A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Úthlutun almenns byggðakvóta

| 08. janúar 2020


Úthlutun almenns byggðakvóta fiskveiðiárið 2019/2020 nemur alls 5.374 þorskígildislestum.

 

Samdráttur í heildarúthlutun frá fiskveiðiárinu 2018/2019 nemur 797 þorskígildislestum.  Úthlutunin byggir á þeim reglum sem fram koma í 4. gr. reglugerðar nr. 675/2019, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2019/2020, og talnaupplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2009/2010 til fiskveiðiársins 2018/2019.

Nokkar breytingar verða á heildarúthlutun milli ára og því magni sem einstök byggðarlög fá úthlutað. Á fiskveiðiárinu 2019/2020 er almennum byggðakvóta úthlutað til 45 byggðarlaga í 28 sveitarfélögum í samanburði við 24 sveitarfélög og 42 byggðarlög á fiskveiðiárinu 2018/2019.

Þeim byggðarlögum sem fá 300 þorskígildislesta hámarksúthlutun á fiskveiðiárinu 2019/2020 fækkar um fjögur í þrjú frá fiskveiðiárinu 2018/2019 og fjögur byggðarlög fá 15 þorskígildislesta lágmarksúthlutun.  

Fjögur byggðarlög fá úthlutun á grundvelli samdráttar í vinnslu á rækju, sem veidd er hér við land og nemur samanlögð úthlutun til þessara byggðarlaga 630 þorskígildislestum. Ekkert byggðarlag fær hins vegar úthlutun á grundvelli samdráttar í vinnslu á skel (hörpudisk og/eða kúfskel), sem veidd er hér við land.

Byggðarlög með færri en 400 íbúa fá 3.384 þorskígildislestum úthlutað sem er 20% aukning sem hlutfall af heildarúthlutun í samanburði við fiskveiðiárið 2018/2019. Byggðarlög með fleiri en 400 íbúa fá 1.990 þorskígildislestum úthlutað sem er 22% samdráttur sem hlutfall af heildarúthlutun í samanburði við fiskveiðiárið 2018/2019.

Eftir landshlutum þá eru helstu breytingar frá úthlutun fiskveiðiársins 2018/2019 þær að samdráttur á Austurlandi er 16 þorskígildislestir, aukning á Norðurlandi eystra er 5 þorskígildislestir, samdráttur á Norðurlandi vestra 17 þorskígildislestir á Norðurlandi vestra, aukning á Suðurlandi er 26 þorskígildislestir, samdráttur á Suðurnesjum er 366 þorskígildislestir, samdráttur á Vestfjörðum er 99 þorskígildislestir og samdráttur á Vesturlandi er 330 þorskígildislestir.

Sundurliðun á úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga 2019/2020.

Ukulele-námskeið

| 06. janúar 2020

Hæ Hæ
Svavar Knútur söngvaskáld býður upp á Ukulelenámskeið fyrir börn og fullorðna á Hólmavík, vikuna 13.-17. janúar næstkomandi, sem hluti af hátíðinni Vetrarsól á Ströndum.

Á námskeiðinu, sem fer fram í gömlu flugstöðinni á Hólmavík, verður farið yfir grundvallaratriði ukuleleleiks og kennt grunngrip og spilatækni. Ennfremur læra nemendur nokkur lög til að flytja fyrir vini og vandamenn á lokatónleikum sem fara fram í Hólmavíkurkirkju laugardaginn 18 janúar.

Þá mun Svavar Knútur bjóða upp á stutt framhaldsnámskeið fyrir lengra komna, ef áhugi er fyrir því.

Tímasetningar grunnnámskeiðsins eru eftirfarandi:

13. jan kl. 17.00-19.00

15. jan kl. 17.00-19.00

17. jan kl. 17.00-19.00

Stutt námskeið fyrir lengra komna verður haldið 16. janúar kl. 17.00-19.00 

Þar sem Svavar Knútur er sérstakur unnandi Strandabyggðar og vill henni allt það besta verður kostnaður við námskeiðið litlar 7.000 krónur á mann fyrir hvern kennsludag, samtals 21.000 krónur, en foreldrar fá ókeypis kennslu í fylgd með barni. Því má einnig þakka sérstökum stuðningi Sparisjóðs Strandamanna sem veitti hátíðinni vel þeginn fjárhagsstuðning sem nýttur var til að niðurgreiða námskeiðið að hluta.

Sérstaklega er mælt með því að foreldrar fylgi barni sínu og læri með þvi á hljóðfærið, því reynsla hefur sýnt að þannig verða framfarir mun varanlegri og lærdómurinn gengur betur. Ennfremur myndast sameiginlegt tómstundagaman sem barn og foreldri geta átt saman. Þá eru ýmis grundvallaratriði sem erfitt er að leggja á börn að kunna óháð foreldrum sínum, t.d. stilling og meðferð hljóðfæris.

Svavar Knútur getur útvegað prýðis byrjendaukulele á kostnaðarverði fyrir alla sem þess óska. Kosta þau einungis 10.000 krónur. Þeir sem eiga ukulele fyrir mega endilega heyra í Svavari Knúti, því ólíkt manneskjunum eru ekki öll ukulele sköpuð jöfn að gildi og gæðum.

Ef áhugi er fyrir því munum við borða saman léttan kvöldverð kl. 18.00 þegar gert er stutt hlé á kennslu.

Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig geta sent tölvupóst á hrsvavar@gmail.com eða hringt í síma 864-2276.  

Hlakka til að sjá ykkur eldhress!

Bestu kveðjur,

Svavar Knútur

Óskað er eftir stuðningsfjölskyldu

| 06. janúar 2020


Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps óskar eftir að ráða stuðningsfjölskyldu fyrir barn.

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka barn tímabundið í umsjá sína í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þeirra og einnig til að gefa barninu möguleika á aukinni félagslegri þátttöku.

Um er að ræða 2 sólarhringa í mánuði og er gerður samningur þar um.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldu eru verktakagreiðslur samkvæmt reglum Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks um stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra

Umsóknir skulu berast til Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps, Höfðagötu 3, 510 Hólmavík eða rafrænt til felagsmalastjori@strandabyggd.is

Frekari upplýsingar veitir Guðrún Elín Benónýsdóttir, félagsmálastjóri, í síma 451 3521 / 845 2511 eða felagsmalastjori@strandabyggd.is

Núna er komið að því.....................

| 30. desember 2019

Er ekki upplagt að byrja árið á því að gera hugmyndina þína að veruleika? og koma henni jafnvel í framkvæmd? Þá hvetjum við, þig til að sækja um.

Nú er komið að fyrri úthlutun styrkja hjá Strandabyggð árið 2020.

Markmiðið er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtaks einstaklinga sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreytilegu mannlífi. Reglur. Styrkirnir eru upp að 100.000 þúsund krónum, ef sótt er um styrk umfram það skal leitað eftir samstarfssamningi við sveitarfélagið.

Umsóknareyðublað skal fyllt út og sent á tomstundafulltrui@strandabyggd.is 

 

Umsóknarfrestur er til 1.febrúar 2020 og úthlutun styrkja er svo 2.mars 2020

Lífsgildi

| 23. desember 2019

Hún Sigga í Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson, sem Leikfélag Hólmavíkur hefur sýnt við góðan orðstír í desember og sýnir þann 27. desember nk. á Hólmavík, furðaði sig á orðinu „lífsgildi“. „Hvaða orð er nú það?“ 

Gildi merkir verðmæti og því má segja að lífsgildi séu verðmæti lífsins, lífsverðmæti. Á örlítið einfaldara máli má segja að orðið lífsgildi nái utan um það sem við kjósum og ákveðum að eigi að einkenna okkur, okkar gjörðir og framkomu. Eitthvað sem við viljum standa fyrir og viljum vinna að. Sem samfélag gætum við t.d. valið okkur lífsgildin: virðing, samstaða, uppbygging, framsýni eða eitthvað í þá veru. 

Orðið samstaða er t.d. ágætt sem lífsgildi, því það tengir okkur og býr til sameiginlegan tilgang. Við viljum t.d. vinna saman að því að efla Strandabyggð, gera umhverfi okkar fallegra og heilbrigðara, efla skóla-, íþrótta- og tómstundastarf, svo dæmi séu tekin. Lífsgildi getur því staðið fyrir eitthvað jákvætt.

Samstaða, eins gott og jákvætt og það orð nú er, er hins vegar ekki sjálfgefin. Ein forsenda þess að við getum t.d. unnið saman, er virðing. Virðing fyrir hvert öðru, virðing fyrir ólíkum skoðunum, ólíkum aðferðum og hugsunum. Virðing fyrir hvert öðru er forsenda fyrir svo mörgu, þar á meðal samstöðu. Við virðum það hversu ólík við erum, en stöndum saman þar sem við deilum sameiginlegum markmiðum. Samstaða og virðing. Góð lífsgildi.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hlakka til að vinna með ykkur á næsta ári að því sameiginlega markmiði okkar allra, sem er að efla og styrkja Strandabyggð og þau lífsgæði sem við búum við.

Gleðileg jól!

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón