Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1370, 12.11.2024
Sveitarstjórnarfundur 1370 í Strandabyggð
Fundur nr. 1370 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 12. nóvember 2024 kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson varamaður. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Trúnaðarmál
2. Fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028, fyrri umræða
3. Útsvar og fasteignaskattur 2025
4. Viðauki V
5. Ágóðahlutagreiðsla Brunabótafélags Íslands 2024
6. Beiðni frá Landsnet um skipun í Verkefnaráð, 1.11.24
7. Erindi frá Kaldrananeshreppi varðandi opnunartíma Ozon, 8.11.24
8. Minnisblað til fjárlaganefndar um endurreisn kræklingaræktar
9. Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu v. Bréf til fjármálaráðherra vegna afnáms tollfrelsis skemmtiferðaskipa, 7.10.24
10. Óbyggðanefnd – Þjóðlendumál: eyjar og sker
11. Stafrænt pósthólf – ný reglugerð
12. Yfirlýsing til sveitarstjórna frá fulltrúum kennara og stjórnenda á Vestfjörðum, 24.10.24
13. Svæðisáætlun Vestfjarða um úrgang 2024-2035 til samþykktar
14. Sorpsamlag Strandasýslu, stjórnarfundur 7.11.24 ásamt rekstaráætlun 2025 ásamt skýrslu um vöktun umhverfisþátta við urðunarstað Sorpsamlags Strandasýslu ehf í Skeljavík
15. Kostnaður verkþátta við framkvæmdir í grunnskóla
16. Vinnuskýrsla sveitarstjóra, október 2024
17. Fundargerð 84. fundar TÍM nefndar, 4.11.24
18. Erindisbréf Ungmennaráðs
19. Fundargerð FRÆ nefndar, 6.11.24
20. Fundargerð US nefndar, 7.11.24
21. Erindi til sveitarstjórnar frá Skógræktarfélagi Íslands, 23.10.24
22. Erindi til sveitarstjórnar frá Stígamótum, 30.10.24
23. Þinggerð 69. Fjórðungsþings að hausti og ályktanir þingsins
24. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 8. fundar 18.10.24
25. Hafnasambands Íslands, fundargerð nr. 466, 23.10.24
26. Samband íslenskra sveitarfélaga fundargerðir nr 953, 25.10.24 og nr 954, 4.11.24
27. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, fundargerðir aðalfundar 9.10.24. og stjórnarfunda nr 82 22.10.24 og nr. 83. 29.10.24 ásamt erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga til aðildarsveitarfélaga Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 25.10.24
28. Erindi frá Óskari Hafsteini Halldórssyni, beiðni um lausn frá störfum
29. Erindi frá Þresti Áskelssyni, beiðni um lausn frá störfum
30. Erindi frá Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, beiðni um lausn frá störfum
Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.
Þá var gengið til umræðu.
1. Trúnaðarmál
Umræða færð í trúnaðarbók
2. Fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028, fyrri umræða
Oddviti lagði fram fjárhagsáætlun fyrir 2025 og þriggja ára áætlun fyrir 2026-2028, til fyrri umræðu. Rakti hann helstu forsendur og áherslur áætlunarinnar. Því næst gaf oddviti orðið laust.
Matthías tók til máls og telur að erfitt sé að horfa framhjá nauðsynlegum framkvæmdum né að fullnýta ekki tekjustofna sveitarfélagsins.
Stefnt að frekari vinnu við áætlun með aðstoð KPMG fram að seinni umræðu.
Oddviti vísaði fjárhagsáætlun til seinni umræðu á desember fundi sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
3. Útsvar og fasteignaskattur 2025
Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið sem útskýrði framlagða tillögu að álagningu útsvars og fasteignagjalda 2025. Lagt er til að álagningarstofn af íbúðarhúsum verði 0,625%, af opinberu húsnæði 1,32% og af öðrum fasteignum 1,65%. Um hámarksálag er að ræða. Ennfremur er lögð fram í gjaldskránni, tillaga að afslætti elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignagjöldum en þar er lagt til að hækka viðmiðunarupphæðir verulega og í samræmi við nágrannasveitarfélög.
Oddviti leggur til að tillagan verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða
4. Viðauki V
Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið sem útskýrir að framlagður viðauki innihaldi tilfærslur en ekki kostnaðarauka.
Lagður er fram svohljóðandi viðauki V við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2024 á fundi sveitarstjórnar þann 12. nóvember 2024
Framkvæmdir:
a. Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2024 ásamt viðaukum II-IV var gert ráð fyrir framkvæmdakostnaði allt að 220.150.000 en líklegt er nú í nóvemberbyrjun að sú fjárhæð sé ekki nægjanleg. Lagt er til að framkvæmdakostnaður 2024 hækki í 229.900.000 eða um 9.750.000.
b. hækkun framkvæmdakostnaðar vegna framkvæmda í Íþróttamiðstöð. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 15.000.000, en ljóst er að framkvæmdakostnaður eykst vegna framkvæmda við nuddpott og uppsetningu varmadælna. Lagt er til að hækka fjárheimild ársins um 3.000.000 og heildarfjárheimild til framkvæmda því 18.000.000.
c. Lækkun framkvæmdakostnaðar vegna lóðavinnu á leikskóla. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 30.000.000, en áætlun var lækkuð í viðauka IV um 8.500.000. Þar sem ekki hefur náðst að framkvæma er lagt til að áætlun verði lækkuð til viðbótar um 12.750.000 kr og fjárheimild ársins til framkvæmda því 8.750.000.
Um er að ræða tilfærslur v. framkvæmda og niðurstaða viðauka vegna framkvæmda því kr. 0.
Rekstur:
a. Lækkun kostnaðar við kynningarmál sveitarfélagsins. Áður var gert ráð fyrir kostnaði við heimasíðugerð og kynningarmál kr. 6.000.000 en sú upphæð hefur ekki verið nýtt að öllu leiti og mun lækka í kr. 1.000.000. Einnig var gert ráð fyrir framlagi vegna upplýsingamiðstöðvar kr. 2.500.000 en ekki hefur verið kostnaður á þann lið.
b. Lagt er til að færa til framlög frá lið a. á starfsmannakostnað eða kr. 2.280.000
c. Lagt er til að færa til framlög frá lið a á vinnu við aðal- og deiliskipulag kr. 3.000.000.
d. Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps hefur gert viðauka við áætlun ársins 2024. Samkvæmt honum þá þarf að hækka framlag Strandabyggðar sem nemur 143.179 fyrir hvern mánuð, eða samanlagt 1.718.148 fyrir árið 2024. Sveitarfélagið þarf að gera viðauka fyrir þessu. Lagt er til að hækka áætlun Félagsþjónustu um 1.720.000.
Heildaráhrif viðaukans á rekstur eru kr. 0
Orðið gefið laust. Matthías tók til máls og minnti á ónýtar útihurðar á leikskóla og óskaði eftir að því yrði komið í farveg. Oddviti kannar hvernig staðan á því máli er.
Viðauki V borin upp undir atkvæði og sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
5. Ágóðahlutagreiðsla Brunabótafélags Íslands 2024
Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.
Hlíf tók til máls og sagði að við gerðum ekkert stórt fyrir þessa upphæð en ánægjuleg greiðsla eigi að síður.
6. Beiðni frá Landsnet um skipun í Verkefnaráð, 1.11.24
Oddviti rakti tilurð máls og lagði til að Matthías Sævar Lýðsson yrði fulltrúi Strandabyggðar í Verkefnaráði og að Grettir Örn Ásmundsson, yrði varamaður hans.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
7. Erindi frá Kaldrananeshreppi varðandi opnunartíma Ozon, 8.11.24
Oddviti rakti tilurð máls og gaf síðan orðið laust. Erindið var rætt og lagt til að tómstundafulltrúi ásamt sveitarstjórnarmanninum Hlíf Hrólfsdóttur muni funda með fulltrúa Kaldrananeshreppi hið fyrsta.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
8. Minnisblað til fjárlaganefndar um endurreisn kræklingaræktar
Oddviti rakti tilurð máls og tiltók að Strandabyggð hefði samþykkt að standa að minnisblaðinu, enda skýrir hagsmunir svæðisins í húfi. Því næst gaf hann orðið laust.
Matthías tók til máls og tók fram að Strandabyggð hefði stutt við kræklingarækt með þeim hætti að styðja við minnisblaðið ásamt fjölda hagsmunaaðila og annara sveitarfélaga. Í minnisblaðinu er óskað eftir kaupum á sýnatökutæki og eflingu á þjónustu Matís.
Sveitarstjórn staðfestir fyrri samþykkt um stuðninginn. Samþykkt samhljóða.
9. Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu v. Bréf til fjármálaráðherra vegna afnáms tollfrelsis skemmtiferðaskipa, 7.10.24
Oddviti rakti lauslega tilurð máls og gaf síðan orðið laust.
Bókun sveitarstjórnar Strandabyggðar vegna ályktunar Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, FHG, varðandi afnám tollfrelsis á vistir og aðrar nauðsynjar skemmtiferðaskipa í íslenskri lögsögu í samræmi við samþykkt Alþingis haustið 2023.
„Komur skemmtiferðaskipa til Íslands skipta sífellt meira og meira máli fyrir afkomu ferðaþjónustufyrirtækja og eru margföldunaráhrif og verðmætasköpun sem af þessu hlýst, mikil. Farþegaskip hafa í dag viðkomu á um 30 höfnum í öllum landsfjórðungum á Íslandi á hverju ári.
Sveitarstjórn tekur undir ályktun Hafnasambandsþings, sem haldið var á Akureyri 24.-25. október sl. þar sem lögð var rík áhersla á að „skattheimta á þessar siglingar verði útfærð með þeim hætti að tryggðar verði áframhaldandi siglingar farþegaskipa til jafnt stærri sem smærri hafna landsins. Jafnframt er minnt á skyldu ríkisins að framkvæma mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga sbr. 129. gr sveitarstjórnarlaga“.
Strandabyggð er lítil stærð þegar kemur að komum skemmtiferðaskipa, en sífellt vaxandi. Markvisst er unnið að því að laða að skip og byggja upp þjónustu þeim til handa.“
Borið undir atkvæði sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma bókuninni á framfæri.
10. Óbyggðanefnd – Þjóðlendumál: eyjar og sker
Oddviti bað Matthías Sævar Lýðsson að fara yfir málið.
Matthías tók til máls og segir að umfjöllun sé á heimasíðu óbyggðanefndar. Kröfulýsingarnar hafi margar verið rangar og ráðherra afturkallað málið. Kröfur óbyggðanefndar eru margar í eyjar og sker í einkaeigu í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn hvetur landeigendur til að leita sér lögfræðiaðstoðar við skráningar og rennur kröfulýsingarfrestur út 13. janúar 2025.
Samþykkt samhljóða af sveitarstjórn.
11. Stafrænt pósthólf – ný reglugerð
Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.
Salbjörg skrifstofustjóri fór yfir stöðu málsins og hafið er innleiðingarferli hjá Strandabyggð.
12. Yfirlýsing til sveitarstjórna frá fulltrúum kennara og stjórnenda á Vestfjörðum, 24.10.24
Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust
Matthías tók til máls og leggur til eftirfarandi tillögu að bókun:
“Sveitarstjórn Strandabyggðar þakkar erindið og tekur undir mikilvægi þess að fagmennska og gæði ríki í öllu skólastarfi”
Sveitarstjórn samþykkir bókunina samhljóða.
13. Svæðisáætlun Vestfjarða um úrgang 2024-2035 til samþykktar
Oddviti rakti lauslega tilurð máls og gaf síðan orðið laust.
Fulltrúar A-lista, Matthías og Hlíf ásamt Gretti Erni Ásmundssyni leggja til að afgreiðslu skýrslunnar sé frestað til næsta fundar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða
14. Sorpsamlag Strandasýslu, stjórnarfundur 7.11.24 ásamt rekstaráætlun 2025 ásamt skýrslu um vöktun umhverfisþátta við urðunarstað Sorpsamlags Strandasýslu ehf í Skeljavík.
Oddviti sagði frá stjórnarfundinum, rekstrar- og fjárfestingaráætlun.
Skýrsla um vöktun umhverfisþátta við urðunarstað Sorpsamlagsins, lögð fram til kynningar.
Fundargerð og rekstaráætlun Sorpsamlags Strandasýslu er lögð fram til samþykktar. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir með fjórum atkvæðum. Matthías Sævar Lýðsson situr hjá.
15. Kostnaður verkþátta við framkvæmdir í grunnskóla
Oddviti vísaði í minnisblað þar um og fyrri umræðu. Orðið gefið laust.
Matthías tók til máls og nefndi nokkur atriði sem honum þykir athugunarverð og margt sem ekki var hægt að sjá fyrir og þurfi að læra af því. Margar skýringar séu á kostnaði og hluti af því er að byggingarstjóri hafi ekki verið til staðar.
Oddviti tók einnig fram að ekki hafi verið ráðist í heildarhönnun í byrjun verks og tekur undir athugasemdir Matthíasar.
16. Vinnuskýrsla sveitarstjóra, október 2024
Orðið gefið laust
Matthías tók til máls og nefnir nokkur atriði sem Þorgeir útskýrir.
17. Fundargerð 84. fundar TÍM nefndar, 4.11.24
Oddviti bað formann TÍM nefndar, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur að segja frá fundinum. Sigríður tók til máls og fór yfir liði fundarins.
Varðandi lið nr. 4 sem er erindisbréf TÍM nefndar, þá er skrifstofustjóra falið að breyta texta til samræmis og samkvæmt ábendingum sveitarstjórnar. Erindisbréfið er lagt fram til samþykktar sveitarstjórnar með fyrirvara um breytingar. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 5 sem er frístundastyrkur þá er lagt til að frístundastyrkur gildi í þessu formi þar til annað er ákveðið. Lagt fram til samþykktar, samþykkt samhljóða.
18. Erindisbréf Ungmennaráðs
Oddviti bað formann TÍM nefndar, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur að fara yfir erindisbréfið sem hún gerði.
Oddviti leggur til að erindisbréfinu sé vísað áfram til úrvinnslu Tómstundafulltrúa og skrifstofu til samræmingar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða úrvinnslu erindisins.
19. Fundargerð FRÆ nefndar, 6.11.24
Oddviti rakti efni fundarins.
Hvað varðar lið nr. 3 um gerð skólastefnu, lagði oddviti til að sveitarstjórn samþykkti þessa vinnu og þátt Ásgarðs þar í.
Hlíf tók til máls og tók fram að ekki sé tekið fram í fundargerð Fræðslunefndar að erindinu sé vísað til sveitarstjórnar.
Erindinu er því vísað aftur til Fræðslunefndar sem mun óska eftir samþykki sveitarstjórnar.
Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð US nefndar, 7.11.24
Oddviti bað formann US nefndar, Matthías Sævar Lýðsson, að fara yfir efni fundarins. Matthías tók til máls og skýrði efni fundarins.
Varðandi lið 1, sem er endurskoðun aðalskipulags Strandabyggðar, beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að samþykkja tillögu nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 2 sem er umsögn Skipulagsstofnunar v. Kvíslatunguvirkjunar, beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að samþykkja tillögu nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 3 sem er Hafnardalsárvirkjun og beiðni um að vera tekin með í aðalskipulag Strandabyggðar, beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að samþykkja tillögu nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 4, sem er uppsetning á rafbílahleðslustöðum frá Teslu, beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að fela byggingarfulltrúa að grenndarkynna framkvæmdina. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 5a, sem er tillaga að deiliskipulagi í Brandskjólum þá beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að auglýsa tillöguna samhliða aðalskipulagi Strandabyggðar. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið 5b, sem er tillaga að deiliskipulagi Jakobínutúns og nágrennis, leggur Grettir Örn Ásmundsson til að tillagan verði auglýst samhliða aðalskipulagi Strandabyggðar sbr. 1.mgr 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið nr. 5c. Í fundargerð, varðandi skipan fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, beinir US nefnd því til sveitarstjórnar að skipa fulltrúa í stað Jóns Sigmundssonar. Í lið nr. 24 í fundargerð 1370 er tillaga um fulltrúa Strandabyggðar í nefndina.
21. Erindi til sveitarstjórnar frá Skógræktarfélagi Íslands, 23.10.24
Lagt fram til kynningar og orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
22. Erindi til sveitarstjórnar frá Stígamótum, 30.10.24
Oddviti gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
23. Þinggerð 69. Fjórðungsþings að hausti og ályktanir þingsins
Lögð fram til kynningar, orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
24. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 8. fundar 18.10.24
Oddviti bað Matthías Sævar Lýðsson, fulltrúa í Svæðisskipulagsnefnd, að segja frá fundinum. Matthías vísaði í fundargerð.
Oddviti leggur til að Þorgeir Pálsson myndi taka sæti Jóns Sigmundssonar í nefndinni. Samþykkt samhljóða.
25. Hafnasambands Íslands, fundargerð nr. 466, 23.10.24
Lögð fram til kynningar og orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
26. Samband íslenskra sveitarfélaga fundargerðir nr. 953, 25.10.24 og nr. 954, 4.11.24
Lagðar fram til kynningar, orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
27. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, fundargerðir aðalfundar 9.10.24. og stjórnarfunda nr. 82 22.10.24 og nr. 83 29.10.24 ásamt erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga til aðildarsveitarfélaga Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 25.10.24
Lagðar fram til kynningar, orðið gefið laust. Enginn tók til máls.
28. Erindi frá Óskari Hafsteini Halldórssyni, beiðni um lausn frá störfum
Oddviti rakti efni máls og lagði til að sveitarstjórn samþykkti beiðnina. Samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn þakkar Óskari Hafsteini kærlega fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.
29. Erindi frá Þresti Áskelssyni, beiðni um lausn frá störfum
Oddviti rakti efni máls og lagði til að sveitarstjórn samþykkti beiðnina. Samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn þakkar Þresti kærlega fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.
30. Erindi frá Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, beiðni um lausn frá störfum
Oddviti rakti efni máls og lagði til að sveitarstjórn samþykkti beiðnina. Samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn þakkar Sigríði Guðbjörgu kærlega fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.
Oddviti áréttaði. Í stað þeirra taka sæti sem aðalmenn í sveitarstjórn, Grettir Örn Ásmundsson og Júlíana Ágústsdóttir. Varamenn eru Þórdís Karlsdóttir og Marta Sigvaldadóttir.
Bókun oddvita vegna beiðni kjörinna fulltrúa um lausn frá störfum í sveitarstjórn Strandabyggðar
„Í dag samþykkti sveitarstjórn Strandabyggðar beiðni þriggja kjörinna fulltrúa um lausn frá störfum í sveitarstjórn. Áður höfðu tveir fulltrúar beðist lausnar. Samtals hafa því fimm kjörnir fulltrúar Strandabandalagsins beðist lausnar frá störfum í sveitarstjórn. Í amk fjórum tilvikum er ástæðan of mikið álag og áreyti sem þessir fulltrúar hafa orðið fyrir í sínu starfi. Allir lögu þeir upp með að gera vel fyrir sitt sveitarfélag. Allir lögðu þeir sig fram um að bæta og efla samfélagið. Allir lögðu þeir sig fram af heilindum og sannfæringu fyrir því að þeir væru að vinna rétt og vel fyrir Strandabyggð og íbúa þess. Allir höfðu þeir hagsmuni allra íbúa sveitafélagsins að leiðarljósi í sinni vinnu.
En það dugði ekki til. Endalausar ásakanir, niðurrif og nú síðast kom fram á síðasta sveitarstjórnarfundi bókun tveggja sveitarstjórnarmanna um að þeir hefðu fengið hótanir vegna starfa sinna í sveitarstjórn. Þetta hefur nú leitt til þess að þessir fulltrúar sjá sér ekki fært lengur, sín og fjölskyldna sinna vegna, að starfa í sveitarstjórn fyrir Strandabyggð. Þessi framkoma í garð kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn er með öllu ólíðandi og á sér fá ef nokkur fordæmi.
Mikilvægt er að hafa það í huga að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn Strandabyggðar eru lýðræðislega kjörnir. Kosningarnar 2022 skiluðu afgerandi, lýðræðislegri niðurstöðu. Árásir á þessa fulltrúa sem hér eiga í hlut, alla fimm, eru um leið árásir á lýðræðið. Það er ekkert grín að misnota málfrelsi og rétt sinn til málflutnings í sveitarstjórn á þann hátt að draga þar sífellt inn til umræðu, mál sem eiga þar ekki heima. Mál sem höfðu þann tilgang einan að gera þessa og aðra fulltrúa meirihlutans og þeirra ákvarðanir fyrir samfélagið, tortryggilegar, draga úr trúverðugleika og skemma málefnalega vinnu. Þetta er líka árás á starfsumhverfi lýðræðislega kjörinna fulltrúa.
Fólk hefur verið sakað um frændhygli í samningum við verktaka. Því hefur opinberlega verið haldið fram að t.d. oddviti hafi sakað einstakling í samfélaginu um að hafa stolið tugum milljóna úr sjóðum sveitarfélagsins, svo dæmi séu tekin. Hvoru tveggja eru grafalvarlegar ásakanir, sem uppfylla öll skilyrði til málsóknar, kjósi menn svo.
Er þetta eðlilegt starfsumhverfi? Nei. Þetta er umhverfi litað af heift og ofbeldi og á ekkert skylt við málefnalega gagnrýni eða eðlilegan pólitískan ágreining um stefnu eða áherslur. Þetta er í raun ein tegund ofbeldis og það er mikilvægt að allir sem þetta lesa, skilji alvarleika þessa máls. Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“.
Oddviti tekur fram að í lok dags á fimmtudag fer hann í ótímabundið veikindaleyfi. Hann mun miðla til starfsmanna þeim verkefnum sem hann hefur unnið að og sem þeir leysa í hans fjarveru.
Matthías tók til máls og óskar oddvita góðs gengis í veikindaleyfinu og nefnir að ekki sé starfandi varaoddviti. Oddviti skýrir að varaoddviti verði skipaður á fundi sveitarstjórnar í desember.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 19:22