A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Félagsmiðstöð unga fólksins

| 09. febrúar 2011
Mynd: Jón Jónsson
Mynd: Jón Jónsson

Nemendum í 1.-4. bekk er boðið í Félagsmiðstöð unga fólksins í setustofu Grunnskólans á Hólmavík í kvöld, miðvikudagskvöldið 9. febrúar, kl. 18:30-19:30. Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum. Félagsmiðstöð unga fólksins er hefðbundin opnun á félagsmiðstöðinni Ozon, fyrir aldurshóp sem ekki hefur tekið þátt í starfi Ozon áður.

Arnar S. Jónsson, tómstundafulltrúi Strandabyggðar, segir hugmyndina bakvið opnunina vera að gefa yngstu börnunum tækifæri til að láta ljós sitt skína, kynnast félagsmiðstöðvarstarfinu lítillega og gera sér glaðan dag ásamt foreldrum sínum. Farið verður í leiki, sungið og sprellað og horft á teiknimyndir. Aðgangseyrir er enginn en Ozon-sjoppan verður opin.

Frekari upplýsingar um starf í félagsmiðstöðinni Ozon má sjá á heimasíðu Ozon.

Fundur í sveitarstjórn í dag

| 08. febrúar 2011
Vetur á Hólmavík, 5. febrúar 2011.      Mynd: IV
Vetur á Hólmavík, 5. febrúar 2011. Mynd: IV
Fundur 1177 verður haldinn í sveitarstjórn Strandabyggðar í dag. Fundurinn hefst kl. 18:15 á skrifstofu sveitarfélagsins á annari hæð í Þróunarsetrinu að Höfðagötu 3. Dagskrá fundarins má sjá hér.

Næsti sveitarstjórnarfundur í Strandabyggð verður haldinn þriðjudaginn 1. mars n.k. Frestur til að skila inn erindum fyrir þann fund rennur út á miðnætti 23. febrúar.


Dagur leikskólans í dag

| 06. febrúar 2011
Til fyrirmyndar hvað foreldrar og forráðamenn eru áhugasamir um líf og starf nemendanna í leikskólanum Lækjarbrekku.
Til fyrirmyndar hvað foreldrar og forráðamenn eru áhugasamir um líf og starf nemendanna í leikskólanum Lækjarbrekku.
Dagur leikskólans er í dag, sunnudaginn 6. febrúar. Leikskólinn Lækjarbrekka hélt upp á daginn s.l. föstudag með því að bjóða foreldrum og forráðamönnum í heimsókn í leikskólann. Nemendur, foreldrar, forráðamenn og starfsfólk áttu notalega morgunstund og bauð leikskólinn gestum upp á hollan og góðan morgunmat. Það er til fyrirmyndar að finna hvað foreldrar og forráðamenn í Strandabyggð eru áhugasamir um þáttöku í lífi og starfi nemenda og starfsfólks í leikskólanum Lækjarbrekku, en skemmst er að minnast fjölmenns piparkökumorguns sem haldinn var á Café Riis í desember. Í tilefni af Degi leikskólans hafa nemendur sett upp sýningu í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík og eru allir hvattir til að leggja leið sína þangað og upplifa listsköpun yngstu íbúanna á Ströndum. Strandamönnum er óskað til hamingju með dag leikskólans.

Hægt er að fylgjast með fréttum af leikskólanum Lækjarbrekku á vefsíðu skólans, sjá hér.

Fjölmenni á fyrirlestri um Fjalla-Eyvind og Höllu

| 06. febrúar 2011
Kjartan Ólafsson fer yfir tilgátu sína um 18 dagleiðir Eyvindar og Höllu frá Skjaldabjarnarvík suður undir Hofsjökul. Mynd: IV
Kjartan Ólafsson fer yfir tilgátu sína um 18 dagleiðir Eyvindar og Höllu frá Skjaldabjarnarvík suður undir Hofsjökul. Mynd: IV
Fjölmenni var á fyrirlestri Kjartans Ólafssonar, fv. þingmanns og ritstjóra, um Fjalla-Eyvind og Höllu í Skelinni á Hólmavík í gær. Fyrirlesturinn sem bar yfirskriftina ,,Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi á Ströndum" byggði Kjartan á upplýsingum sem Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafninu, fann í skjölum um yfirheyrslur yfir þeim hjónum sem fram fóru í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð vorið 1763. Rannsókn Bjarkar hefur m.a. leitt í ljós að Eyvindur og Halla eignuðust barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763 en barnið lifði aðeins í tvo daga. Þetta var skömmu áður en hjónin voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar. 

Kjartan Ólafsson leiddi gesti á eftirminnilegan hátt inn í lífshlaup Eyvindar og Höllu og sýndi skemmtilegar myndir frá ferð hans á slóðir þeirra hjóna norður í Drangavík og Bjarnafjörð s.l. sumar. Björk Ingimundardóttir vinnur nú að grein um þessar nýju upplýsingar til birtingar í Strandapóstinum, tímariti Strandamannafélagi Reykjavíkur.

Sveitarfélagið Strandabyggð styrkir Skelina, lista- og fræðimannadvöl á vegum Þjóðfræðistofu.

29 fréttir fluttar á vefnum í janúar

| 06. febrúar 2011
Mynd: Jón Jónsson
Mynd: Jón Jónsson

Vefur Strandabyggðar fagnaði tveggja ára afmæli sínu í desember 2010 en hann tók við af vefnum www.holmavik.is sem geymir skemmtilegar myndir, upplýsingar og fróðleik um sveitarfélagið. Starfsfólk Strandabyggðar vinnur nú að því að auka fréttaflutning á vef Strandabyggðar til að efla upplýsingaflæði til íbúa og velunnara svæðisins. Alls voru birtar 29 fréttir á vefnum í janúar 2011 en að meðaltali birtust 2 fréttir í mánuði árið 2009 og 5,4 fréttir í mánuði árið 2010. Auglýsingar um sveitarstjórnarfundi eru birtar undir atburðardagatalinu og fundarboðin sjálf má nú finna neðst á síðunni undir Skýrslur og samþykktir. Unnið verður að uppfærslu og nýjungum á vefnum næstu mánuði. Allar hugmyndir og ábendingar um það sem betur má fara á vef Strandabyggðar ásamt nýjum og gömlum myndum af lifi og starfi í sveitarfélaginu eru vel þegnar. Senda má póst á holmavik@holmavik.is eða hafa samband við Jónas Gylfason vefstjóra, í síma 451-3510. 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón