Strandabyggð tekur þátt í Brothættum byggðum
Margir þekkja verkefni Byggðastofnunar; Brothættar byggðir, aðeins af afspurn. Verkefnið hefur gengið frá árinu 2015 og hafa eftirfarandi staðir tekið þátt: Árneshreppur, Bakkafjörður, Bíldudalur, Borgarfjörður eystri, Breiðdalshreppur, Grímsey, Hrísey, Raufarhöfn, Skaftárhreppur, Þingeyri og Öxarfjarðarhérað.
Megin markmiðið verkefnisins er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og í sveitum landsins. Veittir eru verkefnastyrkir, boðið er upp á ráðgjöf, haldnir íbúafundir og hvatt til almennrar umræðu um þróun atvinnu- og mannlífs á viðkomandi svæði. Verkefnið miðar að víðtæku samráði og því að virkja þekkingu og getu íbúa byggðarlaga til að móta framtíðarsýn, markmið og lausnir. Mikilvægt að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra, eins og segir á heimasíðu Byggðastofnunar; www.byggdastofnun.is
Strandabyggð sótti um aðild að verkefninu árið 2014 en komst ekki inn þá og hefur umsóknin legið inni hjá Byggðastofnun síðan. Nú er hins vegar komið að því að Strandabyggð taki þátt, sem fyrr segir og er gert ráð fyrir að skrifað verði undir samninga þar að lútandi á næstu dögum. Í kjölfar þess, verður mynduð verkefnisstjórn og hefur sveitarstjórn ákveðið að gefa íbúum Strandabyggðar kost á að bjóða sig fram til setu í þeirri verkefnastjórn. Nánar er sagt frá því í annari frétt á heimasíðu Strandabyggðar.
Mikil áhersla er lögð á þátttöku íbúa í verkefninu, m.a. í gegn um setu þeirra í verkefnastjórn sem fyrr segir, á íbúaþingum og með beinum hætti í umræðu um atvinnuþróun og mannlíf. Í því fellst í raun tækifærið og það er okkar að grípa það.
Sumum kanna að þykja nafnið, Brothættar byggðir, neikvætt og merki um eitthvað sem sé farið, brotið. Svo er hins vegar ekki, því það sem er brothætt, er ekki brotið. Aðeins viðvæmt. Við kjósum að líta á verkefnið sem tækifæri. Tækifæri fyrir sveitarfélagið og íbúa þess að móta áherslur í uppbyggingu atvinnu- og mannlífs, tækifæri til að móta nýjar hugmyndir, ný fyrirtæki, skapa umræðu um sérstöðu og sérkenni Strandabyggðar og draga fram mynd af því samfélagið sem hér getur þróast.
Við tökum því verkefninu Brothættar byggðir fagnandi og ætlum okkur að nýta það Strandabyggð til framdráttar.
Hér má sjá frétt á vef Byggðastofnunar um þátttöku Strandabyggðar í verkefninu.
Starfsáætlun Strandabyggðar 2020
Báðar þessar áætlanir má finna hér: http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/flokkur/39/
Nánar verður gerð grein fyrir innihaldi Starfsáætlunar á næstunni.
Dagskráin á hátíðinni Vetrarsól
Hátíðin Vetrarsól á Ströndum verður haldin í annað sinn um helgina 17.-19. janúar. Mikið er um að vera á hátíðinni, farið verður í pöbbarölt á Hólmavík í fyrsta skipti, opnuð verður sögusýning, boðið upp á námskeið, tónleika, gönguferðir, jóga og notalegar samverustundir. Það eru vinir Stranda sem halda hátíðina í samvinnu við heimafólk. Hér að neðan fylgir dagskrá hátíðinnar þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
17. janúar – Pöbbarölt, Skemmtilegt er myrkrið! og pubquis á Hólmavík.
-> Mæting kl. 19:30 í Hnyðju þar sem opnuð verður sýningin Skemmtilegt er myrkrið! sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum stendur fyrir. Þaðan verður svo rölt á milli kráa á Hólmavík og stoppað á Gistiheimili Hólmavíkur, Café Riis og Restaurant Galdri. Spennandi drykkir og skemmtiatriði og uppákomur á hverjum stað, endað á stuttu Pubquis á Galdrasýningunni.
18. janúar - Söngnámskeið
kl. 10:00-12:00 í Tónskóla Hólmavíkur.
-> Kennari og skráning hjá Jóhönnu Ósk Valsdóttur, johannaoskv@gmail.com.
18. janúar - Sólarhyllingar
- 12:00-13:00 – Opinn jógatími í Hvatastöðinni á Hólmavík. Esther Ösp kíkir úr fæðingarorlofinu og leiðir tímann.
18. janúar - ,,Bábiljur og bögur í baðstofunni"
kl. 14:00-15:30 í Sævangi.
-> Notaleg samvera fyrir alla fjölskylduna á Sauðfjársetrinu, vöfflur, kaffi og velkomið að hafa handvinnu með. Stemmur af Ströndum, sagnamaðurinn Dagrún Ósk mætir, samsöngur, krakkar kveða, Ása Ketils fer með þulur, Jóhanna Ósk og Bragi Vals syngja 5undasöngva.
18. janúar – Tónleikar – Svavar Knútur og strengjahetjurnar
kl. 20:00 í Hólmavíkurkirkju.
-> Svavar Knútur ásamt strengjatríói, Kristínu Lárusdóttir sellóleikara, Jóhönnu Ósk Valsdóttir víóluleikara og Írisi Dögg Gísladóttir fiðluleikara.
19. janúar - Söguganga og galdrasúpa.
-11:00 – Söguganga á Hólmavík, Jón Jónsson þjóðfræðingur sér um leiðsögnina á rölti inn að Háaklifi eða Rostungakletti ef veður leyfir. Mæting kl. 10:50 við Galdrasýninguna eða í Hnyðju - Þróunarsetrinu á Hólmavík.
-12.00 – Súputilboð fyrir göngugarpa og aðra sem áhuga hafa á Restaurant Galdri.
19. janúar - Forfeðranna minnst.
Kl. 13:00 – Stutt friðarstund í kirkjugarðinum á Hólmavík. Kveikt á kertum og sungið.
Umsögn sveitarstjórnar Strandabyggðar, vegna reglugerðar um hrognkelsaveiðar 2020
„ Sveitarstjórn Strandabyggðar harmar þau áform um breytingar á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða sem fram koma í Reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2020. Í Strandabyggð eru nokkrar útgerðir sem byggja rekstrarafkomu sína á þessum veiðum og gangi þessi reglugerðarbreyting eftir, er vegið harkalega að rekstrargrundvelli þeirra og þar með atvinnulífi í sveitarfélaginu. Vill sveitarstjórn benda á nokkur augljós atriði og afleiðingar þeirra;
· Með þessari reglugerð er ráðherra að fara gegn niðurstöðu og ábendingum Starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða, frá september 2018, en þar mælir starfshópurinn með fiskveiðistjórnun á grundvelli aflamarks. Þess í stað gerir reglugerðin áfram ráð fyrir veiðistýringu á grundvelli dagafjölda. Hver dagafjöldinn verður, er óljóst í reglugerðinni.
· Ný reglugerð kemur verst við minni útgerðir, þar sem hrognkelsaveiðar eru mikilvægður liður í starfsemi þeirra á ársgrundvelli. Ljóst er, sökum niðurskurðar í teinalengd (úr 7.500 í 3.750 metra), að margar útgerðir munu ekki sjá sér fjárhagslega fært að sinna þessum veiðum á þessum breyttu forsendum og þar með rofnar heilsárs rekstrargrundvöllur þeirra.
· Með niðurskurði á teinalengd, er ljóst að útgerðir þurfa að fækka í mannskap og margir munu freista þess að róa einir. Slíkt fyrirkomulag, í kappi við tímann, en ekki aflamark, býður þeirri hættu heim að bátar fari á sjó í ótryggari veðrum en ella. Slíkt fyrirkomulag er tímaskekkja og stríðir gegn þeirri áherslu að hafa ávallt öryggi sjómanna að leiðarjósi.
· Hrognkelsaveiðar eru ekki aðeins mikilvægar þeim sem þær stunda, heldur eru afleidd störf mikil og mikilvæg, m.a. við flutning í vinnslu, meðhöndlun og vinnslu afurða o.s.frv. Viðbúið er að hluti þessara starfa dragist saman og/eða leggist af, verði reglugerðarbreytingin að veruleika.
· Ýmis ákvæði nýrrar reglugerðar eru óskýr og varla framkvæmanleg og má þar nefna þá kröfu að útgerðir tilgreini upphaf veiða löngu fyrirfram. Eins eru útgerðir beðnar að áætla meðafla fyrir veiðiferð, þó svo að reglugerðin kveði einnig á um að „óheimilt er að stunda aðrar veiðar en hrognkelsaveiðar í sömu ferð“.
Það eru því tilmæli sveitarstjórnar Strandabyggðar, að ráðherra endurskoði ákvæði reglugerðarinnar í samráði við umbjóðendur sína, með það að leiðarljósi að tryggja samtímis öryggi og velferð sjómanna og skynsamlega umgengni um auðlindina.“