Alþjóðlegt þaraverkefni í Strandabyggð
Verkefni fyrirtækisins Fine Foods Íslandica ehf hlýtur rúmar 10.2 milljón íslenskra króna fjárstyrk fyrir EU Horizon Project.
Fine Foods Íslandica ehf og samstarfsaðilar hafa hlotið 70.000 € styrk frá Evrópusambandinu til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins 2024-2026. Verkefnið er samstarf Fine Foods Íslandica ehf., Háskólaseturs Vestfjarða og Strandabyggðar, sem kemur að verkefninu sem opinber ábyrgðaraðili. Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.
Atlantic-Arctic AGORA (A-AAGORA), er hluti af mun stærra verkefni, EU Horizon Project sem styður við markmið framkvæmdarstjórnar Evrópu um verndum og uppbyggingu haf- og vatnasvæða fyrir árið 2030 og er þar heildar fjárhæðin 9.778.174,76 € eða rúmur 1.4 milljarður íslenskra króna. Þar er markmiðið hjá A-AAGORA að þróa nýstárlegar lausnir til að virkja bláa hagkerfið í sjávarbyggðum. Í ferlinu er lögð áhersla á þátttöku nærsamfélagsins og hagsmunaaðila á sama tíma og tryggja þarf umhverfisvernd og stuðla að félagslegri seiglu.
Helstu samstarfsaðilar A-AAGORA eru sveitarfélög í Noregi, Írlandi, Portúgal og á Íslandi tekur Strandabyggð þátt, eins og fyrr segir. Allir þessir aðilar eru í samstarfi við rannsóknarhópa og sérstaklega Trøms-sveitarfélagið í Noregi, sem prófar og metur lausnir fyrir sveitarfélög á Norður-Íshafssvæðinu.
Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:
- Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
- Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
- Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.
Þorgeir Pálsson sveitarstjóri er fulltrúi Strandabyggðar. Jamie Lee hjá Fine Foods Íslandica ehf. er framkvæmdastjóri verkefnisins og ber rekstrarlega ábyrgð á verkefninu. Hún, ásamt Bergsveini Reynissyni hjá Nesskel ehf. munu miðla sinni þekkingu, og veita þjálfun í verklegri framkvæmd. Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir rannsóknum á líffræðilegum fjölbreytileika í kringum þararæktun og mun Alexandra Tyas, fjórða árs Ph.D. nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands stýra rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni. Dr. Catherine Chambers er fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða og sér um að upplýsa hagsmunaaðila varðandi þær rannsóknir. Fine Foods Íslandica hefur unnið mikla rannsólknarvinnu að undanförnu og verður sú vinna notuð sem grunnur í rannsóknir Háskólaseturs Vestfjarða.
Fulltrúum hvers hóps er skylt að mæta á mánaðarlega netfundi og þrjá staðfundi/vinnustofu. Fjárhagsleg umsýsla er í höndum skrifstofu- og fjármálastjóra Strandabyggðar, Salbjörgu Engilbertsdóttur í samstarfi við Fine Foods Íslandica ehf. Endanleg skýrsla um fjárhag verkefnisins verður verður gerð opinber eftir að verkefninu lýkur í maí 2026.
Styrkurinn mun standa undir mestum kostnaði við verkefnið og Fine Foods Íslandica ehf. mun einnig leggja fram um 2,5 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem geta komið upp.
Íbúum Strandabyggðar verður boðið á opinn fund í Hnyðju fimmtudaginn 27. mars kl 16.00-17.30, þar sem verkefnið í heild sinni verður kynnt fyrir áhugasömum. Þar munu aðstandendur þess svara öllum þeim spurningum sem geta legið á fólki, og þeir sem vilja skrá sig til að taka þátt í verkefninu geta gert það á fundinum.
Fyrir hönd aðstandenda verkefnisins
Þorgeir Pálsson