Innskráning

A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tillögur aðalskipulags Strandabyggðar 2021-2033 og deiliskipulaga í Strandabyggð.

21. febrúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir

Í tillögu að aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033 er sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, samgöngur og þjónustukerfi í sveitarfélaginu í heild sinni ásamt stefnu um atvinnu- og umhverfismál.

 

Aðalskipulagið skal haft til grundvallar við gerð annarra áætlana er snerta ráðstöfun lands og umhverfismál í sveitarfélaginu og aðrar skipulagsáætlanir.


Við hvetjum íbúa til að kynna sér nýtt aðalskipulag og þau jákvæðu áhrif sem það mun hafa á samfélagið. Opið er fyrir athugasemdir til og með 28. febrúar 2025

Hér má finna tengingu inn á Skipulagsgáttina til að lesa nánar um aðalskipulagstillöguna: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/675

Opið er fyrir athugasemdir deiluskipulags í Brandskjóli annars vegar og Jakobínutún hins vegar til 14. mars 2025.

Hér má finna tengingu við gögn varðandi tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Brandskjóli, mál nr. 97/2025 í Skipulagsgátt: 
https://skipulagsgatt.is/issues/2025/97

Hér má finna tengingu við gögn varðandi tillögu að deiliskipulagi Jakobínutúns, mál nr. 95/2025 í Skipulagsgátt: https://skipulagsgatt.is/issues/2025/95

Hér má finna tengingu við gögn varðandi skipulagstillögu að deildiskipulagi Kvíslatunguvirkjunar, mál nr. 1134/2024 í Skipulagsgátt: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/1134  



Ýmis verkefni í Strandabyggð

26. febrúar 2025 | Þorgeir Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar, 

Það hefur verið mikið að gerast í Strandabyggð að undanförnu og því rétt að gera grein fyrir því að einhverju leyti. 

Úthlutun almenns byggðakvóta 

 Á fundi sveitarstjórnar þann 11. febrúar sl. var samþykkt með þremur atkvæðum T lista, að hverfa frá sérreglum varðandi úthlutun Byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025 og styðjast við reglugerðina í óbreyttri mynd.  Fulltrúar A lista sátu hjá.  Reglugerðin var upphaflega hugsuð til að styðja við fiskvinnslu í byggðarlögum úti á landi og efla þau þannig að grundvöllur skapaðist fyrir veiðum og vinnslu.  Hér á Hólmavík hefur ekki verið fiskvinnsla lengi vel, fyrr en nú með tilkomu Vilja fiskverkunar, og hefur sveitarstjórn því fram að þessu, óskað eftir undanþágu frá vinnsluskyldu.  Sveitarstjórnir síðustu ára hafa einnig viðhaft þá sérreglu, að skipta úthlutuðum byggðakvóta niður á báta eftir a) veiðireynslu þeirra og lönduðum afla í byggðarlaginu og b) hluta kvótans jafnt milli allra kvótahafa.  Hafa hlutföllin lengi verið 75% tengd veiðireynslu og 25% jafnt á alla. 

Í þetta sinn lágu fyrir nýjar og breyttar forsendur.  Í fyrsta lagi er nú vinnsla á Hólmavík, þannig að grundvöllur fyrir undanþágu frá vinnsluskyldu var brostinn.  Eins hefur verið rætt um að mikilvægt sé að fá sem mest af afla báta frá Hólmavík inn til löndunar á Hólmavík, en ekki í öðrum höfnum.  Landanir hér skila tekjum til hafnarsjóðs og þar með til samfélagsins.  Þessi rök hljóta að vega þungt þegar horft er til heildarhagsmuna sveitarfélagsins. 

Úthlutun byggðakvóta er ávallt viðkvæmt og umdeilt mál og svo er enn, þrátt fyrir að forsendur séu nú skýrari en áður, ef horft er til heildarhagsmuna samfélagsins.  Það eru þess vegna ekki allir sáttir við þessa ákvörðun og er fullur skilningur á því að einhverjir væntu annarrar niðurstöðu. 

Meirihlutinn tók hins vegar skýra afstöðu með heildarhagsmunum samfélagsins og vildi með þessari ákvörðun styðja við veiðar og vinnslu frá Hólmavík, fyrir Hólmavík.  Með þessu fyrirkomulagi ættu þeir að fá meiri kvóta sem sinna sjómennsku á heilsárs grundvelli og því er horft til þess hvata að nú geta þeir sem vilja, aukið við veiðireynslu sína með löndunum á Hólmavík og þannig skapað sér sterkari stöðu þegar næst verður úthlutað byggðakvóta á grundvelli veiðireynslu. 

 

Íbúafundur um aðalskipulag Strandabyggðar 

Miðvikudaginn 19. febrúar sl. var haldinn vel sóttur íbúafundur í félagsheimilinu og fór þar fram kynning á aðalskipulagi Strandabyggðar og einnig voru áform um byggingu hótels á Hólmavík kynnt almenningi. 


Nýtt aðal
skipulag er leiðarljós okkar í uppbyggingu samfélagsins.  Það segir til um það hvernig skipulag þorpsins er og verður, hvernig nýjar iðnaðar- og íbúðarlóðir verða til, hver skilgreining umhverfisins er og verður og með hvaða hætti við sem samfélag viljum þróast.  
Margrét Ólafsdóttir frá Landmótun rakti helstu áherslur í aðalskipulaginu og sagði frá því hver landnýting einstakra svæða væri.  Í lok fundar gátu íbúar kynnt sér teikningar aðalskipulagsins og deiliskipulags Brandskjóla og Jakobínutúns.  Brandskjól er framtíðar íbúðasvæði Strandabyggðar og Jakobínutún er samheiti yfir það svæði þar sem nú er félagsheimili, íþróttamiðstöð og sundlaug, tjaldsvæði og svo það svæði þar sem hótelið á að rísa.  Öll þessi gögn eru aðgengileg á skrifstofu Strandabyggðar. 

 

Hótel Strandir, er vinnuheiti nýs, 4ra stjörnu hótels sem mun rísa að öllu óbreyttu á Hólmavík á næstu árum.  Gert er ráð fyrir um 60 herbergja hóteli í fyrsta gæðaflokki og er heildarkostnaður áætlaður um þrír milljarðar.  Þau Friðjón Sigurðarson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frá Fasteignaumsýslunni, kynntu þessi áform og hjá þeim kom fram að gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist síðla þessa árs og að hótelið opni árið 2027. 

Það er alltaf svo þegar framsæknarhugmyndir eiga í hlut, að skiptar skoðanir eru um málið.  Á fundinum komu fram nokkrar efasemdir um staðsetningu hótelsins, sem mun rísa á klettunum fyrir neðan sundlaugina, með glæsilegt og einstakt útsýni út fjörðinn.  Það er hins vegar mikilvægt í allri umræðu um hótelið, að huga að þeim miklu hagsmunum og margföldunaráhrifum sem hótelið mun hafa fyrir Strandabyggð og samfélagið á Hólmavík og í raun alla Vestfirði.  Það er horft til mikilvægis þessa verkefnis víða að, enda um glæsilegt og óhemju spennandi verkefni að ræða. 

Sterkar Strandir – lokaíbúafundur 

Fimmtudaginn 20 febrúar sl. var lokaíbúafundur í verkefninu Sterkum Ströndum.  Verkefninu lauk formlega á síðasta ári, en í samningi sveitarfélagsins við aðstandendur verkefnisins; Byggðastofnun og Vestfjarðastofu, er gert ráð fyrir að sveitarfélagið haldi utan um þau verkefni eða fyrirtæki sem eru í gangi, í eitt ár eftir að formlegu verkefni lýkur.  Það er kærkomið og spennandi verkefni fyrir sveitarfélagið.  Þau verkefni sem við munum vinna með út þetta ár eru: Fine Foods, Strandagluggar og hurðir, Galdur brugghús, Sveppasmiðjan, Norðurfjara og Fótaaðgerðarstofan Tíu tásur.  Sveitarstjóri mun halda utan um þessa vinnu með stuðningi frá Vestfjarðastofu. 

Á íbúafundinum var unnið í hópum og farið yfir ávinning af verkefninu Sterkum Ströndum og leitast var við að svara með hvaða hætti stjórnvöld gætu stutt við landsbyggðina í gegnum svona verkefni.  Var þar kallað eftir t.d. bættum samgöngum, skattaíviljunum, auknu fjármagni til verkefna og lengri verkefnatíma, svo dæmi séu tekin.  Nánar verður gerð grein fyrir þessu síðar. 

Eins komu fram á fundinum, helstu niðurstöður íbúakönnunar sem gerð var í lok janúar og byrjun febrúar um afstöðu íbúa til verkefnisins og þess að búa hér í Strandabyggð.  Heilt yfir kom margt jákvætt út úr könnuninni; eins og að hér sé gott mannlíf og menning, jákvæð tengsl við náttúru og nokkuð öflugt atvinnulíf.  Enn eru þó einhverjir sem telja að ósætti í samfélaginu sé hindrun fyrir framþróun verkefnisins.  Þátttakendur á íbúafundinum fengu súpur frá Galdrasafninu og var enginn svikinn af þeim veitingum. 


Það er sem betur fer mikið að gerast á Ströndum og í Strandabyggð þessa dagana og
margt jákvætt framundan.
 


Áfram Strandabyggð!
 

 

 

Viðvera fulltrúa sýslumanns

21. febrúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir

Skúli Hakim Thoroddsen staðgengill sýslumannsins á Vestfjörðum verður til viðtals á sýsluskrifstofunni á Hólmavík mánudaginn 10. mars n.k.

Nánari upplýsingar og tímabókanir í síma 458 2400.

Íbúafundur vegna Sterkra Stranda, í dag, 20.febrúar!

20. febrúar 2025 | Þorgeir Pálsson
Í dag kl 18:00, verður haldinn lokaíbúafundur vegna Sterkra Stranda í félagsheimilinu á Hólmavík.  Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
  1. Inngangsorð Byggðastofnunar (5 mínútur)
  2. Yfirferð verkefnisstjóra (25 mínútur)
  3. íbúakönnun kynnt (20 mínútur)
  4. Kynning á framhaldi verkefnisins frá Strandabyggð (10 mínútur)
  5. Matarhlé (20 mínútur)
  6. Kynning verkefna:
    1. Finefood Islandica
    2. Galdur brugghús
    3. Fótaaðgerðarstofan Tíu tásur
  7. Hópavinna undir stjórn Strandabyggðar (30 mínútur)
  8. Kynning niðurstaðna (10 mínútur)
  9. Lokaorð Byggðastofnunar (5 mínútur)

Fundarlok áætluð 20:40.  Fundarstjóri er Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu.

Við hverjum ykkur til að mæta og taka þátt í skapandi umræðu um þetta mikilvæga verkefni.

Áfram Strandabyggð!




Munið - kynning á Aðalskipulagi Strandabyggðar

18. febrúar 2025 | Þorgeir Pálsson
Munið!

19. febrúar er opinn kynningarfundur í Félagsheimilinu þar sem fram fer kynning nýju Aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033.  Fulltrúar frá Landmótun verða á fundinum og kynna aðalskipulagið og einnig verða þar fulltrúar frá Fasteignaumsýslunni og kynna áform um byggingu hótels á Hólmavík.  Fundurinn hefst kl 17.30.

Áfram Strandabyggð!

Opnir fundir í Strandabyggð

14. febrúar 2025 | Þorgeir Pálsson
Mynd: Jón Halldórsson
Mynd: Jón Halldórsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það eru tveir opnir fundir framundan í Strandabyggð. 

Miðvikudaginn 19. febrúar er opinn kynningarfundur í Félagsheimilinu þar sem fram fer kynning nýju Aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033.  Fulltrúar frá Landmótun verða á fundinum og kynna aðalskipulagið og einnig verða þar fulltrúar frá Fasteignaumsýslunni og kynna áform um byggingu hótels á Hólmavík.  Við hvetjum íbúa til að fjölmenna og kynna sér þær áherslur sem nýtt aðalskipulag felur í sér og þá uppbyggingu sem er framundan á Hólmavík.  Fundurinn hefst kl 17.30.

Fimmtudaginn 20. febrúar er síðan lokaíbúafundur Sterkra Stranda sem einnig er haldinn í Félagsheimilinu. Þar verður sagt frá íbúakönnun sem staðið hefur yfir að undanförnu,  farið yfir stöðu einstakra verkefna og unnið í hópavinnu varðandi ávinning verkefnisins.  Fundarstjóri verður Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum. Fundurinn hefst kl 18.00.

Það er mikið að gerast í Strandabyggð þessa dagana og við hvetjum íbúa til að taka virkan þátt í umræðunni. 

Áfram Strandabyggð!

Strandir.is - fréttir

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón