A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fundi með ríkisstjórninn frestað í tvígang

| 15. mars 2011
Fundi ríkisstjórnar Íslands með fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum sem halda átti á Ísafirði í dag hefur verið frestað um viku, eða til þriðjudagsins 22. mars n.k. Er þetta í annað sinn sem fundinum er frestað vegna veðurs. Á fundinum verður farið yfir brýnustu hagsmunamál Vestfirðinga og vill ríkisstjórnin ræða ýmsar hugmyndir sem snerta mennta- og velferðarmál á svæðinu.

Viðtalstíma með byggingarfulltrúa frestað vegna veðurs

| 14. mars 2011
Hólmavík. Mynd Jón Jónsson.
Hólmavík. Mynd Jón Jónsson.
Viðtalstíma byggingarfulltrúa, Gísla Gunnlaugssonar, sem átti að vera í dag milli kl. 13:00 - 16:00, hefur verið frestað vegna veðurs. Fundi Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar sem átti að vera í dag hefur einnig verið frestað en á fundinum ætlaði byggingarfulltrúi m.a. að fara yfir ný mannvirkjalög.

Næsti viðtalstími verður eftir viku, mánudaginn 21. mars n.k., milli kl. 13:00 - 16:00 á skrifstofu Strandabyggðar í Þróunarsetrinu, Höfðagötu 3. Fundur Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar verður haldinn sama dag og hefst hann kl. 16:00. Enn er því hægt að skila inn erindum fyrir fundinn.

Grunnskólinn á Hólmavík býður Finnbogastaðaskóla í skólaheimsókn

| 14. mars 2011
Þórey Ingvarsdóttir, Ásta Þorbjörg Ingólfsdóttir og Kári Ingvarsson í heimsókn á skrifstofu Strandabyggðar í haust. Mynd: IV
Þórey Ingvarsdóttir, Ásta Þorbjörg Ingólfsdóttir og Kári Ingvarsson í heimsókn á skrifstofu Strandabyggðar í haust. Mynd: IV

Grunnskólinn á Hólmavík býður nemendum og starfsfólki Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi í skólaheimsókn þessa viku. Í Finnbogastaðaskóla eru fjórir nemendur en skólinn er einn minnsti skóli landsins. Nemendurnir, Þórey Ingvarsdóttir í 1. bekk, Kári Ingvarsson í 4. bekk, Ásta Þorbjörg Ingólfsdóttir í 5. bekk og Júlíana Lind Guðlaugsdóttir í 8. bekk, munu sitja kennslustundir með nemendum hér á Hólmavík og fara á dansnámskeið Jóns Péturs í Félagsheimilinu. Opnað var norður í Árneshrepp í gær og kom hópurinn í kjölfar moksturstækjanna til Hólmavíkur. Heimsóknin er frábært tækifæri fyrir nemendur bæði í Strandabyggð og Árneshreppi til að kynnast hvert öðru og ólíkum aðstæðum, auk þess sem samskipti milli grunnskóla er mikilvægur liður í  þróun skólastarfs.

Dansað á Ströndum í storminum

| 14. mars 2011

Dansnámskeið Jóns Péturs hefst í Félagsheimilinu á Hólmavík í dag. Kennt verður í þremur hópum og eru um 60 nemendur búnir að skrá sig frá Hólmavík, Drangsnesi og Árneshreppi.

Hóparnir er eftirfarandi:
Árgangur 2005 (skólahópur Lækjarbrekku),
1., 2. og 3. bekkur kl. 13:10-14:00.
4., 5. og 6. bekkur kl. 14:10-15:00.
7., 8., 9. og 10. bekkur kl. 15:10-16:00.

Verð er 4.000 kr. á nemanda (5 skipti) en 3.500 kr. fyrir systkini. Greitt er á staðnum.
Upplýsingar um dansskólann má finna hér www.dansskoli.is        

17. Strandagangan haldin í fallegu veðri í dag

| 12. mars 2011
Keppendur voru á öllum aldri og stóðu sig vel í Strandagöngunni í dag. Mynd IV.
Keppendur voru á öllum aldri og stóðu sig vel í Strandagöngunni í dag. Mynd IV.
Strandagangan var haldin í fallegu veðri í Selárdal í dag. Alls tóku 82 keppendur þátt í göngunni og komu víða að, m.a. frá  Húsavík, Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði, Súðavík, Ísafirði og höfuðborgarsvæðinu. Í 20 km göngunni sigraði Sigurbjörn Þorgeirsson frá Ólafsfirði og fékk hann hinn stórglæsilega Sigfúsarbikar til varðveislu næsta árið.  Sigurbjörn vann öruggan sigur í göngunni, en hann tók forustuna strax í upphafi og hélt henni alla leið.  Annar Ólafsfirðingur, Kristján Hauksson, kom næstur í mark en hann var rúmlega mínútu á eftir Sigurbirni. Að keppni lokinni skelltu keppendur sér í sundlaugina á Hólmavík áður en gengið var að veisluhlaðborði í Félagsheimilinu á Hólmavík þar sem verðlaunaafhending fór fram. Forsvarsmenn Strandagöngunnar voru ánægðir með daginn og sögðu mótið hafa gengið vel fyrir sig.

Frekari upplýsingar um úrslit keppninnar má finna á vef Strandagöngunnar.



Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón