A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 20. maí 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þetta er fjórði pistillinn með þessu heiti; „vikan að baki“; þar sem ég dreg fram nokkur af þeim fjölmörgu málum sem einkenna dagana hjá starfsmönnum sveitarfélagsins.  Það er von mín að þessir pistlar gefi innsýn í starfsemi sveitarfélagsins og séu upplýsandi og fræðandi fyrir íbúa.  Að auki má benda á forstöðumannaskýrslur og vinnuskýrslu sveitarstjóra, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Strandabyggðar.  Starf sveitarstjóra er fjölbreytt og lifandi og snertir ótrúlega marga fleti sveitarfélagsins. Skrifstofan er fámenn og því er óhjákvæmilegt annað en að fjölbreytileiki verkefna sé mikill, enda fer maður bara í þau verk sam þarf að vinna. 

 

Stjórnsýsluréttur

Tvo morgna í þessari viku, sat ég fjarnámskeið á vegum Háskóla Íslands sem kallast, „Hraðferð um stjórnsýsluréttinn“ og það var bæði áhugavert og gagnlegt.  Lagalegt umhverfi sveitarfélaga er þannig að margar ákvarðanir, sem í daglegu starfi gætu virkað einfaldar, verða að fylgja ströngum reglum, t.d. um tilkynningarskyldu, andmælarétt, hæfi ofl. 

Hringrásarhagkerfið

Á sama tíma sátu aðrir starfsmenn  fjarfund á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir yfirskriftinni „Kröfur til hins byggða umhverfis vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis“.  Tilefni fundarins eru breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og fleiri lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis sem innleiddar voru í íslenskt regluverk í júní 2021 og komu til framkvæmda um síðustu áramót. Með breytingunum eru gerðar frekari kröfur til flokkunar úrgangs á upprunastað og sérstakrar söfnunar ákveðinna úrgangsflokka á lóðum íbúa og lögaðila. Einnig eru gerðar kröfur til sveitarfélaga um rekstur grenndar- og söfnunarstöðva þar sem almenningur og fyrirtæki geta skilað úrgangi sem til fellur, eins og segir í fundarboðinu.  Sorpsamlag Strandasýslu undirbýr nú íbúafund þar sem lagðar verða fram tillögur að framkvæmd sorphirðu og aðgengi að starfsemi Sorpsamlagsins á Skeiði verður kynnt.

Málefni Grunnskólans

Framundan er sótthreinsun á skólahúsnæðinu og er verið skoða verðhugmyndir verktaka í það verk.  Haldinn var mjög góður samráðsfundur sveitarstjórnar og VERKÍS, sem heldur utan um verkefnið með okkur.  Verða slíkir fundir haldnir vikulega, auk allra annara samskipta þessara aðila.  Við erum á réttri leið og samstaða er í sveitarstjórn um aðgerðir.


Leikskólalóðin

Í uphafi vikunnr var auglýst eftir verðhugmyndum í jarðvegsvinnu á leikskólalóðinni. Landmótun hefur unnið teikningar og skissur með hæðarmælingum, sem stuðst verður við.  Það er mikið gleðiefni að geta nú loksins hafist handa við að endurgera lóðina.  Áherslan í sumar verður á jarðvegsvinnu, drenlögn og uppsetningu veggja og grindverks til að afmarka lóðina og um leið verja hana. 


Náttúrustofa Vestfjarða

Í lok vikunnar var ársfundur Náttúrustofu Vestfjarða.  Það var sérlega ánægjulegt að heyra af fjárhagslegum viðsnúningi og hagnaði af rekstri stofunnar.  Unnið er að því að skilgreina nýtt stöðugild á Ströndum, með aðsetur á Hólmavík.


Margt annað gerðist í vikunni; mannaráðningar sumarsins eru að skýrast, Tónskólinn lauk sínu starfi þennan veturinn með mjög flottri athöfn í Kirkjunni ofl ofl. 

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

 

 

 

 

 

Tónskólatónleikar kl 17:00 í dag

| 16. maí 2023
Nemendur Tónskólans koma fram á vortónleikum í kirkjunni í dag kl 17:00. Öll velkomin.

Vinna við lóð leikskólans Lækjarbrekku á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 15. maí 2023

Strandabyggð óskar eftir verðhugmyndum í vinnu við lóð leikskólans Lækjarbrekku á Hólmavík.  Um er að ræða jarðvinnu, drenlögn, uppbyggingu veggja og girðingar.  Nánari útfærsla skal unnin með starfsmönnum sveitarfélagsins. 

Gögn sem sýna teiningu af hönnun lóðar, hönnun veggja og grjótstalla og sniðmyndir sem sýna mismunadi möguleika á að taka upp hæðarmunin lóðar, eru aðgengilegar hjá sveitarstjóra, thorgeir@strandabyggd.is 


Allar nánari upplýsingar fást hjá sveitarstjóra (Þorgeir, 899-0020) og/eða forstöðumanni áhaldahúss (Sigurður Marinó, 894-4806). 

Verðhugmyndum skal skilað á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is fyrir kl 16, þann 22.5 2023, merkt "leikskólalóð ".  Strandabyggð áskilur sér rétt til að taka þeim tilboðum sem metin eru hagstæðust eða hafna öllum.


Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Niðurrif á milligangi

Þorgeir Pálsson | 15. maí 2023
Strandabyggð óskar eftir verðhugmyndum í niðurrif á milligangi milli skólabygginga við Grunnskólann á Hólmavík og lokunar og frágangs á báðum byggingum.  Förgun skal unnin í samráði við Sorpsamlag Strandasýslu og áhaldahús Strandabyggðar.

Allar nánari upplýsingar fást hjá sveitarstjóra og/eða forstöðumanni áhaldahúss.  Verðhugmyndum skal skilað á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is fyrir kl 16, þann 22.5 2023, merkt "milligangur grunnskóla".  Strandabyggð áskilur sér rétt til að taka þeim tilboðum sem metin eru hagstæðust eða hafna öllum.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti


Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 14. maí 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Vikan að baki var ekki ólík öðrum að því leyti, að það var nóg að gera hjá öllum. Það eru mörg verkefni á borðum allra starfsmanna og það sést t.d. vel í forstöðumannaskýrslum, sem eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, að verkefnin eru mörg og fjölbreytt.  Það er rétt að hrósa starfsmönnum öllum fyrir þeirra vinnuframlag undanfarið.  Allir leggja sig fram, oft undir miklu álagi og mannfæð. 

Endurnýjun tækja og búnaðar í íþróttamiðstöðinni

Undanfarna daga hafa starfsmenn Laugarinnar unnið að uppsetningu tækjabúnaðar sem lengi hefur verið beðið eftir.  Tækjabúnaður í sundlauginni hefur ekki verið endurnýjaður í áraraðir, en nú er verið að bæta úr því.  Sundlaugin er og verður áfram eitt helsta aðdráttarafl okkar hér á Hólmavík, sem og íþróttasalurinn, sem er í sífellt meiri notkun. 

BOFS

Fulltrúar Barna- og fjölskyldustofu, komu hingað í vikunni og fræddu okkur um áherslur við innleiðingu á nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.  Á fundinn komu einnig samstarfsaðilar okkar í Dalabyggð, Kaldrananeshreppi og Reykhólum, sem og fulltrúar heilbrigðisstofnunarinnar og lögreglu.  Þetta var mjög fræðandi og gagnlegur fundur og góður samstarfsandi í hópnum.  Framundan hvað Strandabyggð varðar, er að skipa starfshóp og innleiðngarteymi auk þess að tilnefna tengiliði og málastjóra. Framundan er einnig almenn kynning á farslædarlögunum og innleiðingu þeirra.

Grunnskólinn

Litli Klettur hefur lokið sinni vinnu.  Nú hefst uppbygging og framundan eru verðklannanir varðandi nýja glugga, hurðir, málun, gólfefni ofl.  Í þeirri stöðu sem ríkir á landinu varðandi aðgengi að verktökum og iðnaðarmönnum, þá getum við verið mjög sátt og ánægð með að hafa fengið Litla Klett í þetta verk, því vinnan sem þeir skiluðu var einstök.  VERKÍS á Ísafirði vinnur nú með okkur hvað varðar verkstjórn og hönnun yngri hlutans.  Sveitarstjórn hitti kennara í byrjun vikunnar uppi í skóla og fórum við þar yfir hugmyndir um nýtingu yngri hlutans.

Styrkur til kaupa á færanlegri skólastofu

Gleðifréttir vikunnar voru þær, að Strandabyggð fékk 24.4 milljónir í styrk frá Fiskeldissjóði, til kaupa á færanlegri kennslustofu, sem rúmar 20 nemendur.  Þetta gladdi okkur mjög og gerir okkur margt auðveldara þegar kemur að því að skipuleggja nýtingu á yngri hlutanum.

Vonbrigði vikunnar

Það hljóta að vera vonbrigði vikunnar að Diljá komst ekki áfram í Eurovision, en við sem og flestir aðrir reiknuðum fastlega með henni í lokakeppnina.  Umræðan og skrif á samfélagsmiðlum sýna, að hér í Strandabyggð eru margir Eurovision reynsuboltar dyggir aðdáendur keppninnar og vonandi hafa þeir samt náð að skemmta sér yfir lokakeppninni í gærkvöldi
 

Margt annað vannst í liðinni viku, þar á meðal stjórnarfundur í Sorpsamlagi Strandasýslu.  Þar erum við að skoða valkosti varðandi sorphirðu í þéttbýli og verður þetta kynnt innan tíðar fyrir íbúum.  Í sumar verður síðan farið í að afmarka starfsemina betur á Skeiði og skerpa línur varðandi aðgengi íbúa.

Að lokum er rétt að senda bændum góðar kveðjur með ósk um gott gengi í sauðburðinum sem nú er kominn vel af stað. 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón