Laus staða Tónlistarkennara
Tónskólinn á Hólmavík auglýsir eftir tónlistarkennara með deildarstjórn til að kenna á ýmis hljóðfæri auk undirleiks, kenna tónfræði, stjórna barnakór og rokkhljómsveit eldri nemenda og tónmennt á yngsta stigi.
Fullt starf 100% er í boði frá 1. ágúst 2024 en hlutfall deildarstjórnunar fer eftir stigum skóla. Umsóknarfrestur er til 02. apríl 2024 sótt er um hér
Tónskólinn á Hólmavík er samrekinn grunn-, leik- og tónskóli og er vel búinn hljóðfærum, staðsettur í Grunnskólanum á Hólmavík. Kennt hefur verið á eftirfarandi hljóðfæri: blokkflauta, þverflauta, píanó, gítar, bassi, ukulele, fiðla, trommur, trompet og saxófónn. Áhersla er lögð á fjölhæfni í hljóðfæraleik, samspil af ýmsu tagi, fjölbreytni í tónlist og framþróun í kennsluháttum. Leitað er eftir áhugasömum einstaklingi sem sýnir frumkvæði og sveigjanleika í starfi.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Viðkomandi þarf að geta kennt nemendum grunnskólaaldri á fjölbreytt hljóðfæri
- Einnig þarf viðkomandi að geta leikið undir með nemendum skólans
- Kostur er ef viðkomandi getur kennt á mörg hljóðfæri og tónfræðigreinar, stjórnað barnakór og hljómsveit og kennt tónmennt
Hæfniskröfur
- Háskólapróf í tónlist æskilegt eða tónlistarnám sem nýtist í starfi
- Reynsla af kennslustörfum og meðleik æskileg
- Lipurð og sveigjanleiki í mannlegum samskiptum
- Frumkvæði í starfi
- Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
- Hreint sakavottorð
Dreymir þig um hæglátari lífstíl? Fallega náttúru í bakgarðinum og að tilheyra í litlu samfélagi? Strandabyggð skiptist í Hólmavík og dreifbýlið og er ríflega 420 manna samfélag og þjónustukjarni á austanverðum Vestfjörðum. Á Hólmavík er öll grunnþjónusta til staðar, en sömuleiðis er margt spennandi fram undan. Þá má helst nefna fyrirhugaða hótelbyggingu, atvinnuuppbyggingu, nýtt íbúðarhverfi, unnið er að endurbótum á grunn- og leikskóla og svona mætti lengi telja.
Laun eru samkvæmt samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags (FT eða FÍH).
Nánari upplýsingar veita Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, skólastjóri, skolastjori@strandabyggd.is og Stefanía Hildur Ásmundsdóttir, ráðgjafi, stefania@hagvangur.is