Kviss, Búmm, Bang!
Sveitarfélagið Strandabyggð styrkir Skelina, lista- og fræðimannadvöl á vegum Þjóðfræðistofu.
Nú hefur verið staðfest að Hamingjuhlaupið verður haldið í þriðja skipti laugardaginn 2. júlí í sumar. Að vanda er það Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur frá Gröf í Bitrufirði, sem stendur fyrir hlaupinu. Hlaupaleiðin að þessu sinni er þannig að lagt verður upp frá Gröf í Bitrufirði, hlaupið norður yfir Bitruháls, fyrir botn Kollafjarðar, upp í Deildarskarð utan við Litla-Fjarðarhorn, yfir Hvalsárdal og að Heydalsá í Steingrímsfirði. Þessi leið er um það bil 32 km. að lengd.
Líklegt er að hlaupið hefjist seinnipart dags og ljúki á hátíðarsvæðinu á Hólmavík um kvöldið, þannig að koma hlauparanna marki opnun á hinu víðfræga tertuhlaðborði Hólmvíkinga á Hamingjudögum. Tímasetningar verða þó betur auglýstar þegar nær dregur.
Fræðast má um Hamingjuhlaupið og fleiri hlaup á hlaupadagskrá Stefáns Gíslasonar í sumar með því að smella hér. Einnig má skoða splunkunýjan vef Hamingjudaga á Hólmavík á slóðinni www.hamingjudagar.is.
Nýverið var haldið námskeið fyrir nefndar- og sveitarstjórnarfólk í Strandabyggð þar sem farið var yfir fundarsköp, undirbúning undir fundi, ritun fundargerða, tillögugerð og ræðumennsku. Námskeiðshaldari var Sigurður Guðmundsson, landsfulltrúi UMFÍ. Nágrannasveitarfélögum var boðið að vera með á námskeiðinu en veður og slæm færð komu í veg fyrir þátttöku annarra en heimamanna. Á námskeiðinu kom m.a. fram að nefndarfólk óskar eftir frekari upplýsingum um hversu mikið fjármagn er áætlað í hvern málaflokk og að bókanir sveitarstjórnar og nefnda séu bæði hnitmiðaðar og upplýsandi.
Námskeiðið er hluti af almennri fræðslu fyrir nefndar- og sveitarstjórnarfólk í Strandabyggð en einnig verður boðið upp á námskeið fyrir einstaka nefndir sem og umræðufund með sveitarstjórn Strandabyggðar. Fulltrúar úr Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd sátu nýverið fjarfund um ný mannvirkjalög en byggingarfulltrúi, Gísli Gunnlaugsson, mun einnig fara yfir lögin með nefndinni á morgun, mánudaginn 21. mars. Þá hefur Velferðarnefnd nýverið setið fjarfund um hlutverk Velferðarnefnda og fyrirhugað er námskeið á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir skóla- og fræðslunefndir.
Eftirfarandi nefndir eru starfandi í Strandabyggð:
- Atvinnumála- og hafnarnefnd, formaður Elfa Björk Bragadóttir
- Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd, formaður Valgeir Örn Kristjánsson
- Fræðslunefnd, formaður Steinunn Þorsteinsdóttir
- Landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd, formaður Jón Stefánsson
- Umhverfis- og náttúruverndarnefnd, formaður Sigurður Atlason
- Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, formaður Salbjörg Engilbertsdóttir
- Velferðarnefnd, formaður Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir. Velferðarnefndin er sameiginleg nefnd með Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Reykhólahreppi.