Skólastarf fellur niđur í dag
Skólastjórar Grunnskólans á Hólmavík.
Skákdagur Íslands verður haldinn í fyrsta sinn á morgun, fimmtudaginn 26. janúar. Skákdagurinn er haldinn til heiðurs Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga, en Friðrik verður 77 ára þennan dag og tekur virkan þátt í hátíðahöldum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands. Til að heiðra Friðrik mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, halda móttöku á Bessastöðum. Á meðal annarra gesta verða þau börn sem í febrúar tefla fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti barna og mun Friðrik tefla við Nansý Davíðsdóttur, 10 ára, sem er nýkrýndur Íslandsmeistari barna, fyrst stúlkna á Íslandi. Að Skákdeginum standa Skáksamband Íslands, Skákakademía Reykjavíkur, Skákskóli Íslands og taflfélög um allt land, í samvinnu við skóla, íþróttafélög, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Markmiðið er að heiðra Friðrik Ólafsson, fyrir einstakt framlag til samfélags okkar í heild og skákarinnar sérstaklega, jafnframt því að sýna þá grósku sem er í íslensku skáklífi um allt land.
Við munum halda Skákdag Íslands hátíðlegan hér í Grunnskólanum á Hólmavík og bjóða upp á stutta kennslu í skák í öllum bekkjardeildum í samvinnu við nemendur í 8. bekk. Síðar mun Jón Kristinsson, stórbóndi á Klúku og fyrrverandi skákmeistari m.a. Skákmeistari Reykjavíkur 1973 (nánar um það hér) heimsækja skólann og bjóða nemendum í fjöltefli. Jón ætlaði að koma til okkar á morgun en vegna veðurs var ákveðið að fresta heimsókninni í bili. Jón færði skólanum bókagjöf sem nýtist vel til þess að fræða nemendur um skáklistina eða sem geta nýst sem verðlaun eða viðurkenning í skákstarfi innan skólans. Þess má geta að í starfsmannahópnum okkar er fyrrverandi skákmeistari Grunnskólans á Hólmavík en það er hann Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson.
Vitað er að holl næring skiptir miklu máli fyrir árangur og
vellíðan barna og ungmenna í leik og starfi. Mörg börn hafa lítinn tíma til að
borða á morgnana áður en þau fara í skólann, eða eru jafnvel lystarlaus og koma
engu niður. Morgunverðurinn er þó almennt talinn til mikilvægustu máltíða
dagsins og börn sem ekki nærast vel að morgni dags skortir oft úthald og
einbeitingu í amstri skóladagsins. Hollt og gott nesti er mikilvægt því flestir
eru aftur orðnir svangir þegar líður á morguninn.
Í umhverfissáttmála skólans, sem er liður í Grænfánaverkefninu, er lögð áhersla á hollt og gott nesti. Mikilvægt er að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og prófa reglulega eitthvað nýtt – gjarnan í samráði við börnin. Flestur matur er hollur ef gætt er að hæfilegum skammtastærðum, samsetningu máltíða og fjölbreyttu fæðuvali. Öllum nemendum gefst kostur á að fá léttmjólk að drekka í nestistíma og hafa aðgang að grillum og örbylgjuofni í matarhléi. Á vef Lýðheilsustöðvar má sjá ýmsar hugmyndir og lesa um þessi mál.
Miðvikudaginn 18. janúar höldum við okkar árlegu íþróttahátíð. Við hitum upp fyrir stemmninguna með því að brjóta skólastarfið upp frá kl. 11:20 og fram að matarhlé þar sem verður farið í leiki t.d. húlla, dansa og limbó á ganginum undir stjórn Kolbeins íþróttakennara. Eftir matarhlé stóð til að fara út að renna en þar sem aðstæður eru ekki góðar til þess munum við halda áfram á langa gangi þar sem keppt verður í nokkrum þrautum eins og armbeygjukeppni, keppni að sitja upp við vegg og fleira.
Íþróttahátíðin sjálf hefst svo stundvíslega kl. 18:00 í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Nemendur stilla sér upp í anddyri í röðum sinna bekkja og ganga svo inn í salinn ásamt umsjónarkennurum. Dagskráin verður síðan á þessa leið:
1.-3. bekkur fara í Latabæjarleikinn
4.-6. bekkur fara í Kýló
7.-8. bekkur fer í Capture the flag
9.-10. bekkur fer í handbolta við foreldra
10. bekkur keppir við kennara í fótbolta
Í lokin munu allir standa upp og læra dans sem 9.-10. bekkur mun kenna viðstöddum.
Ef veður leyfir er tilvalið að skella sér í sund að hátíð lokinni eða gæða sér á grillaðri samloku og svaladrykk sem nemendafélag skólans býður til sölu á vægu verði (samloka 300 kr, Svali 100 kr.) í anddyri Íþróttamiðstöðvarinnar.
Sjáumst hress á íþróttahátíð :o)
Á fimmtudaginn heimsótti Margrét Pála Ólafsdóttir starfsmannahóp Grunn- og Tónskólans. Margrét Pála er leikskólakennari að mennt en hún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1981, lauk framhaldsnámi í stjórnun frá sama skóla árið 1996 og árið 2000 lauk hún meistaragráðu í uppeldis og menntafræði frá Kennaraháskóla Íslands. Margrét Pála stofnaði árið 2000 fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. sem rekur nú 12 leik- og grunnskóla á grunni þjónustusamninga við sveitarfélög. Margrét Pála hlaut árið 1997 Jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs og ráðherra jafnréttismála fyrir Hjallastefnunna og hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum. Margrét Pála náði vel til starfsmanna og var sem vítamínsprauta inn í starfið. Síðar þann dag flutti Margrét Pála erindi á Menntaþingi á Ströndum sem fram fór í Félagsheimilinu á Hólmavík.
Þar tilkynnti menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir að farið yrði í að gera fýsileikakönnun vegna stofnunar framhaldsdeildar á Hólmavík. Er það mikið fagnaðarefni þar sem um hagsmunamál er að ræða fyrir sveitarfélög á Ströndum og Reykhólahreppi. Er framhaldsdeild á Hólmavík meðal 7 verkefna í sóknaráætlun Vestfjarða árið 2012. Á þinginu kom fram að sveitarfélagið Strandabyggð er að ljúka við endurbætur á neðstu hæðinni á Þróunarsetrinu þar sem framhaldsdeild getur hafið starfsemi sína.