A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Helstu verkefni sveitarstjóra – febrúar

| 28. febrúar 2020

Sem fyrr, voru verkefnin á mínu borði fjölbreytt.  Í upphafi febrúar var fundur um viðbrögð hugsanlegum áhrifum kóróna veirunnar hér á landi og þá hér í Strandabyggð.  Var haldinn fundur með fulltrúum heilsugæslu og lögreglu og farið yfir stöðuna.  Það er að mörgu að hyggja, t.d. þarf að skilgreina verkferla við skoðun, sýnatöku, hugsanlega einangrun einstaklinga, skoða tengsl okkar við lönd þar sem sýkingar hafa átt sér stað ofl. ofl.  Hengdar voru upp leiðbeiningar varðandi hugsanlegt smit og hvernig fólk eigi að bera sig að.  Mikilvægt er að fylgja þeim.


Málefni Kaupfélags Steingrímsfjarðar tóku sinn tíma, enda mikilvæg mál.  Aðkoma sveitarfélagsins hefur nú verið útskýrð og ljóst að sameiginlega tókst að tryggja aðkomu Samkaupa að rekstri matvöruverslunar á Hólmavík og koma þar með í veg fyrir að störf töpuðust, með tilheyrandi margföldunaráhrifum.  Þetta eru óhefðbundnar aðgerðir sveitarfélags, en nauðsynlegar.

Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda hafa verið staðfestar og er unnið að því að skipuleggja vaktaplan, þjálfunar- og æfingaáætlun auk þess sem vinna við brunavarnaráætlun er í gangi.  Unnið er að því að ganga frá ráðningu Varðstjóra á Hólmavík.

Sveitarstjórn hitti ungmennaráð í mánuðinum og það var góður og skemmtilegur fundur.  Krakkarnir eru greinilega að hugleiða margt í sínu umhverfi og er mikilvægt að veita því athygli. Þau settu t.d. á viku langt símabann í skólanum.  Það er flott framtak.

Ég fundaði með framkvæmdastjóra Strandagaldurs, en framundan er endurnýjun á styrktarsamningi sveitarfélagsins við Strandagaldur.  Galdrasafnið er ekki bara safn og veitingastaður, heldur líka upplýsingamiðlun sveitarfélagsins og er markmiðið að efla þann þátt enn frekar í takt við breytta tækni og áherslur í upplýsingamiðlun.

Fræðslumálin tóku einnig sinn tíma.  haldinn var góður fundur með fulltrúa Tröppu í Hnyðju og var þar rætt um áherslur í Aðalnámskrá Grunnskóla.  Það hafa orðið talsverðar breytingar á áherslum, námstilhögun og námsmati og mikilvægt að ræða þær breytingar.  Markmið okkar er og á alltaf að vera, að búa krakkana okkar sem best undir það nám sem þau kjósa sér eftir í og eftir grunnskóla.

Sameining leik-, tón- og grunnskóla er einnig í vinnslu, og nú erum við að skoða gerð nýs skipurits, endurgera starfslýsingar og huga að því hvernig sameinaður skóli mun líta út og starfa í haust.

Að auki má nefna; fund á Reykhólum um málefni Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla og tenginu við BS Vest (Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðra).  þetta eru mikilvæg mál og hugsanlega mun stærri málaflokkur en flestir gera sér grein fyrir. 

Síðan eru alltaf fundir innanhúss með starfsfólki Strandabyggðar, einstaka forstöðumönnum og sveitarstjórnarfulltrúum.  Þá hittumst við oft, ég og oddviti Strandabyggðar, enda sömu mál gjarnan á borðum okkar beggja. Framundan er undirbúningur framkvæmda hjá hverri deild fyrir sig út frá ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdir á árinu 2020 og vonandi fer að líða að álagsprófun vegna Hitaveitu í Hveravík, enda samningar á lokastigi. Þá mun umhverfisátakið halda áfram og við erum að byrja að móta áherslur fyrir sumarið.


Sem fyrr eru íbúar hvattir til að tjá sig, koma með ábendingar og uppbyggilega gagnrýni og best væri að ræða málin yfir kaffibolla.  Það þarf ekki að bóka neinn tíma, bara mæta.

 

 

 

  

Aðkoma Strandabyggðar að áframhaldandi rekstri matvöruverslunar á Hólmavík

| 25. febrúar 2020

Þann 27. janúar síðastliðinn var haldinn aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar (fundur 1299). Það sem þar fór fram var trúnaðarmál og umræðuefnið fært í trúnaðarmálabók, eins og gert er í slíkum málum. Nú er orðið tímabært að greina frá innihaldi þessa fundar, en hann snérist um þann vanda sem þá steðjaði að Kaupfélagi Steingrímsfjarðar. Erfið fjárhagsstaða ógnaði rekstinum og í húfi voru störf heimamanna og sú hætta sem var á að á Hólmavík yrði ekki lengur rekin matvöruverslun.

 

Í dag, 25. febrúar 2020, var greint frá samkomulagi Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Samkaupa um rekstur matvöruverslunar á Hólmavík. Þannig hefur tekist að tryggja áframhaldandi störf og rekstur matvöruverslunar á staðnum.

 

Sveitarfélagið lagði sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi og samfelldan verslunarrekstur. Aðkoma sveitarfélagsins var með þeim hætti, að Strandabyggð keypti 19,2% hlut Sparisjóðs Strandamanna í fyrirtækinu Hornsteinum fasteignafélagi. Að auki keypti Strandabyggð 13% af eignarhlut Kaupfélagsins í Hornsteinum og lagði að auki inn 3 milljónir í nýtt hlutafé. Strandabyggð á nú samtals 44,16% hlut í Hornsteinum. Fasteignafélagið keypti síðan húseignir KSH að Höfðatúni 4 og nú hefur verið gerður langtíma leigusamningur við Samkaup um leigu á húsnæði fyrir matvöruverslun. Vínbúðin leigir einnig áfram aðstöðu í húsinu.

 

Til þess að fjármagna þessi kaup, seldi sveitarfélagið Sparisjóði Strandamanna húseignina Hafnarbraut 19, efri hæð, þar sem í dag er aðstaða dreifnámsins sem rekið er í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Jafnframt var gerður leigusamningur við Sparisjóðinn til að tryggja áfram húsnæði fyrir dreifnámið næstu misseri.

 

Það er ekki sjálfgefið að sveitarfélag taki á sig skuldbindingar sem þessar eða stígi með þessum hætti inn í rekstur fyrirtækja. Sveitarstjórn mat það svo í þessu tilviki að svo mikið væri í húfi fyrir starfsfólk KSH og íbúa á Ströndum að það réttlætti þessar aðgerðir.

Karlahlaup 1.mars

| 24. febrúar 2020

Karlahlaup verður haldið á Hólmavík 1.mars kl.11 og er hlaupið frá Íþróttamiðstöðinni, hlaupnir verða 5 km. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til karlahlaups á vegum Krabbameinsfélagsins. ATHUGIÐ að klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópar, félagsmenn og aðrir hópar eru hvattir til að mæta í hlaupið undir eigin „flaggi og fána“ til að setja svip sinn á hlaupið. Allur ágóði í þátttökugjaldi og kaupum á sokkapörum rennur óskiptur til félagsins, undir átakinu Mottumars.
Sjá nánar á www.krabb.is  Upp með sokkana.

HANS KLAUFI - Leikhópurinn Lotta

| 24. febrúar 2020


Leikhópurinn Lotta er að koma í heimsókn til okkar á Hólmavík og ætla að sýna Hans Klaufa í félagsheimilinu föstudaginn 28. febrúar kl 17:30. Góðir styrktaraðilar í kring um okkur hafa greitt niður miðaverðið! Vanalegt verð er 3.100 krónur en eingöngu 1.700 krónur á Hólmavík! Miðar eru því eingöngu seldir á staðnum hér. Það er því um að gera að taka alla fjölskylduna með á hágæða fjölskyldusöngleik hlaðinn húmor og gleði fyrir allann aldur.

Öskudagsball

| 20. febrúar 2020

Öskudagsball verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudaginn 26. febrúar kl. 17:00.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón