A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1353 í Strandabyggð 12. desember 2023

Sveitarstjórnarfundur nr. 1353 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 12. desember kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Fjárhagsáætlun 2024-2027, seinni umræða
2. Erindi frá skólastjóra og deildarstjóra leikskóla vegna gjaldskráar
3. Gjaldskrár Strandabyggðar 2024
4. Beiðni frá BS vest v. lokauppgjörs frá 23. nóvember 2023
5. Viðauki V við fjárhagsáætlun 2023
6. Velferðarþjónusta Vestfjarða viðauki II, seinni umræða
7. Strandanefnd tilkynning frá forsætisráðuneyti og skipan fulltrúa Strandabyggðar
8. Umsókn um launað námsleyfi Kristín Anna Oddsdóttir
9. Úthlutun Byggðakvóta 2023-2024
10. Erindi frá T-lista vegna stöðu á útgáfu bókarinnar Strandir I
11. Styrkveitingar 2023, erindi frá T-lista
12. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 29. nóvember 2023; Fyrirspurn um sáttaboð
13. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 29. nóvember 2023; Skiptir máli að segja satt?
14. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 7. desember 2023; Beiðni um úttekt endurskoðenda sveitarfélagsins á störfum fyrri sveitarstjórnar
15. Erindi frá Jóni Jónssyni frá 7. desember; vegna ásakana um sjálftöku
16. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 8. desember 2023; Ósk um leiðréttingu á ósannindum í fundargerðum sveitarfélagsins
17. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 7.desember 2023
18. Sterkar Strandir fundargerð frá 9. nóvember 2023
19. Forstöðumannaskýrslur nóvember
20. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í nóvember
21. Jafnréttisstofa, ábending til sveitarfélaga um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í breytingum á fyrirkomulagi leikskóla frá 10. nóvember 2023
22. Sáðmenn sandanna, bókagjöf frá Landgræðslu ríkisins
23. Pieta samtökin, styrkbeiðni 29. nóvember 2023
24. Kvennaathvarfið, styrkbeiðni
25. Sorpsamlag Strandasýslu fjárhagsáætlun 2024
26. Náttúrustofa, áætlun 2024 ásamt fundargerð nr. 144 frá 3. nóvember 2023
27. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða fundargerðir nr. 1 frá 13. September og nr. 2 frá 7. október 2023
28. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 937 frá 12. Nóvember, 938 frá 24. nóvember 2023 og 939 frá 5. desember
29. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 458 frá 17. nóvember 2023
30. Stjórn BS vest fundargerðir frá 20. nóvember og 27. Nóvember 2023


Þorgeir Pálsson oddviti býður fundarmenn velkomna og tekur fram þakkir til skrifstofustjóra vegna jólaveitinga og spyr hvort athugasemdir séu við fundarboðið.

Matthías tekur til máls og segist vera vanhæfur vegna liðar nr. 9, Hlíf Hrólfsdóttir segist sömuleiðis vera vanhæf í lið nr. 9. Þorgeir segist vanhæfur við lið nr.15.


Matthías vill taka fram að gjaldskrá hafnarinnar barst ekki fyrr en í dag og vill því hafna henni sem fundarlið. Samþykkt að vísa þeirri gjaldskrá til umræðu í janúar.


Þorgeir ber upp tillögu um afbrigði við fundinn sem er styrkbeiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu. Borið upp til atkvæða og samþykkt samhljóða. Erindið verður númer 31 á fundardagskrá.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Fjárhagsáætlun 2024-2027, seinni umræða


Lögð fram fjárhagsáætlun ársins 2024 og þriggja ára áætlun áranna 2025-2027.

Skrifstofustjóri og oddviti fóru yfir fjárhagsáætlunina og greinargerðina sem verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins. Niðurstöðutölur áætlunar 2024 eru að rekstrarafkoma A hluta er áætluð jákvæð um kr. 15.900.000.- Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð um kr. 3.900.000.- Gert er ráð fyrir lántöku upp á 125.000.000 og framkvæmdir upp á 229.850.000.


Oddviti gaf orðið laust og Matthías vill taka eftirfarandi fram:

„Skuldir árið 2024 eru áætlaðar um 1.060 milljónir og afborganir eru 86 milljónir. Vextir og verðbætur áætlaðar á næsta ári eru 83,5 milljónir. Þannig að vextir og afborganir eru 169,5 milljónir á næsta ári. Þetta er um 17% af áætluðum heildartekjum sveitarfélagsins. Það er gert ráð fyrir láni upp á 125 milljónir á næsta ári.

Rekstarniðurstaðan er 3,9 milljónir í plús en þá er ekki gert ráð fyrir neinum fjárfestingum. Ef horft er framhjá afskriftum þá eru þetta 46 milljónir. Sú upphæð gæti hugsanlega dugað til að ljúka endurbótum á nýrri hluta Grunnskólans.
Þar sem veltufé frá rekstri er 9,9% samkvæmt því sem oddviti segir í greinargerð sinni ætti fjárfesting ekki að fara yfir það hlutfall þ.e. um 99 milljónir. Samt er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 230 milljónir. Þar sem sveitarfélagið er í mjög þröngri fjárhagsstöðu væri betra að hugleiða það í fullri alvöru að skera niður verklegar framkvæmdir eins og mögulegt er.
Það er þó vissulega ekkert í fjárfestingaáætlunni sem ekki er þörf á, mismunandi mikil þörf og mis aðkallandi.

Fjárfestingaráætlunin snýst næstum öll um verklegar framkvæmdir. Ég geri mér ljóst að það er of seint fyrir mig að koma með breytingar núna á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, en okkur væri hollt að hugleiða breyttar áherslur. Það þarf ekki nema u.þ.b. 8 milljón króna lækkun á verklegum framkvæmdum til að skólamáltíðir í leik-og grunnskóla verði gjaldfrjálsar. Strandabyggð er í verkefninu „barnvænt samfélag“. Höfum við í sveitarstjórninni sýnt það í verki?

Gögn varðandi fjárhagsáætlun hafa tekið þónokkrum breytingum frá því þau voru kynnt þann 8. desember. Síðasta breyting var gerð aðfaranótt 12. desember þ.e. 16 tímum fyrir áætlaðan fund. Slíkt er algjörlega óásættanlegt að sveitarstjórnarfulltrúar hafi ekki betri tíma til að kynna sér svo mikilvægt efni eins og fjárhagsáætlun er. Gert er ráð fyrir í Sveitarstjórnarlögum (15. gr) og Samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar (9. gr) að gögn sem taka á fyrir á sveitarstjórnarfundi berist í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund.

Í ljósi þess sem að framan er sagt legg ég fram eftirfarandi tillögu:

Afgreiðslu fjárhagsáætlunar Strandabyggðar og þriggja ára áætlunar verði frestað, vegna þeirra annmarka að sveitarstjórnarmenn hafa ekki fengið þann tíma sem mælt er fyrir um til að kynna sér allar forsendur málsins. Einnig óska ég eftir að sveitarstjóri hlutist til um að endurskoðandi Strandabyggðar fundi með sveitarstjórn um fjárhagsáætlunina og alvarlega skuldastöðu Strandabyggðar.“

Þorgeir segir áætlunina unna með endurskoðendum sveitarfélagsins og sé yfirfarin af þeim og hafi verið rædd. Áætlunin sé byggð á gögnum frá forstöðumönnum en rétt sé að vera vakandi yfir breytingum og mögulega þurfi að endurskoða áætlun ef eitthvað breytist.


Jón tekur til máls og tekur fram að nauðsynlegt sé að halda endurbótum áfram vegna yfirvofandi skemmda á eignum sveitarfélagsins.


Matthías tekur til máls og bendir á að það sé rétt að hugleiða framtíðina vel. Hann spyr einnig um heimasíðugerð og skrifstofustjóri tekur fram að ný heimasíða sé á áætlun. Þorgeir mun taka þá framkvæmd fram í greinargerð.


Hlíf spyr um endurbætur á Höfðagötu 3 og ekki er gert ráð fyrir þeim á áætlun 2024 a.m.k.


Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með 4 atkvæðum en Matthías situr hjá.


2. Erindi frá skólastjóra og deildarstjóra leikskóla vegna gjaldskrár


Oddviti þakkaði erindið og tók undir með bréfriturum, að það væri gott að skýra allar reglur og áherslur.

Oddviti óskar eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


3. Gjaldskrár Strandabyggðar 2024


Lagðar fram eftirtaldar gjaldskrár til samþykktar:

a. Álagning fasteignagjalda 2024.
b. Reglur um afslátt eldri borgara af fasteignaskatti 2024
c. Gjaldskrá fræðslustofnana a 2024
d. Gjaldskrá fræðslustofnana b 2024
e. Gjaldskrá Hafnarsjóðs 2024
f. Gjaldskrá gáma- og geymslusvæði
g. Gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar- og tjaldsvæðis
h. Gjaldskrá Sorphirðu og sorpeyðingar 2024
i. Gjaldskrá ýmis gjöld 2024
j. Gjaldskrá gæludýraleyfa 2024
k. Gjaldskrá áhaldahúss 2024
l. Gjaldskrá Slökkviliðs, vísitölubundin 2024
m. Gjaldskrá Vatnsveitu, vísitölubundin 2024
n. Gjaldskrá Fráveitu, vísitölubundin 2024
o. Gjaldskrá byggingarleyfa, vísitölubundin 2024


Oddviti opnaði umræðuna og sagði mikilvægt að halda því til haga, að hér væri um hóflegar hækkanir að ræða og tíminn yrði að leiða það í ljós hvort þær hefðu mátt vera meiri. Mikilvægt sé að hafa í huga að sveitarfélagið glímir enn við fjárhagslega erfiðleika og þjónustugjöld væru því mikilvægur liður í tekjuöflun sveitarfélagsins. Má segja að sveitarfélagið taki þarna á sig hluta kostnaðarhækkana í samfélaginu og komi til móts við íbúa með þessum hætti.


Oddviti tekur fram að fresta þurfi afgreiðslu gjaldskrár hafnarinnar vegna þess að gögn komu seint fram. Varðandi gjaldskrá fræðslustofnana b.er hún lögð fram til samþykktar en ekki a. Einnig verður gerð orðalagsbreyting á gjaldskrá íþróttamiðstöðvar varðandi gjald barna sem gildir til 18 ára aldurs í stað 13 ára.


Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða


4. Beiðni frá BS vest v. lokauppgjörs frá 23. nóvember 2023


Oddviti rakti forsögu málsins og sagði mikilvægt að loka alfarið starfsemi BSVest. Oddviti lagði til að beiðnin yrði samþykkt og óskaði eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að tilkynna hlutaðeigandi um afgreiðslu máls.


5. Viðauki V við fjárhagsáætlun 2023

Lagður er fram svohljóðandi viðauki V við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2023 á fundi sveitarstjórnar þann 12. desember 2023


Rekstur:
a. Framlag vegna uppgjörs Byggðasamlags málefna fatlaðra á Vestfjörðum 1.190.995
skv. fundarlið nr. 4. Færist á deild 0251 í bókhaldi.
b. Tilfærsla vegna reksturs mötuneytis haustið 2023. Færist innan málaflokks 04 þ.e í
heild 7.850.000 frá leikskóla og grunnskóla. Um er að ræða launakostnað og
vörukaup.
c. Hækkun framlags vegna kaupa á pressu fyrir Sorpsamlag Strandasýslu. Hlutur
Strandabyggðar í kaupunum eru um 12.000.000. Kaup á pressu gerir Sorpsamlaginu
kleift að pressa pappa og plast í einingar vegna flutnings til þjónustuaðila. Með
pressun er hægt að flytja margfalt magn endurvinnanlegs úrgangs í hverri ferð til
þjónustuaðila og fækkar þar með ferðum verulega.
d. Tillaga Strandabandalagsins að styrkveitingu til þriggja málaflokka skv. fundarlið nr.
11. Tillagan hljóðar upp á 1.500.000 sem deilist í jöfnun hlutföllum á menningarmál,Íþrótta- og tómstundamál og samfélagsmál.


Samtals er tilfærsla innan málaflokks kr. 7.850.000
Samtals er kostnaðarauki kr. 14.690.995 sem greiðist af eigin fé


Oddviti lagði áherslu á að tillaga Strandabandalasins um styrkveitingar, væri í samræmi við fyrri yfirlýsingar um að endurskoða mætti styrkveitingar ef fjárhagur vænkaðist. Þar sem árið 2023 virðist skila jákvæðri niðurstöðu, telur Strandabandalagið rétt að fagna því með þessum hætti og kallar því eftir þremur jákvæðum verkefnum, á sviði menningarmála, íþrótta- og tómstundamála og samfélagsmála. Er það von Strandabandalagsins, að íbúar Strandabyggðar fái að njóta þessa í formi þriggja verkefna á næsta ári, sem öll hefðu það markmið að bæta samfélagið.

Matthías óskar eftir að leggja fram bókun:

„Ekki er hægt að afgreiða viðauka við fjárhagsáætlun í verkefni, sem ekki er búið að taka fyrir í sveitarstjórn.“
Lagt er til að viðauki verði lagður fram með þeim fyrirvara að liður D verði tekinn út og endursendur þannig til ráðuneytisins.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


6. Velferðarþjónusta Vestfjarða viðauki II, seinni umræða


Oddviti rakti forsögu málsins og lagði til að viðaukinn yrði samþykktur. Kallaði hann eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


7. Strandanefnd tilkynning frá forsætisráðuneyti og skipan fulltrúa Strandabyggðar


Oddviti sagði frá tilurð verkefnisins og tilnefningum af hálfu Strandabyggðar, en þar eru tilnefnd Þorgeir Pálsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Er vísað í 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, í þessu sambandi.

Matthías vill taka fram til skýringar, að oddvitar sveitarfélaganna á Ströndum hafi leitað til ráðuneytisins og Vestfjarðarstofu um að skipa nefnd um málefni Stranda. Verkefni nefndarinnar felst í tillögugerð um hvernig megi efla byggðaþróun m.a. með tilliti til fjárfestinga, atvinnuframboðs- og tækifæra á svæðinu. Nefndin verður skipuð fulltrúum sveitarfélaganna á Ströndum, Byggðastofnunar, Fjórðungssambands Vestfirðinga og sérfræðingum frá forsætisráðuneyti og innviðaráðuneyti.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


8. Umsókn um launað námsleyfi, Kristín Anna Oddsdóttir


Oddviti lagði til að beiðnin yrði samþykkt og óskaði eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


9. Úthlutun Byggðakvóta 2023-2024


Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir víkja af fundi og þeirra sæti taka Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ragnheiður Ingimundardóttir.

Oddviti rakti erindi matvælaráðuneytis og eftirfarandi tillögur að sérreglum:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur til eftirfarandi breytingar á 4. grein reglugerðar 851/2023:

a) 25% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt jafnt á milli fiskiskipa
b) 75% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt eftir lönduðum afla síðasta fiskveiðiárs, 2022/2023

Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur einnig til eftirfarandi breytingar á 6. grein reglugerðar 851/2023:

a. Vinnsluskylda samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 851/2023 verði felld niður“

Oddviti gefur orðið frjálst

Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ragnheiður Ingimundardóttir leggja til lið b. verði bætt við 6. grein sem er að löndunarskylda verði innan sveitarfélagsins á kvóta byggðalagsins.

Tillögunni er fagnað af T-lista.

Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykkti fyrrgreindar sérreglur með fyrrnefndum breytingum varðandi úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2023/2024 með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjóra er falið að tilkynna þessa afgreiðslu til ráðuneytisins, fyrir 29. desember n.k.

Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ragnheiður Ingimundardóttir víkja af fundi. Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir, taka aftur sæti á fundinum.


10. Erindi frá T-lista vegna stöðu á útgáfu bókarinnar Strandir I


Oddviti rakti tilurð þessa máls, sem nær aftur um tugi ára. Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta verkefni, ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins, verkefnastjórn og annað sem þessu tengist. Hefur sú umræða oft á tíðum verið óvægin og því mikilvægt að komast til botns í þessu máli. Strandabandalagið hafði kannað grundvöll þess hjá ríkisendurskoðun, að stofnunin tæki að sér að greina framgang verkefnisins. Fékk Strandabandalagið eftirfarandi svar þann 6.11 sl.

„Málefni sveitarfélaga eru að öllu jöfnu ekki á forræði Ríkisendurskoðunar enda embættið trúnaðarmaður Alþingis og hefur með höndum það hlutverk að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Þótt Alþingi kunni að hafa styrkt verkefnið með fjárframlagi á árum áður verður ekki séð að framgangur málsins frá þeim tíma falli undir hlutverk Ríkisendurskoðunar eða að forsendur séu fyrir nánari skoðun af hálfu embættisins. Ábyrgð á málinu og úrlausn þess hlýtur að liggja hjá eigendum verkefnisins, sem eðli máls samkvæmt er ekki háð eftirliti Ríkisendurskoðunar.“

Meirihlutinn leggur til að fenginn verði óháður endurskoðandi til að fara í og greina atburðarrás og stöðu verkefnisins Byggðasaga Stranda, eða Strandir 1, með það fyrir augum að skýra þróun og stöðu þessa verkefnis.


Oddviti gaf orðið laust.

Matthías tók til máls og leggur fram eftirfarandi bókun:

„Byggðasaga Stranda var verkefni Búnaðarsambands Strandamanna og upphaf verksins má rekja til 23. apríl 1980 þegar saman komu fulltrúar Búnaðarsambandins, sveitarstjórnarmenn og sýslunefndarfulltrúar og fulltrúar 17 félaga í Strandasýslu. Þá var kosin nefnd þrír í framkvæmdarnefnd: Brynjólfur Sæmundsson fyrir Hólmavíkurhrepp, Jón Gústi Jónsson fyrir Búnaðarsamband Strandamanna og Ingimundur Ingimundarson fyrir Sýslunefnd Strandasýslu.

Árið 1985 kom út bókin Strandir 2 og í henni eru ágætar upplýsingar um upphaf þessa máls. Metnaður framkvæmdarnefndar var mikill og því var byggðasöguhlutinn þ.e. yfirlit yfir bæi mikið verk og tímafrekt. Lýður Björnsson sem var ritstjóri Strandir 2 sagði sig frá verkinu og lá það niðri í nokkurn tíma. Jón Jónsson vann að verkefninu með hléum á árunum 1996-2000. Arnar Snæberg Jónsson tók við verkefninu og vann að því með hléum á árunum 2002-2010.

Grímur Benediktsson tók sæti Ingimundar Ingimundarsonar í framkvæmdarnefndinni. Grímur flytur suður árið 2000 og Brynjólfur deyr árið 2004. Verkefnið að koma út byggðasögunni hélt samt áfram og var á lokametrunum árið 2010. Búnaðarsamband Strandamanna hafði haldið utanum fjárhag þessarrar útgáfu fyrir þau félög og stofnanir sem að þessu komu. Sparisjóður Kirkjubóls og Fellshreppa, nú Sparisjóður Strandamanna hafði lánað til þessa verks og voru Brynjólfur Sæmundsson og Jón Gústi Jónsson í sjálfsábyrgð fyrir láninu. Sparisjóðurinn gerði kröfu um greiðslu lánsins, sem var að megin hluta skuld frá útgáfu Strandir 2. Þá var Brynjólfur látinn og Sparisjóðurinn hefði því getað gengið að ekkju hans Erlu Þorgeirsdóttur, sem aldrei hafði komið nálægt þessum gjörningi og Jóni Gústa Jónssyni.

Svo fór að gengið var frá samningi við sveitarfélögin í Strandasýslu, sem komu að verkefninu í upphafi, um kaup þeirra á því handriti sem var svo til frágengið til að gefa það út, en til þess þurfti að koma að vinnu fagfólks í bókaútgáfu. Samningurinn hljóðaði upp á 12.000.000,- og var hlutur Strandabyggðar 8.020.800,- eins og kemur fram í samningi sem er í fundargögnum, ásamt öllum gögnum sveitarfélagsins um þetta mál.

Tillaga T-lista um endurskoðun á þessu getur aðeins náð til þess hluta sem snýr að Strandabyggð þar sem Strandabyggð hefur ekki heimild til að fara í gögn annarra sjálfstæðra félaga eða stofnanna. Endurskoðendur Strandabyggðar hafa ekki gert neinar athugasemdir við þessi kaup, hvernig var að þeim staðið eða kaupin sjálf – hvorki í fjárhagslegri endurskoðun eða stjórnsýsluskoðun.“

Oddviti þakkar Matthíasi fyrir innleggið sem muni gagnast í þessari vinnu.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A- lista greiða atkvæði gegn tillögunni. Sveitarstjóra falið að leita til hugsanlegra verktaka og leggja fyrir sveitarstjórn.


