A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íbúakönnun - Sterkar Strandir

04. febrúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir
Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur undanfarna daga haft samband við íbúa Strandabyggðar vegna könnunar um viðhorf íbúa til verkefnisins Sterkar Strandir sem Byggðastofnun er í forsvari fyrir á landsvísu.

Mikilvægt er að ná sem mestu svarhlutfalli í könnuninni til að varpa ljósi á stöðu byggðarlagsins í lok verkefnis að mati íbúa. Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.

Ef það er ekki búið að hafa samband við þig en þú vilt taka þátt þá má hafa samband við Helgu Einarsdóttur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Netfang: helga.einarsdottir@unak.is
S: 4608911

Lokaíbúafundur Sterkra Stranda

31. janúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir
Lokaíbúafundur Sterkra Stranda verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 20. febrúar nk. kl. 18:00. Ráðgert er að fundi verði slitið um kl 20:40. Fundarstjóri verður Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum. 

Á fundinum verður farið yfir það helsta í verkefninu. Verkefnisstjórn Sterkra Stranda hvetur íbúa til góðrar mætingu á fundinum. 

Verkefnisstjórn Sterkra Stranda

Tillögur að deiliskipulagi á Hólmavík til kynningar

29. janúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir
Brandskjól
Brandskjól
« 1 af 2 »

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum 14. janúar 2025 að auglýsa tvær tillögur að deiliskipulagi á Hólmavík, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, sbr. samþykkt Umhverfis- og skipulagsnefndar þann 9. janúar 2025.


Um er að ræða eftirtaldar tillögur:


Tillaga að deiliskipulagi Jakobínutúns


Um er að ræða deiliskipulag fyrir hluta miðsvæðis (M2) á Hólmavík, sbr. samþykkt Aðalskipulag Strandabyggðar 2021-2033 sem er í kynningu. Á svæðinu er nú íþróttahús, sundlaug, félagsheimili, verslun og tjaldsvæði en ráðgert er að auka þjónustu á svæðinu m.a. með byggingu hótels í góðum tengslum við núverandi byggingar og starfsemi. Einnig er svigrúm til breytinga á núverandi byggingum og nýbyggingum sem falla að nýtingu svæðisins.


Tillagan er aðgengileg hér í Skipulagsgátt, mál nr. 95/2025


Tillaga að deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Brandskjóli


Um er að ræða deiliskipulag fyrir nýtt íbúðarsvæði (ÍB5) og svæði fyrir samfélagsþjónustu (S3), sbr. samþykkta tillögu að Aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033 sem er til kynningar. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir að á íbúðarsvæðinu rísi lágreist byggð með fjölbreyttum húsagerðum þ.e. einbýlis, par- og raðhús á einni hæð. Lögð er áhersla á góðar göngutengingar bæði innan svæðisins og við aðliggjandi svæði, og sérstaklega til og frá skóla- og íþróttasvæðum þéttbýlisins.


Tillagan er aðgengileg hér í Skipulagsgátt – mál nr. 97/2025  


Athugasemdir við ofangreindar tillögur skulu vera skriflegar og berast gegnum Skipulagsgátt eða til skipulagsfulltrúa í netfangið skipulag@dalir.is  eigi síðar en 14. mars 2025.

 

Skipulagsfulltrúi Strandabyggðar

Verðlaunaafhending Íþróttamanns Strandabyggðar 2024 og hvatningarverðlaun 2024

28. janúar 2025 | Heiðrún Harðardóttir
Benedikt Gunnar Íþróttamaður Strandabyggðar 2024 ásamt Matas sem hlaut hvatningarverðlaun 2024
Benedikt Gunnar Íþróttamaður Strandabyggðar 2024 ásamt Matas sem hlaut hvatningarverðlaun 2024
« 1 af 3 »

Í dag voru afhent íþróttaverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2024 en þau eru valin af Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd eftir innsendum tillögum og mati nefndarinnar.

Hvatningarverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2024, sem veitt eru fyrir aldurshópinn 12 til 15 ára, hlaut Matas Zalneravicius.

Matas hefur æft skíðagöngu hjá Skíðafélagi Strandamanna frá barnsaldri og sýnt einstaka samviskusemi, dugnað og metnað. Hann er góð fyrirmynd fyrir iðkendur á öllum aldri, bæði innan og utan SFS. Matas hefur sýnt ótrúlega seiglu með því að æfa allan ársins hring, óháð veðri og aðstæðum. Hann leggur sig fram við hlaup, hjólreiðar, skíðaiðkun og styrktaræfingar sem endurspeglar árangur hans og einbeitingu. Auk þess hefur hann verið ómetanlegur stuðningur í þjálfun og kennslu innan Skíðafélagsins. 


Íþróttamaður Strandabyggðar árið 2024 er Benedikt Gunnar Jónsson. 

Benedikt er bikar- og Íslandsmeistari í sínum aldursflokki bæði í kúluvarpi og kringlukasti og setti alls 5 Íslandsmet á árinu. Benedikt vann gullverðlaun á Gautaborgarleikunum í Svíðþjóð og er talinn vera með 15 bestu kúluvörpurum heims í sínum flokki. Benedikt er í unglingalandsliðinu í frjálsum íþróttum og hefur náð lágmörkum fyrir landsliðshóp 19 ára. Benedikt er jákvæður keppandi og góð fyrirmynd og sannarlega með sínum bestu í sinni grein.  

Íþróttakynning og verðlaunaafhending Strandabyggðar

27. janúar 2025 | Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir
Grunnskólinn á Hólmavík býður foreldrum og öðrum áhugasömum í íþróttatíma þriðjudag 28. janúar klukkan 12:10-13:00. 
Nemendur á öllum stigum leika listir sínar í salnum og Tómstunda-íþrótta og menningarmálanefnd afhendir hvatningarverðlaun og verðlaun íþróttamanns Strandabyggðar fyrir árið 2024.

Verkefni síðustu vikna

25. janúar 2025 | Þorgeir Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þá er allt komið á fullt hjá sveitarfélaginu eftir hátíðarnar og verið að vinna í mörgum málum.  Ég ætla hér að nefna nokkur atriði af löngum lista verkefna sem unnið er að:

Hljóðupptaka á sveitarstjórnarfundum.  Nú hefur sveitarfélagið tekið í notkun nýtt fyrirkomulag varðandi fundargerðir og upptöku sveitarstjórnarfunda.  Keyptur var búnaður sem tekur upp hljóðskrá af fundinum og vistar hana á heimasíðu sveitarfélagsins.  Á móti eru fundargerðir styttar til muna, nema þar munu þó alltaf birtast bókanir og afgreiðsla einstakra mála.  Ítarleg ritun umræðunnar er hins vegar ekki lengur viðhöfð, heldur er vísað í upptökuna, sem er af mun betri gæðum en við eigum að venjast.  Þetta nýja fyrirkomulag er í mótun og það tekur sjálfsagt einhvern tíma þar til allt virkar eins og það á að gera.  Þetta tengist líka uppsetningu á nýrri heimasíðu, þar sem aðgengi að fundargerðum, hljóðskrám og fundargögnum, verður annað og einfaldara en nú er.

Deiliskipulag á Jakobínutúni, við íþróttamiðstöðina og hótelreitinn.  Nú liggur fyrir tillaga að deiliskipulagi á svæðinu við félagsheimilið, íþróttamiðstöðina, tjaldsvæðið og reitinn þar sem stefnt er að hótelbyggingu.  Í byrjun febrúar verður haldinn íbúafundur þar sem þessi áform verða kynnt íbúum og farið verður yfir áherslur deiliskipulagsins.  Með tilkomu hótels á þessu svæði, er ljóst að eðli, umsvif og  ásýnd svæðisins mun breytast og því er mikilvægt að skipuleggja þess uppbyggingu vel.  Sú vinna hefur verið í gangi og hefur þetta deiliskipulag verið tekið til umræðu hjá Umhverfis- og skipulagsnefnd og í sveitarstjórn.
 

Strandanefndin.  Búið er að kalla eftr svörum frá forsætisráðuneytinu og í þeim kom fram að fyrrverandi ríkisstjórn hafði aldrei fjallað um tillögur nefndarinnar.  Hlutaðeigandi ráðuneyti höfðu hins vegar verið með tillögur nefndarinnar til umfjöllunar.  Innviðaráðuneytið, sem mun fá nafnið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, frá 1. mars n.k., mun líklegast taka við tillögunum og úrvinnslu þeirra.

Ýmis verkefni:  Verið er að klára uppsetningu á nuddkerfi í öðrum pottinum í sundlauginni og er það verk á lokastigi.  Ýtt var á Vegagerðina að auka hálkuvarnir í Kollafirði sérstaklega, þar sem skólabíllinn fer þar um, oft við mjög erfiðar aðstæður.  Nú liggur fyrir sveitarstjórn að ákveða um reglur/skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta og er verið að skoða forsendur þess.  Á Tanganum eru gámar fyrir rusl sem eigendur gáma á svæðinu eru hvattir til að nýta sér.  Það liggur fyrir að fjarlægja þarf gamla og ónýta gáma af Tanganum og hefur verið kallað eftir samvinnu við eigendur þeirra.  Unnið hefur verið að endurnýjun baðherbergja í tveimur íbúðum í eigu sveitarfélagsins í Lækjartúni og er þeirri vinnu lokið.

Framundan er síðan skipulagsvinna vegna framkvæmda í sumar, varðandi m.a. fráveitumál, vatnsveitumál, innviðauppbyggingu í tengslum við hótelbyggingu og uppbyggingu í Brandskjólum og svo almenn verkefni sumarsins, svo dæmi séu tekin.

Áfram Strandabyggð!
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Strandir.is - fréttir

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Svipmyndir

Vefumsjón