A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 29. maí 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nokkur orð um síðustu viku, sem var um margt viðburðarrík.

Hótelbygging

Hápunktur liðinnar viku er að mínu mati undirskrift viljayfirlýsingar um hótelbyggingu hér á Hólmavík.  Þessi undirskrift er stórt skref í þá átt að hér rísi glæsilegt, 60-70 herbergja hótel.  Með tilkomu slíks hótels hér á Hólmavík, er augjóst að staða okkar í ferðaþjónustu á Vestfjarða- og landsvísu, styrkist mikið. Með alla þá afþreyingu sem hér er í boði, er líka ljóst að samstarfsmöguleikar milli ferðaþjóna og hótelsins eru miklir og vonandi hvetur þetta til aukins framboðs á hvers kyns afþreyingu í Strandabyggð.  Það verður því mjög spennandi að fylgjast með þeirri skipulags- og hönnunarvinnu sem nú er framundan.  Þetta er mikið og tímabært tækifæri fyrir Strandabyggð!

Starfsmaður í sorpi

Á miðvikudag skrapp ég sem starfsmaður Sorpsamlagsins í Árneshrepp, við annan mann.  Það var hressandi að komast aðeins út og takast á við það verkefni að sækja rusl.  Og það var nóg af því.  Ferðin gaf okkur líka tækifæri til að hugleiða og endurmeta þjónustuframboð okkar gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum í Árneshrepi og raunar í Bjarnarfirði líka.  Svo er náttúrufegurðin á þessari leið auðvitað einstök. 

Grunnskólinn

Vinna við grunnskólan heldur áfram. Búið er að sótthreinsa yngri hlutann og raunar hluta gamla hlutans líka, en það liggur fyrir að við getum nýtt anddyrið, salernin og sérkennslustofurnar í gamla hlutanum.  Verður lokað inn á ganginn, og aðeins þetta rými nýtt.  Næsti verkþáttur er að leggja hitalagnir í gólf og steypa ílögn.  Samhliða þessu verður kallað eftir verðhugmyndum í glugga og hurðir.  Þetta þróast allt í rétta átt.

Sauðfé og girðingar

Brátt sér fyrir endann á sauðburði og vonandi hefur þetta gengið vel hjá öllum.  Girða þarf nokkuð stóran kafla á leiðinni frá Heiðabæ út að Heydalsá og viðræður eru í gangi við Vegagerðina um amk eitt ristarhlið á þeirri leið, inn í Miðdal.  Verður girðingarefni, staurar og tilheyrandi pantað í komandi viku.

Verktakavinna

Ein umsókn barst um viðhald með girðingunni frá Grjótá að Hrófá og verður gengið frá samningi í komandi viku.  Kominn er verktaki í jarðvegsvinnu vegna drenlagna við grunnskólann.  Enginn sótti formlega um slátt á opnum svæðum í sveitarfélaginu, en við erum þó vongóð um að lausn finnist.  Þá er verið að vinna að því að fá verktaka í leikskólalóðina, en þar þarf að hefja framkvæmdir sem fyrst.  Mönnun verkefna er eitt helsta vandamál sveitarfélaga um allt land þessa dagana og við erum þar engin undantekning.

Það er nóg í gangi enn meira framundan í Strandabyggð.  Svo er bara að vona að veðrið fari að spila betur með okkur, þannig að við getum farið að vinna í görðunum okkar og njóta umhverfisins. 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Viljayfirlýsing vegna uppbyggingar hótels á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 26. maí 2023
« 1 af 2 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar á Hólmavík. Þetta eru mikil og gleðileg tíðindi fyrir okkur í Strandabyggð og í raun Vestfirði alla.  Fulltrúar Fasteignaumsýslunnar ehf komu hingað norður og það var Friðjón Sigurðarson sem skrifaði undir fyrir þeirra hönd.  Oddvitar beggja lista í sveitarstjórn Strandabyggðar, Þorgeir Pálsson og Matthías Sævar Lýðsson, skrifuðu undir fyrir hönd sveitarfélagsins.  Að auki voru þarna viðstaddir aðrir fulltrúar fjárfesta, arkitektar og sveitarstjórnar.

Með þessari viljayfirlýsingu er skriflega staðfestur sá vilji beggja að hér rísi allt að 70 herbergja hótel.  Fer nú af stað skipulagsvinna sem bæði snýr að aðalskipulagi sveitarfélagsins og eins deiliskipulagi hótelreitsins.  Hótelið verður staðsett á klettabrúninni fyrir neðan tjaldsvæðið og verður útsýni þaðan algerlega einstakt á landsvísu og þótt víðar væri leitað.

Sem fyrr segir, mun hótelbyggingin hafa í för með sér breytingar á skipulagi og verður sú vinna unnin undir stjórn fyrirtækisins Landmótunar, sem vinnur að endurskoðun aðalskipulags Strandabyggðar.  Einnig liggur fyrir endurskipulagningu á núverandi tjaldsvæði, aðkomu og gerð bílastæða fyrir hótelið, sem verða samnýtt með annari starfsemi á svæðinu.  Mikil áhersla er lögð á að skapa heildstæða mynd af svæðinu.  Framundan er líka gatnagerð, endurhönnun stíga og opinna svæða auk margra annara verkþátta sem verða kynntir þegar fram líður.

Það eru sannarlega spennandi tímar framundan í Strandabyggð!

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Auka-sveitarstjórnarfundur nr. 1347, 31. maí 2023

Þorgeir Pálsson | 26. maí 2023

Auka-fundur nr. 1347 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn miðvikudaginn 31. maí kl. 12.30 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Ársreikningur Strandabyggðar 2022, seinni umræða - til afgreiðslu
  2. Viðauki I, við fjárhagsáætlun 2023 - til afgreiðslu
  3. Staðfesting á stofnframlagi Strandabyggðar vegna húsbyggingar Brákar - til afgreiðslu
  4. Samstarf um haftengd verkefni, minnisblað og viljayfirlýsing - til afgreiðslu
  5. Fagháskólanám í leikskólafræðum - til afgreiðslu
  6. Viljayfirlýsing um skipulagsmál vegna hótelbyggingar - til afgreiðslu
  7. Strandabyggð, lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga - til afgreiðslu
  8. Hólmavíkurhöfn, lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga - til afgreiðslu
  9. Sorpsamlag Strandasýslu, fundargerð 12.5.23 - til afgreiðslu
  10. Hafnarsamband Íslands, fundargerð 453 frá 17.5.23 – til kynningar
  11. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð 926 frá 17.5.23 - til kynningar

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

 

Þorgeir Pálsson

Jón Sigmundsson

Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir

Matthías Sævar Lýðsson

Hlíf Hrólfsdóttir

 

Stefnt er á að streyma fundinum á youtube síðu Strandabyggðar https://www.youtube.com/channel/UCeIjqjE2w2-V0IMQ9ZxplvA

 

Strandabyggð  26. maí 2023

Þorgeir Pálsson oddviti

Niðurrif á milligangi - framlenging skilafrests verðhugmynda

Þorgeir Pálsson | 25. maí 2023
Ákveðið hefur verið að framlengja skilafrest verðhugmynda til kl 12 á hádegi, þriðjudaginn 30. maí n.k.

Allar nánari upplýsingar fást hjá sveitarstjóra og/eða forstöðumanni áhaldahúss.  Verðhugmyndum skal skilað á netfangið 
strandabyggd@strandabyggd.is fyrir kl 12, þann 30.5 2023, merkt "milligangur grunnskóla". 

Strandabyggð 
áskilur sér rétt til að taka þeim tilboðum sem metin eru hagstæðust eða hafna öllum.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu í Strandabyggð

| 24. maí 2023

Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu í Strandabyggð

Heimaþjónusta er margvísleg aðstoð við heimili, fjölskyldur og einstaklinga og tekur til eftirfarandi þátta:
 Aðstoð við heimilishald
 Félagslegur stuðningur
 Aðstoð við persónulega umhirðu sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar
 Tilsjón og aðstoð vegna umönnunar barna og unglinga þegar um erfiðar fjölskylduaðstæður er að ræða sbr. 24.gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002
 Heimsending matar
Leitast er við að koma til móts við þarfir hvers og eins.

Nánari upplýsingar veitir Soffía Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri í síma 451-3510 eða á netfangið felagsmalastjori@strandabyggd.is

Umsóknarfrestur er til og með 2. júní 2023. 

Umsóknir sendist á skrifstofu Strandabyggðar, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík eða á netfangið felagsmalastjori@strandabyggd.is 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón