Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1369, 8.10.2024
Sveitarstjórnarfundur 1369 í Strandabyggð
Fundur nr. 1369 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 8. október 2024 kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Óskar Hafsteinn Halldórsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Vantrauststillaga á oddvita Strandabyggðar
2. Viðauki IV
3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga
4. Minnisblað KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum – 28.9.24
5. Tillögur Strandanefndarinnar
6. Gjaldskrá v. byggingarleyfa, leiðrétting v. grunnupphæða
7. Erindi frá UMF Geislanum varðandi uppsetningu á klifurvegg 3.10.24
8. Erindi frá foreldrum í dreifbýli varðandi skólaakstur og frístundastarf – 25.9.24
9. Verkefni sveitarstjóra, september 2024
10. Forstöðumannaskýrsla vegna september 2024
11. Gjöf til Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna – 26.9.24
12. Samband íslenskra sveitarfélaga – Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga
13. Afstaða varðandi EarthCheck
14. Fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar – 26.9.24
15. Fundargerð 54. fundar Velferðarnefndar 16.09.24
16. Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda – 19.09.24
17. Fundargerð 7. fundar svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða 9.9.24
18. Fundargerð 63. stjórnarfundar FV/Vestfjarðastofu frá 25.9.24
19. Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands nr. 465
20. Fundargerð 149 fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðarsvæðis 19.09.24 ásamt fjárhagsáætlunar.
21. Fundargerðir 951 og 952 fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga. 30.08.24 og 27.09.24
Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.
Þá var gengið til umræðu.
1. Vantrauststillaga á oddvita Strandabyggðar
Eftirfarandi tillaga um vantraust á hendur Þorgeiri Pálssyni er lögð fram af Matthíasi Sævari Lýðssyni:
„Oddviti Strandabyggðar, Þorgeir Pálsson hefur ásakað íbúa í Strandabyggð, Jón Jónsson, um sjálftöku á fjármunum sveitarfélagsins. Í úttekt sem gerð var af KPMG var Jón Jónsson hreinsaður af öllum ásökunum oddvita sveitarfélagins. Það er grafalvarlegt þegar æðsti valdsmaður í málefnum sveitarfélags kemur fram með slíkar ásakanir. Valdaójafnvægi er mikið þar sem annars vegar er um að ræða almennan íbúa í sveitarfélaginu og hins vegar oddvita sveitarfélagsins Strandabyggðar og þess lista sem vann síðustu kosningar og naut þá trausts meiri hluta kosningarbærra íbúa. Það að maður í slíkri stöðu skuli fara með þessum hætti gegn íbúa sveitarfélagsins er forkastanlegt og brýtur í bága við „Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð“
Eftir að niðurstaða málsins lá fyrir hefur oddviti Strandabyggðar Þorgeir Pálsson, ítrekað fyrri ummæli sín og látið hafa eftir sér í bb.is „en þar er staðfest umfang styrkveitinga til Jóns Jónssonar sl. 20 ár frá þeim tíma, og nema greiðslurnar rúmri 61 milljón. Það er sú tala sem ég og konan mín höfum bent á og kemur sú tala frá skrifstofustjóra og sveitarstjórn þess tíma, ekki frá okkur. Stundum er rétt að hafa staðreyndirnar með.“ Þarna er greinilegt að hann tekur ekki mark á úttekt KPMG og heldur áfram ásökunum á Jón Jónsson. Hann vitnar í fundargerð sem fjallar um allt annað og því eru „staðreyndir“ í þessu samhengi vægast sagt ósannindi. Einnig vegur hann að starfsheiðri skrifstofustjóra Strandabyggðar og brýtur þar með „Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð“.
Ég legg því fram tillögu um vantraust á oddvita Strandabyggðar Þorgeir Pálsson og óska því eftir að fá afstöðu sveitarstjórnarmanna þar um. Ég óska eftir að atkvæðagreiðslan verði leynileg. Ég bið skrifstofustjóra Strandabyggðar að sjá um atkvæðagreiðsluna.
Óskar Hafsteinn Halldórsson og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir T-lista óska eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Vegna hótana sem okkur hafa borist í kjölfar þessarar vantrauststillögu þá höfum við leitað meðal annars til lögfræðings sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna réttarstöðu okkar í því sambandi. Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum. Af þeim sökum mun ég Óskar Hafsteinn Halldórsson á næstu dögum biðjast lausnar undan mínum störfum í sveitarstjórn því ég get ekki tekið áhættuna á því hvernig verður komið fram við mína nánustu í framhaldi þess ef ég sit áfram í sveitarstjórn.”
Þorgeir Pálsson óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Allt frá því ég kom til starfa hér sem sveitarstjóri árið 2018, hef ég lagt mig fram um að vinna innan þess lagaramma sem starfi mínu eru settir, einblína á og leggja fram staðreyndir og vinna ætíð að þeim hagsmunum sem gagnast samfélaginu og sveitarfélaginu hvað best. Hafi sú viðleitni mín og framsetning leitt til misskilnings eða haft meiðandi áhrif á einhverja, þykir mér það miður. Það var aldrei ætlunin, heldur aðeins að vinna samkvæmt þeim ramma og forsendum sem ég hef tamið mér og mér er skylt að gera.
Með vísan í bókun þeirra Sigríðar Guðbjargar og Óskars Hafsteins, sem fram er komin á þessum fundi, vil ég árétta að ég get ekki sætt mig við að félagar mínir í núverandi sveitarstjórn og fjölskyldur þeirra, sem enga aðkomu hafa að deilum fyrrverandi sveitarstjórnar við mig, skuli dregin svona inn í þær deilur, með þeim hætti sem verið hefur og fram kemur í þeirra bókun. Strandabyggð verður að komast á lygnan sjó. Samfélagið verður að ná áttum saman. Við verðum að setja strik og ákveða að halda áfram inn í framtíðina og vera þá frekar sammála um að vera ósammála, en að halda þessu ástandi áfram. Ég vona að framundan séu betri og friðsamlegri tímar og mun ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða í okkar ágæta sveitarfélagi“.
Matthías tiltók að af því gefnu að þeir hittist ekki aftur á sveitarstjórnarfundi, þakki hann Óskari Hafsteini Halldórssyni fyrir samstarfið í sveitarstjórn.
Sigríður ber fram spurningu til A-lista, hvort þeim finnist það vera í lagi að lýðræðislega kjörnum fulltrúum sveitarfélagins sé hótað til hlýðni vegna mála sem eru á borði sveitarstjórnar.
Matthías og Hlíf svöruðu bæði neitandi og eigi ekki að eiga sér stað.
Matthías leggur til að leynileg atkvæðagreiðsla fari fram og felur skrifstofustjóra að sjá um hana. Skrifstofustjóri afhendir sveitarstjórnarmönnum 5 atkvæðaseðla þar sem fram kemur eftirfarandi: Vantrauststillaga lögð fram af Matthíasi Lýðssyni á hendur Þorgeiri Pálssyni oddvita Strandabyggðar á fundi sveitarstjórnar nr. 1369 þann 08. október 2024. Styður þú vantrauststillögu þá sem lögð er fram? Á seðlinum reitir fyrir krossa fyrir aftan já og nei. Þeir sem sitja hjá skila auðu.
Talning atkvæða fór þannig: já segja 2, nei segja 3, auðir seðlar er enginn.
Vantrauststillaga á Þorgeir Pálsson oddvita er því felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.
2. Viðauki IV
Lagður er fram svohljóðandi viðauki IV við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2024 á fundi sveitarstjórnar þann 8. október 2024
Framkvæmdir:
a.Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2024 ásamt Viðauka II og III var gert ráð fyrir framkvæmdakostnaði allt að 214.150.000 en líklegt er nú í októberbyrjun að sú fjárhæð er ekki nægjanleg. Lagt er til að framkvæmdakostnaður 2024 hækki úr 214.150.000 í 220.150.000 eða um 6.000.000.
b. Lækkun framkvæmdakostnaðar vegna lóðavinnu á leikskóla. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 30.000.000 en ekki næst að vinna nema hluta og er áætlun lækkuð um 8.500.000 kr og fjárheimild ársins til framkvæmda því 21.500.000.
c. Brák stofnhluti við byggingu íbúða í Víkurtúni. Framlag til greiðslu á árinu var áætlaðar kr. 25.000.000 en sú upphæð lækkar um 18.000.000 og færist til næsta árs. Fjárheimild lækkar því og verður 7.000.000 á árinu 2024
d. Hækkun framlags til gatnagerðar. Lagt var upp með 34.700.000 kr. Framlag til gatnagerðar á árinu 2024. Ljóst er að framlag þurfi að hækka um 3.000.000 til að mæta viðbótarkostnaði. Heildarframlag til gatnagerðar er því 37.700.000.
e. Frestun framkvæmda við höfn. Lagt var upp með viðhaldi á höfn sem hefur ekki náðst innan ársins. Fjárheimild til framkvæmda er því lækkuð úr kr. 5.500.000 í 3.000.000.
f. Frestun framkvæmda við vatnsveitu. Lagt var upp með byggingu dæluskúrs í vatnsveitu. Ekki næst að framkvæma bygginguna á árinu og er fjárheimild því lækkuð um 18.000.000 og eftir standa 2.000.000 v. annarra fjárfestinga.
g. Veitustofnun. Lagt var upp með í áætlun ársins að framkvæma tengingar á ljósleiðarakerfi í Djúpi. Sú framkvæmd hefur ekki náðst á árinu og frestast til næsta árs. Lækkun um 2.000.000 og fjárheimild til framkvæmda því engin á árinu 2024.
Samtals lækkun fjárfestinga á árinu 2024 eru 40.000.000
Heildarframkvæmdir ársins hækkuðu úr 229.850.000 í 328.550.000 eða um 98.700.000. Fjárþörf eftir breytingar á áætlun skv. viðaukum I-IV hljóðuðu upp á hið minnsta 40.000.000. Ráðlagt var af starfsmönnum við endurskoðun að fara í hærri lántökur til að eiga svigrúm til breytinga og afborgana skulda. Eftir framlagningu viðauka IV og með lántökum eru skuldahlutfall ársins komið í 138,6% Sótt er um lántöku 95.000.000 í meðfylgjandi viðauka IV og skv. lið nr. 2 á fundi sveitarstjórnar nr. 1369. Ef lántökum á árinu 2025 verður stillt í hóf mun skuldahlutfallið lækka strax á næsti ári.
Oddviti þakkaði vinnu við gerð viðaukans og taldi hann nauðsynlegan. Hann útskýrði ennfremur framkvæmdir ársins.
Matthías tók til máls og sagði að eðlilega hefði kostnaður verið ansi hár vegna mikilla framkvæmda við grunnskólann á kostnað annarra framkvæmda sem bíði þá.
Oddviti leggur til að viðauki IV verði samþykktur.
Viðaukinn er samþykktur með fjórum atkvæðum T-lista og Hlífar, Matthías situr hjá.
3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að útgreiðslufjárhæð allt að kr. 95.000.000,- , með lokagjalddaga þann 5. nóvember 2055, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.
Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstólsfjárhæðinni, uppgreiðslugjaldi, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til framkvæmda og endurbóta á grunnskóla sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni, sveitarstjóra, kt. 100463-5989, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr.framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
Hlíf Hrólfsdóttir tekur til máls og spyr út í greiðsluáætlun. Salbjörg útskýrir málið.
Matthías spurði um endurgreiðslufjárhæð lántökunnar þar sem heildarendurgreiðsluhlutfallið er hærra en útborguð fjárhæð. Ennfremur spurði hann eftir greinargerð KPMG sem þarf að skila sbr. 66 gr.sveitarstjórnarlaga þegar einstaka framkvæmdir eða skuldbindingar fara yfir 20% af skatttekjum. Salbjörg svaraði að greinargerðin væri í vinnslu.
Oddviti leggur til að lántakan verði samþykkt. Lántakan samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en A-listafólk situr hjá.
4. Minnisblað KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum – 28.9.24
Oddviti tilkynnti að hann muni víkja af fundi vegna vanhæfis og bað varaoddvita, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur að taka við fundinum. Þorgeir yfirgaf því næst fundinn og sæti hans tók Grettir Örn Ásmundsson.
Sveitarstjórn Strandabyggðar leitaði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jón Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.
Endurskoðunarfyrirtæki KPMG hefur nú unnið úttektina og skilað minnisblaði og eru niðurstöður úttektarinnar sem hér segir:
"Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.
Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar." Vísað er í samninga Strandabyggðar við Strandagaldur ses og Sauðfjársetur ses.
Fram kemur einnig í úttektinni að Jón Jónsson hafi setið í stjórn Strandagaldurs ses frá nóvember 2018 til maí 2024 en hafði áður verið í stjórn til ársins 2007. Strandagaldur ses er sjálfseignarstofnun og því er ekki um eiginlega eigendur að ræða að félaginu. Samningar milli Strandagaldurs ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar. Í samningum er fjallað meðal annars um markmið og tilgang hans, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags. Á tímabilinu 2010 til 2020 tóku samningarnir til reksturs Upplýsingamiðstöðvar á Hólmavík.
Sömuleiðis kemur fram að Sauðfjársetur á Ströndum ses var stofnað árið 2009 og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var Jón Jónsson aldrei í stjórn þess. Sauðfjársetur á Ströndum ses er sjálfseignastofnun og því ekki um eiginlega eigendur að ræða. Sammningar milli Sauðfjárseturs á Ströndum ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar og í þeim fjallað um markmið og tilgang, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags.
T-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
“Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 9. júlí sl. var samþykkt tillaga um að leitað yrði til KPMG um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fyrrgreind tillaga var unnin að höfðu samráði við Jón Jónsson. Niðurstaða KPMG liggur nú fyrir. Niðurstaða úttektarinnar gefur ekki tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu sveitarstjórnar Strandabyggðar.”
A-listinn óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Við fögnum niðurstöðu í Minnisblaði KPMG um greiðslur til Jóns Jónssonar og tengdra stofnanna og fyrirtækja. Við hörmum að til þessarrar úttekar hafi þurft að koma. Í úttekinni er Jón hreinsaður af öllum ásökunum oddvita Strandabyggðar, Þorgeirs Pálssonar og eiginkonu hans, Hrafnhildar Skúladóttur. Þessi niðurstaða staðfestir það sem áður hafði komið fram m.a. í stjórnsýsluskoðun sem gerð er samhliða endurskoðun reikninga Strandabyggðar. Við sjáum ekki annað í stöðunni en að þau hjón biðjist afsökunar á röngum ásökunum á hendur Jóni Jónssyni og hvetjum þau eindregið til að gera það.“
Óskar Hafsteinn Halldórsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson taka heilshugar undir bókun A-lista.
Þorgeir Pálsson kemur aftur inn á fundinn og Grettir Örn Ásmundsson víkur af fundi
Þorgeir Pálsson tekur til máls og vill taka fram að hann harmi það, að eftir að þessu máli lýkur, að það leiði til þess að hæfur sveitarstjórnarmaður hverfi af vettvangi.
5. Tillögur Strandanefndarinnar
Oddviti reifaði forsögu málsins og gaf síðan orðið laust.
Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun og óskar eftir stuðningi annara sveitarstjórnarmanna.
„Sveitarstjórnarmenn A-lista telja að tillögur Strandanefndarinnar hafi því ekki að öllu leyti, náð þeim markmiðum sem lagt var upp með í upphafi vinnunnar. Vinnan hefur tafist og því nauðsynlegt að fá niðurstöður frá stjórnvöldum um nefndarálitið sem allra fyrst. Mikilvægt er að hafist verði handa við að koma tillögunum frá nefndinni í framkvæmd.“
Sveitarstjórnarmenn T-lista taka heilshugar undir tillöguna.
Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma bókuninni til verkefnisstjóra
6. Gjaldskrá v. byggingarleyfa, leiðrétting v. grunnupphæða
Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið. Salbjörg tók til máls og útskýrði ástæðu framlagningar gjaldskránnar.
Lögð er fram gjaldskrá fyrir byggingarleyfis/heimildar-, framkvæmda-, skipulags- og þjónustugjöld í Strandabyggð, en um er að ræða leiðrétta gjaldskrá vegna villu grunnupphæðar í útreikningi skv. byggingarvísitölu.
Matthías tók til máls og segir þetta frekar óheppilegt en við ættum að leiðrétta gjaldskrána og birta hana.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána samhljóða.
7. Erindi frá UMF Geislanum varðandi uppsetningu á klifurvegg 3.10.24
Oddviti rakti efni erindisins og fagnaði því og hrósaði Geislanum fyrir framtakið en stjórn Ungmennafélagsins Geislans leggur fram formlega beiðni um leyfi til að setja upp klifurvegg í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Lagði oddviti til að vel og jákvætt yrði tekið í erindið, en gaf svo orðið laust.
Sveitastjórn fagnar þessu erindi og sveitarstjóra er falið að koma því í framkvæmd með fulltrúum Geislans.
Sveitarstjórn samþykkir afgreiðsluna samhljóða.
8. Erindi frá foreldrum í dreifbýli varðandi skólaakstur og frístundastarf – 25.9.24
Oddviti rakti efni erindis og núverandi stöðu. Um er að ræða ákall foreldra um að fjölga heimferðum skólabíls til að uppfylla þarfir barna um jafnt aðgengi að frístundastarfi. Frístund hefur nú opnað og heimferðum fjölgað um leið.
Orðið gefið laust.
Sveitarstjórn fagnar því að málið sé komið í farveg.
9. Verkefni sveitarstjóra, september 2024
Orðið gefið laust.
Matthías tekur til máls og spyr um tvö atriði í skýrslunni. Hið fyrra er sameining sveitarfélaga.
Oddviti tekur fram að það sé mál sem er nauðsynlegt að listarnir sameinist um.
Hið seinna er deiliskipulagslýsing á hótelreitnum og hversu hún sé langt komin.
Þorgeir segir að hótelfjárfestar séu að vinna að sínu deiliskipulagi sem falli svo með okkar þegar að því komi. Stefnt sé að því að skila deiliskipulagslýsingu í október.
Matthías kallaði eftir fundi með verkefnastjóra framkvæmda við grunnskólann og Þorgeir segir hann sé á dagskrá.
Hlíf spyr um A-aagora og hvort það sé Evrópustyrksverkefni Fine Foods og Þorgeir svarar því játandi og segir þetta mjög áhugavert verkefni.
10. Forstöðumannaskýrsla vegna september 2024
Orðið gefið laust.
Þorgeir tók til máls og sagði að tvær forstöðumannaskýrslur hefðu borist. Ljóst sé að breyta þurfi fyrirkomulagi og samræðuvettvangi forstöðumanna.
11. Gjöf til Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna – 26.9.24
Erindi frá Sólveigu Benjamínsdóttur forstöðumanni safna í Húnaþingi vestra þar sem hún tilkynnir um rausnarlega gjöf Húnvetningafélagsins í Reykjavík en þau gáfu allt að 10 milljónir króna til að efla bruna- og öryggismál safnsins.
Oddviti rakti efni erindis og sagðist þegar hafa sent þakkir til hlutaðeigandi. Engu að síður væri rétt að sveitarstjórn sendi aftur formlegar þakkir og hamingjuóskir til safnsins. Orðið gefið laust.
Sveitarstjórn þakkar fyrir sitt leiti, hlýhug og rausnarlegt framlag til safnsins og óskar safninu til hamingju.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
12. Samband íslenskra sveitarfélaga – Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga
Lögð er fram til kynningar minnisblað frá Greiningarteymi Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi þjóðhagslegar forsendur áætlunargerðar. Oddviti rakti efni minnisblaðs Sambandsins. Sveitarstjórnarfólk er hvatt til að kynna sér forsendurnar vel.
13. Afstaða varðandi EarthCheck
Lagður fram tölvupóstur Hjörleifs Finnssonar, verkefnastjóra umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu, dagsettur 27. júní 2024, vegna þátttöku sveitarfélagsins í EarthCheck. Framkvæmdaráð EarthCheck ályktaði á fundi sínum 24. apríl sl. að best færi á að hætta í verkefninu og leita annarra lausna til umhverfisstjórnunar.
Stjórn Fjórðungssambandsins tók málið fyrir og vísaði samþykkt framkvæmdaráðs EC (um að hætta þátttöku í EC) til hvers og eins sveitarfélags til ákvarðanatöku.
Oddviti rakti tilurð máls og sagðist telja rétt að Strandabyggð færi að fordæmi annarra sveitarfélaga og staðfesti úrsögn.
Orðið gefið laust.
Hlíf tók til máls og tók fram að þetta hafi verið rætt áður hjá sveitarstjórn.
Matthías tók til máls og taldi þetta verkefni ekki hafa náð þeim árangri sem til var ætlast og telur að rétt sé að fylgja öðrum sveitarfélögum.
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir samhljóða að hætta í verkefninu EarthCheck þar sem þátttaka hefur ekki skilað þeim árangri sem lagt var upp með. Sveitarstjóra falið að senda niðurstöðu fundarins til Vestfjarðarstofu.
14. Fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar – 26.9.24
Oddviti fól formanni ADH nefndar að fara yfir fundargerðina. Óskar Hafsteinn Halldórsson tók til máls.
Farið var yfir erindisbréf nefndarinnar og ljóst er að uppfæra þarf ýmis lagaákvæði og vísan í reglugerðir. Það verður leiðrétt og erindisbréfið lagt fyrir á ný.
Farið var yfir gjaldskrá refa- og minkaveiði. Nefndin vill endurskoða gjaldskrá.
Nefndin lýsir yfir áhyggjum af stöðu heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu og fór yfir málið í nokkrum liðum. Brýnt er að bæta úr og hvetja sveitarstjórn til að leggja þunga í og þrýsta á HVE og heilbrigðisráðherra að bæta stöðuna í umdæminu.
Einnig lagði nefndin til umbætur í girðingarmálum í sveitarfélaginu.
Hlíf setti fram athugasemdir við erindisbréfið. Óskar þakkar ábendinguna og mun taka hana til greina.
Matthías leggur til að ADH nefnd fundi oftar því að umsvif í sveitarfélaginu séu þó nokkur.
Varðandi lið 2 í fundargerðinni þá leggur Matthías til að reglur um refa- og minkaveiði verði ræddar við sviðsstjóra Umhverfisstofnunar og minnir Þorgeir Pálsson á að verulega langt sé síðan að hann hafi ætlað að endurskoða þessar sömu reglur. Þorgeir kannast vel við að þær séu óendurskoðaðar.
Varðandi lið 2 um hækkun á taxta þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða tillögur nefndarinnar með 4 atkvæðum T-lista og Hlífar, Matthías situr hjá.
Varðandi lið 3 þá leggur sveitarstjórn til að sveitarstjóra sé falið að fylgja ályktun nefndarinnar eftir og þrýsti á HVE og heilbrigðisráðherra að bæta stöðu starfsfólks í heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæminu, enda gríðarlega mikið öryggisatriði og umdæmið stórt. Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni og þakkar það mikla og góða starf sem starfsfólk heilsugæslunar er að sinna þrátt fyrir mannfæð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar
15. Fundargerð 54. fundar Velferðarnefndar 16.09.24
Oddviti gaf Matthíasi Sævari Lýðsssyni, formanni Velferðarnefndar orðið.
Matthías fór yfir fundargerðina og útskýrði lið fyrir lið.
Sveitarstjórn tekur undir með Velferðarnefnd og þakkar Soffíu Guðrúnu Guðmundsdóttur fráfarandi félagsmálastjóra fyrir samstarfið og óskar henni velfarnaðar. Jafnframt er Hlíf Hrólfsdóttir boðin velkomin til starfa og henni óskað velfarnaðar í starfi.
16. Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda – 19.09.24
Oddviti gaf Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, fulltrúa sveitarstjórnar í verkefnastjórn Sterkra Stranda, orðið.
Sigríður fór yfir fundargerðina lið fyrir lið.
Oddviti tekur til máls og sagði frá því að ein af tillögum Strandanefndarinnar væri að verkefnið Sterkar Strandir fengi framhaldslíf og fjármagn til næstu fimm ára ásamt fleiri sveitarfélögum á Ströndum.
Leitað verði til Vestfjarðarstofu til að svara bréfi verkefnastjóra Sterkra Stranda.
17. Fundargerð 7. fundar svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða 9.9.24
Orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
18. Fundargerð 63. stjórnarfundar FV/Vestfjarðastofu frá 25.9.24
Orðið gefið laust. Enginn tók til máls
19. Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands nr. 465
Orðið gefið laust. Enginn tók til máls
20. Fundargerð 149 fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðarsvæðis 19.09.24 ásamt fjárhagsáætlun.
Orðið gefið laust.
Matthías tók til máls og sagði það gagnlega lesningu að lesa yfir fundargerðina og þar sé til dæmis vísað í reglugerð um nýtingu sjávargróðurs sem tengist atvinnustarfsemi í firðinum.
Hlíf vekur athygli á fjölgun starfsmanna Heilbrigðiseftirlitsins og þar af leiðandi muni framlag hækka á næsta ári.
Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar
21. Fundargerðir 951 og 952 fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga. 30.08.24 og 27.09.24
Orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 18.41