11. Styrkveitingar 2023, erindi frá T-lista


Oddviti vísaði í fyrri orð undir lið 5, um tilgang þessarar styrkveitinga og taldi mikilvægt að hvetja íbúa til að sækja um. Það væri tilhlökkunarefni að íbúar gætu átt von á þremur áhugaverðum verkefnum á næsta ári vegna þessa. Oddviti undirstrikaði, að þó þessi tillaga komi fram núna, þá sé alls endis óljóst hvort grundvöllur skapist á næsta ári til áframhaldandi styrkveitinga. Þar verði fjárhagur sveitarfélagsins að ráða.

A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


„Það er ánægjulegt að T-listinn leggi til að veittir verði styrkir. Þessir þrír málaflokkar hafa nokkuð vítt svið og eru ekki skilgreindir t.d. hvað eru samfélagsmál? Það er ekki gert ráð fyrir neinni yfirferð um styrkumsóknir þar sem lagt er mat á þær. Gæti því sami aðili sótt um alla styrkina og fengið í ljósi kosninga íbúa.
Það kemur ekki nógu vel fram hvort styrkir verði greiddir út fyrirfram eða á að styrkja það sem þegar hefur verið gert? Hvað ef ekki verður framkvæmt það sem áætlað er á þá að endurgreiða styrkinn?
Tíminn sem umsækjendur hafa er mjög knappur. Hægt væri að auglýsa styrkina 13. des og gefa verður einhvern frest t.d. viku þá er kominn 20. des – og þá ætti eftir að setja fram og kjósa um umsóknirnar ef farið er eftir því sem fram kemur í tillögu T- lista. Það er okkar mat í A-listanum að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé ekki sterk og að það þurfi að vinna þessa tillögu mun betur. A-listinn leggur til að verkefninu verði frestað.“

Mattías tekur til máls og fagnar þessari tillögu en efast um tímasetningu og framkvæmd. Hann leggur til að þessi tillaga verði útfærð betur.

Þorgeir útskýrði hugmyndina og telur að hægt verði að vinna þetta hratt og vel.

Jón tók til máls og tók undir með Þorgeiri að það væri vilji fyrir þessari framkvæmd í ljósi jákvæðrar fjárhagsstöðu.

Þorgeir tekur fram að gera þurfi samning við styrkhafa um framkvæmd á móti styrknum. Eins að gæta þurfi hlutleysis við móttöku tilnefninga og kosningu um þær. Oddviti tekur fram þakkir vegna ábendinga frá A-lista.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista. A-listi situr hjá. Sveitarstjóra falið að koma auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins hið fyrsta ásamt því að formgera ferlið og senda upplýsingar á sveitarstjórn.


12. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 29. nóvember 2023; Fyrirspurn um sáttaboð


Oddviti undirstrikaði að þetta mál væri ekki mál núverandi sveitarstjórnar, heldur tengdist ágreiningi sínum og fyrrverandi sveitarstjórnar.

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Í áliti Innviðaráðuneytis frá 10. nóvember sl. er lögð áhersla á það að skriflegum erindum skuli svarað. Öll erindi og svör frá sveitarfélaginu eiga að vera skrifleg og afrit af þeim á að vera í skjalasafni Strandabyggðar. Þó að eitthvað sé sagt á fundum og ekki fylgt eftir með formlegum hætti s.s. bréfi eða tölvupósti er ekki hægt að staðfesta að erindi hafi borist hlutaðeigandi. Í stjórnsýslu sveitarfélagsins Strandabyggðar verður að gæta að því að svör séu send á sannanlegan hátt."

Oddviti leggur til eftirfarandi afgreiðslu: Mál þetta snýst um ágreining fyrrverandi sveitarstjórnar við oddvita. Sveitarstjórn telur ekki tilefni til þess að sveitarstjórn taki efnislega afstöðu til þess ágreinings og kemur málið því ekki til frekari afgreiðslu af hálfu núverandi sveitarstjórnar. Hins vegar mun Þorgeir Pálsson senda formlegt svar til fyrrverandi sveitarstjórnar hvað þessi fundarboð varðar og upplýsa núverandi sveitarstjórn þar að lútandi.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.


13. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 29. nóvember 2023; Skiptir máli að segja satt?


Oddviti gaf orðið laust.

Hlíf leggur fram eftirfarandi bókun:

“Það er rétt sem kemur fram í greininni að undirrituð og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, óskuðu eftir því að funda með aðilum úr þeirri sveitarstjórn sem sat á síðasta kjörtímabili. Við ræddum um möguleika á því að leita leiða til þess að ná sáttum og að geta leitt ágreiningsefnin til lykta. Niðurstaða þess fundar var að til þess að hægt yrði að vinna að því að ná sáttum þyrfti fyrst að vinna grunnvinnu um það hvað væri rétt og hvað væri rangt. Það er því ekki mitt mat að þau hafi hafnað sáttaumleitunum.
Vegna óviðráðanlegra aðstæðna náðist ekki að klára að vinna úr þessu með núverandi sveitarstjórn og er því sá hluti eftir.”

Þorgeir tekur til máls og segir að álit innviðaráðuneytisins hafi verið rætt á sveitarstjórnarfundi 14.11. sl. og afgreitt þar. Einnig var haldinn fundur með sveitarstjórn og lögfræðingi sveitarfélagsins 23.11. sl. um álitið og rætt hvar og hvernig þyrfti að bregðast við því. Þegar hefur verið brugðist við ábendingum ráðuneytisins og ráðuneytið upplýst skriflega þann 29.11. sl.

Matthías tekur til máls og telur óskandi að þessu máli væri lokið og leggur fram eftirfarandi bókun A-lista:

„Sveitarstjórnarmenn A-lista harma að stjórnsýsla oddvita Strandabyggðar hafi verið með þeim hætti að leita hafi þurft til Innviðaráðuneytis vegna brota oddvita á Sveitarstjórnarlögum og Samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og beiðnir um að fara að lögum, varð oddviti ekki við þeim tilmælum heldur hélt áfram brotum sínum eins og álit Innviðaráðuneytis frá 10. nóvember sýnir.
Sveitarstjórnarmenn A-lista voru mjög undrandi á túlkun meirihluta T-lista á áliti Innviðaráðuneytisins sem birtist í bókun meirihluta T-lista á síðasta fundi sveitarstjórnar þann 14. nóvember síðastliðinn. Á fundi með lögfræðingi sveitarfélagsins var farið yfir álitið og það sem þar kom fram var ekki í samræmi við bókun T-lista.„

14. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 7. desember 2023; Beiðni um úttekt endurskoðenda sveitarfélagsins á störfum fyrri sveitarstjórnar


Oddviti spyr Matthías Sævar Lýðsson; með vísan í fund sveitarstjórnar með lögfræðingi sveitarfélagsins og þeirrar umræðu sem þar spannst um erindi inn á sveitarstjórnarfundi, telur Matthías þá að þetta mál sé; a) á verksviði sveitarfélagsins og b) snúist um hagsmuni þess og c) hvers vegna hann leggi málið fram á sveitarstjórnarfundi?

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að fela endurskoðendum Strandabyggðar, bæði fjárhagslegum og stjórnsýslulegum, að skoða ítarlega hvort þeim hafi yfirsést í störfum sínum þau atriði sem koma fram í bréfi oddvita/sveitarstjóra Strandabyggðar frá 31. janúar 2023 sjá: strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/3067/

Greinargerð:
Í bréfi frá 31. janúar 2023 lýsir oddviti skoðunum sínum um misfellur og mistök í störfum sveitarstjórnar Strandabyggðar á síðasta kjörtímabili, sem ekki er hægt að líta framhjá og þarfnast nánari skoðunar. Þar kom fram ábending um brot á lögum, samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar og siðareglum kjörinna fulltrúa í Strandabyggð. Hins vegar verður að benda á að ekki voru gerðar athugasemdir hvorki í fjárhagslegri eða í stjórnsýslulegri endurskoðun um þau atriði sem greint er frá í bréfinu. „

Þorgeir tekur til máls og vill nefna að samkvæmt stjórnsýslulögum beri sveitarstjóra að benda á telji hann stjórnsýsluna fara svig við lög eða orki tvímælis og hann telur að svo hafi verið.

Matthías tekur fram að hann vilji að Þorgeir fái vinnufrið framvegis og óskar eftir niðurstöðu þessa ósættis og að þessi tilaga verði samþykkt.

Oddviti tilgreinir að hér sé komin fram beiðni um að núverandi sveitarstjórn, ráði endurskoðendur sveitarfélagsins til að meta störf fyrrverandi sveitarstjórnar.

Oddviti leggur til eftirfarandi afgreiðslu: Núverandi sveitarstjórn telur að ekkert tilefni sé til að verða við beiðninni og er henni hafnað.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með þremur atkvæðum T lista gegn 2 atkvæðum A-lista og sveitarstjóra falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.

15. Erindi frá Jóni Jónssyni frá 7. desember; vegna ásakana um sjálftöku


Oddviti færir stjórn fundarins yfir til varaoddvita, Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur og víkur af fundi. Í hans stað kemur inn á fundinn, Óskar Hafsteinn Halldórsson.

Varaoddviti spyr Matthías Sævar Lýðsson; með vísan í fund sveitarstjórnar með lögfræðingi sveitarfélagsins og þeirrar umræðu sem þar spannst um erindi inn á sveitarstjórnarfundi, telur Matthías þá að þetta mál sé; a) á verksviði sveitarfélagsins og b) snúist um hagsmuni þess og c) hvers vegna hann leggi málið fram á sveitarstjórnarfundi?

Hér er vísað í bréf íbúa á samfélagsmiðli, þar sem tilgreind er heildartala styrkveitinga, sem til er hjá sveitarfélaginu. Óskar bréfritari þess að núverandi sveitarstjórn taki þessa upphæð til umfjöllunar. Eins leggur bréfritari til að „sveitarstjórn taki sig saman um að senda inn kæru varðandi þessa meintu sjálftöku til lögreglu“, sé hún sammála skoðunum íbúans.
Matthías tekur til máls og telur það ábyrgðarmál að slíkar ásakanir séu lagðar fram um sjálftöku úr sveitarsjóði upp á tugi milljóna án þess að það sér rannsakað.

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Sveitarstjórnarmenn A-lista taka undir með Jóni Jónssyni um að upplýsa þurfi sveitarstjórn og íbúa hvernig „Fyrirtæki og stofnanir í eigu, að hluta, eða tengdar Jóni Jónssyni, fyrrverandi sveitarstjórnarmeðlimi, fengu til dæmis 61.423.961 kr í styrki úr sameiginlega sveitarsjóðnum okkar árin fyrir síðustu kosningar“ . Það er ótrúlegt að þessar styrkveitingar hafi farið í gegn án þess að athugasemdir við þær haf verið gerðar að hálfu endurskoðenda sveitarfélagsins. Ef ekki er hægt að gera grein fyrir þessum styrkjum til Jóns Jónssonar hvetja sveitarstjórnarmenn A-lista til þess að óskað verði eftir rannsókn á meintri sjáftöku hans. Það er fádæma ábyrgðarlaust af oddvita og sveitarstjórn að láta ógert að kæra slíkt, eigi ásakanirnar við rök að styðjast. Í siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Strandabyggðar stendur í 15. grein: „Undir þagnarskyldu falla ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda“. Ef þessar ásakanir eiga ekki við rök að styðjast ber hlutaðeigandi að biðja Jón Jónsson opinberlega afsökunar á þessum aðdróttunum að æru hans.“

Jón Sigmundsson tekur til máls. Þarna er einstaklingur að setja fram á sinni eigin facebooksíðu sitt álit og það sé ekki sveitarstjórnar að fjalla um umræður á einkasíðum.

Óskar Hafsteinn Halldórsson tekur til máls og segir að fólki sé í sjálfvald sett hvað það skrifi og Jón ætti að sækja einkamál ef hann kjósi svo.

Matthías tekur til máls og segir að Þorgeir Pálsson hafi tekið undir þessar ásakanir og því sé eðlilegt að sveitarfélagið fari fram á lögreglurannsókn.

Matthías spyr fulltrúa T-lista hvort þau trúi þessum ásökunum.

Jón vill taka fram að hann vilji ekki mynda sér skoðun um þessi mál og Sigríður tekur undir það. Óskar hefur ekki kynnt sér styrkveitingar fyrri tíma.

Varaoddviti leggur til eftirfarandi afgreiðslu máls: Sveitarstjórn hefur engar forsendur til að hlutast til um mál þar sem íbúi tjáir skoðanir sínar og telur það ekki á sínu verksviði að taka afstöðu til þeirra skoðana sem þar koma fram. Óskum bréfritara um skoðun á fjárhæð styrkveitinga til einstakra aðila og hugsanlegrar kæru sveitarstjórnar til lögreglu, er hafnað.

Varaoddviti óskaði eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með 3 atkvæðum T lista, Hlíf situr hjá og
Matthías greiðir atkvæði á móti. Varaoddvita falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.

Óskar Hafsteinn Halldórsson víkur af fundi og Þorgeir tekur aftur sæti á fundinum.


16. Erindi frá fyrri sveitarstjórn frá 8. desember 2023; Ósk um leiðréttingu á ósannindum í fundargerðum sveitarfélagsins


Oddviti spyr Matthías Sævar Lýðsson; með vísan í fund sveitarstjórnar með lögfræðingi sveitarfélagsins og þeirrar umræðu sem þar spannst um erindi inn á sveitarstjórnarfundi, telur Matthías þá að þetta mál sé; a) á verksviði sveitarfélagsins og b) snúist um hagsmuni þess og c) hvers vegna hann leggi málið fram á sveitarstjórnarfundi?

Matthías telur að leiðrétta þurfi rangfærslu sem kom fram í fundargerðum ef um slíkt væri að ræða.

Oddviti tekur fram að rétt sé að benda íbúum á greinargerð frá Þorgeiri Pálssyni, sem hann gerði að beiðni innviðaráðuneytisins og hefur verið aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins frá því snemma á þessu ári http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/3067/

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

"Þar sem oddvita hefur ekki tekist að sýna fram á að hann hafi boðið sveitarstjórnarmönnum í síðustu sveitarstjórn til sáttarfundar þarf að gera leiðréttingu á bókun þar um. Boð sem ekki eru send skriflega til allra viðkomandi aðila teljast ekki boð.

Varðandi fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar frá 14. júní 2022 er bókað:

“Þorgeir segir að stjórnsýsluskoðun sé mjög öflugt tæki til skoðunar og nefnir að í stjórnsýsluskoðun v. 2020 hafi komið fram athugasemd varðandi gjöf sveitarstjórnar á hlut Hvatar í Sævangi.”

Í ljós kemur þegar stjórnsýsluúttekt er skoðuð að ekkert kemur fram í henni um þetta atriði. Þetta er besta falli misminni hjá oddvita eða hrein rangfærsla sem hann á að vera maður að meiri að leiðrétta og biðjast afsökunar á þessum mistökum sínum.“

Þorgeir benti á að gerð hafi verið athugasemd við þennan gjörning af fulltrúa KPMG við stjórnsýsluúttekt, þótt sú athugasemd hafi ekki ratað í skýrsluna. Þorgeir tekur einnig fram að í áliti Innviðaráðuneytisins hafi þessi gjörningur orkað tvímælis og hefði verið heppilegra að eignin hefði verið auglýst.

Matthías biðst afsökunar á því að hafa misskilið orð Þorgeirs sem þakkar fyrir.

Oddviti leggur til eftirfarandi afgreiðslu málsins: Hér er um að ræða fyrirspurn um sama mál og rætt var í lið 12 í þessari fundargerð og afgreitt þar. Beiðni um breytingu fundargerðar er hafnað.

Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A-lista sitja hjá. Sveitarstjóra falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.


17. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 7.desember 2023


Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið sem fór yfir niðurstöðu fundarins.

Varðandi lið 1. Jón spyr út í Egonos jarðstöð og hvort um sé að ræða búnað til að aðstoða flugumferðarstjórn í millilandaflugi. Matthías samsinnir því. Oddviti leggur til að tillagan verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða

Varðandi lið 2. Jón spyr hvort lóðasamningar trufli fyrirhugað vegstæði en ekki er talið að svo sé. Oddviti leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt samhljóða.

Varðandi lið 3. Oddviti tekur fram að nýr verktaki hafi komið og skoðað aðstæður. Óskað hefur verið eftir tillögum að nýrri staðsetningu Lillaróló. Oddviti leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt samhljóða.


18. Sterkar Strandir fundargerð frá 9. nóvember 2023


Fundargerðirnar lagðar fram og orðið gefið laust. Um er að ræða fundargerð stjórnarfundar og fundargerð frá íbúafundi frá 15. nóvember.

Matthías áréttaði að borun eftir heitu vatni, sem vísað er til í fundargerðinni er hafin.

Hlíf tekur til máls og spyr um úthlutun allt að 500 tonna þorskígildiskvóta sem kemur fram í fundargerð íbúafundar. Þorgeir útskýrir að frestur renni út 15. desember nk.


19. Forstöðumannaskýrslur nóvember


Forstöðumannaskýrslur lagðar fram og orðið gefið laust. Enginn tók til máls


20. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í nóvember


Vinnuskýrslan lögð fram og orðið gefið laust. Enginn tók til máls.


21. Jafnréttisstofa, ábending til sveitarfélaga um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í breytingum á fyrirkomulagi leikskóla frá 10. nóvember 2023


Bréf Jafnréttisstofu lagt fram og orðið gefið laust. Enginn tók til máls.


22. Sáðmenn sandanna, bókagjöf frá Landgræðslu ríkisins


Oddviti sagði frá þessari gjöf og las bréf frá Landgræðslunni. Sveitarstjórn þakkar kærlega fyrir gjöfina og er sveitarstjóra falið að færa viðkomandi kærar þakkir sveitarfélagsins.


23. Pieta samtökin, styrkbeiðni 29. nóvember 2023


Oddviti lagði til að þessari beiðni yrði hafnað, enda væri það gert um allar slíkar styrkbeiðnir að svo stöddu. Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.


24. Kvennaathvarfið, styrkbeiðni

Oddviti lagði til að þessari beiðni yrði hafnað, enda væri það gert um allar slíkar styrkbeiðnir að svo stöddu. Óskaði oddviti eftir samþykki sveitarstjórnar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að tilkynna aðilum um afgreiðslu máls.


25. Sorpsamlag Strandasýslu fjárhagsáætlun 2024


Áætlunin lögð fram og orðið gefið laust.

Matthías tekur fram að útskýringar vanti og greinargerð fylgi ekki með, jafnframt vantar þarna undirritun stjórnar.
Þorgeir tekur fram að ástæða sé til að endurskoða áætlunina og leggja fram að nýju.


26. Náttúrustofa, áætlun 2024 ásamt fundargerð nr. 144 frá 3. nóvember 2023


Fundargerð lögð fram til kynningar og orðið gefið laust.


Þorgeir spyr Matthías sem er stjórnarmaður, um stöðugildi sem á að vera í Strandabyggð. Matthías hefur ekki svör en leggur til að oddviti sendi erindi á Náttúrustofu til að óska eftir svörum og leita liðsinnis Vestfjarðarstofu við það.

Oddviti kallar eftir samþykki og er erindið samþykkt samhljóða.


27. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða fundargerðir nr. 1 frá 13. September og nr. 2 frá 7. Október 2023


Oddviti gaf fulltrúa Strandabyggðar í nefndinni, Matthíasi Sævari Lýðssyni orðið.

Mattías tekur fram að búið er að leggja tímalínu og gera tillögur að starfsreglum.

Afgreiðslu á samþykki starfsreglna er vísað til næsta fundar. Samþykkt samhljóða.


28. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 937 frá 12. Nóvember, 938 frá 24. nóvember og 939 frá 5. Desember 2023


Orðið gefið laust en enginn tók til máls.


29. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 458 frá 17. nóvember 2023


Orðið gefið laust en enginn tók til máls.


30. Stjórn BS vest fundargerðir frá 20. nóvember og 27. nóvember 2023


Orðið gefið laust. Hlíf tekur til máls og spyr hvort Byggðasamlagið verði lagt niður eða geymt meðan að reynsla er komin á Velferðarþjónustu.

Matthías bendir á að í fundargerð Bs Vest kemur fram að beðið sé eftir lokauppgjöri og ákvörðun um slit verði tekin þá.


31. Erindi frá Björgunarsveitinni Dagrenningu varðandi fjárstyrk til sveitarinnar og fyrir flugeldasýningar fyrir árið 2023.

Oddviti leggur til að erindið verði samþykkt og að styrkur verði veittur til Björgunarsveitarinnar.

Matthías leggur til að Strandabyggð styrki flugeldasýninguna um 250.000.

Oddviti leggur til að erindið verði samþykkt skv. umræðu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Fleira ekki fyrirtekið og fundi slitið 19:55

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón