framlag fært til.
g. Framkvæmdir við réttarbyggingu frestast til næsta árs og framlag fært til.
h. Framkvæmdir við Hólmavíkurhöfn verða hærri en áætlað var vegna viðhaldskostnaðar. Tilfærsla.
i. Framkvæmdir við fráveitu verða hærri en áætlað var vegna kostnaðar við flutning og verðlagsþróun. Tilfærsla

 

nr Kostnaðarliður deild skýring upphæð niðurstaða
A Grunnskólinn 3110 viðhaldskostnaður v.endurbóta 47.500 færist
B Leikskólinn 3111 vinna í leikskólalóð -13.000 færist
C Íþróttamiðstöð 3112 Endurbætur í Íþróttamiðstöð 2.000 færist
D Brák 3150 Framlag vegna nýbyggingar -24.284 færist
E Götur 3151 Malbikun og gatnagerð -30.000 færist
F Tjaldsvæði 3152 Endurbætur á tjaldsvæði -13.000 færist
G Réttir 3153 Bygging réttar í Kollafirði -3000 færist
H Hólmavíkurhöfn 6100 Malbikun, viðhaldskostnaður, ljós 3500 færist
I Fráveita 6900 Hreinsistöð neððan Austurtúns 6000 færist


Tilfærsla kostnaðar við framkvæmdir samtals 47.500.000 sem greitt verður með lántöku.


Rekstur:
a. Launakostnaður í Íþróttamiðstöð vegna aukinnar opnunar og afleysinga sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Upphafleg launaáætlun hljóðaði upp á 36.300.000 en gert er ráð fyrir hækkun launakostnaðar kr. 6.500.000 og nýrri launaáætlun upp á kr. 42.800.000.
b. Hækkun launa á Tómstundasviði vegna aukinnar opnunar, sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Upphafleg áætlun var 3.725.000 en lögð er til hækkun á áætlun um kr. 2.275.000 og launaáætlun verði 6.000.000.
c. Hækkun launakostnaðar hjá slökkviliði skv. framlagðri áætlun slökkviliðsstjóra frá síðasta fundi og hækkun framlags til BDSR sem fyrir mistök, var skráð of lágt í upphaflegri áætlun. Hækkun launa kr. 2.500.000 og hækkun framlags 1.000.000. Samtals kr. 3.500.000.
d. Aðalskipulag og deiliskipulag, séð er fram á aukinn kostnað við vinnu við gerð aðal- og deiliskipulags í nóvember og desember og þörf á að hækka áætlun úr 5.000.000 í 12.000.000 eða um 7.000.000 m.kr.
e. Hækkun lífeyrisskuldbindinga verða samkvæmt útreikningin Talnakönnunar hærri en áætlað var í upphafi sem hljóðaði upp á 8.000.000, reikna má með 4.000.000 hækkun. Áætlun lífeyrisskuldbindinga hækkað sem því nemur.
f. Hækkun vaxtakostnaðar í eignasjóði vegna verðbólgu á árinu. Reikna má með allt að 20.000.000 króna hækkunar, úr 46.912.000 í 66.912.000.


Samtals er hækkun kostnaðar 43.000.000 sem tekið er af eigin fé

Oddviti leggur til að Viðauki nr. IV verði samþykktur. Samþykkt samhljóða.


3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga sbr. fjárhagsáætlun 2023 - Til afgreiðslu


Um er að ræða tvo lánasamninga sem samkvæmt fjárhagsáætlun ársins eru tekin hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna Vatnsveitu annars vegar kr. 40.000.000 og Fráveitu hins vegar kr. 35.000.000. Bæði lánin eru tekin vegna framkvæmda 2023-2025.

Ávörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:

Lán Vatnsveitu:
Sveitarstjórn Standabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 40.000.000-, með lokagjalddaga þann 20. mars 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.
Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við vatnsveitu sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni sveitarstjóra Strandabyggðar, kt. 100463-5989 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Matthías tekur til máls og nefnir að framkvæmdir eru í framundan í vatnsveitu. Þorgeir telur upp að á áætlun sé meðal annars endurnýjun geislatækja og endurbætur á dæluhúsi. Oddviti bar lántökuna undir atkvæði. Samþykkt samhljóða.

Lán Fráveitu:
Ávörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:
Sveitarstjórn Standabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 35.000.000,- með lokagjalddaga þann 20. mars 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.
Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við fráveitu sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni sveitarstjóra Strandabyggðar, kt. 100463-5989 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Þorgeir tekur til máls og segir að þarna séum við að fjármagna demantastöðvar sem eigi að setja niður við fráveitulagnir. Þorgeir tekur einnig fram að við eigum áfram möguleika á að sækja um styrk til Fiskeldissjóðs vegna framkvæmda við fráveitu

Oddviti bar lántökuna undir atkvæði. Samþykkt samhljóða.


4. Velferðarþjónusta Vestfjarða, samningur til seinni umræðu – Til afgreiðslu


Oddviti lagði áherslu á víðtækt samstarf um verkefnið og lagði til að sveitarstjórn staðfesti samninginn. Matthías tekur undir það.

Oddviti bar tillöguna undir atkvæði. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma þessari afgreiðslu til Ísafjarðarbæjar.


5. Velferðarþjónusta Vestfjarða viðauki II, fyrri umræða – Til afgreiðslu


Viðauki þessi er nauðsynlegur til að staðfesta annars vegar aðkomu Strandabyggðar að samningi sveitarfélaga um Velferðarþjónustu Vestfjarða, sbr lið 4 í dagskrá, og hins vegar til að staðfesta valdframsal Strandabyggðar til Ísafjarðabæjar vegna viðkomandi málaflokka.

Ragnheiður tekur til máls og spyr hvort stöðugildi við Félagsþjónustu Stranda- og Reykhólahrepps muni dragst saman en

Þorgeir svarar því að svo sé ekki. Eingöngu sé um að ræða barnaverndarmál og málefni fatlaðra sem áður var sinnt af BS vest.

Matthías tók til máls og studdi þessa afgreiðslu og óskar eftir að þetta verði kynnt fyrir íbúum þegar þar að kemur.

Oddviti lagði til að viðaukinn yrði samþykktur og honum vísað til síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi í desember. Samþykkt samhljóða.


6. Umsókn um milligöngu sveitarfélags vegna skólagöngu nemenda við Tónlistarskólann á Akureyri – Til afgreiðslu


Lagt er til að sveitarstjórn samþykki erindið. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma niðurstöðunni til skila.


7. Breyting kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn – Til afgreiðslu


Guðfinna Magney Sævarsdóttir, hefur sagt sig frá öllum skyldum sínum í nafni Strandabandalagsins, gagnvart Strandabyggð og flutt lögheimili burt úr sveitarfélaginu. Við það missir hún kjörgengi sitt. Sveitarstjórn samþykkir það hér með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.
Í stað hennar færist Óskar Hafsteinn Halldórsson upp og verður fyrsti varamaður og annar varamaður verður Grettir Örn Ásmundsson.


8. Erindi frá Innviðaráðuneyti, álitsgerð vegna kvörtunar um ólögmæta stjórnsýslu Strandabyggðar – Til kynningar


Þorgeir tekur fram að það er rétt sem Matthías tók fram í upphafi fundar, varðandi afgreiðslu fundarmála að það er álit Innviðaráðuneytis að ekki skuli ákveða í fundarboði hvort mál séu til afgreiðslu eða kynningar.


T-listi leggur fram eftirfarandi bókun:


Bókun meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar um álit innviðaráðuneytis.

