A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Frestur fyrir Hugmyndatorg rennur út á morgun

| 19. maí 2011
Hólmavík - ljósm. Jón Jónsson.
Hólmavík - ljósm. Jón Jónsson.
Á morgun, föstudaginn 20. maí, rennur út frestur fyrir íbúa til að senda inn hugmyndir að verkefnum sem mögulegt væri fyrir Áhaldahús og Vinnuskóla Strandabyggðar að vinna að í sumar. Allar hugmyndir eru vel þegnar, fögnum sérstaklega hugmyndum sem kosta lítið en gera mikið! Margt smátt gerir eitt stórt. Einnig rennur út frestur á morgun fyrir þá unglinga sem hyggjast starfa í Vinnuskólanum í sumar.

Hugmyndir má senda á: strandabyggd@strandabyggd.is merkt Hugmyndatorg eða skila inn hugmyndum á skrifstofu Strandabyggðar fyrir 20. maí n.k. Íbúar eru hvatttir til að láta í sér heyra - engin hugmynd er of lítil!

Sorpsamlag Strandasýslu auglýsir eftir starfsmanni

| 18. maí 2011

Sorpsamlag Strandasýslu auglýsir eftir starfsmanni í óákveðinn tíma í fullt starf.  Umsækjendur þurfa að hafa réttindi á smávélar, hleðslukrana og til aksturs vörubíla.  Umsóknarfrestur er til 1. júní, umsóknum skal skilað til Sorpsamlagsins Skeiði 3 á Hólmavík, nánari upplýsingar hjá framkvæmdastjóra í síma 893 3531.

 

Sorpsamlag  Strandasýslu.

Lagasamkeppni Hamingjudaga föstudaginn 20. maí

| 17. maí 2011
Hamingjulagið 2010 flutt á sviði - ljósm. Jón Jónsson
Hamingjulagið 2010 flutt á sviði - ljósm. Jón Jónsson
Lagasamkeppni Hamingjudaga verður haldin næstkomandi föstudagskvöld, þann 20. maí kl. 20:00, í Félagsheimilinu á Hólmavík. Hvorki fleiri né færri en sjö lög keppa um að verða kosið Hamingjulagið 2011, en áhorfendur í sal fá það hlutverk að kjósa það lag sem þeim finnst best. Stigahæsta lagið fer síðan með sigur af hólmi og verður gefið út fyrir Hamingjudagana sem fara fram 1.-3. júlí í sumar. Nöfnum höfunda er haldið leyndum þar til úrslit liggja fyrir, en allnokkrir flytjendur ferðast um langan veg til að taka þátt í keppninni í ár. Lagaflóran er allt frá djassskotnum vísnasöng að teknói. Allir eru hjartanlega velkomnir á keppnina, en aðgangseyrir er aðeins kr. 1000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir börn á grunnskólaaldri.

Skoðaðir verði kostir og gallar sameiningar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar

| 16. maí 2011
Oddvitar horfa til framtíðar. Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar og Halla Sigríður Steinólfsdóttir oddviti Dalabyggðar. Myndir IV.
Oddvitar horfa til framtíðar. Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar og Halla Sigríður Steinólfsdóttir oddviti Dalabyggðar. Myndir IV.
« 1 af 9 »

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur óskað eftir að starfshópur um eflingu sveitarstjórnarstigsins skoði sérstaklega kosti og galla sameiningar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar ásamt því að skoða aðra sameiningarmöguleika innan Vesturlands.

Með tilkomu vegarins um Arnkötludal hefur landslagið breyst á þessu svæði og möguleikar á samstarfi stóraukist. Nú þegar hafa sveitarfélög á Ströndum og Reykhólahreppur stofnað sameiginlega félagsþjónustu auk þess sem Reykhólahreppur er að skoða aðkomu að Sorpsamlagi Strandasýslu.

Sveitarstjórnarfólk úr Dalabyggð heimsótti sveitarstjórn Strandabyggðar á dögunum og þann 5. maí s.l. var sveitarstjórnarfólki úr bæði Strandabyggð og Reykhólahreppi boðið til kvöldverðar í Leifsbúð í Búðardal. Þar kynnti Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar starfsemi sveitarfélagsins og Halla Sigríður Steinólfsdóttir kynnti sögu og enduruppbyggingu Leifsbúðar sem hefur tekist vel til. 

Þá var farið óformlega yfir samstarfsmöguleika sveitarfélaganna þriggja og rætt hvaða sameiginlegu hagsmunir eru í húfi. Framkvæmdastjórum sveitarfélaganna var falið að fylgja umræðunni eftir og skoða mögulega samstarfsfleti.

Reglur um refa- og minkaveiðar í Strandabyggð

| 16. maí 2011
Refur á Hornströndum. Mynd af www.vestfirdir.is
Refur á Hornströndum. Mynd af www.vestfirdir.is
Reglur um refa- og minkaveiðar í Strandabyggð voru samþykktar í sveitarstjórn Strandabyggð 3. maí s.l., sjá hér. Samþykkt var að Sveitarfélagið Strandabyggð greiði fyrir refa- og minkaveiðar samkvæmt skriflegum samningi við veiðimenn.

Grenjaveiði
- Refir kr. 7000 á dýr
- Yrðlingar kr. 1600 á dýr
- Tímakaup: kr. 800 per klst.
- Akstur kr. 79 per km

Vetrarveiði
- Hlaupadýr kr. 7000 á dýr
- Hver ráðinn veiðimaður fær greitt að hámarki fyrir 10 hlaupadýr
- Einungis eru greidd verðlaun fyrir halupadýr en ekki akstur og tímakaup.

Samþykkt var að gera samninga um refaveiðar við núverandi veiðmenn:
- Indriði Aðalsteinsson Mórilla/Ísafjarðará
- Magnús Steingrímsson Selá/Grjótá
- Þorvaldur Garðar Helgason/Sigurður Marinó Þorvaldsson Grjótá/Hrófá
- Ragnar Bragason/Torfi Halldórsson Hrófá/Ennisháls
- Þorvaldur Garðar Helgason/Sigurður Marinó Þorvaldsson  Ennisháls/Þambárvellir
- Magnús Sveinsson Þambárvellir

Samhliða reglunum var samþykkt að fyrir næsta veiðiár, 2011-2012 sem hefst 1. september n.k., verði auglýst eftir minka- og refaveiðimönnum fyrir einstök svæði í Strandabyggð.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón