A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íslandsmet í hópplanki verður sett á Hamingjudögum

| 28. júní 2011
Sveitarstjóri Strandabyggðar er toppplankari - ljósm. JG
Sveitarstjóri Strandabyggðar er toppplankari - ljósm. JG
« 1 af 2 »
Menn gera sér ýmislegt til gamans. Eitt af því sem  hefur farið sigurför um Ísland og heiminn að undanförnu er plankið svokallaða. Plankið snýst í stuttu máli um að menn leggjast á magann, helst á óvenjulegum stað eða aðstæðum, með andlit á grúfu, hendur meðfram síðum með lappir og tær beinar. Plankið er síðan skýrt einhverju nafni og því deilt á internetinu. Fyrirbærið er sannkallaður og óvenjulegur gleðigjafi og skemmtilegt áhugamál svo lengi sem menn fara sér ekki að voða.  

Á föstudegi á Hamingjudögum á Hólmavík er stefnt að því að setja formlegt Íslandsmet í hópplanki með því að fá sem flesta gesti á kvöldvöku á Klifstúni til að planka í einu. Menn eru hvattir til að æfa sig úti í garði fram að hópplankinu. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu þó að fara varlega í að planka í grasinu og rétt er að minna menn á að planka ekki á hættulegum stöðum.  

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd sem sýnir hárrétt plank; rétta og fallega líkamsstöðu, óvenjulegan stað og aðstæður og sannkallaða plankgleði og hamingju. Plankarinn er enginn annar en Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Vettvangur sveitarstjóraplanksins er Galdrasýning á Ströndum. Ingibjörg mun einmitt halda setningarræðu Hamingjudaga á kvöldvökunni á föstudagskvöldið næsta.  

Sjáið dagskrá Hamingjudaga með því að smella hér.
 

Dagskrá Hamingjudaga liggur ljós fyrir!

| 27. júní 2011
Hamingjudagar nálgast óðfluga - ljósm. Kristín Einarsdóttir
Hamingjudagar nálgast óðfluga - ljósm. Kristín Einarsdóttir
Dagskrá Hamingjudaga liggur nú fyrir á vef hátíðarinnar www.hamingjudagar.is, en auk þess var dagskrárbæklingur sendur út með landpóstinum í dag og ætti því að vera komin í hvert hús á Ströndum og nágrannasveitarfélögum á morgun, þriðjudag. Dagskráin er afskaplega viðamikil og hentar fyrir alla fjölskylduna, en meðal þess fjölmarga sem er í boði má nefna tónleika með Pollapönki og Svavari Knúti, hamingjusmiðju Ásdísar Olsen, listverkasýningar ýmissa listamanna, trommuhring Karls Ágústs Úlfssonar, frumsýningu á einleiknum Skjaldbakan, dansleik með Geirmundi Valtýssyni, námskeið í hláturjóga, Hnallþóruhlaðborð og Hamingjuhlaupið sem nú er hlaupið í þriðja skipti.

Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar með því að smella hér.

Fólk er hvatt til að skoða dagskrána vel og vandlega og mæta á Hamingjudaga með gleði og hamingju í farteskinu! Til hamingju!

Hrein fegurð

| 27. júní 2011
Umhverfisdagur á Hólmavík 25. júní 2011. Myndir IV.
Umhverfisdagur á Hólmavík 25. júní 2011. Myndir IV.
« 1 af 16 »
Umhverfisvikunum sem nú standa yfir er tekið fagnandi af Strandamönnum. Íbúar tóku heldur betur til hendinni á umhverfisdegi á Hólmavík sem haldinn var um helgina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og Hólmavíkurkirkja lét ekki sitt eftir liggja því í dag komu sjálfboðaliðar og hreinsuðu stéttar og umhverfi í kringum kirkjuna. Sorpsamlag Strandasýslu mun vera með aukagáma fyrir timbur og járnarusl í Gula hverfinu á eftirtöldum stöðum í sumar:

- Bitrufjörður dagana 27. júní - 1. júlí 2011
- Kollafjörður dagana 4. - 8. júlí 2011
- Tungusveit dagana 11. - 15. júlí 2011
- Ísafjarðardjúp dagana 18. - 22. júlí 2011

Eru allir íbúar hvattir til að taka þátt í hreinsunarátakinu.

Umhverfisdagur í rauða, bláa og appelsínugula hverfinu

| 24. júní 2011
Starfsmenn Áhaldahúss Strandabyggðar taka rusl úr hverfum laugardaginn 25. júní 2011. Mynd IV.
Starfsmenn Áhaldahúss Strandabyggðar taka rusl úr hverfum laugardaginn 25. júní 2011. Mynd IV.

Umhverfisdagur er haldinn á Hólmavík laugardaginn 25. júní 2011. Íbúar eru hvattir til að hreinsa til í kringum húsin sín og á opnum svæðum í hverfum sínum. Hægt er að fara með rusl í Sorpsamlag Strandasýslu sem verður með opið milli kl. 14:00 - 17:00, auk þess sem starfsmenn Áhaldahúss munu fara um bæinn og taka rusl á eftirfarandi tímum og eru íbúar hvattir til að aðstoða við að setja á bílpallinn eftir þörfum:


- 14:00 Bláa hverfið.
- 15:00 Appelsínugula hverfið
- 16:00 Rauða hverfið

...
Meira

Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn 27. júní 2011

| 24. júní 2011
Útskriftardagur í leikskólanum Lækjarbrekku. Mynd IV.
Útskriftardagur í leikskólanum Lækjarbrekku. Mynd IV.
Vilt þú vinna í skemmtilegu og líflegu umhverfi við bæði gefandi og skapandi starf? Spennandi tímar eru framundan í leikskólanum Lækjarbrekku. Starfsfólk leikskólans er að hefja stefnumótunarvinnu fyrir skólann og er fyrirhugað að innleiða nýja leikskólastefnu næsta vetur. Leikskólinn Lækjarbrekka auglýsir tvö störf haustið 2011:

Leikskólakennari - leiðbeinandi

Auglýst er eftir leikskólakennara í 100% starf. Um er að ræða tímabundna stöðu til eins árs. Starfsmaður þarf að geta hafið störf þann 26. júlí 2011.

Nýtt starf
Leikskólinn Lækjarbrekka auglýsir nýtt starf matráðs og ræstitæknis. Um er að ræða 100% starf frá kl. 08:00 - 16:00. Umsækjandi þarf að geta hafið störf þann 26. júlí 2011.

Leitað er eftir öflugu starfsfólki sem hefur gaman af börnum, býr yfir góðri samskiptahæfni og hefur ríka þjónustulund. Einnig er skipulagshæfni og jákvæðni mikilvægur kostur.

Nánari starfslýsingar er hægt að nálgast á skrifstofu leikskólastjóra eða í síma 451 3411 milli kl. 13:00 og 16:00 alla virka daga. Einnig er hægt að senda tölvupóst á leikskólastjóra í netfangið: leikskolastjori@holmavik.is

Umsækjendur eru beðnir um að skila inn umsóknum á skrifstofu sveitarfélagsins að Höfðagötu 3, ásamt ferilskrá og meðmælendum fyrir kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 27. júní 2011. Þeir sem eiga eldri umsóknir um störf á leikskólanum Lækjarbrekku eru beðnir um að endurnýja umsóknir sínar. Leikskólastjóri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum standist þær ekki kröfur.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón