A A A

Valmynd

Prófað í Heimilisfræði í 7. bekk

| 17. maí 2011
Áhugasamir og efnilegir nemendur 7. bekkjar í Heimilisfræði.
Áhugasamir og efnilegir nemendur 7. bekkjar í Heimilisfræði.

Eins og fram kemur á bekkjarvef 7. bekkjar hafa nemendur nú lokið síðasta verkefni skólaársins í Heimilisfræði. Að mörgu þurfti að hyggja svo sem hreinlæti og snyrtimennsku, skipulagi, nákvæmni og vandvirkni í vinnubrögðum, samstarfi og tillitssemi. Einnig þurfti frágangur áhalda og efna að vera í lagi og síðan fékk sköpunargleðin að njóta í lokaútfærslunni.

Að sögn Hrafnhildar Guðbjörnsdóttur umsjónarkennara og heimilisfræðikennara verður áfram hægt að æfa heimilisfræðina á heimilum, til dæmis með þátttöku í eldhússtörfum, innkaupum, tiltekt og þrifum. Það voru heppnir starfsmenn og nemendur grunnskólans sem rákust á hópinn í dag og fengu að gæða sér á kræsingunum en eins og sjá má af myndunum sem sjá má hér þótti afraksturinn sérlega girnilegur og gómsætur. http://www.strandabyggd.is/grunnskolinn_myndasida/84/

Vorferðir og skemmtilegheit

| 15. maí 2011
3. og 4. bekkur á Eiríksstöðum.
3. og 4. bekkur á Eiríksstöðum.
Nú standa yfir vorferðir ýmisa bekkja með tilheyrandi skemmtilegheitum. 3. og 4. bekkur fór í vorferð með Ingibjörgu Emilsdóttur umsjónarkennara sínum á Eiríksstaði í Haukadal þar sem þau skoðuðu bæ Eiríks rauða og fæðingarstað Leifs Heppna. Þar fóru þau um 1000 ár aftur í tímann, fengu sögustund við langeldinn og sáu hvernig fólkið bjó á tímum Eiríks rauða. Nemendur gengu um lifandi sögusýningu og prófuðu fatnað landnámsmanna. Á heimleiðinni var komið við á Erpsstöðum þar sem nemendur kynntust lífinu í sveitinni og sáu þar lömb, fugla, svín, geitur, hesta og kýr og síðast en ekki síst var smakkað á hinum margrómaða Erpsstaðaís sem er heimagerður rjómaís af bestu gerð. Myndir frá ferð 3. og 4. bekkjar má sjá hér.

1. og 2. bekkur er búinn að kíkja í sveitina inn á Stóru-Grund hjá Heiðu og Kalla með Völu, Kristjönu, Siggu og Iggu og sáu þar lömb fæðast og kynntust lífinu í sveitinni þar. Á heimleið heillaði fjaran nemendur og því var komið við þar ásamt því að heimsækja hænurnar hjá Ingu og Bjarka á Borgabrautinni. Í næstu viku fara þau í sína vorferð sem verður án efa skemmtileg. Myndir frá 1. og 2. bekk í leik og starfi í maí má sjá hér.

Nemendur okkar fá að hjálpa til við vitjun á fiðrildagildrum

| 15. maí 2011
Mynd fengin af vef Strandabyggðar.
Mynd fengin af vef Strandabyggðar.

Eftir páska hafa nemendur okkar farið með Hafdísi Sturlaugsdóttur starfsmanni Náttúrustofu Vestfjarða og hjálpað til við vitjun á fiðrildagildrum í Stakkamýri og við Þverárvirkjun. Vitjað er um gildrurnar á hverjum föstudegi frá miðjum apríl til byrjun nóvember. Nemendur munu aðstoða við vitjun gildranna fram að lokum skólans og möguleiki er að halda áfram á nýju skólaári í haust. Nemendurnir fá fræðslu um þau skordýr sem sjást í gildrunum og sérstaklega um lífsferil fiðrilda. Einnig fá þau fræðslu um gróðurlendið sem gildrurnar eru í.


Nú hafa nemendur í 7., 8. og 9. bekk ásamt kennurum sínum og Hafdísi vitjað um gildrurnar. Þann 6. maí veiddist eitt fiðrildi í Stakkamýri og nokkrar flugur en í gildrunni við Þverárvirkjun voru 31 fiðrildi og 36 flugur af mismunandi tegundum. Hópurinn var mjög áhugasamur og fannst gaman að fá að skoða fiðrildi og krækilyngsblóm með stækkunargleri. Við þökkum Hafdísi hjá Náttúrustofu Vestfjarða kærlega fyrir að bjóða okkur með í þessar skemmtilegu og fróðlegu ferðir.

Tónaflóð 2011 á miðvikudag

| 10. maí 2011
Stórskemmtilegir fjáröflunartónleikar félagsmiðstöðvarinnar Ozon og nemendafélags Grunnskólans verða haldnir í Félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudaginn 11. maí kl. 19:30. Þar stíga á stokk hljóðfærasnillingar úr Tónskólanum auk frábærra söngvara á öllum aldri. Fjöldi slagara er á efnisskránni og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi! Sjoppa verður á staðnum. Aðgangseyrir eru kr. 1.000.- fyrir fullorðna, 500 krónur fyrir 6-16 ára og frítt fyrir yngri. Ekki missa af þessari frábæru skemmtun sem styður um leið við félagslíf allra krakka í Grunnskólanum á Hólmavík!!

Skóli að loknu páskafríi

| 26. apríl 2011
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Vonandi hafið þið haft það ljúft og gott í páskafríinu. Við hefjum skólastarfið eftir páskafrí á starfsdegi miðvikudaginn 27. apríl en nemendur okkar mæta svo samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 28. apríl. Sjáumst hress og kát á fimmtudaginn.

Umhverfisdagur á föstudaginn

| 13. apríl 2011

Umhverfisdagur Grunnskólans á Hólmavík verður haldinn fimmtudaginn 15. apríl nk. Dagurinn hefst á smiðjuvinnu þar sem nemendum er skipt eftir aldursstigi í smiðjur sem fara fram innandyra. Yngsta stigið, 1.-4. bekkur, vinnur í töskugerð þar sem endurunnið efni er notað til að skapa nýja afurð. Á miðstigi, 5.-7. bekkur, er unnið að skartgripagerð og á unglingastigi, 8.-10. bekk er unnið að skiltagerð með umhverfisslagorðum. Eftir það verður farið í ratleik í umhverfi skólans. Þá tekur við skemmtidagskrá þar sem nemendur sýna ýmislegt sem þeir hafa verið að hanna og dúllast við í vetur. Um hádegi syngjum við saman, fáum okkur súpu og brauð og grillum sykurpúða.
Á umhverfisdeginum fáum við góða gesti frá Grunnskólunum á Reykhólum og Drangsnesi.

Dagskrá umhverfisdagsins má sjá hér http://strandabyggd.is/ymsar_skrar/skra/208/

Vortónleikar Tónskólans á miðvikudags- og fimmtudagskvöld

| 12. apríl 2011

Einn af hinum ljúfu vorboðum í Strandabyggð eru vortónleikar Tónskólans á Hólmavík. Þeir verða haldnir í Hólmavíkurkirkju miðvikudags- og fimmtudagskvöldið 13. og 14. apríl kl. 19.30. Þar munu tæplega 70 nemendur Tónskólans stíga á svið og flytja vel valin tónlistaratriði fyrir tónleikargesti undir stjórn tónlistarkennaranna Önnu Sólrúnar, Bjarna Ómars, Barböru Óskar, Viðars og Stefáns Steinars. Þau eru fjölbreytt og skemmtileg verkefnin sem Tónskólinn hefur tekið þátt í í vetur og hefur það verið ánægjulegt og gefandi að fylgjast með nemendum vaxa og dafna og eru tónleikar sem þessir frábært mat á því starfi sem fer fram í Tónskólanum. Aðgangur er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir á tónleikana.

Efnisdagskrá tónleikanna má sjá hér http://strandabyggd.is/ymsar_skrar/skra/206/

Leiksýningin Rauðhetta í Bragganum á fimmtudag.

| 12. apríl 2011
Foreldrafélag Leikskólans Lækjarbrekku auglýsir Leiksýninguna Rauðhettu sem sýnd verður í Bragganum fimmtudaginn 14. apríl kl. 17:00. Sýningin er í útsetningu leikhópsins Lottu en leikendur eru grunnskólanemar í Grunnskólanum á Drangsnesi. Sýningin var sýnd á árshátíð Grunnskólans á Drangsnesi fyrir stuttu og sló heldur betur í gegn. Nú er komið að því að sýna á Hólmavík en í leikritinu blandast sögur Rauðhettu og úlfsins, grísanna þriggja og Hans og Grétu. Leikritið hæfir öllum aldurshópum en mælst er til þess að börn frá 1.-4. bekk komi í fylgd fullorðinna. Aðgangseyrir er 500 kr. á barn en frítt er fyrir fullorðna sem koma með börnum.

Niðurstöður foreldrakönnunar I

| 07. apríl 2011
Í nóvember sl. framkvæmdi innra mats teymi Grunnskólans á Hólmavík foreldrakönnun með það að leiðarljósi að kanna viðhorf foreldra til agamála, eineltis, skólastjórnenda, starfsmanna, námsefniskynninga, bekkjarnámskráa, upplýsingagjöf um markmið og leiðir í námi, upplýsingagjöf um stöðu nemenda í ákveðnum greinum, heimanám, þemadaga og líðan nemenda. Könnunin var sett upp á rafrænt með 14 spurningum um skólastarfið sem foreldrar svöruðu á tölvu fyrir eða eftir foreldraviðtal í nóvember. Eftir það fékk fyrirtækið Outcome svörin í hendur, rafrænt, og greindi upplýsingarnar og sendir okkur niðurstöðurnar. Könnunin var liður í því að bæta skólastarfið með markvissum hætti en samkvæmt 36. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að hver grunnskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Matið á að leiða til umbóta sem þýðir að niðurstöður þess á að nota til að vinna að umbótum í skólastarfinu. Það er gert með því að setja fram umbótaáætlun þar sem koma fram þeir þættir sem þarfnast umbóta, til hvaða aðgerða á að grípa, hver er ábyrgur fyrir hverri aðgerð, hvenær hún á að komast til framkvæmda og hvenær eigi að meta hvort aðgerðin hafi skilað ávinningi og það er það sem innra mats teymið hefur haft að leiðarljósi í vinnu sinni í vetur. Hér má sjá niðurstöður foreldrakönnunar á PDF-formi.

Arnór í 5. sæti í stærðfræðikeppni

| 04. apríl 2011
Arnór stærðfræðisnillingur um borð í skólaskipinu Dröfn.
Arnór stærðfræðisnillingur um borð í skólaskipinu Dröfn.

Í lok mars kepptu nokkrir nemendur unglingadeildarinnar í árlegri keppni þriggja efstu árganga grunnskóla í stærðfræði sem fór fram í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Mikill fjöldi nemenda úr ellefu skólum tók þátt í keppninni. Verkefnin sem lögð voru fyrir í keppninni komu frá hópi fólks sem tengist Flensborgarskóla í Hafnarfirði og að venju var sams konar keppni háð á sama tíma víðar um land. Úrslit í keppninni voru tilkynnt við athöfn á sal Fjölbrautarskólans laugardaginn 2. apríl sl. og þar kom í ljós að Arnór okkar Jónsson, nemandi í 10. bekk, lenti í 5. sæti í keppninni. Arnór fór á Akranes ásamt foreldrum sínum og tók á móti viðurkenningunni. Við erum afar stolt af Arnóri og óskum honum innilega til hamingju með árangurinn.

Eldri færslur

Bekkjavefir

Atburðadagatal

« Janúar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Næstu atburðir