Þorgeir Pálsson | 10. mars 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Nú liggur kostnaðarmat EFLU fyrir varðandi viðgerðarkostnað við grunnskólann. Þetta eru upplýsingar sem við höfum beðið spennt eftir. Tilkynningu um kostnaðarmatið má finna á heimsíðu Strandabyggðar.
Mörgum spurningum er eftir sem áður ósvarað og er það verkefni sveitarstjórnar nú, að skoða allar leiðir sem sýnilegar eru í stöðunni. EFLA bendir á tvær leiðir. Í umræðunni manna á meðal heyrist rætt um nýbyggingu og það er sannarlega ein leið. Eins er rætt um að rífa gamla hluta skólans og byggja nýjan hluta þar og gera svo við nýrri hluta gömlu byggingarinnar. Það er enn ein leið. Eins og staðan er, vitum við hver kostnaður við fyrstu tvær leiðirnar er áætlaður (leiðir 1 og 2 í skýrslu EFLU). Við vitum ekki hvað aðrar leiðir munu kosta, en þær upplýsingar munum við útvega. Og það mun kosta eitthvað að afla slíkra upplýsinga, því bara það að fá kostnaðarmat er kostnaður upp amk 500.000.- Það þarf engu að síður að gerast. Sveitarstjórn hefur alltaf sagt; það er ekki hægt að taka ákvörðun fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir. Á sveitarstjórnarfundi n.k. þriðjudag, verður kostnaðarmatið tekið fyrir og í framhaldi af þeim fundi, mun margt skýrast.
En það er ekki nóg að vita hvað hlutirnir kosta, við verðum að vita hvernig á að fjármagna þá. Staða Strandabyggðar er fjárhagslega veik og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir hvað grunnskólann varðar, mun hafa gífurleg áhrif, hvaða leið sem verður farin. Það er mikilvægt að við áttum okkur á samhenginu. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er mjög hátt og það þarf ekki miklar lántökur til að við rekumst í þakið hvað skuldaviðmið varðar.
Sveitarstjórn vinnur eins vel og hún getur að því að ýta þessum málum áfram. Eitt af því sem komið er á dagskrá næsta sveitarstjórnarfundar eru kaup á færanlegum skólastofum. Það mál hefur verið í skoðun frá upphafi, en sveitarstjórn hefur alltaf sagt, að það er ekkert hægt að ákveða um hugsanleg kaup á færanlegum skólastofum, fyrr en kostnaðarmatið liggur fyrir. Nú er það komið og þá tökum við næsta skref. Svona vinnst þetta. Við megum ekki fara á undan okkur á nokkurn hátt.
Kæru íbúar Strandabyggðar. Öll viljum við nemendum og starfsmönnum grunnskólans vel og það er enginn sáttur við stöðuna. En, stundum standa menn einfaldlega frammi fyrir stöðu sem þessari. Og horfum á jákvæðu hliðarnar; við erum þó amk með aðstöðu á þremur stöðum og kennsla gengur bara nokkuð vel. Lausnin er samt sem áður til skamms tíma og við munum taka ákvörðun um langtíma lausn, um leið og forsendur til þess liggja fyrir.
Um helgina er mikil hátíð í Strandabyggð; Strandagangan. Við óskum öllum sem koma að þessum viðburði og þeim sem taka þátt góðs gengis, en umfram allt góðrar skemmtunar.
Njótum helgarinnar og alls þess jákvæða og góða sem Strandabyggð hefur fram að færa!
Kveðja og góða helgi,
Þorgeir Pálsson
Oddviti