A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Covid-19 - Smit á svæðinu Hólmavík/Strandir, ekki í Strandabyggð né nágranna sveitarfélögum

| 06. apríl 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er rétt að árétta, í ljósi umfjöllunar um smit á okkar svæði, að þar er um að ræða einstakling með lögheimili í Strandabyggð, en sem búsettur er í öðru sveitarfélagi.  Það er því enn sem komið er ekkert smit hér í samfélaginu.  Ég hvet samt alla til að slaka hvergi á og efla varnirnar bara enn frekar, sbr. pistli frá mér fyrr í dag. 

Stöndum saman og gerum þetta rétt!

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Sttrandabyggð

Covid-19 - aukum varnirnar - verum heima!

| 06. apríl 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar og allir sem þetta lesa,

 

Nú hefur greinst smit á svæðinu Hólmavík/Strandir og mátti auðvitað búast við því.  Mikið hefur verið gert í Strandabyggð til að draga úr smithættu en nú er ljóst að við þurfum gera enn meira og betur.

 

Það sem við þurfum öll að tileinka okkur næstu daga og vikur, snýst um nokkur lykilatriði.

  1. Hreinlæti
  2. Höldum fjarlægðir milli manna
  3. Virðum reglur um sóttkví
  4. Afþökkum heimsóknir og verum heima

Við höfum staðið okkur vel hvað fyrstu þrjú atriðin varðar.  Það sést á hegðun fólks í búðinni, takmörkun á starfsemi vinnustaða og þjónustu og í almennum samskiptum fólks.

 

Það er hins vegar þetta síðast talda sem vandmeðfarið, því þarf þarf í raun að setja önnur mörk en við eigum að venjast.  Þau mörk snúast um að það eitt, að draga sem mest úr smithættu. Við þurfum að haga okkur þannig að við smitum ekki aðra og smitumst ekki sjálf.

Þess vegna verðum við nú, öll sem eitt, að:

  • Sleppa öllum ferðum um páskana – verum heima!
  • Afþakka allar heimsóknir nú og um páskana – verum heima!

Öll samskipti við fólk utan okkar nánasta umhverfis, auka líkurnar á smiti. Svo einfalt er það. Smitum á Vestfjörðum hefur fjölgað hratt undanfarið og það sorglega er að þau hafa nú haft andlát í för með sér.

 

Það gildir því nú að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig, því þannig hugsum við best um alla.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri Strandabyggðar

Gagnlegar heimasíður:

www.covid.is

https://www.landlaeknir.is/

https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19

Covid-19 - Nú reynir á

| 02. apríl 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Um leið og við sendum hlýjar batakveðjur til vina okkar í Bolungarvík, Ísafirði og Hnífsdal, en þar hafa nú greinst smit, er rétt að skerpa á okkar eigin aðgerðum og fara aðeins yfir það sem við getum gert til að hindra enn frekar smit hér.

Hreinlæti.
Handþvottur er ein mikilvægasta smitvörnin.  Á vefnum www.covid.is má fnna þessar leiðbeiningar um handþvott: "Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti. Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna".

Þetta er einfalt; þvoum okkur eða notum spritt oft og vel.

Virðum fjarlægðir milli manna
Það er mikilvægt að fylgja ráðleggingum um fjarlægðir milli manna.  Þær ráðleggingar eru ekki settar fram af tilefnislausu. Í Krambúðinni hér á Hólmavík eru nú komnar merkingar til að hjálpa okkur að finna hæfilega fjarlægð frá næsta manni.  Virðum þær merkingar.  Þar eru líka sprittbrúsar sem við eigum að nota þegar við tökum körfu eða kerru eða sláum inn pin númerið okkar. 

Virðum reglur um sóttkví
Það gilda skýrar reglur um sóttkví og þær má lesa hér: https://www.covid.is/flokkar/sottkvi

Við erum öll ábyrg!
Öll viljum við standa okkur vel í okkar aðgerðum.  Mikil og góð vinna hefur verið unnin í sveitarfélaginu af fjölda fólks við að móta viðbragðsáætlanir, verklagsreglur, skipuleggja vinnufyrirkomulag og vaktaáætlanir o.s.frv.  Það er rétt að hrósa öllum þeim sem hafa mótað ramman fyrir okkar daglega líf og öllum þeim sem virða þennan nýja ramma. 

Það er líka mikilkvægt að allir sem hingað koma, hvort sem þeir eiga leið hjá, koma í heimsókn til ættingja og vina (sem þó ætti að takmarka eins og hægt er) eða koma hingað í sóttkví (sem þá þarf að skrá til heilbrigðisstofnunarinnar hér), fari einnig að þessum reglum.  Lítið samfélag eins og okkar má ekki við því að undantekningar séu gerðar frá þessum reglum um hreinlæti, sóttkví og annað sem lagt er upp með til að draga úr smithættu.

Sameinumst um að virða reglur og benda þeim á sem hugsanlega gleyma sér.  Við erum öll ábyrg.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gagnlegar heimasíður:

www.covid.is

https://www.landlaeknir.is/

https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19

Covid-19 - Plan B

| 27. mars 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar

 

Þá er þessi vika senn að baki. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar í samfélaginu okkar sem rétt er að rifja upp:

  • Skrifstofa Strandabyggðar er lokuð og starfsmenn vinna í hópum og skiptast á að vinna heima og á skrifstofunni.  Símsvörun er þó sem fyrr í síma 451-3510 milli kl 10 og 14.  Að auki svara starfsmenn sínum símum
  • Íþróttamiðstöðin og sundlaugin hafa lokað
  • Áhaldahúsið er lokað og skal hafa samráð við starfsmenn með alla þjónustubeiðni
  • Grunnskóli, leikskóli og tónskóli eru reknir samkvæmt skýru fyrirkomulagi um skerta kennslu og aukna fjarkennslu
  • Öll íþróttaiðkun sem og félags- og tómstundastarf liggur niðri
  • Búið er að skipa fulltrúa Strandabyggðar í sameiginlega almannavarnarnefnd með Kaldrananeshreppi og Árneshreppi og mun sú nefnd verða virk innan skamms.  Fulltrúi Strandabyggðar er Jón Gísli Jónsson, oddviti
  • Þá er unnið að því að skilgreina Vettvangsstjórn, undir leiðsögn Lögregluembættisins á Vestfjörðum
  • Að auki höfum við hjá Strandabyggð ýtt af stað samstarfsverkefni með Rauða Krossinum og sóknarpresti um þjónustu til þeirra sem eiga erfit um vik með innkaup og annað.
  • Ýmis þjónusta og starfsemi fyrirtækja í Strandabyggð hefur einnig breyst til að aðlagast ástandinu
  • Krambúðin hefur í samstarfi við Björgunarsveitina Dagrenningu, boðið heimsendingu á varningi úr búðinni og er það mjög lofsvert framtak
  • Til eru verklagsreglur og viðbraðgsáætlanir hjá stofnunum og viðbraðgsaðilum í Strandabyggð, sem hægt er að virkja með skömmum fyrirvara.

Síðan er það svokallað Plan B.  Það er oft svo þegar eitthvað fer úrskeiðis, að það getur skipt sköpum að hafa til taks varaáætlun, eða það sem við köllum oft Plan B.  Slík varaáætlun þarf auðvitað að vera til, svo hún gagnist þegar á reynir, því að ætla sér að semja hana þegar í óefni er komið, er nánast vonlaust.

 

Þess vegna hafa forstöðumenn Strandabyggðar skráð hjá sér hvernig hægt væri að reka stofnanir sveitarfélagsins við þær aðstæður ef forstöðumaður fer í sóttkví eða er sýktur og fer í einangrun.  Og það sýnir sig, að það er vel gerlegt að skipta yfir í „heimaskrifstofur“ og breyta verkferlum þannig að hægt sé að reka stofnanir sveitarfélagsins ef forstöðumenn eða heilu vinnustaðirnir fara í sóttkví.  Málið horfir öðruvísi við ef um sýkingu og einangrun er að ræða, en við höfum engu að síður reynt að skrá þá verkferla sem þá yrði unnið eftir.

 

Höfum í huga, að í litlu samfélagi eins og okkar, eru margföldunaráhrifin af því ef einhver fer í sóttkví og/eða sýkist oft svo mikil, að hefðbundin starfsemi sveitarfélagsins raskast hratt.  Þess vegna er gott að hafa Plan B.

 

Það er líka rétt að hugleiða, að sóttkví hér í sveitarfélaginu, er ekkert öðruvísi en sóttkví annars staðar á landinu.  Við þurfum að fylgja sömu kröfum og sýna sömu ábyrgð og aðrir.  Í raun þurfum við hér búum og þeir sem hingað koma að sýna enn meiri ábyrgð, því áhrifin af einu smiti í litlu samfélagi geta verið svo margfalt meiri en á stærri stöðum.  Munum því að virða allar reglur og tilmæli, t.d. varðandi  fjarlægðir milli manna hvar sem við erum innan um fólk. 

 

Við skulum í lokin klappa hvert öðru á bakið (myndlíking 😊) og þakka fyrir þá samvinnu og samstöðu sem við höfum sýnt hingað til.  Við hjálpumst að og styðjum hvert annað.  Það gerum við ekki síst með því að virða allar þær reglur, tilmæli og ábendingar sem nú gilda í samfélaginu.  Munum; þetta líður hjá og í lokin er gott að geta sagt;  við gerðum allt sem við gátum gert.

 
Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gagnlegar heimasíður:

www.covid.is

https://www.landlaeknir.is/

https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19


Þarft þú aðstoð?

| 26. mars 2020

Strandabyggð, Rauði Krossinn og sóknarprestur hafa í samvinnu leitað til fólks í Strandabyggð og beðið það að skrá sig á lista yfir sjálfboðaliða sem vildu taka að sér að aðstoða íbúa við ýmis verk, nú þegar þrengir að og óvissa ríkir í samfélaginu. Þegar hafa fjölmargir skráð sig og nú viljum við því bjóða fram þessa þjónustu.

 

Vantar þig aðstoð við að:

  • Fá keypta matvöru?
  • Sinna erindum á pósthús eða aðra staði?
  • Moka snjó af tröppum?

Eða værir þú kannski bara til í símtal um daginn og veginn?

 

Ef svo er, þá hvetjum við þig til að hringja í eitthvað eftirtalinna númera:  451-3510 (Skrifstofa Strandabyggðar), 862-3517 (Sigríður Óladóttir, sóknarprestur) eða 899-0020 (Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri).

 

Ekki hika við að hafa samband.  Við viljum hjálpa.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón