A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kostnaðarmat vegna grunnskólans

Þorgeir Pálsson | 06. mars 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú liggur kostnaðarmat EFLU fyrir hvað varðar viðgerðir á grunnskólanum.  EFLA leggur fram tvær leiðir, A og B, sem eru eftirfarandi:

Leið A:
Allsherjar endurnýjun á ytra og innra byrði beggja húsa, full einangra húsin að utan og koma fyrir vatnsvarnarlagi í formi gufuopins dúks sem þéttur er við glugga. Bæði hús verða klædd með nýrri álklæðningu og allir gluggar sem ekki er búið að endurnýja verða endunýjaðir. Múr og einangrun verða hreinsuð innan af burðarveggjum og þeir sótthreinsaðir. Öll gólfefni fjarlægð og botnplötur brotnar upp að hluta til restin slípuð. Gengið frá dren- og frárennsliskerfi og loftræsing sett upp í bæði hús. Lagnir innandyra endurnýjaðar að hluta ásamt öllum rafmagnsbúnaði

Kostnaðaráætlun: kr. 255.995.000.- með vsk.  Ofan á þessa upphæð leggst allt að 25% óvissuþáttur (EFLA gerir reyndar ráð fyrir +/- 15%, en sveitarstjórn telur rétt að hafa þetta hlutfall hærra).

Leið B:
Múr og einangrun verður hreinsað af burðarveggjum eldra húss, lokið yrði við að klæða bæði húsin að utan með áli og einangra líkt og búið er að gera við hluta hússins. Gólfefni verður fjarlægt og ílögn slípuð upp, botnplata brotin upp að hluta til og endursteypt. Skipt væri um glugga á bókasafni og í verklegu kennslustofum. Hinir yrðu lagfærðir. Útveggir eldra húss einangraðir og múraðir skv. kröfum. Gengið yrði frá dren- og frárennsliskerfi ofan við húsin og loftræsing sett upp í bæði hús.

Kostnaðaráætlun: kr. 196.955.000.- með vsk.  Ofan á þessa upphæð leggst allt að 25% óvissuþáttur. 

EFLA leggur til að leið A verði farin.  Sú leið mun kosta amk. 320 milljónir, samkvæmt þessu, sé reiknað með 25% óvissu.

Í umræðunni hefur sú spurning komið fram, hvað það myndi kosta að byggja nýjan skóla, frá grunni.  Erfitt er að slá slíku föstu án frumathugunar og þarfagreiningar, en þó hafa tölur eins og 800 milljónir og jafnvel einn milljarður verið nefndar.  

Sveitarstjórn mun nú skoða þessa kosti ítarlega og leita til fagaðila hvað mat á þeim varðar. Nánari upplýsingar verða gefnar eins fljótt og hægt er.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti 

Sumarstörf og umsóknir í vinnuskóla í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. mars 2023

Strandabyggð auglýsir eftir umsækjendum fyrir afleysingar- og sumarstörf og störf við vinnuskóla, athugið að sum störfin gætu hafist fljótlega


Íþróttamiðstöð, tjaldsvæði, vinnuskóli og sumarnámskeið
-Umsjónaraðili með Íþróttamiðstöð- og tjaldsvæði, afleysing fyrir íþrótta- og tómstundafulltrúa v. sumarleyfis
-Íþróttamiðstöð og tjaldsvæði. Sumarstarfsmenn í sundlaug og tjaldsvæði. Starfsmenn þurfa að ná kröfum sundlaugarvarða og hafa náð 18 ára aldri. Nánari upplýsingar um starfið hér
-Sumarnámskeið – Umsjón með 2-3ja vikna námskeiði í júní, nánari lýsing hér
-Vinnuskóli og umhverfisfegrun – Umsjón með vinnuskóla, stærsti hluti starfs í júní, nánari upplýsingar hér


Eignasvið, áhaldahús og Sorpsamlag
-Áhaldahús. Um er að ræða almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi við slátt og viðhald eigna. Nánari upplýsingar hér
-Höfn. hafnarvigtun og skráningu afla og fl. vigtarréttinda krafist, almenn verkamannastörf
-Sorpsamlag. Um er að ræða vinnu á sorpbíl og gámabíl meiraprófs krafist ásamt lyftararéttindum (vinnuvélaréttindi)


 
...
Meira

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um slátt og umhirðu gróðursvæða í landi sveitarfélagsins

Þorgeir Pálsson | 06. mars 2023

Um er að ræða slátt og umhirðu á gróðursvæðum í eigu sveitarfélagsins, auk sérverkefna sem upp kunna að koma á hverjum tíma.  Umrædd svæði eru skilgreind af sveitarfélaginu og allar frekari upplýsingar og yfirlitsdrættir eru fyrirliggjandi á skrifstofu Áhaldahúss Strandabyggðar.

Ræktuð svæði þarf að slá með vélum og óræktuð svæði með bensin-orfi.  Verktaki skal raka saman allt gras eftir slátt og farga.  Verktaki skal einnig sjá um að dreifa áburði á grassvæði.   Á sumum svæðunum þarf að dreifa áburði með höndum.  Strandabyggð leggur til allan áburð. 


Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér forsendur og umfang og hafa samband við Sigurður Marinó Þorvaldsson verkstjóra Áhaldahúss Strandabyggðar, sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 894-4806, eða á ahaldahus@strandabyggd.is

Verksamningur verður gerður við verktaka og gildir hann í þrjú ár, fyrir árin 2023, 2024 og 2025.


Tilboðum skal skilað í umslagi merktu „Sláttur 2023“ á skrifstofu Strandabyggðar, eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is 


Frestur til að leita gagna og skila inn tilboði er til 1. apríl 2023.


Þorgeir Pálsson
Oddviti

Af hverju er gott að búa í Strandabyggð?

Þorgeir Pálsson | 24. febrúar 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það eru án efa fjölmörg svör við þessari spurningu.  Kannski finnst sumum spurningin skrýtin og ganga þá út frá því að auðvitað sé og eigi alltaf að vera gott að búa í sinni heimabyggð.  Og án efa eru margir sem spyrja sig aldrei þessarar spurningar.  Ég held hins vegar að hún sé góð og að það sé hollt að reyna að svara henni.

Sumir myndu án efa benda á náttúruna, fjörðinn, lognið á firðinum, fuglakvakið, selina, hvalina, öldunið þegar gárar ofl.ofl.  Sitt sýnist hverjum og víst er að hér er mikil og falleg náttúra.  Borgirnar eru ekki bara einn göngustígur, heldur æðakerfi gönguleiða.  Fjörðurinn er aldrei eins, alltaf eitthvað nýtt; nýtt líf.  Það er eins og með eldinn; maður getur horft linnulaust á eld loga, líkt og það er nærandi að horfa á sjóinn.

Ég hlustaði nýlega á stórgott viðtal á Rúv 1 við Pétur Gunnarsson rithöfund, en hann skrifaði í sinni fyrstu bók setningu, sem ég legg til að við hugleiðum.  Hann skrifaði:  „Af Jarðarinnar hálfu byrja allir dagar fallega“.  Þessi setning er ekki löng, en ótrúlega sterk; gefur fyrirheit og góðan grunn.  Þann grunn getur síðan hvert og eitt okkar byggt á og mótað sinn dag til enda.  Það er það val sem við höfum.

Það er val að vera jákvæð(ur).  Það er val að einblína á jákvæðar hliðar frekar en neikvæðar.  Það er val að hrósa eða hallmæla, eða segja ekkert.  Við veljum þá útgáfu af okkur og deginum sem við bjóðum svo öðrum upp á.

Eitt er það hér á Hólmavík sem mér hefur alltaf þótt notalegt, en það er að fólk vinkar og heilsar hvort öðru þegar það mætist í bíl, eða á gangi.  Jafnvel oft á dag.  Það er hlýlegt merki.  Höldum því á lofti.

Náttúran er og verður.  Samfélagið er hins vegar breytilegt.  Fólk kemur og fer.  Við sem hér búum á hverjum tíma, og höldum uppi þeim lífsskilyrðum sem við öll njótum, verðum að passa upp samfélagslega hluta ánægjunnar við að búa hér.  Við höfum það val.  Notum það rétt.

Kveðja og góða helgi,
Þorgeir Pálsson
Oddviti

 

 

 

Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson | 24. febrúar 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Innviðaráðuneytið hefur staðfest endurbættar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð.  Þær eru nú aðgengilegar á heimasíðu Strandabyggðar og má nálgast hér.

Helstu breytingarnar eru þær, að inn eru komnar breyttar áherslur er varða annars vegar almenn samskipti og orðræðu, t.d. á samfélagsmiðlum og hins vegar er varðar hegðun, siðferði og framkomu og er þar m.a. tiltekið áreiti hvers konar.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón