| 03. október 2019
Oft þegar stjörnumerki ber á góma, segist ég vera „rísandi haust“. Viðbrögðin eru oft ágæt; sumir samsinna þessu strax, skilja vel hvað ég á við og segjast jafnvel sjálfir vera „rísandi haust“. Aðrir blása á ruglið enda er ekkert slíkt til sem rísandi haust, skilst mér. Ég er bara hrútur, sem finnst haustið fallegt.
Og nú er komið haust. En mér finnst satt að segja eins og það sé rísandi … amk er góður gangur í mörgum málum í sveitarfélaginu okkar, sem vonandi gefur okkur vonir og er okkur hvatning. Bara nokkur dæmi sanna þetta:
Umhverfisátakið hefur farið vel af stað og það er vert að þakka öllum þeim sem hafa sýnt framtakinu stuðning og fjarlægt ógrynni af alls kyns hlutum. Sérstaklega ber að þakka rekstraraðilum á Skeiðinu sem hafa tekið vel við sér. Það er auðvitað ekki sjálfgefið að þurfa allt í einu að breyta til og fjarlægja það sem var orðið hluti af lífinu hjá manni. En, við erum sammála í grunninn um megin markmiðið með átakinu og þá er allt hægt. Við höldum áfram, verkinu er langt frá lokið þó það fari vel af stað.
Tónlistarskólinn er fullur. Mikill áhugi er hjá krökkum og fullorðnum að læra á hljóðfæri, spila eitthvað og skapa. Það er sérlega gleðilegt og mikilvægt innlegg í samfélagið.
Sumarið var gott og mikið að gerast. Ferðamenn um allt, Kaupfélagið vinsælt og þúsundir manna fóru í sund, gistu á tjaldsvæðinu, kíktu á Galdrasafnið, borðuðu á Café Riis, gengu um bæinn o.s.frv. o.s.frv.
Skólarnir eru komnir vel af staða, og þar eru nú fleiri nemendur en við reiknuðum með í vor, enda er fólk að flytja til Hólmavíkur! Það er frábært og við bjóðum allt nýtt fólk velkomið í Strandabyggð og á Hólmavík.
Hingað komu skemmtiferðaskip sem settu svip á höfnina og útsýnið út fjörðinn. Við ætlum að sækja fleiri slík á næstu árum.
Eldri borgarar Strandabyggðar eru sprækir nú sem fyrr og í raun er frábært starf í gangi í Strandabyggð fyrir þá. Umræðan í dag er á þá leið að auka helsueflingu aldraðra á landsvísu. Þetta er nokkuð sem er hafið hér fyrir löngu!
Svona mætti lengi telja; Alls staðar er eitthvað að gerast; í Geislanum, hjá Leikfélaginu, hjá krökkunum í Ozon, kórinn kominn af stað, hráefnisstaða Hólmadrangs er fín, höfnin, bátarnir, fjaran laðar mann til sín, endalaust eitthvað nýtt þar, o.s.frv. o.s.frv. Þetta er jákvætt og sennilega merki um að okkur líður vel í Strandabyggð. Kannski það sé þá til rísandi haust eftir allt?!
Áfram Strandabyggð!