A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Dansnámskeið á Hólmavík 14.-18. mars

| 07. mars 2011

Vikan 14.-18. mars verður sannkölluð dansvika á Ströndum, en þá heldur Jón Pétur Úlfljótsson frá Dansskóla Jóns Péturs og Köru dansnámskeið fyrir börn og fullorðna á Hólmavík. Skráning barna fer fram í gegnum grunnskólana, en námskeið fyrir fullorðna verður kl. 20:00-21:30 frá mánudegi til fimmtudags. Allir frá 16 ára og uppúr geta tekið þátt í námskeiðinu, en hver og einn fær viðfangsefni við sitt hæfi í dansinum. Námskeiðið í heild kostar kr. 4.000.-, en einnig er hægt að mæta á einstök kvöld sem kosta þá kr. 1.000.-  Skráning fer fram hjá Arnari S. Jónssyni tómstundafulltrúa í s. 661-2009 og í  tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
Skráningu lýkur kl. 16:00 föstudaginn 11. mars.

Frítt að flytja gáma á nýtt gámasvæði í Skothúsvík

| 05. mars 2011
Nýtt gámasvæði í Skothúsvík er liður í bættri þjónustu við íbúa sem nýta sér geymslugáma og stuðlar að fegrun umhverfis í Strandabyggð. Mynd IV.
Nýtt gámasvæði í Skothúsvík er liður í bættri þjónustu við íbúa sem nýta sér geymslugáma og stuðlar að fegrun umhverfis í Strandabyggð. Mynd IV.
Tekið hefur verið í notkun nýtt gámasvæði í Skothúsvík þar sem íbúum gefst kostur á að geyma gáma sína á snyrtilegu svæði. Gámasvæðið er liður í bættri þjónustu við íbúa sem nýta sér geymslugáma auk þess sem nýja gámasvæðið stuðlar að fegrun umhverfisins í Strandabyggð. Þeir sem panta flutning á gámum frá Hólmavík og nágrenni inn á nýtt gámasvæði í Skothúsvík fyrir 1. apríl n.k. fá frían flutning. Hægt er að panta flutninginn á skrifstofu Strandabyggðar. Frá og með 1. apríl 2011 hefst innheimta á gjöldum fyrir gáma í Strandabyggð. Árgjald fyrir gáma á gámasvæðinu í Skothúsvík er eftirfarandi:

Gámur 20 fet kr. 6.000

Gámur 40 fet kr. 12.000


Sækja þarf um stöðuleyfi til skrifstofu Strandabyggðar fyrir gáma í Strandabyggð sem standa utan gámasvæðisins í Skothúsvík. Gjald fyrir tímabundin stöðuleyfi gáma á ári:

Gámur 20 fet kr. 14.600 

Gámur 40 fet kr. 24.600

Á gámasvæðinu er ennig hægt að geyma yfirbyggingar á flutningabílum. Umgengisreglur gámasvæðisins í Skothúsvík voru samþykktar í sveitarstjórn Strandabyggðar 1. mars 2011.

Strandamenn og Húnvetningar funda um Byggðasafnið á Reykjum

| 04. mars 2011
Hákarlaskipið Ófeigur.  Ófeigsskáli er fyrsti áfangi Byggðasafnsins á Reykjum sem opnaði 9. júlí 1967. Myndin er fengin að láni hjá Sögusmiðjunni.
Hákarlaskipið Ófeigur. Ófeigsskáli er fyrsti áfangi Byggðasafnsins á Reykjum sem opnaði 9. júlí 1967. Myndin er fengin að láni hjá Sögusmiðjunni.
Héraðsnefnd Strandasýslu fundaði með stjórn Byggðasafnsins á Reykjum og öðrum eigendum þess í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu nú í vikunni. Á fundinum fór stjórn safnsins yfir fjárhagslega stöðu þess, menningarlegt hlutverk og möguleika. Á safninu er að finna dýrmætar minjar sem varpa ljósi á sögu samfélaganna við Húnaflóa. Á hverju ári sækja 3500 grunnskólanemendur safnið samhliða veru þeirra í skólabúðum í Reykjaskóla, auk annarra gesta.

Dr. Lára Magnúsardóttir forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu safnsins og svæðisins í kring. Hún hefur ásamt Sigríði Hjaltadóttur stjórnarmanni og starfandi safnstjóra farið yfir rekstrarmöguleika og framtíðarsýn safnsins. Ljóst er að þörf er á viðhaldi á húsnæði byggðasafnsins, aukna þjónustu fyrir gesti og öfluga markaðssetningu.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Héraðsnefndar Strandasýslu sem um þessar mundir fer yfir framtíð nefndarinnar og þau verkefni sem heyra undir hana.  Meðal annarra verkefna má nefna Héraðsbókasafn Strandasýslu, barnaverndarnefnd, almannavarnarnefnd auk hópa og styrktarsjóða. Matthías Lýðsson bóndi og frumkvöðull í Húsavík er fulltrúi Héraðsnefndar Strandasýslu í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum.

Grunnskólinn á Hólmavík í 2. sæti í Lífshlaupinu

| 04. mars 2011
Mynd af vef Grunnskólans: 7. bekkur í skólabúðum á Reykjum
Mynd af vef Grunnskólans: 7. bekkur í skólabúðum á Reykjum

Grunnskólinn á Hólmavík tók þátt í hvatningarleik Lífshlaups Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem hófst 2. febrúar og stóð í 20 daga. Skólinn lenti í 2. sæti í sínum flokki en nemendur skráðu hreyfistig sín á vef Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is. Það var 7. bekkur sem hreyfði sig hlutfallslega mest af bekkjum skólans eða í 18.780 mínútur sem samsvarar 939 mínútum á dag að meðaltali. Þar fast á eftir komu nemendur í 1. og 2. bekk. Íþrótta- og Ólympíusambandið sendi Grunnskólanum á Hólmavík verðlaunaplatta til eignar og var það Laufey Heiða afmælisbarn dagsins sem tók á móti plattanum fyrir hönd 7. bekkjar. Sveitarfélagið Strandabyggð óskar nemendum Grunnskólans á Hólmavík innilega til hamingju með árangurinn sem er til fyrirmyndar. Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu Grunnskólans.

Veislu- og framleiðslueldhús í Félagsheimilinu á Hólmavík

| 28. febrúar 2011
Þessa dagana er unnið að því að setja upp veislu- og framleiðslueldhús í Félagsheimilinu á Hólmavík. Eldhúsið mun bæta verulega aðstöðu til matseldar og auka möguleika á útleigu á Félagsheimilinu til ráðstefnu- og veisluhalda. Þá mun eldhúsið fá viðurkennd leyfi sem framleiðslueldhús sem býður upp á spennandi tækifæri fyrir þá sem vilja prófa sig áfram með framleiðslu á matvöru.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón