A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Saga Kaupfélags Steingrímsfjarðar heldur áfram

| 15. maí 2011
Jón E. Alfreð fyrrum kaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Halldórsson núverandi kaupfélagsstjóri. Myndir: IV
Jón E. Alfreð fyrrum kaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Halldórsson núverandi kaupfélagsstjóri. Myndir: IV
« 1 af 7 »
Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík var stofnað 29. desember 1898. Stórbrotin saga þess hefur verið samofin samfélaginu og daglegu lífi íbúa hér á Ströndum í 113 ár eins og sjá mér hér. Og sagan heldur áfram. Þriðjudaginn 10. maí 2011 voru síðustu pappírar og munir Kaupfélags Steingrímsfjarðar fluttir úr geymslum á efstu og neðstu hæðum fyrrum húsnæðis þess að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Á meðfylgjandi myndum má sjá Jón E. Alfreðsson fyrrum kaupfélagsstjóra og Jón Eðvald Halldórsson, barnabarn hans og núverandi kaupfélagsstjóra, við flutningana ásamt starfsfólki Kaupfélagsins, Bryndísi Sveinsdóttur sveitarstjórnarmanni og Valgeiri Erni Kristjánssyni formanni Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar.

Húsnæðið að Höfðagötu 3, sem er í eigu sveitarfélagsins Strandabyggðar, gegnir í dag nýju hlutverki í samfélaginu sem Þróunarsetrið á Hólmavík þar sem fulltrúar fjölda stofnanna og félagasamtaka eru með skrifstofur. Teikningar og pappírar byggingarfulltrúa Strandabyggðar hafa nú verið fluttir á efstu hæðina. Jafnframt er verið að rýma neðstu hæðina á Höfðagötu 3 þessa dagana en þar hafa auk Kaupfélags Steingrímsfjarðar, Héraðsbókasafn Strandasýslu, sveitarfélagið Strandabyggð, Handverkshópurinn Strandakúnst og fleiri aðilar verið með geymslumuni. Til stendur að koma neðstu hæðinni í frekari nýtingu fyrir móttöku sveitarfélagsins, fundi, fræðslu, viðburði, sýningar, handverkssölu ofl.

Til fyrirmyndar: Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið

| 13. maí 2011
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Vefurinn www.strandabyggd.is flytur helstu fréttir af því sem er að gerast í starfsemi sveitarfélagsins Strandabyggðar. Til viðbótar mun nú hefjast fréttaþáttur sem nefnist Til fyrirmyndar þar sem horft er til þess sem vel er gert á Ströndum. Fyrstir fyrir valinu og vel til þess fallnir eru gististaðirnir Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið sem hjónin Sævar Benediktsson og Elísabet Pálsdóttir eiga og reka í skemmtilegri samvinnu við dætur sínar, Sigrúnu og Guðfinnu.

Hjónin Sævar og Elísabet tóku við gistiheimilinu á Borgabraut 4 á s.l. ári og í haust breyttu þau starfseminni í Finna Hótel þar sem þau vinna nú að gagngerum endurbótum. Þau hafa þegar hafið vinnu við að bæta glæsilegum baðherbergjum inn á herbergi á hótelinu og stendur til að halda þeirri vinnu áfram næsta haust eftir að ferðasumrinu lýkur að sögn Sævars. Þá eru þau að færa móttöku hótelsins yfir í sólskála sem byggður er við húsið og eru að bæta aðgengi fyrir gesti og gangandi, m.a. skábraut fyrir hjólastóla sem er til fyrirmyndar að mati www.strandabyggd.is, en aðgengi fyrir hreyfihamlaða er því miður víða ófullnægjandi í Strandabyggð. Frekari upplýsingar um Finna-hótel má sjá hér.

Þessa dagana er verið að klæða Gistihúsið Steinhúsið en þar er boðið upp á gistingu í húsi með sögu og sál sem byggt var árið 1911. Það voru hjónin Jakobína Thorarensen og Guðjón Brynjólfsson sem byggðu húsið sem verður 100 ára á þessu ári. Systurnar Sigrún og Guðfinna Sævarsdætur keyptu húsið árið 2006 og hófu enduruppgerð þess ásamt foreldrum sínum og hefur sú uppbygging tekist með eindæmum vel eins og sjá má hér. Í Steinhúsinu er bæði boðið upp á fallegar hótelíbúðir og gistingu í herbergjum í afar sjarmerandi gistihúsi.

Sveitarfélagið Strandabyggð óskar Sævari Benediktssyni, Elísabetu Pálsdóttur og dætrum þeirra til hamingju með hversu vel hefur tekist til og óskar þeim velfarnaðar í áframhaldandi uppbyggingu á ferðaþjónustu á Ströndum.

Fréttaþátturinn Til fyrirmyndar er afsprengi hvatningarátaksins Til fyrirmyndar sem tileinkað var Frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni á 30 ára kosningarafmæli Vigdísar, þann 29. júní 2010. Í átakinu voru Íslendingar hvattir til að staldra við og huga að því sem vel er gert, jafnt stóru sem smáu. Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur lesendur til að senda inn ábendingar um það sem ykkur finnst vera til fyrirmyndar á Ströndum. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Strandabyggðar eða sendið póst á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt Til fyrirmyndar.

Auglýst eftir húsnæði í sumar - leiguherbergi kemur til greina

| 13. maí 2011

Auglýst er eftir húsnæði til leigu fyrir afleysingarmann hjá Lögreglunni á Hólmavík sumarið 2011. Einstaklingsíbúð eða sumarhús myndi henta vel og leiguherbergi kemur vel til greina.

Vinsamlegast hafið samband við Salbjörgu Engilbertsdóttur, skrifstofustjóra Strandabyggðar, í síma 451-3510 eða sendið póst á netfangið skrifstofa@strandabyggd.is.

Aðgengi fyrir fatlaða - hvatning!

| 13. maí 2011
Með hækkandi sól á himni og batnandi veðri mun margt fólk vilja njóta útiveru og ganga eða hjóla. Það á ekkert síður við um fatlaða og þá sem eiga óhægt um vik vegna sjúkdóma en aðra. Ferðamönnum fjölgar sömuleiðis hér á svæðinu í sumar. Víða skortir á að bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu merkt sérstaklega með skilti eða vegmerkingu. Enn fremur þarf að huga betur að aðgengismálum vegna fatlaðra. Félagsmálastjóri hvetur sveitarstjórnir og stjórnendur fyrirtækja og stofnana á svæðinu til að ráðast í úrbætur að þessu leyti og láta það verða hluta af vorverkunum að merkja bílastæði fyrir hreyfihamlaða þar sem það á við. Fatlaðir eiga að geta sótt þjónustu sem í boði er eins og aðrir. Það er þeirra réttur.

 

Hildur Jakobína Gísladóttir,

félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps

Sveitarstjóri ekki við 17. - 27. maí

| 12. maí 2011
Sveitarstjóri Strandabyggðar, Ingibjörg Valgeirsdóttir, verður ekki við á skrifstofu Strandabyggðar frá 17. - 27. maí 2011.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón