Fundargerð ungmennaráðs - 23. maí 2017
Fundur var haldinn í Ungmennaráði Strandabyggðar mánudaginn 23. maí kl 16:30 á skrifstofu Strandabyggðar, Höfðagötu 3. Mættir voru: Birna Karen Bjarkadóttir, Kristín Lilja Sverrisdóttir, Máney Dís Baldursdóttir, Kristbergur Ómar Steinarsson og Guðrún Júlíana Sigurðardóttir. Esther Ösp Valdimarsdóttir sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundur var settur kl 16:30.
Á fundardagskrá var eftirfarandi:
- Nefndarseta ungmennaráðs
Erfiðleikar hafa skapast varðandi að fá varamenn á fundi þegar áheyrnarfulltrúinn forfallast, ungmennaráðið er sammála því að taka þurfi á þessu. - Ungt fólk og lýðræði
Máney og Kristín segja frá þátttöku sinni á ráðsefnunni. Þær eru mjög ánægðar með ráðstefnuna og komust að ýmsu sem upp á vantar í samfélaginu. Einkum er skert aðgengi að sálfræðiaðstoð áhyggjuefni.
Sérstaklega er rætt um lækkun kosningaaldurs á sveitarstjórnarstigi. Ungmennaráð styður þá breytingu en telur þörf á aukinni lýðræðisfræðslu fyrir ungt fólk.
- Heilsueflandi samfélag
Ungmennaráð hefur kynnt sér verkefni Landlæknis um andlega, líkamlega og félagslega heilsu og er allt sammála því að Strandabyggð ætti að verða Heilsueflandi samfélag. Ungmennaráð skorar á sveitarstjórn að sækja um aðild að verkefninu.
- Staða dreifnámsins
Erindi dreifnámsstjóra tekið fyrir. Mikilvægt er að reyna að gera námsvistina meira spennandi. Stuðningur frá kennurum á Sauðárkróki er enginn og því upplifa nemendur í dreifnámi sig ekki fá sömu þjónustu og stuðning og staðnemar, ábyrgðin á nemendurna er mun meiri þar sem kennararnir fylgjast ekki með. Margir velja framhaldsskóla fyrst og fremst vegna félagslífsins enda er það gífurlega mikilvægt á þessum árum og þar kemur dreifnámið ekki sterkt inn. Hugmyndin um dreifnámið og tilvist þess er frábær og dýrmæt þrátt fyrir að hún henti ekki öllum enda eru ekki allir tilbúnir að fara að heiman og veitir ekki af stuðningi heima fyrir. Ungmennaráð vill alls ekki að dreifnámið loki og bendir á að eldri nemendur gætu kynnt skólann fyrir grunnskólanemendum.
- Þriðja ungmennaþing Strandabyggðar - uppgjör
Farið yfir niðurstöður ungmennaþings um fíkn. Kristbergur og Birna Karen munu taka saman ályktun sem send verður til forvarnarteymis, sveitarstjórnar, tómstunda-, íþrótta og menningarnefndar, fræðslunefndar og valferðarnefndar. Ályktunin verður sömuleiðis birt á heimasíður Strandabyggar. - Hamingjudagar
Ungmennaráð ætlar að sjá um Nerf stríð á Hamingjudögum. Farið yfir dagskrána almennt við góðar undirtektir. - Sumarferð ungmenna
Ákveðið að nýta sjóð nemendafélags dreifnámsins að hluta til í ferðina. Stefnt er að því að fara í Heydal 8.-9. júlí. Ferðin er fyrir 16-25 ára. Kristín sér um skipulag ferðarinnar.
- Önnur mál
Málefni Grunnskólans á Hólmavík rædd töluvert en samkvæmt ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði vantar upp á kennslu ýmissa námsgreina. Eins þyrfti að endurskoða mötuneytið. Ungmennaráðið ætlar að vinna nánar að þessu í náinni framtíð.
- Ungmennaráðið saknar þess að eiga sameiginlega fundi með sveitarstjórn og óskar eftir því að slíkur fundur verði haldinn í það minnsta árlega. Ungmennaráð óskar því eftirfundarboði frá sveitarstjórn.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið 18:17.