A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íbúafundur á fimmtudaginn kl. 20:30

| 06. júní 2011
Almennur íbúafundur vegna Hamingjudaga verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 9. júní kl. 20:30.  

Á fundinum verður farið yfir ítarleg drög að dagskrá Hamingjudaga, en hún er óðum að fæðast þessa dagana. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar mun fara yfir einstaka dagskrárliði á fundinum og  þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á hátíðinni nú í ár. Einnig verður m.a. skýrt frá því hvaða aðilar munu sjá um að vera skreytingastjórar fyrir hvert hverfi fyrir sig.  

Í framhaldi af fundinum sjálfum gefst síðan tækifæri fyrir íbúa í hverju hverfi fyrir sig til að setjast niður með sínum skreytinga-stjórum og kortleggja hvernig fara eigi með sigur af hólmi í skreytingakeppninni, en eins og á síðasta ári verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið / lóðina, best skreytta hverfið, besta slagorðið og flottustu fígúruna.  

Að sjálfsögðu verður heitt á könnunni á fundinum, góð stemmning mun svífa yfir vötnum og lögin um hamingjuna verða á grammófóninum. Þetta er eini almenni íbúafundurinn sem verður haldinn í tengslum við Hamingjudaga - ekki missa af honum!

Byggingarfulltrúi með viðtalstíma

| 06. júní 2011
Byggingarfulltrúi Strandabyggðar, Gísli Gunnlaugsson, verður með viðtalstíma á skrifstofu Strandabyggðar fimmtudaginn 9. júní milli kl. 13:00 - 15:00. Fundur Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar verður haldinn sama dag kl. 18:00. Er þetta síðasti fundur nefndarinnar fyrir sumarfrí.

Til hamingju með daginn sjómenn!

| 05. júní 2011
Hólmavíkurhöfn. Mynd JJ.
Hólmavíkurhöfn. Mynd JJ.

Sveitarfélagið Strandabyggð og Hólmavíkuhöfn óska sjómönnum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum hjartanlega til hamingju með sjómannadaginn! Sjómönnum á Ströndum er þakkað sérstaklega fyrir þeirra störf við misjafnar aðstæður í áranna rás.

100 ára afmælishátíð skólahalds á Hólmavík

| 03. júní 2011
100 ára afmælishátíð skólahalds á Hólmavík. Myndir SMÞ og IV
100 ára afmælishátíð skólahalds á Hólmavík. Myndir SMÞ og IV
« 1 af 16 »

Sveitarfélagið Strandabyggð hélt upp á 100 ára afmælishátíð skólahalds á Hólmavík miðvikudaginn 1. júní. Þann sama dag fóru fram skólaslit við Grunn- og Tónskólann á Hólmavík í Hólmavíkurkirkju þar sem lærdómsríkur skólavetur var kvaddur og vori fagnað í 100 sinn á Hólmavík. Áætla má að ríflega 200 manns hafi komið á afmælishátíðina þar sem haldin voru ávörp, leikskólinn Lækjarbrekka og Grunn- og Tónskólinn voru með tónlistaratriði auk þess sem veislugestir sungu saman 100 ára afmælisöng.

 

Steinunn Ingimundardóttir frá Reykjarfirði við Ísafjarðardjúp afhenti Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík og Héraðsbókasafni Strandamanna veglega bókagjöf fyrir hönd fjölskyldu sinnar í tilefni þessara merku tímamóta. Bókagjöfin inniheldur 50 bókatitla á sviði náttúruvísinda  til Grunn- og Tónskólans á Hólmavík og 90 bókatitla til Héraðsbókasafns Strandamanna, og er kærkomin styrkur fyrir nemendur og aðra íbúa í Strandabyggð. Gjöfin er tileinkuð minningu foreldra Steinunnar, Ingimundar Ingimundarsonar og Maríu S. Helgadóttur sem lengi bjuggu á Hólmavík. Sveitarfélagið Strandabyggð sendir Steinunni Ingimundardóttur og fjölskyldur hlýjar þakkir.

 

Þá sýndi Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi Strandabyggðar skemmtileg myndbönd frá lífi og starfi Grunn- og Tónskólans við mikinn fögnuð viðstaddra. Grunn- og Tónskólinn á Hólmavík setti upp glæsilega leiksýningu fyrr í vetur þar sem saga 100 ára skólahalds á Hólmavík var rakin í frumsömdu handriti eftir Arnar S. Jónsson. Sýningin hefur nú verið gefin út á DVD diskum og rennur andvirði sölunnar til leiklistarstarfs í Grunn- og Tónskólanum. Diskinn verður hægt að nálgast á skrifstofu Strandabyggðar í sumar.

 

Sveitarfélagið Strandabyggð þakkar öllum þeim sem komu að veglegri afmælishátíð á Hólmavík og óskar skólahaldi í Strandabyggð farsældar í framtíðinni.

Skrifstofa Strandabyggðar - breytingar á opnunartíma

| 30. maí 2011
Hólmavík. Mynd Jón Jónsson.
Hólmavík. Mynd Jón Jónsson.
Frá og með 1. júní 2011 verður skrifstofa Strandabyggðar opin milli kl. 10:00 - 14:00 í stað 09:30 - 15:00 eins og verið hefur. Þá verður lokað á skrifstofu Strandabyggðar 11. - 22. júlí n.k. vegna sumarfría.

Sveitarstjórnarfundur 1183 verður haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins þriðjudaginn 31. maí 2011 og síðasti sveitarstjórnarfundur fyrir sumarfrí, fundur 1184, verður haldinn þriðjudaginn 21. júní 2011. Fundur 1185 verður haldinn þriðjudaginn 9. ágúst 2011.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón