A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sumar í Strandabyggð

| 07. júlí 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er mikið að gerast í Strandabyggð þessa dagana.  Hamingjudagar voru nýlega og tókust mjög vel. Lotta kom eins og áður en nú var sýningin þeirra í lundinum við hliðina á Bragganum og það reyndist frábær staður.  Dagskrá Hamingjudaga var annars nokkuð viðamikil, með brekkusöng, varðeld, hamingjuhlaupi, hamingjujoga, opnum húsum, söngatriði Unnar Malínar, Galdraleikum ofl.

Síðustu dagar hafa verið sérlega góðir á Hólmavík; sól og sæla. Vinnuskólakrakkarnir hafa unnið vel í að fegra umhverfið okkar og sést það um allan bæ.  Síðan var formleg opnun á ærslabelgnum í gær, með pylsupartýi og fjöri. 

Að auki hefur Geislinn boðið upp á tveggja vikna leikjanámskeið fyrir yngri börnin og íþróttaþjálfun fyrir þau eldri. Þetta bætist við leikjanámskeið og Náttúrubarnaskóla sem voru í síðasta mánuði.  Þannig að það er nóg að gerast á Hólmavík!

Njótum sumarsins!

Halló Krakkar!

| 05. júlí 2020

Halló Krakkar í Strandabyggð!

Á morgun, mánudag 6. júlí, kl 15.30, ætlum við að taka ærslabelginn okkar formlega í notkun.  Við hittumst öll við Ærslabelginn, skemmtum okkur og fáum veitingar.  Athöfnin verður búin um kl 16.30. 

Foreldrar leikskólabarna;  vinsamlegast sækið börnin við Ærslabelginn, ekki í leikskólann í þetta sinn!

Sjáumst!

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til verkefna í tengslum við verkefnið Sterkar Strandir

| 03. júlí 2020

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í tengslum við
Sterkar Strandir. Um er að ræða fyrstu úthlutun í verkefninu en verkefnið er hluti af byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir. Umsóknarfrestur er til 24. júlí 2020.

Alþingi ákvað að veita auknu fjármagni til verkefna á vegum Brothættra byggða og því eru til ráðstöfunar
13,7 m. kr. í þessari úthlutun. Verkefni sem verða styrkt að þessu sinni og hljóta styrk úr aukaframlagi Alþingis til Brothættra byggða á þessu ári þurfa að vera hafin í síðasta lagi 1. september 2020 og lokið eigi síðar en 1. apríl 2021 og eru umsækjendur beðnir um að hafa það að leiðarljósi við gerð umsókna.

Meginmarkmið verkefnisins Sterkar Strandir eru eftirfarandi:
Sterkir innviðir og öflug þjónusta
Stígandi í atvinnulífi
Stolt og sjálfbært samfélag

Væntanlegar umsóknir þurfa að taka mið af þessum markmiðum.

Á vef Byggðastofnunar (www.byggdastofnun.is) eru nánari
reglur um styrkveitingar, markmiðaskjal verkefnisins. Á vef Vestfjarðarstofu (www.vestfirdir.is) má nálgast umsóknareyðublað sem umsækjendur um styrk skulu notast við. Athugið að ekki er krafist mótframlags frá umsækjanda. Það styrkir umsókn ef verkefnið laðar fram fjármuni og krafta aðstandenda verkefnisins og samstarfsaðila. Samstarf aðila sem að jafnaði starfa ekki saman styrkir umsóknina. Umsækjendur er hvattir til að lesa ofangreindar leiðbeiningar og leita sér aðstoðar hjá verkefnisstjóra. Vönduð umsókn sem styður við framtíðarsýn og meginmarkmið verkefnisins er líklegri til árangurs.

Nánari upplýsingar og ráðgjöf veitir Sigurður Líndal verkefnisstjóri í síma 661-4698 eða á netfanginu sigurdurl@vestfirdir.is  

Skerðing á framlögum Jöfnunarsjóðs

| 01. júlí 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var enduráætlun Jöfnunarsjóðs kynnt fyrir helgi.  https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/06/24/Nyjar-og-endurskodadar-aaetlanir-um-framlog-ur-Jofnunarsjodi-sveitarfelaga/  Þar kemur fram veruleg skerðing á framlögum til sveitarfélaga um allt land.  Skerðingin er mikil hér í Strandabyggð, um 70 milljónir frá fyrri áætlun og helgast hún aðallega af; almennri tekjuskerðingu ríkisins vegna Covid-19, breytinga á íbúafjölda Strandabyggðar, sem hefur áhrif á svokallað útgjaldajöfnunarframlag og skerðingar á svokölluðu fasteignaskattsframlagi. 

Sveitarstjórn óskaði strax eftir símafundi með Jöfnunarsjóði og var hann haldinn sl föstudag.  Síðan þá hafa komið nánari gögn frá Jöfnunarsjóði sem við erum að rýna í og skoða.  Eins er búið að óska eftir fundi með ráðherra sveitarstjórnarmála og verður sá fundur í byrjun ágúst.  Þá erum við að taka saman upplýsingar fyrir þingmenn og aðra sem við munum virkja vegna þessa.

Það er ljóst að þessi mikla skerðing er meiri en okkar spár gengu út á.  Eins og fram kom í pistli mínum þann 17. júní sl. var búið að leggja fram og samþykkja af sveitarstjórn áætlun um niðurskurð í deildum sveitarfélagsins sem og verulegan niðurskurð á framkvæmdum.  Þetta verður nú allt endurskoðað í ljósi þessara síðustu breytinga. 

Það eru margar hliðar á þessu máli og auðvelt að tína sér í stóryrðum og grjótkasti.  Lausnin liggur hins vegar að mínu mati í því, að skoða forsendur framlaga Jöfnunarsjóðs og hlutverki hans gagnvart sveitarfélögunum í landinu.  Það er oft kallað eftir "fyrirsjáanleika í rekstri" og heyrist þetta gjarnan frá útgerðarfyrirtækjum í landinu.  Þeirri beiðni hafa stjórnvöld oft sýnt skilning, enda flestir sammála því að í öllum rekstri þarf að vera hægt að sjá eitthvað inn í framtíðina.  Þessi krafa á ekki síður við um rekstur sveitarfélaga, því sú samfélagsmynd sem byggist upp með árunum, er ekki snúin niður í skyndi. Sú samfélagsmynd með tilheyrandi þjónustustigi og lífsskilyrðum, verður að búa við stöðugleika. 

Á þessum forsendum þarf að ræða þetta mál. 

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar

Ærslabelgurinn

| 01. júlí 2020
Kæru íbúar strandabyggðar,

Ærslabelgurinn verður tilbúinn til notkunar á morgun, fimmtudag! Það er verið að ganga frá í kring um hann núna og við skulum gefa þeim sem það gera færi á því, en á morgun er óhætt að sparka af sér skónum og láta vaða!

Munum umgengisreglurnar!

Sterkar Strandir - Áfram Strandabyggð!
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón