A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Nýr tómstundafulltrúi Strandabyggðar

| 18. september 2020

Esther Ösp Valdimarsdóttir hefur verið ráðin sem tómstundafulltrúi Strandabyggðar og mun taka við því starfi á næstu vikum en þó ekki alfarið fyrr en náðst hefur að endurskipuleggja kennslu í 1.-4. bekk, en Esther Ösp var þar umsjónarkennari.

Esther Ösp er með viðbótardiplóma í kennslufræði framhaldsskóla við Háskóla Íslands, MA nám í mannfræði við Háskóla Íslands, BA í mannfræði frá Háskóla Íslands, stúdentspróf af náttúrufræðibraut, líffræðisviði frá Kvennaskólanum í Reykjavík.  Þá tók hún ársnám við fjöltyngdan og alþjóðlegan menntaskóla í Mexíkó.

Esther Ösp hefur víðtæka reynslu og má þar nefna: verkefnastjórn í kennsluþróun og ráðgjöf við Grunnaskólann á Hólmavík, rekstur Hvatastöðvarinnar, sjálfseflingarseturs, en Esther Ösp er með Jógakennaranám frá Jógastúdíó, viðurkennt af Yoga Alliance.  Hún hefur starfað sem umsjónarkennari við Grunnskólann á Hólmavík, unnið að og sett upp sýninguna „Strönduð í sveit“, auk þess að hafa komið að leiðbeinendastarfi meistaranema, leikhússtörfum, stundakennslu við Háskóla Íslands, framkvæmdastjórn Héraðssambands Strandamanna ofl.

Esther Ösp var tómstundafulltrúi Strandabyggðar árin 2013-2017 og er því vel kunn þessu starfi.


Við bjóðum Esther Ösp velkomna til starfa og væntum góðs af hennar þekkingu og reynslu á þessu sviði, enda mörg spennandi verkefni framundan.

Nýr félagsmálastjóri Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla

| 18. september 2020

Gengið hefur verið frá ráðningu í starf félagsmálastjóra og er það Soffía Guðrún Guðmundsdóttir sem tekur við starfinu. 

Soffía Guðrún er með víðtæka menntun og reynslu sem mun án efa nýtast vel í starfið.  Hún er með  M.A. próf í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Háskóla Íslands, B.A. próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, M.A. próf í kynjafræði frá Háskóla Íslands, B.A. próf í félags- og þjóðfræði frá Háskóla Íslands og Stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands vor 1986.

Hún hefur m.a. starfað við félagsráðgjöf í Rygge í Noregi, sem verkefnastjóri við félagsmiðstöðina í Bólstaðarhlíð, móttökuritari hjá landlæknisembættinu, skrifstofustjóri/læknaritari á lyflækningadeild LHS, ritari sóttvarnarlæknis við landlæknisembættið, auk starfa sem starfsmaður á sambýlum, athvarfi fyrir geðfatlaða, frístundaheimilum og hjá félagasamtökum.

Við bjóðum Soffíu Guðrúnu og fjölskyldu hennar velkomna á Strandir og væntum mikils af henni í þessu þýðingarmikla starfi í okkar samfélagi.

Fimleikanámskeið Geislans

Salbjörg Engilbertsdóttir | 15. september 2020

Geislinn býður upp á skemmtilegt fimleikanámskeið 3.-4. október n.k. Skráning fer fram hér og nánari upplýsingar má sjá á meðfylgjandi mynd eða hjá Geislanum á facebook

Frestun leita og rétta

Salbjörg Engilbertsdóttir | 10. september 2020

Vegna slæmrar veðurspár verður leitum frá Arnkötludal að Ósá frestað til sunnudags.  Réttarstörf hefjast í Skeljavíkurrétt um kl. 16 sunnudaginn 13.september. 

Við viljum einnig minna á að aðeins þeir sem hafa hlutverk, mæti í göngur og réttir og er það vegna 200 manna hámarksreglu. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun. Hliðvarsla verður við aðkeyrslu að réttum og þangað inn verður aðeins hleypt þeim sem þar eiga erindi.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um réttarstörf v. covid má finna hér

Flutningur farartækja á bílastæði á Skeiði

| 07. september 2020
Sæl öll,

Eins og sagt hefur verið frá, samþykkti sveitarstjórn að láta gera bílastæði á Skeiði þar sem hægt væri að geyma skráð og gangfær stærri ökutæki, svo sem fólksflutningabifreiðar, vörubíla og aðrar vinnuvélar. 

Nú er komið að því að heyra í eigendum slíkra farartækja hvort þeir vlji nýta sér þetta tilboð sveitarstjórnar og væntum við svars sem fyrst, eða í síðasta lagi innan 14 daga, þannig að hægt sé að skipuleggja niðurröðun á stæðið út frá fjölda farartækja.

Notkun á stæðinu er gjaldfrjáls í 12 mánuði, en nauðsynlegt er að gera formlegt samkomulag við sveitarfélagið hvað þetta varðar.  Starfsmenn áhaldahúss ganga frá slíku samkomulagi við eigendur.

Við vonumst til að eigendur farartækja sem uppfylla þessi skilyrði sjái sér hag í að nýta þessa þjónustu, því með þessu vinnum við saman að því að halda umhverfinu snyrtilegu og koma til móts við þarfir eigenda um bílastæði. 

Allar frekari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 899-0020 eða starfsmenn áhaldahúss.

Með von um góða samvinnu,

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón