Menningarmálanefnd - 7. apríl 2010
Fundur var haldinn í Menningarmálanefnd, miðvikudag 7. apríl 2010, á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann klukkan 17:00. Mætt voru: Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Halldórsson, Jóhanna Ása Einarsdótti, Salbjörg Engilbertsdóttir og Guðrún Guðfinnsdóttir varamaður. Salbjörg ritaði fundargerð. Einnig mætti Kristín S. Einarsdóttir nýráðin framkvæmdarstjóri Hamingjudaga og stjórnaði hún einnig fundi.
Dagskrá fundarins:
•1. Kosning formanns.
•2. Erindi frá Niels Kronvald.
•3. Hamingjudagar.
- Kosning formanns. Kristín stingur upp á að Salbjörg Engilbertsdóttir taki að sér starf formanns fram yfir Hamingjudaga en nefndin kemur til með að starfa fram yfir þá, þrátt fyrir sveitarstjórnarkosningar. Salbjörg þakkar sýnt traust og tekur að sér formannsstarfið.
- Erindi frá Niels Kronvald. Niels hefur sent okkur fréttabréf frá Foreiningen Norden sem er lagt fram til kynningar. Einnig hefur hann sent boðsbréf á lista og menningar hátíð í Ryslinge Hojskole á mið-Fjóni. Aðilum frá vinabæjunum er boðið að koma og taka þátt að einhverju leiti. Sækja þarf um fyrir 1. Maí. Ákveðið var að birta bréfið á vef Strandabyggðar til kynningar fyrir íbúana. Ekkert hefur heyrst nánar frá vinabæjarmóti sem áætlað var að halda í Tanum í Svíþjóð á árinu.
- Hamingjudagar.
•A. Tillaga um sýningu Héraðsbókasafnsins á úrklippum og kvöldskemmtun því tengdu t.d. á föstudagskvöldinu þar sem rithöfundar tengdir svæðinu myndu lesa úr verkum sínum.
•B. Ásta hefur sótt um að fá sjálfboða frá SEEDS á ný og myndi þeirra vinna nýtast að einhverju leiti við undirbúning Hamingjudaga og jafnvel í götuleikhús.
•C. Íbúafundur verður haldinn fimmtudaginn 29. Apríl. Byrjað verður með súpufundi í hádeginu og síðan haldinn íbúafundur um kvöldið.
•D. Lagakeppnin. Allir sammála um að reyna að halda keppni. Jón leggur til að keppendum sé gert auðveldara að taka þátt með því að gera ekki kröfu um að laginu sé skilað inn á diski eða á öðru formi. Nefndin telur lágmark að keppandi þurfi að skila inn texta. Nauðsynlegt er þó að skila undirleik á diski ef keppandi sér ekki sjálfur um undirleik. Óskadagur til keppnishalds er 7. Maí. Og skilafrestur til að skila lögum eða texta inn á skrifstofu Strandabyggðar verður 3. Maí. Kristín sér um að auglýsa þetta í næstu viku.
•E. Dagskrá. Nokkuð hefur verið um að tónlistarmenn hafi haft samband við Kristínu og er allt í skoðun. Ýmsir dagskrárliðir ræddir fram og aftur. Rætt var um að gaman væri að ef einhver myndi gifta sig á Hamingjudögum og var nokkuð rætt um það innan nefndarinnar. Jón og Ingibjörg lifa enn í synd og því tilvalið að hann myndi sýna gott fordæmi og fara bónleiðna við sambýliskonu sína. Nánar um niðurstöður á næsta fundi.
•F. Ákveðið er að halda næsta fund miðvikudaginn 21. Apríl. Ásu finnst einnig gaman að fá tölvupóst og segir að gott sé að ræða málin þar, fleiri eru sammála því.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl . 18.40
Kristín Sigurrós Einarsdóttir (sign) Jón Halldórsson (sign)
Guðrún Guðfinnsdóttir (sign) Rúna Stína Ásgrímsdóttir (sign)
Jóhanna Ása Einarsdóttir (sign) Salbjörg Engilbertsdóttir (sign)