Sveitarstjórn - 3. feb. 2009
Ár 2009 þriðjudaginn 3. febrúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Varaoddviti bar upp afbrigði við boðaða dagskrá um að 10. liðurinn um styrkbeiðni vegna árshátíðar starfsmanna Strandabyggðar yrði tekinn á dagskrá og var það samþykkt samhljóða. Varaoddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 10 töluliðum, sem var eftirfarandi:
1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Beiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu um fjárstyrk.
3. Erindi frá leikskólastjóra um launað námsleyfi skólaárið 2009-2010.
4. Beiðni frá SAMAN-hópnum um fjárstuðning við forvarnarstarf árið 2009.
5. Tillaga Fræðslumiðstöð Vestfjarða að samningi um umsjón á fjarfundarbúnaði í Strandabyggð.
6. Fundargerð Íþrótta- og tómstundarnefndar Strandabyggðar dags. 28. janúar 2009.
7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 26. janúar 2009.
8. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskóla dags. 29. janúar2009.
9. Erindi frá Bændasamtökum Íslands dags. 16. janúar 2009.
10. Beiðni frá skemmtinefnd Strandabyggðar um styrk vegna árshátiðar.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Skýrsla sveitarstjóra.
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá fundi sem haldinn var í Borgarnesi að beiðni bæjarstjóra Grundarfjarðar til að fjalla um fyrirhuguð unglingalandsmót í Grundarfirði og Hólmavík. Á fundinn mættu 4 fulltrúar frá Grundarfirði, 3 frá Strandabyggð og 2 frá UMFÍ. Farið var yfir stöðu mála en ytri aðstæður í efnahagsmálum hafa breytt öllum forsendum sveitarfélaganna til að halda mótin og sér Grundarfjörður fram á ógerlegt verði að klára þær framkvæmdir sem eftir eru miðað við óbreytt ástand enda nær ómögulegt að fá lánsfé í dag. Kom upp sú spurning hvort hægt yrði að halda mótið í ár þar sem öll aðstaða er fyrir hendi en Grundfirðingar héldu mótið 2010 og þá Strandabyggð 2011. Var ákveðið á fundinum að kanna vilja heimamanna og vilja stjórnar UMFÍ til málsins. Samþykkt var samhljóða að falla frá því að halda mótið árið 2010 vegna erfiðs efnahagsástands og gefa Grundfirðingum færi á að halda mótið það ár. Þá var samþykkt að endurskoða málið aftur þegar stöðugleiki verður kominn á í efnahagslífi þjóðarinnar.
2. Beiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu um fjárstyrk.
Borist hefur erindi frá Björgunarsveitinni Dagrenningu dags. 20. janúar 2009 þar sem leitað er eftir fjárstuðningi fyrir árið 2009. Samþykkt var samhljóða að vísa erindinu til fjárhagsáætlunar.
3. Erindi frá leikskólastjóra um launað námsleyfi skólaárið 2009-2010.
Borist hefur erindi frá leikskólastjóra dags. 29. janúar 2009 þar sem óskað er eftir launuðu námsleyfi fyrir skólaárið 2009-2010. Samþykkt var samhljóða að vísa erindinu til fjárhagsáætlunar.
4. Beiðni frá SAMAN-hópnum um fjárstuðning við forvarnarstarf árið 2009.
Borist hefur erindi frá SAMAN-hópnum dags. 12. janúar 2009 þar sem leitað er eftir fjárstuðningi fyrir árið 2009. Samþykkt var samhljóða að styrkja hópinn um 5.000 kr.
5. Tillaga Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða að samningi um umsjón á fjarfundarbúnaði í Strandabyggð.
Borist hefur erindi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dags. 20. janúar 2009 ásamt drögum að samningi um umsjón á fjarfundarbúnaði í Strandabyggð. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga frá samningi við Fræðslumiðstöðina og leggja fram tillögu að gjaldskrá til sveitarstjórnar.
6. Fundargerð Íþrótta- og tómstundarnefndar Strandabyggðar dags. 28. janúar 2009.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Íþrótta- og tómstundarnefndar Strandabyggðar dags. 28. janúar 2009. Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina fyrir utan þá tillögu að keyptar verði hliðarkörfur og leggur til að verð á slíkum körfum verði kannað sem og hvort ekki sé hægt að nýta þær tvær körfur sem voru staðsettar í Félagsheimili Strandabyggðar.
7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 26. janúar 2009.
Lögð ef fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 26. janúar 2009. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
8. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskóla dags. 29. janúar 2009.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskóla Strandabyggðar frá 29. janúar 2009. Sveitarstjórn leggur til að tímamagn fyrir Tónskólann verði 56 tímar á viku en samþykkir fundargerðina að öðru leyti með þremur greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá.
9. Erindi frá Bændasamtökum Íslands dags. 16. janúar 2009.
Borist hefur erindi frá Bændasamtökum Íslands frá 16. janúar 2009 sem sent var Sambandi ísl. sveitarfélaga og fjallar um bótarétt vegna framkvæmda í almannaþágu og framkvæmd eignarnáms. Lagt fram til kynningar.
10. Beiðni frá skemmtinefnd Strandabyggðar um styrk vegna árshátiðar.
Borist hefur beiðni frá skemmtinefnd Strandabyggðar þar sem farið er þess á leit að sveitarfélagið styrki hátíðina um 120.000 kr. Jón Stefánsson vék af fundi á meðan málið var afgreitt. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00.