„Innviðaráðuneytið hefur sent frá sér álit, þar sem leitast er við að svara fjölda kvörtunarbréfa frá fyrrverandi sveitarstjórn og A lista. Áður hafði innviðaráðuneytið svarað einu kvörtunarbréfi og greinargerð sveitarfélagsins þar um. Þessi kvörtunarbréf og greinargerðir má finna á heimasíðu Strandabyggðar http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/flokkur/198/

Í þessu nýja áliti Innviðaráðuneytis, sem fjallar almennt um meinta ólögmæta stjórnsýslu, er niðurstaða ráðuneytisins eftirfarandi, hvað fundarsköp oddvita og sveitarstjórnar varðar;

• Ráðuneytið telur að afgreiðsla á erindi fyrrum sveitarstjórnarmanns, hafi ekki verið í samræmi við almennar skyldur um svör við erindum
• Ráðuneytið telur hins vegar ekki ástæðu til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu Strandabyggðar á grundvelli sveitarstjórnarlaga, gr 112, sem snýr að ólögmætri stjórnsýslu. Má reikna með að ráðuneytinu þyki þar með, líkt og meirihlutanum, að þetta mál tilheyri fortíðinni og þurfi að afgreiða á öðrum vettfangi en í núverandi sveitarstjórn. Ráðuneytið telur málið falla utan við eftirlitshlutverk sitt
• Hvað varðar það að hafna beiðni kjörinna fulltrúa um að setja mál á dagskrá, telur ráðuneytið þá ákvörðun stangast á við 27. gr sveitarstjórnarlaga
• Þá telur ráðuneytið einnig það stangast á við 26. gr sveitarstjórnarlaga, að hafa ekki umræðu um ákveðin mál, en sú venja hefur verið lengi í sveitarstjórn Strandabyggðar að sum mál eru lögð fram til kynningar og þá ekki rædd. Með þessu sé komið í veg fyrir rétt kjörinna fulltrúa til málfrelsis og að tjá sig.


Hér er fundið að fundarsköpum og ákvörðunum oddvita og verður tekið mið af þeim ábendingum í framtíðinni. Áfram verður stuðst við ráðleggingar lögfræðinga bæði sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem ávallt hefur verið grunnur að ákvörðunum oddvita og meirihlutans.

Ennfremur segir í álitinu;: „Ráðuneytið telur þó einnig ástæðu til að geta þess að fundargerðir sveitarstjórnar bera ekki með sér að leitað hafi verið eftir úrskurði sveitarstjórnar um ákvarðanir oddvita um stjórn fundar og fundarsköp, sbr. 3. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga. Bendir ráðuneytið sveitarstjórn á að huga að því úrræði sem þar er fjallað um ef ágreiningur er um ákvarðanir oddvita um stjórn fundar og fundarsköp.“ Aldrei var farið fram á slíkan úrskurð af hálfu minnihlutans í neinu þessara mála. Var sveitarstjórn þess vegna enn frekar í góðri trú um að stjórnsýsla er varðaði fundarsköp væri í lagi.

Ráðuneytið telur ekki grundvöll til að aðhafast neitt frekar í málinu og að málið sé ekki þess eðlis að til greina komi að sveitarfélagið þurfi að taka ákvörðun í málinu eða fella úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins, eins og segir í álitinu. Er sveitarfélaginu bent á þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu af hálfu ráðuneytisins.
Málinu er því lokið af hálfu ráðuneytisins og engin ástæða fyrir oddvita eða meirihlutann að endurskoða neina af fyrri ákvörðunum sínum. Góðar ábendingar eru hins vegar alltaf mikilvægar og verður að sjálfsögðu tekið tillit til ábendinga ráðuneytisins.


Nú liggur fyrir að allt frá því núverandi meirihluti var kosinn með afgerandi meirihluta í síðustu kosningum, hefur ósætti út í þá niðurstöðu verið þekkt meðal fulltrúa fyrrverandi sveitarstjórnar. Hluti þeirra umkvörtunarefna sem þetta álit ráðuneytisins snýst um, er einmitt þrálát beiðni bæði fyrrverandi sveitarstjórnar og minnihluta um að taka mál sem tilheyrir fortíðinni, til umfjöllunar á fundi núverandi sveitarstjórnar. Það var og er sjónarmið meirihlutans, að þau mál eigi ekki erindi inn á borð þessarar sveitarstjórnar, enda sé um að ræða ágreining fyrrverandi sveitarstjórnar við núverandi oddvita eingöngu. Ráðuneytið tekur undir og staðfestir þessa skoðun í þessu áliti, með því að vísa þeirri umræðu frá. Þá má einnig benda á að undirritaður hefur í þrígang óskað eftir eða boðið fundi með sveitarstjórn til að ræða þennan ágreining. Því tilboði hefur aldrei verið svarað. Eins hefur fyrrverandi sveitarstjórn verið boðið til sáttafundar með núverandi sveitarstjórn undir stjórn sáttamiðlara. Er það frumkvæði tveggja fulltrúa í núverandi sveitarstjórn, hvor frá sínum lista. Fyrrverandi sveitarstjórn hafnaði því boði og taldi það ekki tímabært. Sáttavilji er ekki til staðar.

Það hefur alla tíð verið markmið oddvita og meirihlutans, að haga umræðu á sveitarstjórnarfundum þannig, að þar fari fram málefnaleg og markviss umræða um þau mál sem standa sveitarstjórn og íbúum næst. Hefur verið rætt um að undirbúa fundi sveitarstjórnar þannig að þeir séu meira afgreiðslufundir fremur en vinnufundir eða umræðufundir. Ljóst er af áliti ráðuneytisins að réttara er að taka mál á dagskrá fremur en að hafna þeim, jafnvel þó oddviti telji tilgang máls ekki í takt við áform og markmið sveitarstjórnar um málefnalega umræðu á fundum. Þarna er fín lína sem sveitarstjórn þarf að finna.

Meirihlutinn kallar eftir vinnufrið og samstöðu um þau mál sem snerta íbúa Strandabyggðar mestu. Einnig kallar meirihlutinn eftir viðurkenningu á lýðræðislegri niðurstöðu síðustu sveitarstjórnarkosninga, þar sem Strandabandalagið vann sigur og hefur sterkan meirihluta. Það er vanvirða við lýðræðið, við þá íbúa sem nýttu atkvæðisrétt sinn og við þá íbúa sem vilja vinnufrið og samstöðu sveitarstjórnar, að geta ekki sætt sig við orðin hlut og viðhalda þess í stað sífelldri spennu í samfélaginu og samskiptum þeirra lista sem skipa sveitarstjórn Strandabyggðar. Nú er mál að linni, því sveitarfélagið þarf á því að halda að báðir listar vinni saman að framþróun og vexti samfélagsins“.


Matthías tekur til máls og segir að þetta álit skýri sig sjálft og íbúar geti kynnt sér það á heimasíðu sveitafélagsins.


A-listinn leggur fram eftirfarandi bókun:

„Nú liggur fyrir afar skýrt álit Innviðaráðuneytis á stjórnsýslu Strandabyggðar. Þar kemur fram að oddviti með stuðningi sveitarstjórnarmanna T-lista hefur margoft brotið sveitarstjórnarlög. A-listinn hvetur sveitarstjórnarmenn T-lista til að lesa álitið vandlega og hvetur oddvita að breyta stjórnunarháttum sínum í samræmi við álit ráðuneytisins.“

9. Erindi frá foreldrafélagi grunn, tón- og leikskóla vegna stöðu á þjónustu – Til kynningar


Oddviti tók til máls og þakkaði foreldrafélaginu fyrir bréfið og áhuga þeirra á stöðu mála. Hann benti hins vegar á, að unnið hafi verið að því lengi af stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins að manna margar stöður innan sveitarfélagsins og það sé þessu fólki að þakka fremur en öðrum, að nú hafi tekist að ná lendingu í mörgum þeirra mála. Engu að síður, er áhugi og góður vilji foreldrafélagsins eftirtektarverður og sveitarstjórn sem og starfsmenn sveitarfélagsins vænta góðs af samstarfi við foreldrafélagið.

Matthías tekur til máls og nefnir að þegar Hlíf Hrólfsdóttir hafi lagt sitt erindi fram á fundi í september hafi ekki verið tekið vel í erindið en flestir hafi lagt sitt af mörkum til að leysa þennan vanda.


Jón tekur til máls og segir það sinn skilning að erindinu hafi verið illa tekið.


Þorgeir segir að stjórnendur hafi unnið að því sleitulaust í allt haust að vinna að mönnun og það hafi gengið upp að lokum. Þorgeir þakkaði stjórnendum fyrir sitt framlag.


Matthías tekur undir þakkir til starfsmanna sem unnið hafa að málinu.


10. Erindi frá foreldrafélagi grunn, tón- og leikskóla vegna umferðaröryggis – Til kynningar


Oddviti þakkar foreldrafélaginu fyrir erindið og tekur heilshugar undir áhyggjur þeirra.

Matthías leggur til að starfsmönnum verði falið að grindverk verði sett upp við Þróunarsetur, lýsing eða betri merkingar eða götunni verði einfaldlega lokað á skólatíma.

Ragnheiður tekur til máls. Hún telur að þar sem þarna hafi verið grindverk á fyrri tíð og því mögulega óþarfi að senda það til US nefndar.

Jón telur að það sé auðleyst mál að setja upp grindverk en lokun götunnar sé flóknara mál.

Sveitarstjóra er falið að kanna lausnir á þessu strax með starfsmönnum áhaldahúss.

Lagði oddviti til erindinu yrði að öðru leiti vísað til Umhverfis- og skipulagsnefndar til frekari vinnslu og faglegrar umfjöllunar og bar hann þá tillögu undir fundinn. Samþykkt samhljóða.


11. Fundargerðir Ungmennaráðs frá 22. Október og fundargerð frá Ungmennaþingi 4. nóvember 2023 – Til kynningar

Jón fagnar áhuga Ungmennaráðs á að halda Hamingjudaga. Ragnheiður tekur til máls og leggur til að leitað sé til heimamanna með skemmtiatriði frekar en að kaupa þau að.

12. Tómstunda, íþrótta-og menningarnefnd fundargerð frá 7. nóvember 2023 – Til kynningar


Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið. Framundan eru tilnefningar til Íþróttamanneskju ársins sem þarf að auglýsa á næstunni. Einnig voru teknar fyrir breytingar á Menningarverðlaunum sem þarf að samþykkja í sveitarstjórn.
Rætt var um sleðabrekku fyrir börnin við Kirkjuhvamminn og mögulegan varnargarð til að verja þau fyrir umferð og ýmsar hugmyndir ræddar.

Matthías nefnir að frisbígolfvöllur og staðsetning hans verði rædd i US-nefnd.

Varðandi lið nr. 2 í fundargerð sem eru reglur um Menningarverðlaun Strandabyggðar er lagt til að afhending verðlauna verði framvegis á 17.júní en ekki á Hamingjudögum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða þessa breytingu á reglum um Menningarverðlaun.

13. Fræðslunefnd, fundargerð frá 8. nóvember 2023 – Til afgreiðslu


Oddviti, sem formaður nefndarinnar, sagði frá fundinum.


Matthías lagði til breytingu á orðalagi í umsögn um menntastefnu, sem verður tekin til greina.


14. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 9. nóvember 2023 – Til afgreiðslu


Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið.

Varðandi lið nr. 1 sem er umsókn Egonos um byggingarleyfi. Lagt er til að liður sem samþykktur var sem afbrigði nr. 27 verði ræddur undir þessum lið. Oddviti ber það undir atkvæði og samþykkir sveitarstjórn það samhljóða. Umræða fundarins um þessa nýju staðsetningu skilar því að umsóknin fari fyrir umræðu í Umhverfis- og skipulagsnefnd.

Matthías fór yfir fundargerðina og US nefnd leggur til að umsóknir um stöðuleyfi í lið 2 og 3 verði samþykktar.

Sveitarstjórn samþykkir báðar umsóknir samhljóða.


15. Sterkar Strandir, fundargerð frá 28.september 2023 – Til kynningar


Oddviti gaf Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur orðið, sem situr í verkefnastjórn Sterkra Stranda. Hún minnir á íbúafund Sterkra Stranda sem verður haldinn í félagsheimilinu á morgun 15. nóvember.

16. Forstöðumannaskýrslur október – Til kynningar


17. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í október – Til kynningar


18. Aflið styrkbeiðni – Til afgreiðslu


Matthías leggur til að erindinu verði vísað til Félagsþjónustunnar til umsagnar. Samþykkt samhljóða.


19. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða greinargerð með áætlun 2024 – Til kynningar


Lagt fram til kynningar.


20. Fjórðungssamband Vestfjarða staðfest þinggerð 68. Fjórðungsþings ásamt ályktunum þingsins – Til kynningar


Lagðar fram til kynningar.


21. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 934 frá 18. September, 935 frá 29. september og 936 frá 27. október–Til kynningar


Lagðar fram til kynningar.


22. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 457 frá 19. október 2023 – Til kynningar


Lagðar fram til kynningar


23. A. Tillaga um að Íþrótta og tómstundastyrkir verði teknir til umfjöllunar í sveitarstjórn
B. Öll börn 17 ár og yngri með lögheimili í Strandabyggð fái árskort í sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar.


Varðandi lið A leggur oddviti til að honum verði vísað til TÍM nefndar til umfjöllunar og útreikninga og nefndin skili greinargerð til sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


Jón tekur til máls og sér ekkert mæla gegn því samþykkja lið B ef þetta er ekki kostnaðarauki fyrir sveitarfélagið.

Varðandi lið B samþykkir sveitarstjórn hann samhljóða.


24. Umræða um yfirlýsingu fulltrúa stofnana í verkefninu Sterkar Strandir.


Sveitarstjórnarmenn A-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

„Í ljósi yfirlýsingar fulltrúa Byggðastofnunar og Vestfjarðarstofu frá 19. október 2023 „Vegna verklags við úthlutanir úr verkefnasjóði Sterkra Stranda“ vill Sveitarstjórn Strandabyggðar taka fram að hún telur að Verkefnastjórn Sterkra Stranda hafi staðið faglega og að fullum heilindum að öllum úthlutunum fjármuna. Sveitarstjórn lýsir fullu trausti á verkefnisstjórn og starfsmenn Sterkra Stranda og er þakklát því fólki sem leggur sitt af mörkum til að efla atvinnulíf og menningu í Strandabyggð.“

Matthías segir að það sé ljóst að það hafi verið ágreiningur um úthlutanir í byrjun verkefnisins og þessi framlagða bókun sé von um nýtt upphaf.

T-listinn leggur til eftirfarandi bókun:

„Það er ljóst og var viðurkennt af formanni verkefnastjórnar á sínum tíma, að það voru hnökrar á kynningu á verkefninu og styrkjamöguleikum í byrjun. Það vakti t.d. athygli að öll fyrsta úthlutun styrkja, fór til verkefna sem tengdust beint og/eða óbeint fulltrúum í eða tengdum fyrrverandi sveitarstjórn Strandabyggðar. Þetta var óheppilegt, en hefur breyst til batnaðar með aukinni kynningu á verkefninu. Það er ekki nóg að verklag og form sé í lagi, ef framkvæmdin býður upp á gagnrýni. Það er mikilvægt fyrir sveitarstjórn að byggja upp traust og góð samskipti við verkefnastjórn Sterkra Stranda og yfirstjórn Byggðastofnunar.“


Sveitarstjórnarmenn T-lista vilja undirstrika að þeir bera fullt traust til yfirstjórnar Vestfjarðarstofu, Byggðastofnunar, verkefnastjóra Sterkra Stranda og verkefnastjórnar.


25. Siðareglur starfsmanna Strandabyggðar.


Matthías leggur til að siðareglur starfsmanna verði lagðar fyrir fund í desember til umfjöllunar að undangengnum vinnufundi sveitarstjórnar.


Samþykkt samhljóða.


26. Umsókn Kristínar Önnu Oddsdóttur um námsleyfi.


Jón leggur til að umsóknin verði samþykkt með fyrirvara um að gögnum verði skilað inn samkvæmt reglum og sveitarstjóra falið að kalla eftir gögnum og að samþykki verði staðfest á næsti fundi sveitarstjórnar í desember.


27. Beiðni Isavia um byggingu jarðstöðvar við flugvöllinn.

Sjá umræðu við lið nr. 14


Fundargerð lesin yfir
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 19.05


Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Matthías Sævar Lýðsson
Ragnheiður Ingimundardóttir

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón