Verkefni síðustu vikna
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Þá er allt komið á fullt hjá sveitarfélaginu eftir hátíðarnar og verið að vinna í mörgum málum. Ég ætla hér að nefna nokkur atriði af löngum lista verkefna sem unnið er að:
Hljóðupptaka á sveitarstjórnarfundum. Nú hefur sveitarfélagið tekið í notkun nýtt fyrirkomulag varðandi fundargerðir og upptöku sveitarstjórnarfunda. Keyptur var búnaður sem tekur upp hljóðskrá af fundinum og vistar hana á heimasíðu sveitarfélagsins. Á móti eru fundargerðir styttar til muna, nema þar munu þó alltaf birtast bókanir og afgreiðsla einstakra mála. Ítarleg ritun umræðunnar er hins vegar ekki lengur viðhöfð, heldur er vísað í upptökuna, sem er af mun betri gæðum en við eigum að venjast. Þetta nýja fyrirkomulag er í mótun og það tekur sjálfsagt einhvern tíma þar til allt virkar eins og það á að gera. Þetta tengist líka uppsetningu á nýrri heimasíðu, þar sem aðgengi að fundargerðum, hljóðskrám og fundargögnum, verður annað og einfaldara en nú er.
Deiliskipulag á Jakobínutúni, við íþróttamiðstöðina og hótelreitinn. Nú liggur fyrir tillaga að deiliskipulagi á svæðinu við félagsheimilið, íþróttamiðstöðina, tjaldsvæðið og reitinn þar sem stefnt er að hótelbyggingu. Í byrjun febrúar verður haldinn íbúafundur þar sem þessi áform verða kynnt íbúum og farið verður yfir áherslur deiliskipulagsins. Með tilkomu hótels á þessu svæði, er ljóst að eðli, umsvif og ásýnd svæðisins mun breytast og því er mikilvægt að skipuleggja þess uppbyggingu vel. Sú vinna hefur verið í gangi og hefur þetta deiliskipulag verið tekið til umræðu hjá Umhverfis- og skipulagsnefnd og í sveitarstjórn.
Strandanefndin. Búið er að kalla eftr svörum frá forsætisráðuneytinu og í þeim kom fram að fyrrverandi ríkisstjórn hafði aldrei fjallað um tillögur nefndarinnar. Hlutaðeigandi ráðuneyti höfðu hins vegar verið með tillögur nefndarinnar til umfjöllunar. Innviðaráðuneytið, sem mun fá nafnið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, frá 1. mars n.k., mun líklegast taka við tillögunum og úrvinnslu þeirra.
Ýmis verkefni: Verið er að klára uppsetningu á nuddkerfi í öðrum pottinum í sundlauginni og er það verk á lokastigi. Ýtt var á Vegagerðina að auka hálkuvarnir í Kollafirði sérstaklega, þar sem skólabíllinn fer þar um, oft við mjög erfiðar aðstæður. Nú liggur fyrir sveitarstjórn að ákveða um reglur/skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta og er verið að skoða forsendur þess. Á Tanganum eru gámar fyrir rusl sem eigendur gáma á svæðinu eru hvattir til að nýta sér. Það liggur fyrir að fjarlægja þarf gamla og ónýta gáma af Tanganum og hefur verið kallað eftir samvinnu við eigendur þeirra. Unnið hefur verið að endurnýjun baðherbergja í tveimur íbúðum í eigu sveitarfélagsins í Lækjartúni og er þeirri vinnu lokið.
Framundan er síðan skipulagsvinna vegna framkvæmda í sumar, varðandi m.a. fráveitumál, vatnsveitumál, innviðauppbyggingu í tengslum við hótelbyggingu og uppbyggingu í Brandskjólum og svo almenn verkefni sumarsins, svo dæmi séu tekin.
Áfram Strandabyggð!
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti