A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Daginn eftir Fjórðungsþing

| 27. október 2019

Fjórða Haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga lauk hér á Hólmavík í gær, 26. október.  Þetta var um margt gott þing að mínu mati.  Góð mæting meðal sveitarstjórnarfólks og góður andi almennt séð.  Sérstaklega þótti mér gaman að hafa með okkur fulltrúa Dalabyggðar, sem  er í ört vaxandi samstarfi með okkur og nærliggjandi sveitarfélögum. Umgjörðin hefði ekki getað verið betri;  Hólmavík í fallegum vetrarskrúða, veitingar á Café Riis fyrsta flokks, veislustjórarnir Hundur í óskilum á föstudagskvöldinu voru frábærir, Hólmadrangur tók vel á móti hópnum á fyrri degi þingsins og kynnti starfsemina og hin áhugaverða Umhverfislest var skoðuð á seinni deginum.  Sjálf þingstörfin fóru svo í Félagsheimilinu undir góðri stjórn starfsmanna Vestfjarðastofu.  Mér var treyst fyrir því hlutverki að vera Þingforseti og það var lærdómsríkt og skemmtilegt hlutverk sem ég þakka fyrir.

En hvað situr eftir, á þessum fallega sunnudegi?  Vannst eitthvað á þessu þingi?  Urðu stefnubreytingar, straumhvörf?  Féllu loforð eða voru byggðar upp væntingar?  Dæmi hver fyrir sig sem þar var, en í mínum staldra ég nú við eftirfarandi:

  1. Hvar voru Þingmenn kjördæmisins?  Ég skrifaði þeim póst í vikunni fyrir þingið og hvatti þá til að koma.  Ég fékk engin svör, fyrr en jú í morgun að einn þeirra skrifaði mér.  Hann var löglega afsakaður, erlendis.   Á þinginu taldi ég tvo fulltrúa okkar á Alþingi, þau Harald Benediktsson, fyrsta þingmann kjördæmisins og Örnu Láru Jónsdóttur.  Hvar voru hinir?  Ætti Fjórðungsþing ekki einmitt að vera vettvangur fyrir þingmenn kjördæmisins að hitta sveitarstjórnarfólk og aðra?  Ætti þetta ekki einmitt að vera baráttuþing fyrir okkar sameiginlegu og sértæku hagsmunum, sem við trúum og treystum að þingmennirnir okkar þekki og berjist fyrir?
  2. Samstaðan eða sérhagsmunir?  Það ríkti góður andi á þinginu, fólk þekkist orðið vel og getur deilt eða skipst á skoðunum á málefnalegan hátt.  Og það var sannarlega samstaða um margt, t.d. um vegaúrbætur í Árneshreppi.  En samt er niðurstaða þingsins að hluta til sú, í mínum huga, að hver þarf á endanum að hugsa um sig.  Hvaða hagsmuni hefur mitt sveitarfélag af sameiningu?  Hvað vegaúrbótum þurfum við að berjast fyrir?  Hvað vill fólkið?  Hvað vilja íbúar hvers sveitarfélags?  Það er ekki gefið að það sé samhljómur þar.  Strandabyggð horfir á eftir vegaúrbótum í samgönguáætlun, ekki síður en Árneshreppur.  Innstrandarvegur, sem svo ótal sinnum hefur verið á samgönguáætlun og stundum nánast á framkvæmdastigi, samkvæmt Vegagerðinni, er nú hluti af 2. hluta áætlunarinnar, sem kemur til framkvæmda á árunum 2025-2029.  Við styðjum heillshugar baráttu fyrir samgöngum í Árneshreppi, enda augljós forsenda allrar tilveru þar og hugsanlegrar sameiningar við önnur sveitarfélög.  En á sama tíma verðum við að halda áfram okkar baráttu fyrir okkar sértæku hagsmunum í vegamálum. Hvaða sveitarfélag vill bjóða skólabörnum upp á það óöryggi sem við búum við með veginn í Kollafirði, uppi í miðri hlíð án vegriðs?  Hvaða sveitarfélag vill bjóða fólki á leið í vinnuna holóttan og lélegan innstrandarveg, ár eftir ár eftir ár? 

Orð á blaði ráðherra eða annara um jákvæðni Vestfirðinga, baráttuhug, dug og vilja, eru góð og gild, en þau eru samt létt í vasa þegar staðreyndirnar blasa við.  Það fengust engin svör á þinginu við lykilspurningum;  af hverju eru fjármunir færðir til?  Af hverju eru loforð svikin?  Af hverju?

Ég hef stundum spurt og spurði þingmenn okkar á þingmannafundi í Flókalundi nýlega; hvað haldið þið að Herjólfur og Landeyjahöfn hafi kostað samfélagið?  Enginn veit, en við giskuðum á hátt í 15 milljarða!  Og á fundinum sagði fyrsti þingmaður kjördæmisins okkar, Haraldur Benediktsson, að marg oft væri búið að mótmæla þessum „fjáraustri“ eins og hann orðaðið það í þetta verkefni, Landeyjahöfn, þar sem þetta verkefni hindraði fjármögnun annara verkefna.  Landeyjahöfn mun áfram um ókomin ár draga mikið fé úr ríkissjóði, nema eitthvað verði gert.  Er það ásættanlegt?

Í Vestmannaeyjum búa um 4.300 manns.  Eyjarnar eru mikilvægur liður í verðmætasköpun Íslands í sjávarútvegi.  En það eru Vestfirðir líka!  Það er ekki langt síðan hér urðu til 10-12% verðmæta í sjávarútvegi á landsvísu.  Og fiskeldi á Vestfjörðum, þar sem búa um 7.000 manns, skilar nú milljarðatugum í útflutningstekjur!

Í hverju liggur munurinn að uppbyggingu innviða og miðlun fjármagns hins opinbera?  Þar er ekkert eitt svar, en ég vil meina að baráttuaðferðir Vestmannaeyinga séu einfaldlega betri. Þar er meiri samstaða meðal þingmanna, sveitarstjórnarfólks, atvinnulífs og íbúa um baráttumálin en hér.  Hugsið ykkur alla orkuna sem hefur farið í innbyrðis deilur um innviði á Vestfjörðum.  Pólitísk keppni milli fylkinga, í stað samstöðu og breiðfylkingar.  Þess vegna spyr ég aftur; hvar voru þingmennirnir?

Þinginu er lokið og nú heldur vinnan áfram.  Barátta hvers fyrir sig, en ég skora á okkur að hugleiða; hvernig getum við eflt okkar sókn, okkar málsvara og okkar baráttuaðferðir?  Núverandi aðferðir virðast ekki virka.

Þorgeir Pálsson

 

Félagadagur 2. nóvember

| 24. október 2019
Nú er veturinn að ganga í garð og félagastarf að fara í gang því blásum við til Félagadags 2.nóvember kl.12.00 - 16.00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Á þessum degi gefst félögum tækifæri til að kynna sig og sína starfsemi. Ekki er um að ræða framsögn/ræður heldur er þetta í formi "Bása" (svæða) sem hvert félag hefur til umráða. Hér í sveitarfélaginu eru 17 félög/hópar sem halda úti starfsemi af ýmsum toga.
Þennan dag ætla ungmenni sveitarfélagsins að vera á staðnum og bjóða uppá vöfflukaffi gegn vægu gjaldi.
Nú er um að gera að kynna sér hvað er í boði og ganga jafnvel í félag.

Opinn fundur vegna sameiningar Leik- og Grunnskóla

| 23. október 2019

Opinn fundur vegna sameiningar Leik- og Grunnskóla verður í Hnyðju miðvikudaginn 30. október kl 17.  Áætluð fundarlok 18 til 18.30.

Á fundinn mætir verkefnastjóri vinnuhóps um sameininguna; Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, frá Tröppu. Þar verður farið yfir stöðu mála, helstu áherslur og tímaramma verkefnisins. 

Þetta er mikilvægt mál fyrir okkar samfélag og því hvetjum við foreldra og aðra íbúa til að mæta.

Fjórðungsþing á Hólmavík, 25-26. október

| 23. október 2019

4. Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga verður haldið hér á Hólmavík dagana 25 og 26 október n.k.  í Félagsheimilinu á Hólmavík.  Reiknað er með gestum frá öllum Vestfjörðum, Dalabyggð og víðar, enda Haustþing mikilvægur vettvangur til að skoða helstu verkefni og áherslurmál fjórðungsins.  Þarna gefst sveitarstjórnarfóki og starfsmönnum sveitarfélaga líka tækifæri til að hitta starfsfélaga sína frá öðrum sveitarfélögum, auk þess að hitta þingmenn, ráðherra og embættismenn. Á föstudadginn verður t.d. Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis með ávarp og þá er reiknað með að samgöngu- og sveitarstórnarráðherra verði hér á laugardaginn þann 26. sem og Aldís Hafsteinsdóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Mun ráðherra setja Umhverfislestina svokölluðu af stað.

Starfsmenn Vestfjarðastofu kynna Sóknaráætlun Vestfjarða og halda utan um vinnustofur.  Fyrir áhugasama er hér slóð á frekari upplýsingar um þingið.


https://www.vestfirdir.is/is/malaflokkar/sveitarstjornarmal/haustthing/haustthing-2020

Það má búast við umræðum um Samgönguáætlun, sem nýlega var lögð fram og hefur þegar valdið óánægju víða, en þar má t.d. nefna að Innstrandarvegur (Heydalsá - Þorpar) og vegur um Veiðileysuháls eru settir aftar í röðinni og koma ekki inn á áætlun fyrr en á 2. tímabili áætlunarinnar, eða frá 2025-2029. 

Þá verða sameiningarmál sveitarfélaga rædd og ljóst er að þar bíða krefjandi verkefni margra sveitarfélaga; verkefni sem þau mörg hver hefðu kosið að skipuleggja sjálf, í stað lögþvingaðrar sameingar.

Þrátt fyrir að þessi tvö mál séu mörgum erfið, er engu að síður mikilvægt að ná að ræða þau málefnalega á þessum vettvangi sem Fjórðungsþingið er. 

Viðvera Skipulagsfulltrúa fellur niður í dag

| 23. október 2019
Viðvera Skipulagsfulltrúa fellur niður í dag, miðvikudaginn 23. október.  Kannað verður hvort skipulagsfulltrúi komist hingað að viku liðinni.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón