A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Samningum um hitaveitu hætt

| 19. nóvember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Hitaveita hefur lengi verið í umræðunni í Strandabyggð af augljósum og skiljanlegum ástæðum.  Það væru aukin lífsgæði ef við gætum fengið heitt vatn til húshitunar, í pottinn í garðinum og jafnvel til að bræða snjó í innkeyrslunni.  En þetta er ekki sjálfgefið.  Búið er að kanna nokkra kosti í Steingrímsfirði, en undanfarin ár hefur sveitarstjórn Strandabyggðar horft til samstarfs við landeigendur í Hveravík um kaup á heitu vatni þaðan. Umræðan hefur staðið lengi sem og undirbúningur af hálfu sveitarfélagsins og landeigenda.  Margar rannsóknir hafa verið unnar á svæðinu, á vatninu og þeim borholum sem til staðar eru.  Búið er að skoða og reikna fjárhagslegar forsendur þess að kaupa heitt vatn í Hveravík og leiða það til Hólmavíkur, bæði landleiðina og svo yfir fjörðinn með lögn í sjó.  Síðastliðin 1-2 ár hefur verið unnið að samningagerð við landeigendur, sem byggði á niðurstöðu álagsprófunar á þeirri holu sem horft er til í Hveravík.  Öll þessi vinna hefur skilað miklu magni af verðmætum og gagnlegum upplýsingum, bæði fyrir sveitarfélagið en einnig landeigendur, en líka kostað tíma og fjármuni.

 

Þrátt fyrir að hugur sveitarstjórnar hafi sannarlega staðið til þess að kanna til hlítar möguleika þess að setja upp hitaveitu, hafa forsendur í samfélaginu breyst til hins verra undanfarið, eins og allir vita.  Covid-19 hefur víðtæk áhrif og auk þess má nefna að líklegt er að kostnaður vegna hitaveituframkvæmda sé mun meiri nú en áætlað var í byrjun, vegna breytinga á gengi krónunnar.  Þá hefur Strandabyggð einnig orðið mjög illa úti vegna skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs, sem að jafnaði eru 45-50% af tekjum sveitarfélagsins.  Skerðingin á þessu ári er um 70 milljónir, sem setur rekstrarforsendur sveitarfélagsins augljóslega í uppnám.  Ekki er útlit fyrir að þessi skerðing gangi tilbaka fyrr en amk eftir 2023, samkvæmt upplýsingum frá Jöfnunarsjóði.

 

Samningaviðræður við landeigendur hafa tekið tíma, sem fyrr segir, en oftast gengið vel,  þó hafa þar alltaf verið vissar forsendur sem ekki hefur náðst full sátt um.  Þær forsendur snúast um verðlagningu á svokölluðu nýtingargjaldi, sem er það gjald sem landeigendur fá fyrir það vatn sem keypt er.  Þar ber einfaldlega talsvert í milli.  Við þessar aðstæður metur sveitarstjórn Strandabyggðar það svo, að óábyrgt sé og í raun ekki fjárhagslega gerlegt að halda áfram með málið og hefur því ákveðið að stöðva af sinni hálfu frekari samningaviðræður og undirbúning, amk þar til forsendur breytast. 

 

Samningsaðilar eru nú óbundnir frekari samningaumleitunum, nema þeir kjósi annað.

Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar

 

 

Félagsmálaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir

| 19. nóvember 2020


Félagsmálaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem koma frá tekjulágum heimilum.  

Til að sækja um styrkinn þarf að hafa samband við Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla:

 

a)     með því að senda tölvupóst á felagsmalastjori@strandabyggd.is

b)     hafa samband við félagsmálastjóra í síma 842251.

c)     koma í afgreiðslu félagsþjónustunnar að Höfðagötu 3, 510 Hólmavík og fylla þar út umsókn um styrkinn.

Með styrkumsókn þarf að fylgja útprentuð staðfesting frá island.is (má einnig vista og senda rafrænt í tölvupósti með umsókninni) um að viðkomandi eigi rétt á styrknum og einnig þarf að fylgja staðfesting á útlögðum kostnaði vegna íþrótta- og tómstundastarfs barns/barna í fjölskyldunni.

Ef vafi leikur á hvort ákveðið íþrótta- og tómstundastarf sé styrkhæft er hægt að fá leiðbeiningar sbr. leiðirnar hér að ofan. 

Einungis er hægt að sækja um styrk vegna þátttöku í íþrótta- eða tómstundastarfi, ekki til kaupa á íþróttavörum, búnaði eða öðru þess háttar. Einungis er styrkt vegna barna á aldrinum 6-16 ára, fædd á árunum 2005 til 2014, þ.e. á grunnskólaaldri.

Félagsmálastjóri Stranda og Reykhóla afgreiðir umsóknir sem berast og svarar umsækjendum að því loknu eða innan mánaðar frá því að öll gögn liggja fyrir.  Ef viðkomandi fær synjun á umsókn sína frá félagsmálastjóra eða er ósáttur við niðurstöðu málsins getur hann skotið málinu til Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla sem fjallar þá um málið. Erindi þess eðlis skal sent skriflega ásamt rökstuðningi umsækjanda til: Velferðarnefnd Stranda og Reykhóla, Höfðagata 3, 510 Hólmavík.

 

Farsóttafréttir

| 18. nóvember 2020


Fréttabréf sóttvarnalæknis, 4. tölublað 2020 er komið út. Þar er fjallað um uppsveiflu COVID-19 faraldursins á haustmánuðum, opinberar sóttvarnaráðstafanir, sýnatökur, samanburð við Norðurlönd, stöðuna í lok október, farsóttarþreytu og aðrar öndunarfærasýkingar.

Sjá hér:

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item43688/Fars%C3%B3ttafr%C3%A9ttir%202020_11_16.pdf?fbclid=IwAR13XPY6Q41xwXK_AqEn9pSMt88rHmLRqK4yfotMmcVvhUHZC8GKdKuEfT8

Félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða

| 18. nóvember 2020

 

Nýtt úrræði sem er ætlað að styrkja framfærslu 67 ára og eldri sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum kemur til framkvæmda 1. nóvember 2020.

Einstaklingar sem eru 67 ára og eldri með engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum og með tekjur undir 231.110 kr. á mánuði geta átt rétt á viðbótarstuðningi við aldraða.

Hægt er að sækja um á Mínum síðum TR. Réttindi eru ákvörðuð í 12 mánuði í senn og þarf þá að sækja um að nýju.

Samhliða umsókn um viðbótarstuðning þarf umsækjandi að koma í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar eða umboð stofnunarinnar og staðfesta dvöl sína hér á landi.

Skilyrði:

  • Að vera 67 ára eða eldri.
  • Að hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og dvelja hér varanlega.
  • Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða þarf hann að hafa ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar.
    • Við sérstakar aðstæður er heimilt að veita undanþágu frá ótímabundnu dvalarleyfi. T.d ef erlendur ríkisborgari er með dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Gerð er krafa um búsetu og lögheimili hér á landi í tvö ár.
  • Að hafa sótt um og tekið út að fullu öll réttindi sem hann kann að eiga eða hafa áunnið sér.
  • Að mæta í eigin persónu í þjónustumiðstöð Tryggingastofunar að Hlíðasmára 11 eða til umboða um allt land til að staðfesta dvöl hér á landi.

Bókavík endurvakin

| 16. nóvember 2020
Teikning eftir Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur
Teikning eftir Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur
Kæru íbúar og velunnarar,

Morgnarnir eru dimmir, farið er að snjóa og samkomutakmarkanir halda áfram. Það er þó margt að gleðjast yfir og mikilvægt að halda áfram að njóta og láta sér hlakka til.

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu tilkynnum við að Bókavík hefur verið endurvakin. Vikan 23.-29. nóvember verður helguð bókmenntum í víðum skilningi. Tilgangurinn er að hvetja fólk til að njóta lesturs bóka og ljóða ásamt því að skrifa sjálft. Hátíðin verður lágstemmd og mikið til á netinu en hvers kyns viðburðir sem gæta að sóttvarnarreglum eru velkomnir á dagskrá. Allir sem vilja leggja sitt að mörkum mega gjarnan hafa samband á tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða við Esther Ösp í síma 849-8620.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón