A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1356 í Strandabyggð, 9. janúar 2024

Sveitarstjórnarfundur nr. 1356 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 9. janúar 2024 kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir varaoddviti, Grettir Ásmundsson varamaður fyrir Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Erindi frá Innviðaráðuneyti 21. desember 2023 varðandi framhald samkomulags við Strandabyggð
2. Umsókn um leikskóladvöl utan sveitarfélags
3. Umsókn um námsleyfi 2023-2024 frá Kolbrúnu Þorsteinsdóttur
4. Erindi frá Hafdísi Sturlaugsdóttur 11. desember 2023, ósk um útsendingu frá fundum
5. Innviðaráðuneyti 15. desember 2023, tilkynning um stjórnsýslukæru frá Jóni Gísla Jónsyni vegna fyrirspurnar um útboðsgögn
6. Gjaldskrá Hólmavíkurhafnar 2024
7. Forstöðumannaskýrslur
8. Vinnuskýrsla sveitarstjóra
9. Fundargerð Ungmennaráðs 20. desember 2023
10. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 145 frá 14. desember 2023, ásamt gjaldskrá
11. Samband sveitarfélaga, fundargerð nr. 940 frá 15. desember
12. Hafnasamband Íslands fundargerð nr. 459 frá 8. desember


Oddviti bauð alla velkomna. Spurt um athugasemdir við fundarboðun en engin athugasemd er gerð.


Þá var gengið til umræðu.

1. Erindi frá Innviðaráðuneyti 21. desember 2023 varðandi framhald samkomulags við Strandabyggð


Oddviti sagði frá bréfi ráðuneytisins og rifjaði upp upphaflega beiðni sveitarfélagsins um áframhald samningsins. Eins rifjaði oddviti upp fund með fulltrúum Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga frá 14.desember s.l. þar sem að hans mati kom skýrt fram, að frekari fjárstuðnings væri þörf.

Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og tók undir sjónarmið oddvita.

Leggur oddviti til að ráðuneytinu verði færðar þakkir fyrir jákvæðar undirtektir en um leið verði send skýrari ósk um fjárhagslegan stuðning að undangengnum vinnufundi sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


2. Umsókn um leikskóladvöl utan sveitarfélags


Um er að ræða umsókn um leikskólavistun í Dalabyggð frá Jóni Sigmundssyni og Línu Þóru Friðbertsdóttur vegna barns þeirra og aðstæðna sem komu upp nýverið.

Oddviti lagði til að beiðnin yrði samþykkt með vísan í gjaldskrá Sambands sveitarfélaga og sveitarstjóra falið að ganga frá afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn samþykkir erindið samhljóða.


3. Umsókn um námsleyfi 2023-2024 frá Kolbrúnu Þorsteinsdóttur


Sveitarstjórn fagnar áformum bréfritara um frekara nám og oddviti leggur til að erindið verði samþykkt.

Sveitarstjórn samþykkir erindið samhljóða.


4. Erindi frá Hafdísi Sturlaugsdóttur 11. desember 2023, ósk um útsendingu frá fundum


Oddviti reifaði erindi bréfritara sem er að hefja útsendingar frá fundum á ný og eins þá ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar að hætta útsendingum frá fundum. Hefur þetta mál áður borið á góma og stendur ekki til að taka upp útsendingar á fundum á ný.

Hlíf Hrólfsdóttir tekur til máls og telur það sjálfsagt mál að senda út frá fundum til að jafna aðstöðu íbúa til að fylgjast með umræðum á fundum.

Matthías Lýðsson tekur undir með bréfritara og Hlíf Hrólfsdóttur.

Oddviti leggur til að fyrri ákvörðun um að sveitarstjórn sendi ekki út fundi, standi að svo stöddu.

Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en tveir sveitarstjórnarmenn A-lista greiða atkvæði á móti.


5. Innviðaráðuneyti 15. desember 2023, tilkynning um stjórnsýslukæru frá Jóni Gísla Jónsyni vegna fyrirspurnar um útboðsgögn


Oddviti sagði frá að borist hafi stjórnsýslukæra sem þyrfti að svara með greinargerð. Sú greinargerð er í vinnslu og verður skilað til ráðuneytisins á næstu dögum. Sótt var um viðbótarfrest vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna hjá oddvita. Var veittur viku viðbótarfrestur af hálfu ráðuneytisins.


Matthías tók til máls og telur það eina í stöðunni að skila inn tilheyrandi gögnum.


Oddviti mun leggja þessa greinargerð fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi.


6. Gjaldskrá Hólmavíkurhafnar 2024


Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið, sem fór yfir stöðu þessa máls.


Hlíf spurði út í 11. gr. Það er skilningur sveitarstjórnar að ef fleiri en einn bátur komi innan fjögurra klst. ramma, utan opnunartíma, skiptist kostnaður jafnt milli þeirra. Sveitarstjórn mun endurskoða orðalag þessarar greinar við næstu gjaldskrárhækkun.


Oddviti lagði til að gjaldskráin yrði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


7. Forstöðumannaskýrslur


Orðið gefið laust. Enginn kveður sér hljóðs.


8. Vinnuskýrsla sveitarstjóra


Orðið gefið laust.


Matthías Lýðsson spyr út í framkvæmdir í grunnskólanum, en nú er verið að vinna að undirbúningi að uppsetningu á loftræsikerfi. Hann spyr hvort kostnaðaráætlun hafi verið gerð vegna borunar í loftaplötu fyrir túður vegna kerfisins.

Þorgeir segir að formleg kostnaðaráætlun hafi ekki verið gerð en að nauðsynlegt hafi verið að byrja á þessari uppsetningu áður en loftaefni og lýsing verði sett upp. Tiltekinn verktaki var á lausu og tilbúinn í að koma strax.


Matthías spurði einnig um rafverktaka og samning við hann.


Þorgeir svaraði því til að næst á dagskrá væri að klára raflagnateikningar og verktaki kemur á mánudaginn í málningarvinnu. Gerður verður samningur við verktakana í samráði við verkefnisstjóra.


Matthías spyr hvort myglusýni hafi verið tekin í eldri hluta skólans.


Þorgeir segir að þau verði tekin á næstunni og send til Eflu.


Matthías minnir á að í stjórnsýsluskoðun komi fram að ljúka þurfi vinnu við endurskoðun samþykkta um stjórn- og fundarsköp og erindisbréfa hjá fastanefndum sveitarfélagsins. Jafnframt hefur verið kallað eftir niðurlagningu Héraðsnefndar sem og að móta samþykkt um þjónustustig í byggðum- og byggðarlögum sveitarfélagsins.


Þorgeir svaraði og mun fylgja þessum erindum eftir.


9. Fundargerð Ungmennaráðs frá 20. desember 2023


Oddviti gaf formanni TÍM nefndar orðið sem fór yfir fundargerðina.


Sigríður Jónsdóttir fór yfir fundargerðina en þar kom fram að Ungmennaráð vilji minna á að þau verði boðuð sem áheyrnarfulltrúar á nefndarfundi. Sveitarstjórn mun leggja sig fram að bæta úr boðun hér eftir.


Varðandi lið 3 sem fjallar um Hamingjudaga og áhuga Ungmennaráðs að halda þá, er lagt til að sveitarstjóri og formaður TÍM nefndar hitti þau á fundi til að ræða þá framkvæmd. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða lið nr. 3


Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.


10. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 145 frá 14. desember 2023, ásamt gjaldskrá


Oddviti tekur fram að mikilvægt sé að styðja við starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins.


Aðrir tóku ekki til máls.


11. Samband sveitarfélaga, fundargerð nr. 940 frá 15. desember 2023


Orðið gefið laust. Matthías tekur fram að í fundargerðinni komi fram ákvörðun sambandsins varðandi hækkun útsvars vegna málefna fatlaðra. Erfitt sé að bregðast við þegar ákvarðanir komi þetta seint.


12. Hafnasamband Íslands fundargerð nr. 459 frá 8. desember 2023


Orðið gefið laust. Enginn tók til máls.


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin yfir. Fundi slitið kl.17.18

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón