A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

29. apríl 2024 | Þorgeir Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Ný vika er hafin og sumarið komið samkvæmt dagatalinu.  Það gerðist margt jákvætt í síðustu viku og ég renni hér yfir það helsta

Styrkveiting til Strandabyggðar

Strandabyggð fékk 25.3 milljón króna styrk frá Fiskeldissjóði, til fráveituverkefna.  Það er ljóst að núverandi kerfi er komið til ára sinna og samræmist ekki nútíma kröfum né tækni. Einnig þurfum við að horfa til þess að með uppbyggingu í atvinnulífi, fiskvinnslu, tilkomu hótels á Hólmavík og almennrar eflingar ferðaþjónustu, eykst þörfin fyrir hagkvæmari og skilvirkari lausnir í fráveitumálum. Samhliða öllu þessu er stefnt að fjölgun íbúa, t.d. með nýju íbúðarhverfi í Brandskjólum. Það kerfi sem verður innleitt byggir á annars vegar svokölluðum HiPAF hreinsistöðvum (1-2000 PE) og hins vegar svokölluðum Diamond hreinsistöðvum (1-55 PE).  Við munum segja nánar frá þessu verkefni þegar það hefst.  Það þarf ekki að taka það fram, en við erum Fiskeldissjóði afar þakklát fyrir þessa styrkveitingu.

Varmadæluvæðing - Styrkumsókn til Orkusjóðs

Strandabyggð hefur unnið að styrkumsókn undanfarið með fyrirtækjunum Báma og Hagvarma ehf og var skilað inn styrkumsókn til Orkusjóðs í sl viku.  Við búum við það ástand að okkur er nú skömmtuð raforka og hefur verið svo frá því um miðjan janúar.  Frá 18 janúar, hefur sveitarfélagið brennt um 40.000 lítrum af diesel olíu og er kostnaðurinn um 10 milljónir. Þetta er augljóslega mikill kostnaðarauki, þjónustu- og lífsgæðaskerðing fyrir sveitarfélagið.  Af þessum sökum og í ljósi þess að ótrygg orka verður af skornum skammti í fyrirsjáanlegri framtíð með tilheyrandi hækkun á orkukostnaði sveitarfélagsins, hefur verið ákveðið að ráðast í það verkefni að varmadæluvæða þrjár byggingar; Íþróttamiðstöð með sundlaug, grunnskólann og félagsheimilið.

Strandabyggð er forsvarsaðili þessa verkefnis sem undirbúið hefur verið með stuðningi frá Bláma ásamt því að fyrirtækið Hagvarmi ehf hefur veitt tæknilega ráðgjöf varðandi útfærslu og gerð kostnaðaráætlunar.  Það er von okkar að Orkusjóður taki jákvætt í umsókn sveitarfélagsins.

Sundkennsla í Bjarnarfirði

Í beinu framhaldi af frétt um skerðingu raforku, er rétt að segja frá því, að vegna óvissu um tímalengd þessarar skerðingar, var ákveðið að leita til rekstraraðila sundlaugarinnar í Bjarnarfirði og semja um að fá að kenna krökkunum okkar sund þar næstu dagana.  Skólastjóri og kennarar skipulögðu sundkennsluna, sem stendur frá 2-10 maí n.k.  Foreldrar hafa verið upplýstir um fyrirkomulag sundkennslu þessa daga.

Galdrafár á Ströndum

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum að dagana 19-21 apríl s.l. fór fram hér á Hólmavík, hátíðin Galdrafár á Ströndum.  Dagskrá hátíðarinnar var mjög fjölbreytt og áhugaverð og vonandi nutu íbúar hennar, en þar var m.a. fjöldi fyrirlestra um hin ýmsu málefni sem tengjast víkingum, göldrum o.s.frv. auk viðeigandi tónlistar.  Sett voru upp sölutjöld á Galdratúninu og víðar.  Það er mat þeirra sem stóðu að hátíðinni, að hún hafi tekist mjög vel og að það sé ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka hana hér að ári.  Það kemur í ljós, en við fögnum þessum árangri innilega með aðstandendum hátíðarinnar.

Sauðfjársetur á Ströndum tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024

Sauðfjársetrið er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 og óskum við aðstandendum þess innilega til hamingju með þann heiður og þá viðurkenningu sem felst í tilnefningunni.  Það efast enginn um það starf sem þar er unnið og mikilvægi þess fyrir samfélagið og sveitarfélagið.  Nánar má lesa um tilnefninguna á vef Sauðfjársetursins: https://saudfjarsetur.is/saudfjarsetrid-tilnefnt-til-islensku-safnaverdlaunanna/

Andresar Andar leikarnir 2024

Nú um helgina voru haldnir á Akureyri Andresar Andar leikarnir 2024 og tókust þeir mjög vel. Keppendur frá Skíðafélagi Strandamanna voru 36 talsins og að auki voru síðan þjálfarar, aðstoðarmenn, foreldrar og aðstandendur.  Þetta var stór og frábær hópur og náðist góður árangur nú sem fyrr, sem Skíðafélagið mun án efa gera grein fyrir á facebook síðu sinni á næstunni.  Gleði, kurteisi og samstaða skein í gegn og voru krakkarnir sér og okkur öllum til mikils sóma.  Þessir leikar eru frábær skemmtun og mikilvæg minning og lærdómur fyrir krakkana. Formlegur endapunktur á góðum skíðavetri Skíðafélagsins er síðan Uppskeruhátíðin, sem haldin er í dag, 29.4. í Selárdal.  Skíðafélagið og aðstandendur þess eiga hrós skilið fyrir markvissa uppbyggingu, þar sem gleðin og jákvæðnin er í fyrirrúmi.

Fiskvinnsla á Hólmavík

Búið er að stofna fiskvinnslu á Hólmavík og er það fyrirtækið Vilji fiskverkjun ehf sem hefur starfsemi sína í húsnæði Hólmadrangs.  Stofnun fyrirtækisins tengist úthlutun sértæks byggðakvóta til Vissu útgerðar ehf og samstarfsaðila og við óskum þeim til hamingju með það mikilvæga skref að stofna hér fiskvinnslu og skapa þannig mikilvæg störf og verðmæti fyrir sveitarfélagið. 

Ýmis verkefni

Með vorinu koma mörg ný verkefni og má þar nefna, réttarsmíði í Kollafirði, undirbúningur sumarverkefna, vinnuskóla og ráðning sumarstarfsmanna klárast auk þess sem byrjað verður að undirbúa umhirðu opinna svæða, slátt ofl.  Nánar verður gerð grein fyrir þeim verkefnum þegar nær dregur.

Gleðilegt Sumar - Áfram Strandabyggð!
Þorgeir Pálsson
Oddviti

 

 

 

 

Galdrafár á Ströndum

20. apríl 2024 | Þorgeir Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar og víðar,

Nú er Galdrafár á Ströndum eins og sjálfsagt flestir vita. Víkingar og galdrafólk um allt þorp, frábærir fyrirlestrar og endalaust margt annað. Við hvetjum íbúa til kynna sér málið.

Til hamingju með frábæra hátíð!

https://www.sorceryfestival.is/

Mynd: Anna Björg Þórarinsdóttir

 

Niðurstöður EFLU við nýjum myglusýnum

19. apríl 2024 | Þorgeir Pálsson
Kæri íbúar Strandabyggðar,

Nýlega bárust okkur niðurstöður EFLU við nýjum myglusýnum, sem tekin voru fyrir nokkrum vikum í yngri og eldri hluta grunnskólans.  Í kjölfarið var haldinn fundur sveitarstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins með fulltrúa EFLU og er eftirfarandi í raun niðurstaða þess fundar.

Yngri hlutinn:
  • Engin mygla greindist í þeim sýnum sem tekin voru í yngri hlutanum og er greinilegt að réttar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi endurbyggingu.  Sagði fulltrúi EFLU að rétt væri staðið að málum af hálfu sveitarfélagsins.

Eldri hlutinn:
  • Mygla greindist í sýnum í eldri hlutanum, en þar er samt ekkert sem kemur á óvart, nema hugsanlega mygla í anddyri. Engin mygla greindist í þeim skrifstofum sem eru í notkun í eldri hlutanum.  Fulltrúi EFLU taldi í raun að hér væri ekki um mjög alvarlegt ástand að ræða, amk ekki miðað við marga aðra skóla sem glíma við myglu.  Það má geta þess í þessu sambandi, að um helmingur sveitarfélaga á landinu, glímir við myglu í skólum.
  • Tvær leiðir eru færar varðandi þá myglu sem greindist, sem eru að brjóta upp gólf og veggi og fjarlægja mygluna eða þrífa allt og kanna aftur ástandið eftir amk tvo mánuði.  Við munum fara þá leið sem reynst hefur okkur vel, sem er að brjóta upp og fjarlægja þá myglubletti sem greindust.  Fram til þessa hefur áherslan verið á uppbyggingu yngri hlutans og látið duga að rífa upp dúka í eldri hlutanum.  Verður ráðist í frekari framkvæmdir þar á næstunni.
Fulltrúi EFLU er væntanlegur hingað snemma í næstu viku og mun þá skoða með okkur eldri hlutann og einnig taka ryksýni á bókasafni.  

Þessi niðurstaða er okkur gleðiefni og staðfestir að við erum á réttri leið með okkar viðbrögð við þessu ástandi og þær framkvæmdir sem við höfum ráðist í.  Skýrslu EFLU má nálgast hér og teikningu sem sýnir sýnatökustaðina hér.

Kveðja og góða helgi,
Þorgeir Pálsson
oddviti

Opinn fundur um málefni Sorpsamlagsins

19. apríl 2024 | Þorgeir Pálsson
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Strandabyggð boðar til opins fundar um málefni Sorpsamlagsins þann 2. maí n.k. kl 17-19 í Félagsheimilinu.  þar verður farið yfir niðurstöður skoðanakönnunar, rætt um þá valkosti sem fyrir liggja varðandi sorphirðu og farið yfir fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Sorpsamlagsins.  Við hvetjum íbúa til að mæta og taka þátt í umræðunni.

Kveðja, 
Þorgeir Pálsson

Svar við bókun á sveitarstjórnarfundi 1360

13. apríl 2024 | Þorgeir Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,


Á síðasta sveitarstjórnarfundi veittist Matthías Sævar Lýðsson harkalega að oddvita og meirihluta sveitarstjórnar.  Lagði hann fram bókun í nafni A lista og síðan aðra bókun í eigin nafni.  Umræðu og bókanir um þennan lið í dagskránni má lesa í fundargerð fundarins, sem nú er á heimasíðu sveitarfélagsins: http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/sveitastjorn/Sveitarstjornarfundur_nr_1360_9_april_2024/

...
Meira

Starfsmannabreytingar á skrifstofu Strandabyggðar

09. apríl 2024 | Salbjörg Engilbertsdóttir

 

Heiðrún Harðardóttir hefur verið ráðin á skrifstofu Strandabyggðar og hefur störf núna í byrjun maí. Á hennar verksviði verður afgreiðsla erinda, innheimta, móttaka innsendra reikninga og bókhald ásamt verkefnastjórn í ýmsum verkefnum sem snúa að opinberri stjórnsýslu og ferðamálum.

 

Heiðrún er með BA gráðu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Við bjóðum Heiðrúnu velkomna til starfa.

Strandir.is - fréttir

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Svipmyndir

Girnilegir og gómsætir ávextir og grænmeti í boði KSH.
Vefumsjón