Velferðarnefnd Stranda- og Reykhóla 13.janúar 2022
48. fundur í Velferðarnefnd Stranda og Reykhólahrepps, haldinn fimmtudaginn 13. janúar 2022, kl. 10:00 á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 á Hólmavík. Á fundinum voru Ásta Þórisdóttir (Strandabyggð), Íris Björg Guðbjartsdóttir (Strandabyggð), Jóhanna Ösp Einarsdóttir (Reykhólahreppi), Jenný Jensdóttir (Kaldrananeshreppi) og Hrefna Þorvaldsdóttir (Árneshreppi). Að auki sat Soffía Guðrún Guðmundsdóttir félagsmálastjóri fundinn og Hjördís Inga Hjörleifsdóttir var gestur fundarins. Soffía, Hjördís og Ásta voru á skrifstofu Strandabyggðar en Jenný, Jóhanna Ösp og Hrefna voru á teams, og Íris Björg í síma. Ásta Þórisdóttir, formaður stýrði fundi og skrifaði fundargerð.
Hjördís Inga Hjörleifsdóttir hefur unnið undanfarið að því að yfirfara reglur og áætlanir Félagsþjónustunnar auk þess að kynna sér verkefnið Care-On og var fengin á fundinn til að kynna breytingatillögur sem hún hefur unnið að og kynna Care-On fyrir nefndinni.
Dagskrá:
1. Endurskoðun á reglum og umsóknareyðublöðum félagsþjónustunnar
2. Kynning á Care-On
3. Uppfærð jafnréttisáætlun
Þá var gengið til dagskrár.
1. Endurskoðun á reglum og umsóknareyðublöðum félagsþjónustunnar
A. Farið var yfir reglur um félagslega heimaþjónustu. Smávægilegar breytingar gerðar og samþykktar. Nokkrar athugasemdir gerðar í II kafla 14. grein. Reglurnar bjóða upp á að hægt er að taka gjald fyrir heimaþjónustu en það hefur ekki verið gert á starfsvæðinu hingað til. Nefndin leggur til að þjónustan verði gjaldfrjáls áfram.
B. Reglur um fjárhagsaðstoð. Á síðasta fundi nefndarinnar var samþykkt að hækka fjárhagsaðstoð um 10%. Lagt er til að það verði einnig svo um viðmið fyrir aðra fjárhagsaðstoð, s.s. sérstakan húsnæðisstuðning og styrki til náms, verkfæra – og tækjakaupa fólks með fötlun.
C. Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning. Breytingar gerðar og samþykktar.
D. Umsóknareyðublöð. Farið yfir öll umsóknareyðublöð og þau samþykkt. Velferðarnefnd vill að umsóknareyðublöð verði gerð aðgengileg rafræn á netinu og leggur til við sveitarstjórnir að koma þessum gögnum á netið.
2. Care-On kerfið
Hjördís kynnti kerfið fyrir nefndinni. Nefndarfólk er jákvætt fyrir þessu en finnst að ekki sé tímabært að kaupa þessa þjónustu miðað við fjölda þjónustuþega. Ákveðið að kaupa ekki þessa þjónustu að svo stöddu. Lagt var til að félagsmálastjóri verði í sambandi við Heilbrigðisstofnun HVE og skoði hvort það henti að vera í samstarfi með þeim um að taka upp þetta kerfi.
3. Jafnréttisáætlun
Farið yfir áætlunina. Þar var uppfærður talnagrunnur fyrir íbúafjölda í sveitarfélögunum. Ákveðið var að taka upp almennt orðalag um öll kyn í stað kven- og karlkyn þar sem því verður við komið.
Ákveðið var að félagsmálastjóri og Hjördís myndu yfirfara öll skjöl og senda á nefndina til loka yfirlestrar.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:08