A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Flugslysaæfing á Gjögri

| 07. október 2011
Í dag og á morgun, laugardaginn, 8. október, verður haldin flugslysaæfing á flugvellinum á Gjögri, norður á Ströndum, þar sem æfð verða viðbrögð við flugslysi við flugvöllinn samkvæmt tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Þegar slíkar æfingar eru haldnar er verið að láta reyna á samvinnu allra viðbragðseininga á svæðinu.

Aðstæður á Gjögri eru þannig að þar eru ekki til staðar nema hluti hinna hefðbundnu viðbragðsaðila eins og lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, Rauði krossinn og heilbrigðisstarfsmenn.
...
Meira

Tilkynning frá sveitarfélaginu Strandabyggð

| 05. október 2011

Af gefnu tilefni vill Sveitarfélagið Strandabyggð koma eftirfarandi á framfæri: Sveitarfélagið Strandabyggð er aðili að barnavernd Húnaþings Vestra og Héraðsnefndar Strandasýslu. Fimm sveitarfélög standa að nefndinni sem vinnur samkvæmt lögum um barnavernd nr. 80/2002. Starfsfólki félagsþjónustu í sveitarfélögunum fimm, skólum, leikskólum og öðrum opinberum starfsmönnum ber að framfylgja ákvörðunum nefndarinnar.

 

Þess er vænst að íbúar sveitarfélagsins sýni starfsmönnum félagsþjónustunnar skilning og virði friðhelgi einkalífs þeirra og fjölskyldna þeirra, þótt félagsþjónustan þurfi lögum samkvæmt að eiga aðkomu að erfiðum ákvörðunum samkvæmt þeim lögum sem hún starfar eftir.

Söngkeppni í Bragganum næsta laugardag

| 03. október 2011
Barbara Guðbjartsdóttir vann keppnina í fyrra - ljósm. strandir.is
Barbara Guðbjartsdóttir vann keppnina í fyrra - ljósm. strandir.is
Laugardaginn 8. október verður karaoke-keppni Café Riis haldin í sjöunda sinn í Bragganum á Hólmavík. Tugir keppenda hafa stigið á svið, en sigurvegarar fyrri ára eru Stefán Steinar Jónsson, Sigurður Vilhjálmsson, Salbjörg Engilbertsdóttir, Árdís Rut Einarsdóttir, Eyrún Eðvaldsdóttir og Barbara Ósk Guðbjartsdóttir. Til að hægt sé að halda keppnina þarf hins vegar fyrst að fá keppendur til leiks og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Báru í s. 897-9756. Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur starfsmenn sína til að taka þátt - því það er svo gaman!

Atriðin mega innihalda einstaklinga, dúetta, sönghópa, gógópíur, dansara, lífverði og hver þau hlutverk sem menn vilja draga fram í dagsljósið. Engin takmörk eru sett á listræna tjáningu eða búningaglamúr - meira er betra og skrítnara er skemmtilegra.  

Hægt verður að æfa í Bragganum hvenær sem er fram að keppniskvöldinu. Þar verður jafnframt hægt að nálgast nokkur hundruð karaoke-lög á diskum, en einnig geta þeir allra hörðustu keypt lög á öruggum vefsíðum eins og www.karaoke-version.com.
 

Lokað vegna starfsdags starfsfólks Strandabyggðar

| 30. september 2011
Lokað er frá kl. 12:45 í stofnunum sveitarfélagsins Strandabyggðar í dag, föstudaginn 30. september, vegna starfsdags.

Logi Geirsson heldur fyrirlestur á Forvarnardaginn

| 29. september 2011
Logi Geirs í ham - ljósm. frá Loga sjálfum
Logi Geirs í ham - ljósm. frá Loga sjálfum
Í tilefni af Forvarnardeginum miðvikudaginn 5. október býður tómstundafulltrúi Strandabyggðar og Félagsmiðstöðin Ozon í samvinnu við Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, HSS, Foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík og Grunnskólann á Hólmavík upp á fyrirlesturinn "Það fæðist enginn atvinnumaður". Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík og er öllum opinn. 

Það er enginn annar en fyrrverandi handboltakappinn Logi Geirsson sem mætir á Strandirnar til að halda fyrirlesturinn. Loga þarf vart að kynna; hann vann til fjölda verðlauna með félagsliðum sínum auk bronsverðlauna með landsliðinu á EM 2010 að ógleymdum silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking 2008.  

Logi fæddist ekki atvinnumaður frekar en nokkur annar og þurfti að leggja hart að sér til að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Hann telur að allir geti orðið atvinnumenn, allir geta risið upp og farið fram úr eigin væntingum - allir geta náð árangri. Logi mun tala sérstaklega til ungs fólks um markmiðasetningu, þjálfun, hugarfarsþáttinn og fleira sem huga þarf að ætli menn að ná langt.

Fólk á öllum aldri úr öllum sveitarfélögum er að sjálfsögðu velkomið á atburðinn!
 
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón