Menningarmálanefnd - 26. maí 2009
Fundur var haldinn í Menningarmálanefnd, þriðjudag 26. maí 2009, á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann klukkan 17:00. Mætt voru: Arnar S. Jónsson formaður, Jóhanna Ása Einarsdóttir, Jón Halldórsson og Guðrún Guðfinnsdóttir varamaður. Rúna Stína Ásgrímsdóttir boðaði forföll. Kristín Sigurrós Einarsdóttir framkvæmdastjóri Hamingjudaga mætti einnig á fundinn. Arnar S. Jónsson ritaði fundargerð. Formaður setti fundinn og gengið var til dagskrár:
- Hamingjudagar 2009, staða mála og næstu verkefni
- Önnur mál
- Hamingjudagar 2009, staða mála og næstu verkefni.
Kristín tjáði nefndarmönnum að íbúafundur hefði verið haldinn kvöldið áður, mánudaginn 25. maí, og aðsókn hafi verið með ágætum, um 20 manns mættu.
Nokkrar hugmyndir komu fram frá fundargestum og farið var yfir þær í grófum dráttum. Meðal þess sem þar kom fram var hvort hægt væri að halda keppni um þematengdar skreytingar eða skúlptúra. Þar var einnig rætt um að halda flugdrekakeppni. Rætt var um að smíða skátaleiktæki, en sú hugmynd komupphaflega fram fyrir Hamingjudaga í fyrra. Kristín hefur þegar rætt við sveitarstjóra um þetta atriði, en hún tók jákvætt í að unglingavinnan sæi um að smíða tæki af þessu tagi, en að líkindum þarf að fá sérstakan stjórnanda í verkefnið. Rætt var um hvað unglingavinnan gæti gert í tengslum við hátíðina. Jón nefndi í því sambandi að mögulegt væri að láta unga fólkið mála og lappa upp á gamla vatnstankinn. Kristín heldur að öðru leyti utan um tillögur fundargesta af íbúafundinum sem verða vel nýttar í undirbúning hátíðarinnar.
Kristín mun hitta starfsmenn áhaldahúss sveitarfélagsins í vikunni til skrafs og ráðagerða. Hún hefur einnig sett sig í samband við Björgunarsveitina Dagrenningu og mun halda fund með þeim síðar í vikunni varðandi gæslumál. Búið er að hafa samband við sýslumann útaf leyfismálum.
Kristín nefndi einnig málefni tjaldsvæðisins. Þar þarf að standa betur að kynningu og upplýsingagjöf varðandi skiptingu á svæðunum; þ.e. í fjölskyldu- og „partý"svæði.
Þá var rætt um aðkeypt skemmtiatriði. Kristín skýrði frá nokkrum aðilum sem hún hefur verið í sambandi við vegna atriða fyrir yngri kynslóðina. Þá kom fram að kraftakeppnin Vestfjarðavíkingurinn verður haldin á fimmtudegi og trúbadorinn Svavar Knútur kemur til með að halda tónleika sama kvöld. Magnús Eiríksson og KK halda síðan tónleika í Bragganum á laugardagskvöldið. Einnig hefur Strandamaðurinn Stefán Gíslason hugsað sér að hlaupa frá Drangsnesi til Hólmavíkur um laugardagsmorguninn. Nefndin fagnar öllum þessum atriðum og þykir þau vænleg til markaðssetningar á hátíðinni.
Jón kom fram með þá hugmynd að Gunnar Jóhannsson hvalveiðifrömuður yrði fenginn til að koma að landi með hrefnu á hátíðinni og gert yrði að henni á svæðinu. Allnokkrar umræður fóru fram um þessa tillögu og lýstu aðrir nefndarmenn sig ósammála henni. Að lokum var rætt um hljóðmál og önnur praktísk mál varðandi hátíðina.
- Önnur mál
Arnar lagði til eftirfarandi tillögu að ályktun:
„Menningarmálanefnd skorar á sveitarstjórn að koma því til leiðar að svipsdrapperingar sem keyptar hafa verið í Félagsheimilið á Hólmavík verði hannaðar, saumaðar og settar upp sem allra fyrst. Einnig verði keyptar og settar upp drapperingar til að draga fyrir áhorfendastúku í sal. Séð verði til þess að þessu verkefni verði lokið fyrir Hamingjudaga helgina 3.-5. júlí."
Ályktunin var samþykkt samhljóða af nefndarmönnum.
Að lokum var ákveðið að stefna að því að halda næsta nefndarfund þriðjudaginn 9. júní kl. 17:00.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl 18:47.
Guðrún Guðfinnsdóttir (sign) Jón Halldórsson (sign)
Arnar Snæberg Jónsson (sign) Jóhanna Ása Einarsdóttir (sign)